Varanlegi menntunarsjóðurinn blómstrar níu árum eftir stofnun hans
Tyson Kemege varð munaðarlaus sem ungbarn. Hann ólst upp í Nairobi í Kenýu, glímdi við mænusótt, svaf aldrei á dýnu og borðaði mjög sjaldan tvær máltíðir á dag. Hann ferðaðist um með hjálp handhækja.
Hann ákvað að nema upplýsingatækni í Augustana College í Kenýu, en þar sem hann átti hvorki fjölskyldu né peninga voru litlar líkur á því að námið yrði að veruleika.
Bróðir Kemege, sem hafði gengið í kirkjuna fáeinum árum áður eftir að hann lauk menntun sinni, hafði samband við trúboðshjón og tjáði þeim frá löngun hans til náms. Trúboðarnir komu Tyson í samband við nefnd Varanlega menntunarsjóðsins. Lán frá sjóðnum greiddi fyrir inngöngu hans í skólann.
„Ég er lánsamasti maðurinn á jörðinni,“ sagði bróðir Kemege oft við trúboðana.
Bróðir Kemege hefur þjónað sem formaður nemendafélagsins í Augustana háskólanum og sinnir tveimur köllunum í deild sinni.
Níu árum eftir að Gordon B. Hinckley forseti (1910–2008) tilkynnti um Varanlega menntunarsjóðinn hafa rúmlega 38.000 þátttakendur í 42 löndum notið góðs af sjóðnum. Þrátt fyrir fjárhagserfiðleika víða um heim stendur Varanlegi menntunarsjóðurinn vel og hjálpar fólki eins og Tyson Kemege að öðlast menntun, flýja fátækt og láta sitt af mörkum til samfélags síns.
Rúmlega 87 af hverjum 100 sem notið hafa góðs af sjóðnum hafa lokið námi sínu og fundið atvinnu.
Sigrast á vandanum
Þótt fjárhagsaðstæður hafi ekki ógnað sjóðnum, hefur sjóðurinn þurft að sigrast á ýmsum vanda, segja þeir sem stýra sjóðnum. Einn stærsti vandi sjóðsins er vaxandi fjöldi þátttakanda.
„Vandinn sem við höfum þurft að horfast í augu við og yfirstíga er meðal annars sá sem fylgir miklum vexti og alþjóðlegu framtaki,“ sagði öldungur John K. Carmack, fyrrverandi aðalvaldhafi og framkvæmdastjóri sjóðsins. „Þar má nefna kynningu á sjóðnum, skilyrðum og lánsmöguleikum, og stuðning við þátttakendur.“
Sjóðurinn er rekinn í höfuðstöðvum kirkjunnar af frekar fámönnum hópi, þar á meðal nokkrum starfsmönnum, trúboðshjónum og sjálfboðaliðum sem búa á svæðinu. Yfirumsjón með honum hafa tveir fyrrverandi aðalvaldhafar, öldungur Carmack og öldungur Richard E. Cook.
Til þess að stjórna þessum viðamikla sjóði vinna starfsmenn sjóðsins og trúboðar með svæðisforsætisráðum við að þjálfa svæðisleiðtoga, sem síðan vinna með staðarleiðtogum við að þjálfa og styðja staðarkennara, starfsmenn, sjálfboðaliða og þátttakendur.
„Þetta framtak er og hefur verið mikil nýjung,“ sagði Rex Allen, framkvæmdastjóri þjálfunar og samskipta fyrir sjóðinn. „Það er nýtt að öllu leyti og því eru samskipti og þjálfun algjör nauðsyn.“
Virkni
Hundruð þúsunda einstaklinga hafa gefið peninga í sjóðinn og gerir það sjóðnum kleift að starfa. Allt fjármagn sem gefið er fer í að styðja þátttakendur.
Fyrir þátttakendur hefst ferlið með undirbúningi sem samhæfður er af þeirri eldri deild Trúarskóla sem þátttakandinn tilheyrir. Með aðstoð atvinnumiðlunar SDH taka þátttakendur áfanga- og starfsnámskeið í „Að skipuleggja árangur“ áður en þeir fylla út lánsumsókn á Alnetinu.
Þegar lán hefur verið samþykkt hefja þátttakendur nám sitt með það fyrir augum að þeir endurgreiði skuld sína til þess að aðrir geti einnig notið góðs af sjóðnum. Þátttakendur hafa endurgreitt rúmlega 2,5 milljónir Bandaríkjadala af lánum sínum á ári hverju.
Öldungur Carmack segir sjóðinn ná árangri vegna frábærrar forystu sem og mikils fjárhagslegs stuðnings kirkjuþegna. „Faðir Varanlega menntunarsjóðsins er Gordon B. Hinckley forseti,“ sagði hann, „en stuðningur og áhugi [Thomas S.] Monson forseta er jafn mikill og hann var hjá Hinckley forseta. [Monson forseti] hefur tekið þátt í ferlinu frá upphafi og stjórnar því í dag af spámannlegu innsæi.“
Árangur
Þegar Hinckley forseti tilkynnti um sjóðinn á aðalráðstefnu í apríl 2001 sagði hann: „Með góðri starfsþekkingu geta þessir ungu menn og konur risið ofar þeirri fátækt sem þau og kynslóðir á undan þeim hafa búið við. Þau munu betur geta séð fyrir fjölskyldum sínum. Þau munu þjóna í kirkjunni og þroskast sem leiðtogar og í ábyrgðarstörfum. Þau munu endurgreiða lán sín og gera öðrum kleift að njóta þeirra blessana sem þau hafa notið“ (“The Perpetual Education Fund,” Liahona, júlí 2001, 60; Ensign, maí 2001, 51).
Leiðtogar sjóðsins eru enn í dag að sjá orð Hinckleys forseta uppfyllast. Allt að 10 til 15 af hverjum hundrað núverandi leiðtogum kirkjunnar í sumum löndum sem Menntunarsjóðurinn hefur samþykkt eru fyrrverandi lánþegar sjóðsins.
„Þetta er ekki fánýtur draumur,“ hélt Hinckley forseti áfram. „Við eigum nægar auðlindir, þökk sé góðmennsku og góðvild dásamlegra og örlátra vina. Við höfum skipulagið. Við höfum mannaflann og dygga þjóna Drottins til að láta þetta verkefni takast. Verkefnið byggist algjörlega á sjálfboðavinnu og mun því kosta kirkjuna lítið sem ekkert. Við biðjum þess auðmjúklega og þakksamlega að Guð láti þetta verkefni dafna og að það muni færa þúsundum ríkar og dásamlegar blessanir, rétt eins og forveri þessa sjóðs, Innflytjendasjóðurinn, færði þeim sem nutu góðs af honum ómældar blessanir.“
Í dag, níu árum síðar, heldur sjóðurinn áfram að vaxa og er það „vegna mikils velvilja og gríðarlegrar trúar,“ segir bróðir Allen.