2023
Að öðlast og veita samkennd
September 2023


„Að öðlast og veita samkennd,“ Líahóna, sept. 2023.

Ungt fullorðið fólk

Að öðlast og veita samkennd

Hið fullkomna fordæmi frelsarans kennir okkur um kraft þess að veita samkennd til að blessa aðra.

barn grætur í flugvél

Hvað fáið þið ef þið blandið saman lítilli flugvél, bugaðri móður og pirruðum litlum dreng? Mjög strembið ástand. Nokkrum sætaröðum aftar, horfði ég á framvindu sjónleiksins. Það var einhvern veginn svona:

Litli drengurinn: Ég er svangur!“

Móðirin: Jæja, kíkjum í veskið mitt og sjáum hvað ég er með.

Litli drengurinn: Neiiiiiii!

Móðirin: En ertu ekki svangur?

Litli drengurinn: Gefðu mér þetta!

Móðirin: Gefa þér hvað?

Litli drengurinn: Þettaaa!

Móðirin: Elskan mín, þú getur ekki fengið hálsmenið mitt.

Litli drengurinn: Ég vil það!

Þið skiljið stöðuna. Næstu tuttugu mínútur notaði móðirin óteljandi aðferðir til að reyna að róa hann niður, mútur, dreifa huganum, kímnigáfu og jafnvel eina eða tvær vægar hótanir. Ekkert virkaði. „Þetta er bara stutt flug,“ minnti ég sjálfan mig á. „Það verður allt í lagi með hana.“

En það var hins vegar ekki allt í lagi með hana. Streita hennar fór vaxandi og hún hóf að þurrka tárin frá augnhvörmum sínum. Þó að ég þekkti hana ekki, fannst mér ég knúinn til að aðstoða hana. Ósjálfrátt hóf ég að biðja fyrir þeim báðum.

Ég var ekki eini farþeginn sem varð fyrir áhrifum af þessu sjónarspili. Þegar álagið á tilfinningar hennar virtist vera í hámarki, kom annar farþegi henni til hjálpar. Hún var mikið eldri kona, sem sat hinum megin við ganginn. Góðmennskan uppmáluð, snéri hún sér að ungu móðurinni, sagði nokkur huggandi orð og tók í hönd hennar. Það var það eina. Og það var nægilegt.

Þessar tvær konur héldust í hendur yfir ganginn það sem eftir varði flugferðarinnar. Þó að litli drengurinn héldi áfram að kvarta af einstökum krafti, þá virtist móðir hans yfirveguð. Þetta var kraftaverk.

Samkennd og samúð: Tveir eiginleikar lærisveina

Í nútíma orðaforða, þá kallast þetta kraftaverk samkennd. Samkennd skilgreinist sem hin nærgætna leið til að upplifa annarra manna hugsanir, tilfinningar eða upplifanir óbeint. Samkennd er nútímahugtak, þið munið hvergi finna það í ritningunum. En tungumálasérfæðingar hafa bent á að samkennd er nátengd samúð. Í ritningarmáli, þá ríkir samúðin.

Samkennd er það að geta tengt við sársauka annarar persónu og samúð er sú kærleiksríka breytni sem leiðir af þeim hæfileika. Jesús Kristur sýndi bæði fram á samkennd og samúð er hann þjónaði, blessaði, læknaði og friðþægði. Sem lærisveinar Krists, verðum við að læra að upplifa samkennd og veita samúð. Þetta eru meðal skilgreinandi eiginleika lærisveina.

Þegar samkenndin vinnur sín mestu kraftaverk, hjálpar hún okkur að skilja og síðan bregðast við sársauka, þörf, ótta eða sorg annarrar persónu. Í tilfelli móðurinnar, þá gat eldri kona, sem líklega hafði áratuga reynslu af umönnun barna og barnabarna, veitt huggun, því að hún hafði upplifað sams konar erfiðleika sjálf. Vegna hennar eigin reynslu, var hún hæf til að veita huggun.

Hvað gerir Jesú Krist hæfan til að hugga okkur? Öldungur Neal A. Maxwell (1926–2004), í Tólfpostulasveitinni, kenndi: „Jesús veit hvernig að líkna okkur í sorgum okkar og veikindum, nákvæmlega vegna þess að Jesús hafði þegar borið sorgir okkar og veikindi [sjá Alma 7:11–12]. Hann þekkti þau af persónulegri reynslu; þar af leiðandi hefur hann aflað sér samkenndar.“1

Jesús heimsækir Nefítana

Kristur í landi Nægtarbrunns, eftir Simon Dewey

Afla sér samkenndar og aðstoða aðra

Hvaða erfileika hafið þið þolað til að hafa getað „aflað“ ykkur getunnar til að hafa samkennd með öðrum og sýna þeim samúð? Hafið þið upplifað afleiðingar fátæktar, ofbeldis, fáfræði, sjúkdóma, vanhirðu, syndar eða hvers kyns erfiðleika? Ef þið hafið gert það, þá hafið þið líklega komið út úr þjáningum ykkar sem vitrari, sterkari og næmari einstaklingur.

Í stuttu máli, þá hafið þið aflað ykkur samkenndar. Þið eru tilbúin til að geta haft áhrif á líf þeirra sem þjást. Hvar er best að byrja? Ég legg tvennt til:

Í fyrsta lagi, reynið að vera meira vakandi fyrir þjáningum annarra. Það er sorglegt, en það er mögulegt að vera í samskiptum við fólk sem þjáist án þess að vera meðvitaður um þjáningar þeirra. Hvernig getum við orðið meira meðvituð? Fordæmi Jesú Krists getur kennt okkur.

Eftir upprisu hans, þegar Jesús heimsótti Nefítana, útskýrði hann kenningu sína og kenndi þeim fagnaðarerindið. Þegar hann nam staðar, horfði hann á fólkið og sagði: „Ég finn, að þér eruð vanmáttug og fáið ei skilið öll orð mín“ (3. Nefí 17:2). Jesús bauð þeim þá að fara heim til sín, hvílast, hugleiða kenningar hans og koma aftur næsta dag endurnærð og tilbúin fyrir meira (sjá 3. Nefí 17:3).

Þá er sagan búin, ekki satt? Ekki alveg. Eftirtekt Jesú varð dýpri er hann horfði á andlit fylgjenda sinna:

„Og svo bar við, að er Jesús hafði mælt þetta, leit hann enn yfir mannfjöldann og sá að fólkið grét og starði á hann, eins og það vildi biðja hann að dvelja örlítið lengur hjá sér.

Og hann sagði við það: Sjá, hjarta mitt er fullt samúðar með yður“ (3. Nefí 17:5–6). Er hann leit betur á þau, sá hann þau enn betur. Það kveikti á samúðarfylltum viðbrögðum hans.

Í föllnum heimi, með föllnu fólki, þurfum við ekki að kíkja mjög djúpt til að sjá tár í augum barna himnesks föður. Við verðum samt að kíkja. Eins og frelsarinn, getum við valið að sjá fólk í gegnum linsu þarfar þeira. Þegar við getum svo séð, þá getum við þjónað.

Öldungur Ulisses Soares, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Þegar við reynum af ásetningi að tileinka okkur eiginleika samúðar, að hætti frelsarans, verðum við næmari fyrir þörfum fólks. Sú aukna næmni, mun glæða öll okkar verk tilfinningum einlægs áhuga og elsku.“2

Í öðru lagi, bjóðið fram þá aðstoð sem þið eruð sérstaklega hæf að veita. Eftir að Jesús skynjaði þörf Nefítanna í Nægtarbrunni, kallaði hann þá nær. Hann læknaði því næst þeirra veiku og blessaði börn þeirra. Hann gerði hluti sem einungis frelsari heimsins gæti gert.

Þið og ég getum að sama skapi sniðið reynslu okkar og getu til að mæta þörfum annarra. Við getum ekki leyst vandamál allra, en við getum lyft byrðum þeirra sem þjást á þann hátt sem við getum tengt við. Við gætum kannski ekki læknað holdsveikan mann, en við getum huggað hina veiku. Við gætum kannski ekki lyft einhverjum upp úr fátækt, en við getum miðlað reglum framfærslu, deilt máltíð og gefið örlátari föstufórn. Við gætum kannski ekki fyrirgefið synd, en við getum fyrirgefið þeim sem hafa misboðið okkur.

Setja samkennd í verk

Hvað fáið þið ef þið blandið saman lítilli flugvél, bugaðri móður og pirruðum litlum dreng? Tækifæri til að sýna samkennd og samúð.

Flugvél okkar lenti og unga móðirin var farin, handfarangur í einni hendi og litli drengurinn í hinni. Það kom í ljós að hún átti annað tengiflug og var við það að missa af því. Ég horfði á hræðslu hennar á flugbrautinni er farangur hennar kom út. Ég sá hvaða eigur hún var með, kerru, bílstól, ferðatösku, handfarangur, skiptistösku. Hún þurfti á hjálp að halda. Samkennd mín þurfti að þroskast yfir í samúð.

Án þess að stoppa til að kynna mig, greip ég allan farangurinn hennar og sagði: „Ég tek þessar. Þú tekur hann. Hlauptu að hliðinu þínu. Ég elti ykkur.“ Hún þáði þetta með þakklæti og við sprettum í gegnum flugvöllinn. Þegar við nálguðumst hliðið, sá ég aðra konu sárbæna flugþjóninn um að halda flugvélinni á jörðunni bara nokkrar mínútur lengur. Við nálguðumst, lafmóð en sigri hrósandi. Unga móðirin og þessi kona föðmuðust með gleðitárum og fegnar áður en þær gengu um borð.

Þessi litla þjónusta breytti ekki heiminum en það blessaði líf barns Guðs í þörf á þýðingarmikinn hátt. Á sama hátt og það hjálpaði þessum nýja vini mínum að komast á leiðarenda, hjálpaði það mér að komast í átt að andlegum leiðarenda mínum. Að velja samkennd og samúð, hjálpaði mér að verða aðeins líkari Jesú Kristi. Það gerði mig einnig glaðan.

Sama hvar við erum – í vinnu eða í skóla, í kirkju eða í flugvél – þá getum við sýnt samkennd sem fulltrúar frelsarans. Hverjum vill frelsarinn að þið sýnið samúð í dag?

Heimildir

  1. Neal A. Maxwell, „From Whom All Blessings Flow,“ Ensign, maí 1997, 12.

  2. Ulisses Soares, „Hin ævarandi samkennd frelsarans,“ aðalráðstefna, okt. 2021.