2021
Hin guðlega áætlun að auka við sig
Júlí 2021


„Hin guðlega áætlun að auka við sig,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2021, 2–5.

Hin guðlega áætlun að auka við sig

Þegar við lítum á jarðlífið í samhengi, sjáum við að það snýst ekki um „að vera eða ekki vera,“ heldur að „auka við sig eða auka ekki við sig.“

Ljósmynd
piltur

Ég er blessaður að hafa verið við hlið eiginkonu minnar við fæðingu allra barna okkar og að hafa einnig verið til staðar þegar foreldrar mínir féllu frá. Ég var hissa hvaða tilfinningar ég upplifði á stundum fæðingar og dauða. Ég fann að eitthvað heilagt ætti sér stað. Tími okkar á jörðinni er óendanlega mikilvægur hluti tilveru okkar. Himinninn markar upphaf og endi hvers jarðnesks lífs.

Það sem við þurfum að gera meðan við dveljum hér á jörðu, verður aðeins skilið með vitneskju um það sem gerðist fyrir fæðingu og það sem mun gerast eftir dauðann. Ef líf okkar á jörðinni væri það eina sem til væri, þá gætum við „etið, [drukkið] og verið kát“ (2. Nefí 28:7), án þess að láta okkur aðra varða. Þegar við lítum á jarðlífið í samhengi, sjáum við þó að það snýst ekki um „að vera eða ekki vera,“ heldur að „auka við sig eða auka ekki við sig.“1

Ljósmynd
stúlka

Skilningur á sáluhjálparáætluninni – líf okkar fyrir fæðingu, tilgangur lífs okkar á jörðinni, líf okkar eftir dauðann – og lykilhlutverki frelsara okkar, Jesú Krists, í þeirri áætlun, sýnir okkur að hann mun liðsinna okkur á lífsleiðinni. Þegar við gerum sáttmála við hann, förum við inn á sáttmálsveginn – og skref fyrir skref verðum við líkari honum og himneskum föður.

Líf okkar fyrir jarðlífið

Opinberun kennir að við séum andabörn Guðs og að við lifðum með honum löngu áður en við komum til jarðar. Himneskur faðir bjó okkur leið til að verða eins og hann. Þeir sem völdu sáluhjálparáætlun eða sæluáætlun föður okkar í fortilverunni – sem erum við öll – kusu að „auka við sig.“

Ljósmynd
Öldungur Christofferson ásamt fjölskyldu sinni

Öldungur Christofferson ásamt eiginkonu sinni og börnum.

Tími okkar á jörðu

Við komum til jarðar sem var sköpun Guðs og sonar hans, Jesú Krists. Við öðluðumst efnislíkama. Það að hafa líkama er nauðsynlegt til að taka á móti þeirri dýrð sem Guð býr að. Ef við sýnum að við höldum boðorð Guðs, mun okkur „bætast dýrð við dýrð alltaf og að eilífu“ (Abraham 3:26). Það þýðir að við verðum lík himneskum foreldrum okkar og lifum með þeim að eilífu. Við fögnuðum þessum miklu möguleikum.

Þið og ég biðum í langan tíma en erum nú hér á jörðu. Við lítum fram til þess tíma að verða reist upp með fullkominn, ódauðlegan líkama og að ganga inn í himneska ríkið til að njóta eilífs lífs – nokkurs svo dásamlegs að við fáum vart gert okkur það í hugarlund. Í millitíðinni lærum við og keppum að því að „gjöra allt, sem Drottinn Guð [okkar] býður [okkur]“ (Abraham 3:25). Þar sem við þekkjum áætlun Guðs, vitum við að þessi boðorð eru ekki gefin okkur til að takmarka frelsi okkar eða hamingju – heldur þvert á móti. Boðorðin eru leiðarvísir okkar til endanlegs frelsis og gleði.

Hann sá okkur fyrir frelsara

Þrátt fyrir það er lífið erfitt. Við hrösum öll er við lærum að lifa í trú. Guð hét okkur því fyrir sköpun jarðar að hann myndi sjá okkur fyrir frelsara, til að bjarga okkur frá synd og dauða. Jesús Kristur greiddi fyrir syndir okkar með þjáningum og dauða – friðþægingu sinni – og býður okkur gjöf iðrunar. Þegar við iðrumst, þá fyrirgefur hann syndir okkar og hreinsar okkur frá áhrifum þeirra. Með upprisu sinni gefur frelsarinn okkur gjöf eigin upprisu og ódauðleika.

Ljósmynd
fólk krýpur frammi fyrir Kristi

Hvert hné skal beygja sig, eftir J. Kirk Richards

Ganga sáttmálsvegarins

Á sama hátt og við vorum líkamlega fædd í hinn jarðneska heim, þurfum við að fæðast á ný andlega inn í ríki himins. Þetta gerum við með því að iðka trú á Krist, iðrast, láta skírast og meðtaka heilagan anda. Þetta er upphaf andlegrar umbreytingar sem varir ævina á enda á jörðu. Stundum köllum við það að „standast stöðug allt til enda,“ sem þýðir að við leggjum okkur fram alla ævi við að halda skírnarsáttmála með hlýðni, að iðrast eftir þörfum og halda áfram að sækja fram. „Já, og jafnoft og fólk mitt iðrast,“ segir Jesús, „mun ég fyrirgefa því brot þess gegn mér“ (Mósía 26:30).

Ljósmynd
skírn

Þið getið reitt ykkur á hjálp Guðs

Í lífi ykkar fyrir fæðinguna völduð þið Guð, þið völduð Krist, þið völduð að „auka við ykkur“ með þeirra liðsinni. Þið getið reitt ykkur á hjálp þeirra. Meðlimir Guðdómsins eru ekki áhugalausir áhorfendur í lífi okkar. Þeir elska okkur óendanlega og nota krafta sína okkur til hjálpar, eftir því sem við leyfum þeim. Þeir virða sjálfræði okkar en vilja óðfúslega blessa okkur. Jesús fullvissar okkur: „Ég mun ekki gleyma þér, ó Ísraelsætt. Sjá, ég hef rist þig á lófa mína“ (1. Nefí 21:15–16).

Verða betri, skref fyrir skref

Sumum finnst himneska ríkið vera raunsæ von fyrir aðra en einhverra hluta vegna ekki fyrir sig sjálfa. Sannleikurinn er sá að enginn verður hæfur án náðar Jesú Krists. Til allrar hamingju getið þið notið náðar hans. Jesús sagði okkur að hann hefði sigrað heiminn. Með skírn ykkar og öðrum sáttmálum, eruð þið bundin honum til að þið getið sigrað heiminn með honum.

Þið þurfið ekki að ná fullkomleika hér á jörðu. Spámaðurinn Joseph Smith líkti þessu við að klifra upp stiga: við byrjum neðst og stígum upp þrep fyrir þrep, er við lifum reglur fagnaðarerindisins. Þessi lærdómur, kenndi hann, heldur áfram eftir þetta líf: „[Hann lærist] ekki [allur] í þessum heimi.“2

Ljósmynd
piltur við musteri

Sama hvaða veikleikum, þrengingum eða þjáningum við stöndum frammi fyrir á jörðu, þá heitir Guð trúföstum börnum sínum að engum blessunum muni haldið frá þeim ef þau halda sig á sáttmálsveginum (eða snúa fljótt aftur á hann). Þá gengur allt saman upp. Þetta er hin guðlega áætlun um að auka við sig!

Heimildir

  1. Truman G. Madsen, Eternal Man (1966), 31–32.

  2. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 265.

Prenta