Ritningar
Mósía 3


3. Kapítuli

Benjamín konungur heldur áfram ávarpi sínu — Drottinn almáttugur mun þjóna meðal manna í musteri úr leir — Blóð mun drjúpa úr hverri svitaholu þegar hann friðþægir fyrir syndir heimsins — Nafn hans er eina nafnið sem frelsað getur manninn — Menn geta losnað úr viðjum hins náttúrlega manns og orðið heilagir með friðþægingunni — Kvöl hinna ranglátu verður sem díki elds og brennisteins. Um 124 f.Kr.

1 Og enn bið ég um eftirtekt yðar, bræður mínir, því að ýmislegt fleira vil ég segja við yður. Því að sjá. Ég þarf að segja yður frá því, sem koma mun.

2 Og það, sem ég hyggst segja við yður, hefur engill Guðs kunngjört mér, og hann sagði við mig: Vakna þú! Og ég vaknaði, og sjá. Hann stóð frammi fyrir mér.

3 Og hann sagði við mig: Vakna og hlýð á orðin, sem ég mun mæla til þín. Því að sjá. Ég er kominn til að boða þér mikil gleði- og fagnaðartíðindi.

4 Því að Drottinn hefur heyrt bænir þínar, dæmt um réttlæti þitt og sent mig til að tilkynna þér, að þú getir fagnað og tilkynnt þjóð þinni, að hún geti einnig fyllst gleði.

5 Því að sjá. Sá tími kemur og er ekki langt undan, að Drottinn alvaldur, sem ríkjum ræður, sem var og er frá allri eilífð til allrar eilífðar, mun í veldi stíga niður af himni, dveljast í musteri úr leir meðal mannanna barna, ferðast um meðal þeirra og gjöra máttug kraftaverk, svo sem að gjöra sjúka heila, reisa látna upp frá dauðum, veita lömuðum mátt, blindum sýn, daufum heyrn og lækna hvers kyns sjúkdóma.

6 Og hann mun stökkva brott djöflum eða illum öndum, sem dveljast í hjörtum mannanna barna.

7 Og sjá, hann mun líða freistingar, líkamlegan sársauka, hungur, þorsta og þreytu, meir en maðurinn fær þolað, nema fjörtjón hljótist af. Því að sjá. Blóð drýpur úr hverri svitaholu, svo mikil verður angist hans vegna ranglætis og viðurstyggðar þjóðar hans.

8 Og hann skal kallast Jesús Kristur, sonur Guðs, faðir himins og jarðar, skapari alls frá öndverðu, og móðir hans mun kölluð verða María.

9 Og sjá. Hann mun vitja sinna eigin, til að trúin á nafn hans færi mannanna börnum sáluhjálp. En jafnvel eftir allt þetta munu þeir líta á hann sem mann og segja hann haldinn illum anda, og þeir munu húðstrýkja hann og krossfesta.

10 Og á þriðja degi mun hann rísa upp frá dauðum. Og sjá, hann mun standa og dæma heiminn. Og sjá, allt er þetta gjört til að réttlátur dómur falli yfir mannanna börn.

11 Því að sjá. Blóð hans friðþægir einnig fyrir syndir þeirra, sem fallið hafa vegna lögmálsbrots Adams, en dáið hafa án þess að þekkja vilja Guðs varðandi þá, eða sem syndgað hafa óafvitandi.

12 En vei, vei sé þeim, sem veit, að hann rís gegn Guði! Því að hjálpræðið nær ekki til neins þeirra, nema fyrir iðrun og trú á Drottin Jesú Krist.

13 Og Drottinn Guð hefur sent heilaga spámenn sína meðal allra mannanna barna til að flytja þessi boð öllum kynkvíslum, þjóðum og tungum, að þar með geti hver sá, sem trúir að Kristur komi, fengið fyrirgefningu synda sinna og glaðst ákaft, rétt eins og hann væri þegar kominn þeirra á meðal.

14 Þó sá Drottinn Guð, að þjóð hans var þrjóskufull þjóð og því setti hann þeim lögmál, já, lögmál Móse.

15 Og hann sýndi þeim mörg tákn og undur, fyrirboða og líkingar um komu sína. Og heilagir spámenn töluðu einnig til þeirra um komu hans, en samt hertu þeir hjörtu sín og skildu ekki, að lögmál Móse var gagnslaust án friðþægingarblóðs hans.

16 Og jafnvel þótt ungum börnum væri mögulegt að syndga gætu þau ekki frelsast. En ég fullvissa yður um, að blessun er yfir þeim, því að sjá. Hrasi þau fyrir Adam eða eðli sitt, friðþægir blóð Krists fyrir syndir þeirra.

17 Og auk þess segi ég yður, að ekkert annað nafn verður gefið og engin önnur leið eða aðferð, sem fært geti mannanna börnum sáluhjálp, nema í og fyrir nafn Krists, Drottins almáttugs.

18 Því að sjá. Hann dæmir og dómur hans er réttvís, og barnið, sem deyr í frumbernsku, ferst ekki. En menn drekka sálu sinni fordæmingu, nema þeir auðmýki sig og verði sem lítil börn og trúi því, að sáluhjálp var og er og mun verða í og fyrir friðþægingarblóð Krists, Drottins almáttugs.

19 Því að hinn náttúrlegi maður er óvinur Guðs og hefur verið það frá falli Adams og mun verða það alltaf og að eilífu, nema hann láti undan umtölum hins heilaga anda, losi sig úr viðjum hins náttúrlega manns og verði heilagur fyrir friðþægingu Krists, sjálfs Drottins, og verði sem barn, undirgefinn, hógvær, auðmjúkur, þolinmóður, elskuríkur og reiðubúinn að axla allt, sem Drottni þóknast á hann að leggja, á sama hátt og barn, sem beygir sig fyrir föður sínum.

20 Og ég segi yður enn fremur, að sá tími mun koma, er þekkingin á frelsara mun breiðast út til allra þjóða, kynkvísla, tungna og lýða.

21 Og sjá. Þegar sá tími kemur, mun enginn ámælislaus fyrir augliti Guðs, að litlum börnum undanskildum, nema aðeins fyrir iðrun og trú á nafn Drottins Guðs almáttugs.

22 Og jafnvel nú, þegar þú átt að hafa frætt þjóð þína um það, sem Drottinn Guð þinn bauð þér, munu þeir ekki ámælislausir í augum Guðs, nema í samræmi við orðin, sem ég hef talað til yðar.

23 Og nú hef ég mælt þau orð, sem Drottinn Guð bauð mér að mæla.

24 Og svo segir Drottinn: Og þau munu standa sem leiftrandi vitnisburður gegn þessari þjóð á degi dómsins, og samkvæmt þeim mun hún dæmd, hver maður af verkum sínum, hvort sem þau eru góð eða ill.

25 Og séu þau ill, mun fyrir þeim liggja að vakna til skelfilegrar meðvitundar um eigin sekt og viðurstyggð og hrökklast fyrir þær sakir úr návist Drottins út í vansæld og óendanlega kvöl, sem enga undankomuleið veitir. Þess vegna hafa þeir leitt fordæmingu yfir sálir sínar.

26 Og þeir hafa þess vegna bergt af bikar hinnar heilögu reiði Guðs, sem réttvísin gat ekki fremur neitað þeim um en hún gat neitað Adam um að falla sökum þess að hann át hinn forboðna ávöxt. Þannig á miskunnsemin aldrei framar kröfur til þeirra að eilífu.

27 Og kvöl þeirra er sem díki elds og brennisteins, en logar þess eru óslökkvandi, og reykur þess stígur upp alltaf og að eilífu. Og þetta hefur Drottinn boðið mér. Amen.