Fagnaðarerindið í lífi mínu
Saga Nefís, saga mín
Eftir símtalið við Jake var ég í ástarsorg en fordæmi forns spámanns veitti mér von.
Nokkrum árum eftir að ég lauk framhaldsskólanámi sótti ég fjölskyldukvöld með hópi af öðru ungu og einhleypu fólki í kirkjudeild minni. Okkur hafði verið boðið heim til ráðgjafa í stikuforsætisráðinu og eiginkona hans kenndi lexíuna.
Við vorum að lesa frásögnina um Nefí og bræður hans er þeir fóru til að ná í látúnstöflur Labans (sjá 1 Ne 3–5). Kennari okkar ræddi um kjarkinn og einbeitinguna sem Nefí hafði sýnt. Síðan leit hún yfir litla hópinn okkar. Augnaráð hennar var ákveðið.
„Nefí og bræður hans höfðu fengið erfitt verkefni,“ benti hún á. „Þeir þurftu að reyna nokkrum sinnum, engin af þeim tilraunum var auðveld. En það var þess virði að sýna þrautseigju. Með því að fá þessar ritningar forðaði Nefí fjölskyldu sinni frá því að ,hnign[a] og … far[ast] í vantrú‘ (1 Ne 4:13).
„Það verða ,töflur‘ í ykkar lífi,“ hélt hún áfram. „Kannski verðið þið að sýna þrautseigju er þið aflið ykkur menntunar. Ef til vill þurfið þið að sýna kjark er þið farið á stefnumót. Hverjar sem fórnirnar, hindranirnar, bakslögin og ástarsorgirnar verða – hvað sem þarf til þess að vernda framtíð fjölskyldu ykkar og forða henni frá því að hnigna í vantrú – farið til baka og náið í töflurnar.“
Mér fannst þetta góð samlíking. Ég lagði þessa samlíkingu á minnið svo að ég gæti notað hana síðar. Á þeirri stundu fannst mér ekki vera margar hindranir í lífi mínu. Ég hafði lokið námi, ég naut starfs míns og síðustu fjóra mánuði hafði ég verið í föstu sambandi með frábærum strák. Við höfðum lengi verið vinir en nýlega hafði vinskapur okkar snúist upp í nánara samband. Ég gæti ekki hafa verið hamingjusamari.
Nokkrum mánuðum síðar hafði samband mitt við Jake (dulnefni) þróast mjög mikið. Hins vegar höfðu foreldrar Jake skilið fyrir nokkrum árum og aðskilnaður þeirra hafði djúpstæð áhrif á hann. Hann óttaðist að ef við giftumst, myndi hjónabandið hljóta sömu örlög og hjónaband foreldra hans.
Ég sagði honum að ég væri reiðubúin að veita honum svigrúm – nægan tíma ef hann þyrfti – til að vinna sig í gegnum þessar áhyggjur. Við ræddum um að taka ákvarðanir byggðar á trú en ekki hræðslu. Við ræddum um valfrelsi og þá staðreynd að hann þyrfti ekki að gera ráð fyrir að hann myndi sjálfkrafa upplifa sömu örlög og foreldrar hans. Og við ræddum um friðþægingarfórn Jesú Krists og getu frelsarans til að lækna hjörtu okkar.
Samtöl okkar virtust létta aðeins á kvíða hans og samband okkar varð aftur eins og það hafði verið áður en hann fékk þessar áhyggjur. Því kom það mér meira en lítið á óvart þegar hann hringdi í mig síðdegis einn laugardaginn og sleit sambandi okkar. Hann sagðist ekki geta séð sjálfan sig giftan mér – eða nokkurri stúlku. Hann hreinlega tryði ekki lengur á hjónaband.
Í um það bil klukkustund ræddum við um það sem við höfðum talað um áður, hins vegar gat ég ekki sannfært hann. Hann hvíslaði: „Mér þykir þetta virkilega leitt,“ og lagði síðan tólið á. Ég sat hljóð á rúmi mínu með tárin streymdu niður kinnar mínar.
Nokkru síðar bankaði herbergisfélagi minn á svefnherbergishurðina. „Kemur þú með á stikuráðstefnuna?“ spurði hún. Mig langaði ekkert sérlega til að fara eða gera nokkuð annað, en ég klæddi mig í kjól og fór með henni í bílnum hennar.
Fyrsta manneskjan sem ég sá er við komum þangað var konan sem hafði kennt lexíuna á fjölskyldukvöldinu mörgum mánuðum áður. Hvorug okkar sagði nokkuð en ég náði augnsambandi við hana og í huga mér heyrði ég rödd kalla nafn mitt og segja: „Farðu til baka og náðu í töflurnar.“
Einhvern veginn vissi ég alveg hvað fólst í þessari hvatningu. Hún varðaði ekki bara fornan spámann sem snéri til baka til að ná í helgar töflur. Hún varðaði einnig mig. Hún þýddi að þótt Jack tryði ekki á hjónaband, þá gat ég enn trúað. Ég gat vonast eftir því, beðið fyrir því og unnið að því – ekki á löngunarfullan og angurværan hátt, heldur á trúfastan og virkan hátt. Ég gat undirbúið sjálfa mig daglega vegna þess að þetta er áætlun Guðs börnum hans til handa. Ég þurfti ekki að fara aftur til Jack og vera með honum þar til hann gæfist upp og myndi giftast mér. Ekki þurfti ég heldur að kynnast einhverjum öðrum strax. Það var í lagi fyrir mig að syrgja og láta sárin gróa.
Ég gæti þó á þeim tíma forðast að velta mér upp úr sjálfsvorkunn. Ég gæti forðast þá freistingu að vera ótuktarleg við Jake – eða menn almennt. Ég gæti leitað vina sem trúa á hjónabandið og hlökkuðu til þess. Og ég gæti, eins og Nefí, treyst á kærleiksríkan himneskan föður sem gefur engin fyrirmæli – hvort sem þau snúast um að ná fornum ritningum á töflum eða giftast og hefja fjölskyldulíf – án þess að greiða okkur veg til að leysa af hendi viðkomandi verkefni.
Ég er ennþá á „framkvæmda“ stiginu – ekki því „aflokna“. Ég er enn ógift en ég er þakklát fyrir þá góðu reynslu sem ég hef haft af stefnumótum – reynslu sem verður enn ríkulegri með auknum skilningi á hve þrautseigja skiptir miklu við að ná réttlátum markmiðum.
Orð öldungs Richards G. Scott í Tólfpostulasveitinni varðandi þrautseigju Nefís veita mér einnig stuðning og traust: Hann sagði:
„Nefí var enn fullviss um árangur eftir að hafa gert tvær árangurslausar tilraunir. Hann læddist inn í borgina í átt að húsi Labans þótt hann vissi ekki svörin. Hann sagði: ,Andinn leiddi mig, og ég vissi ekki fyrirfram, hvað gjöra skyldi‘ og bætti við þessum þýðingarmiklu orðum: ,Engu að síður hélt ég áfram.‘ (1 Ne 4:6–7, leturbreyting hér.)
Nefí var reiðubúinn að reyna aftur og aftur eins og best hann gat. Hann lét í ljós þá trú að honum yrði hjálpað. Hann neitaði að láta draga úr sér kjark. Og hann hlaut leiðsögn vegna þess að hann framkvæmdi, hafði trú á Drottni, var hlýðinn og notaði valfrelsi sitt á viðeigandi hátt. Honum var blásið í brjóst hvert skref í átt að árangri og orð móður hans gáfu honum ,… kraft til þess að ljúka því, sem Drottinn hafði boðið þeim.‘ (1 Ne 5:8; leturbreyting hér)“1
Þrautseigja takmarkast auðvitað ekki eingöngu við tilhugalífið. Hún á einnig við um þá sem eru með langvarandi sjúkdóm og eru ekki vissir um hvort þeir geti tekist hugdjarfir á við enn einn sársaukafullan dag, hjón sem kappkosta að leysa vanda í hjónabandinu, foreldra sem biðja svo árum skiptir fyrir barni sem villst hefur af leið, táninga sem horfast í augu við óvild í sinn garð í skólanum vegna trúar sinnar og trúboða sem hafa unnið dögum saman án þess að kenna eina einustu lexíu. Á einhvern hátt hefur okkur öllum verið boðið að fara til baka og sækja töflurnar.
Og rétt eins og Nefí þá getum við það. Með hugrekki, þrautseigju og trú getum við gert allt sem Drottinn hefur boðið okkur að gera.