2023
Eftir áfall: Byggja upp þolgæði og opna faðminn fyrir lækningu
September 2023


„Eftir áfall: Byggja upp þolgæði og opna faðminn fyrir lækningu,“ Líahóna, sept. 2023.

Eftir áfall: Byggja upp þolgæði og opna faðminn fyrir lækningu

Lækning verður þegar við leitum aðstoðar frelsarans og byggjum upp tilfinningalega sjálfsbjörg.

Ljósmynd
Svarthvít mynd af tré með grænum hring bætt við ofan á

Flestir munu upplifa að minnsta kosti eitt áfall á ævinni. Við höfum séð þetta í eigin lífi og faglega. Hvað veldur áfalli? Erfið upplifun eins og bílslys, vinnumissir, stríð, líkamlegt ofbeldi, kynferðisofbeldi, alvarlegt einelti, ástvinamissir og fleira.

Áfall er sársaukafullt og stundum er eins og þið getið ekki fundið líkn. Samt er mikilvægt að vita að sársaukinn getur dvínað og að þið munið finna aftur frið, er þið treystið á himneskan föður og frelsara ykkar, Jesú Krist.

Himneskur faðir leyfir okkur að upplifa erfiðleika. Jafnvel þó að hann forvígi þessa reynslu ekki, skapar hana eða ljáir henni fylgi, þá getur hann séð til þess að „allt [muni] vinna saman að velfarnaði [okkar]“ ef við treystum á hann (Kenning og sáttmálar 90:24; sjá einnig 2. Nefí 32:9).

Við höfum séð að það er nauðsynlegt í lækningarferlinu að snúa sér til himnesks föður og frelsarans til stuðnings. Friður þeirra læknar tilfinningalega og andlega. Við vitum að þið getið fundið styrk til lækningar í elsku þeirra og umhyggju. Við höfum einnig fundið nokkrar aðferðir sem munu hjálpa ykkur að byggja á ykkar eigin persónulega styrk og færast nær lækningu.

Allir upplifa áföll á mismunandi hátt. Í raun geta sumir upplifað eitthvað sem áfall, á sama tíma og aðrir upplifa einungis óþægindi. Vegna þessa er gott að muna að bera ekki upplifun ykkar saman við annarra eða nota reynslu ykkar sem viðmið.

Mismunandi viðbrögð við atburðum

Sam og Lucy voru að ferðast saman og bílstjóri bílsins sem þau ferðuðust í sofnaði og fór út af veginum. Það varð til þess að bíllinn fór nokkrar veltur. Sam meiddist ekki alvarlega og til að byrja með virtist hann hrista atburðinn af sér eins og þetta hefði ekki verið mikið. Hann var til staðar til að hugga Lucy, er brotinn handleggur hennar var settur í gifs.

Nokkrum vikum seinna, þegar Sam fékk tækifæri til að ferðast aftur, upplifði hann kvíðatilfinningu við tilhugsunina um langa bílferðina.

Sam var að upplifa tilfinningaleg eftirköst eftir áfall. Hann var hikandi að ræða við nokkurn um þetta. Þegar hann hins vegar talaði við Lucy, komst hann að því að hún hafði áður lent í bílslysi og vissi hvernig honum leið. Þau ræddu það sem Lucy hafði lært af fyrri reynslu sinni er hún nýtti trú sína á Jesú Krist, bað fyrir leiðsögn og naut góðs af ráðgjöf þegar hún hafði átt erfitt.

Ljósmynd
Svarthvít mynd af litlu tré með grænum hring bætt við ofan á

Von og lækning með Jesú Kristi

Sama hvert áfall okkar er, þá getur lækningin komið með Jesú Kristi. Sökum altækrar friðþægingar frelsarans og samúðar hans og miskunnar, getur hann læknað öll þau sár sem við upplifum í þessari jarðnesku tilvist, hvort sem lækningin komi í þessu lífi eða því næsta. Stundum tekur það lengri tíma en við reiknum með eða viljum – þrátt fyrir guðlega aðstoð frelsarans. Hann getur samt læknað okkur (sjá 3. Nefí 17:7).

Öldungur Dieter F. Uchtdorf, í Tólfpostulasveitinni, kenndi: „Ljós Guðs er raunverulegt. Það stendur öllum til boða! Það lífgar alla hluti. Það hefur kraft til að mýkja sársauka hinna dýpstu sára.“1

Enginn þekkir þjáningar okkar eins ítarlega og himneskur faðir og frelsarinn. Drottinn „sté … neðar öllu, og skynjaði þannig alla hluti, svo að hann gæti í öllu og með öllu verið ljós sannleikans“ (Kenning og sáttmálar 88:6). Systir Amy A. Wright, fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Barnafélagsins, kenndi:

„Við höfum öll eitthvað brotið eða brostið í lífi okkar sem þarf að laga eða lækna. Þegar við snúum okkur til frelsarans, þegar við lögum hjarta og huga að honum, þegar við iðrumst, kemur hann til okkar ‚með lækningarmátt í vængjum sínum‘ [2. Nefí 25:13], umvefur okkur kærleiksríkum örmum og segir: ‚Það er í lagi. … Við getum lagfært þetta í sameiningu!‘

Ég ber ykkur vitni um að það er ekkert í lífi ykkar sem er brotið eða brostið sem er utan læknandi, endurleysandi og virkjandi máttar Jesú Krists.“2

Dæmi um lækningu og leiðir til lækningar má finna í ritningunum – og í lífi fjölskyldna okkar, vina og áa. Á hvern máta voru forfeður ykkar þolgóðir?3

Guðleg sjálfmynd okkar

Þegar Julio var 13 ára, var hann misnotaður kynferðislega af frænda sínum. Er tíminn leið, fór hann að draga sig frá fjölskyldu sinni og einangra sig. Stundum náði hann að starfa eins og ekkert hefði gerst en á öðrum stundum flæddu tilfinningarnar yfir hann. Hann hefur alltaf náð að takast á við lífið – jafnvel upplifað mikla hamingju, eins og fæðingu sonar síns. Honum finnst hann líka brotinn. Sonur hans er að nálgast þann aldur sem Julio var misnotaður og þegar Julio hugleiðir mögulega reynslu sonar síns, glímir hann við hugsanir og tilfinningar um eigið sjálfsmat og eilífa sjálfsmynd.

Þó að áfall sé hluti af jarðneskri upplifun okkar, þá er það ekki eilíf sjálfsmynd okkar. Eilíf sjálfsmynd okkar er að vera barn Guðs. Russell M. Nelson forseti kenndi:

Hver eruð þið?

Fyrst og fremst, eruð þið barn Guðs.

Í öðru lagi, sem meðlimir kirkjunnar, eruð þið barn sáttmálans. Og í þriðja lagi, eruð þið lærisveinn Jesú Krists.“4

Að auki, þá endurspeglar áfall aldrei virði okkar eða verðugleika. Systir Joy D. Jones, fyrrverandi aðalforseti Barnafélagsins, útskýrði þessi tvö hugtök þegar hún kenndi:

„Andleg verðmæti þýðir að meta okkur á þann hátt sem himneskur faðir metur okkur. …

Verðugleiki [næst] í gegnum hlýðni. Ef við syndgum þá erum við ekki eins verðug, en við erum aldrei minna virði.“5

Misnotkunin sem Julio þoldi frá frænda sínum breytti hvorki virði né verðugleika Julios. Hann syndgaði aldrei en það var syndgað gegn honum. Sundum getur verið erfitt að minnast virði ykkar og verðugleika þegar þið hafið orðið fyrir misnotkun. Munið, þið syndguðuð ekki, virði ykkar hefur aldrei minnkað og þið eruð verðug þess að halda áfram á sáttmálsleiðinni.

Þegar Julio fór að treysta á Drottin, hjálpaði hann Julio að gera sér grein fyrir því að jarðnesk reynsla breytir ekki elsku himnesks föður til okkar. Hann er nú að læra að sjá að þó að þessir hræðilegu atburðir hafi komið fyrir hann, þá breytti það ekki grundvallarvirði hans, eilífri sjálfsmynd né verðugleika.

Tilfinningaleg sjálfsbjörg

Að þroska með sér tilfinningalega sjálfsbjörg, mun hjálpa ykkur að nota heilbrigð persónuleg úrræði til að takast á við áskoranir og erfiðar tilfinningar. Þið getið þróað þolgæði, getuna til að aðlagast og takast á við raunir – þar á meðal áföll.

Þolgæði felst í því að leita stuðnings og leiðsagnar frá himneskum föður og Jesú Kristi, þjóna öðrum og þiggja þjónustu, eftir þörf og eins og er viðeigandi.

Eftirfarandi aðgerðir, sem faglegir ráðgjafar mæla með, munu hjálpa ykkur við að þróa þolgæði.

  1. Byggja sambönd við aðra

  2. Bæta líkamlega heilsu

  3. Finna tilgang í lífinu

  4. Rækta heilbrigða hugsun

  5. Leita aðstoðar þegar þörf er á6

Ljósmynd
Svarthvít mynd af tveimur konum með grænum rétthyrningi bætt við ofan á

1. Tengja við aðra

Heilbrigð sambönd stuðla oft að lækningu. Að tengjast þeim sem styrkja ykkur og hvetja til að snúa ykkur til frelsarans og himnesks föður okkar, kann að gera gæfumuninn í að þið læknist enn betur.

Sam talaði við Lucy og deildi með henni ótta sínum og vanlíðan. Þetta samband hjálpaði honum að verða meðvitaðri og hafa meiri þolgæði. Hún hjálpaði honum að sjá leiðir til að læknast tilfinningalega og andlega.

Hugleiðið að setja ykkur markmið um að þróa sterkari sambönd við aðra sem þið treystið. Hirðisþjónusta er ein leið til að tengjast öðrum í kirkjunni.

2. Hirða um líkamlegt heilbrigði

Áfall hefur ekki einungis tilfinningaleg áhrif heldur einnig líkamleg. Við kunnum að upplifa aukna þreytu, aukinn hjartslátt, höfuðverki eða kviðverki eða óþægindi í maga. Þessi líkamlegu einkenni eru þar til að upplýsa okkur um að eitthvað sé í ólagi og að við þurfum að hirða um heilsu okkar. Á sama hátt og við getum gert betur fyrir andlega heilsu okkar, getum við einnig hugsað upp leiðir til að annast okkur líkamlega.

Berið fyrst kennsl á líkamlegu einkennin sem þið eruð að upplifa. Reynið síðan að róa líkamann niður með því að beina athyglinni að öndun ykkar og að hægja á henni. Reynið að bera kennsl á það hvernig ykkur líður þegar öndunin er hröð og óregluleg miðað við það þegar öndunin er róleg og jöfn.

Stundum geta áföll valdið áverkum sem takmarka okkur, gerið þess vegna það sem er viðeigandi fyrir líkama ykkar. Hreyfing, sérstaklega líkamleg áreynsla, er hjálpleg. Sumir njóta þess að fara í göngu eða út að hlaupa, á meðan öðrum finnst hjálplegra að vinna hörðum höndum að verkefni.

Munið eftir Vísdómsorðinu (sjá Kenning og sáttmálar 89). Að reyna að fela sársauka með óhjálplegri hegðun eða vímuefnum er eins að setja „plástur á djúpt sár.“7 Hjálpið líkama ykkar að takast á við álag og sársauka frekar en að fela það.

3. Finna tilgang og þýðingu

Megintilgangur okkar í þessu lífi er að snúa aftur til að búa með himneskum föður okkar (sjá Alma 12:24). Áföll geta skyggt á þennan tilgang og varnað okkur því að sjá hver við í raun erum. Það getur hjálpað okkur að halda áfram og jafnvel að muna megintilgang okkar í þessu lífi, ef við finnum ákveðinn tilgang með daglegum gjörðum okkar. Julio tók skrefið áfram og fann tilgang i daglegum gjörðum sínum, þegar hann gerði sér grein fyrir því að hann vildi hjálpa syni sínum.

Að finna þýðingu í áföllum getur hjálpað okkur að sjá veginn fram undan, bera kennsl á að reynsla okkar veitir tækifæri fyrir okkur að vaxa og verða líkari Kristi. Til dæmis, þá er auðveldara að sýna neyð annarra samúð þegar við höfum tekist á við erfiðar aðstæður sjálf.

Rannsóknir hafa sýnt að eftir áföll, upplifir fólk oft það sem kallað hefur verið „þroski eftir áföll.“ Þroski eftir áföll sést þegar persóna finnur aukinn styrk eftir áfall, eins og í bættum samskiptum, meira þakklæti fyrir lífið eða vissa eiginleika lífsins, eða aukna vitund um möguleika lífsins. Eftir að upplifa áfall, sjáið hvernig þið hafið vaxið eða getið vaxið vegna reynslunnar, frekar en að einblína á áfallið sjálft.

4. Rækta heilbrigða hugsun

Áfall getur haft áhrif á það hvernig við hugsum um okkur sjálf og heiminn í kringum okkur. Eftir að hafa lent í áfalli gætum við upplifað neikvæðar hugsanir. Hugsanir eins og „ég er veikgeðja,“ „himneskur faðir elskar mig ekki“ og „ég er óverðug/ur“ minnka getu okkar til að sýna þrautseigju. Þessar hugsanir hafa oft áhrif á líðan okkar (sjá Orðskviðirnir 23:7; Kenning og sáttmálar 6:36).

Eftir að þið berið kennsl á neikvæðar hugsanir ykkar, hugleiðið þá heilbrigðar, raunhæfar hugsanir og skrifið þær niður. Minnið ykkur á þessar heilbrigðu hugsanir þegar þið sjáið neikvæðar hugsanir í huga ykkar.

Til að læra meira um hvernig skuli gera þetta, lesið kafla 2 í Finnið styrk í Drottni: Tilfinningaleg þrautseigja (2021).

Þið gætuð einnig leitað í bæn, skrifað í dagbók, hugleitt ritningarnar eða aðalráðstefnuræður (sjá Jósúa 1:8), eða aðrar hugleiðsluaðferðir.

5. Leita eftir stuðningi

Stundum er viðeigandi að leita aðstoðar utan ykkar eigin úrræða. Lucy leitaði aðstoðar, sem gerði henni kleift að hjálpa Sam. Hugleiðið fólkið – svo sem fjölskyldumeðlimi, vini og deildarleiðtoga – sem gætu hjálpað. Þegar þið eruð að jafna ykkur eftir áfall, gætuð þið þurft að nota öll möguleg úrræði í lífi ykkar.

General Handbook [Almenn handbók] veitir leiðsögn um það hvenær það gæti verið viðeigandi að leita stuðnings fagaðila.8

Það er erfitt að einblína ekki á áfallið, en er við fylgjum ráðum spámannsins um að beina athygli okkar að frelsaranum og fagnaðarerindi hans „hverfur allur efi of ótti.“9 Munið, þið eruð synir og dætur okkar ástríka himneska föður. Þegar þið leggið áherslu á að færast nær honum og nota hin hjálplegu úrræði sem eru ykkur til reiðu, getur Drottinn hjálpað til þess að hvert áfall geti verið ykkur til góðs.

Heimildir

  1. Dieter F. Uchtdorf, „Vonarljós Guðs,“ aðalráðstefna, apríl 2013.

  2. Amy A. Wright, „Kristur læknar hið brotna,“ aðalráðstefna, apríl 2022.

  3. Sjá Chakell Wardleigh Herbert, „Recognizing and Healing from Generational Trauma“ (einungis rafræn grein), Liahona, jan. 2023, ChurchofJesusChrist.org.

  4. Russell M. Nelson, „Choices for Eternity,“ (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fullorðið fólk, 15. maí 2022), broadcasts.ChurchofJesusChrist.org.

  5. Joy D. Jones, „Ómetanlegt gildi,“ aðalráðstefna, október 2017.

  6. Sjá „Building Your Resilience,“ American Psychological Association, 1. feb. 2020, apa.org.

  7. „Building Your Resilience,“ apa.org.

  8. Sjá General Handbook: Serving in The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 31.3.6, ChurchofJesusChrist.org; sjá einnig Justin K. McPheters og Rebecca M. Taylor, „Is Therapy Right for Me?“ (einungis rafræn grein), Ensign, feb. 2020, ChurchofJesusChrist.org; Kevin Theriot, „Finding a Mental Health Professional Who’s Right for You“ (einungis rafræn grein), Liahona, jan. 2019, ChurchofJesusChrist.org.

  9. Russell M. Nelson, „Að færa kraft Jesú Krists inn í líf okkar,“ aðalráðstefna, apríl 2017.

Prenta