2010
Hæfileiki Taylors
Apríl 2010


Hæfileiki Taylors

Heather Hall, Utah, Bandaríkjunum

Getur þú sagt mér hvaða hæfileika Taylor hefur sem ég gæti sagt bekknum frá? spurði Barnafélagskennarinn mig. Hún hafði hringt vegna þess að bekkurinn hans Taylors ætlaði að ræða um hæfileika sem þau hefðu fengið frá himneskum föður.

Mér datt ekkert í hug. Í huganum fór ég yfir síðustu átta árin til að reyna að finna svar. Taylor var fjögurra daga gamall þegar hann fékk heilablóðfall sem skildi eftir sig djúpstæðan heilaskaða og óstjórnleg flogaköst. Hann getur ekki séð, talað né haft samskipti. Andlegur þroski hans er á við sex mánaða gamalt barn. Flesta daga er hann í hjólastól sínum, við sinnum honum og reynum að láta honum líða vel.

Við fögnuðum þegar hann lærði að flissa eða drekka úr sérstöku máli og við fögnuðum þegar hann náði að standa og taka nokkur skref. En þótt við höfum fagnað á yfirborðinu þá grétum við innra með okkur, því við vissum að þessi litlu afrek eru sennilega þau stærstu sem Taylor mun nokkru sinni áorka. Einhvern veginn fannst mér eins og Barnafélagskennari hans væri að leita að einhverju öðru og meiru.

Ég ræskti mig og mér leið illa þegar ég svaraði: „Taylor hefur eiginlega enga hæfileika sem koma mér í hug.“

Þá breytti þessi góða systir sambandi mínu við son minn til frambúðar með svari sínu.

„Hún sagði: Þegar ég hugleiddi þessa lexíu varð mér ljóst að hvert barn Guðs hefur hæfileika. Mig langar að stinga upp á að hæfileiki Taylors sé að kenna öðrum að þjóna. Ef það er þér ekki á móti skapi langar mig að segja bekknum okkar frá því hvernig ég hef litið á hæfileika Taylors hér í kirkjunni. Ég hef séð börn í Barnafélaginu læra að ýta hjólastólnum hans, opna fyrir hann dyr og yfirstíga ótta sinn með því að þurrka honum um kinnina með vasaklút þegar hann hefur þurft á því að halda. Mér finnst þetta vera frábær hæfileiki sem hann blessar okkur með.“

Ég muldraði samþykki mitt og við kvöddumst hljóðlega. Ég hugleiði hvort þessi Barnafélagskennari viti hversu djúpstæð áhrif þetta samtal átti eftir að hafa á líf mitt. Taylor hefur ekkert breyst. Hann krefst ennþá mikillar umönnunar. Ég ver ennþá miklum tíma á spítölum, hjá læknum og meðferðarfræðingum. En viðhorf mitt breyttist og ég fór að taka eftir hæfileika hans.

Ég fór að sjá hvernig fólk í kringum okkur breytti hegðun sinni er þau leituðust við að annast hann. Ég tók einnig eftir því hvernig hann minnir okkur á að hægja ferðina, taka eftir þörfum hans og verða samúðarfyllri, athugulli og þolinmóðari.

Ekki veit ég hver tilgangur Guðs er að láta Taylor takast á við slíkar ógnvænlegar áskoranir en ég held að Barnafélagskennari hans hafi veitt mér örlitla innsýn í það. Hann er hér til að deila hæfileika sínum með okkur. Hann er hér til að veita okkur tækifæri til að læra að þjóna.

„Ég hef séð börn í Barnafélaginu læra að ýta hjólastól hans, opna fyrir hann dyr og yfirstíga ótta sinn,“ sagði Barnafélagskennari sonar míns við mig.