Hringdu á sjúkrabíl!
Simon Heal, Queensland, Ástralíu
Ég var að setja upp loftklæðningu á heimili okkar árið 1991 þegar ég fann snarpan verk í vinstra auga. Verkurinn, sem svipaði til þess að fá í sig flís, dreifði sér fljótt um höfuð mitt. Ég hélt áfram að vinna þar til óþægindin neyddu mig til þess að fara inn í svefnherbergi mitt og hvílast.
Um leið og ég lagðist útaf talaði hin lága, hljóðláta rödd til mín. „Stattu upp,“ sagði andinn. „Ekki sofna.“
Er ég íhugaði viðvörunina og hugsaði um hvað ég ætti að gera, ákvað ég að taka eina af töflunum sem móðir mín tók gegn mígreni. Ég fór inn í herbergi foreldra minna og fann töflunar en þegar ég ætlaði að opna töfluglasið kom röddin aftur: „Ekki taka þessar töflur.“
Stuttu síðar heyrð ég röddina í þriðja sinn: „Þú þarft að hringja á sjúkrabíl – núna!“
Ég hafði aldrei hringt í neyðarlínuna áður, en hringdi nú tafarlaust. Sjúkrabíll kom stuttu síðar og tveir bráðaliðar settu mig á sjúkrabörur. Það síðasta sem ég man er að þeir spurðu til nafns. Síðan slökknaði á ljósunum.
Síðar vaknaði ég á gjörgæsludeild spítalans. Ég var ennþá veikburða og undir áhrifum deyfingarinnar en ég man eftir að finna fyrir höndum á höfði mér er faðir minn og biskupinn veittu mér blessun. Ég heyrði orðin: „Þú munt fá heilsu þína á ný eins og ekkert hafi í skorist.“
Mér var leyft að fara heim eftir að hafa verið þrjá daga í gjörgæslu og fjóra daga á göngudeild. Það var einungis þá sem mér var greint frá heilablæðingunni. Skurðlæknirinn sem framkvæmdi skurðaðgerðina sagði mér síðar að ég hefði einungis verið „steinsnar frá því að deyja“ og hefði ég tekið mígrenitöfluna hefði ég látist.
Í dag er ég vel á mig kominn, heilbrigður og þakklátur Drottni fyrir að hafa leiðbeint mér þennan örlagaríka dag. Ég hef innsiglast ástkærri eiginkonu minni í musterinu og við eigum fimm dásamleg börn.
Ég þakka himneskum föður mínum og frelsara mínum, Jesú Kristi, fyrir kraftaverk lífsins. Ég kappkosta á hverjum degi að nýta þann tíma sem þeir hafa veitt mér sem best. Ég hef þakksamlega í huga þau verndaráhrif sem andinn veitir.