„Punktum þetta niður,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2021, 18–19.
Punktum þetta niður
Að punkta niður hugsanir ykkar þegar þið lærið í ritningunum getur hjálpað ykkur verulega við lærdóminn.
„Í hvert skipti sem ég byrja að lesa í ritningunum sofna ég!“ sagði trúboði nokkur við trúboðsforseta sinn. „Ritningarnar eru eins og svefntafla!“
Trúboðsforsetinn svaraði: „Tekur þú nokkurn tíma glósur þegar þú lest?“
„Nei,“ sagði trúboðinn.
„Það er auðvelt að sofna eða að láta hugann reika þegar þú ert aðeins að lesa,“ sagði forsetinn, „en það er ómögulegt þegar þú tekur líka glósur!“
Ráð trúboðsforsetans breyttu miklu fyrir trúboðann sem hafði átt í erfiðleikum. Ef þið eruð að leita að nýrri leið til að efla ritningarnám ykkar, reynið þá þetta. Þegar þið skrifið um það sem þið lesið, þá munið þið líklegast einbeita ykkur betur og læra meira í leiðinni.
Hér eru nokkrar nálganir sem okkur hafa fundist nytsamlegar.
Bróðir Steven J. Lund:
Ég er með pappír við höndina þegar ég les. Ég skrifa niður hugrenningar mínar við námið þegar andinn hvetur mig til þess.
Hugmyndina fékk ég frá öldungi Richard G. Scott (1928–2015) í Tólfpostulasveitinni, sem sagði: „Punktið hjá ykkur, á öruggan stað, þá mikilvægu hluti sem þið lærið af andanum.“ Þið munið taka eftir því að er þið skrifið hjá ykkur dýrmæt hughrif, munu oftar en ekki fleiri berast ykkur. Einnig mun vitneskjan sem þið öðlist vera tiltæk allt lífið“ („To Acquire Knowledge and the Strength to Use It Wisely,“ Ensign, júní 2002, 32).
Ég veit að þessi orð eru sönn. Þegar ég undirbý ræður og lexíur leita ég ekki aðeins í ritningunum, heldur einnig í glósunum sem ég skrifaði við lestur þeirra.
Bróðir Ahmad Corbitt:
Ég hef unun af því að taka fyrir ákveðið umfjöllunarefni. Ég les ritningarnar frá upphafi til enda, en ég hoppa líka til og frá og nem ákveðin viðfangsefni. Ég nota Leiðarvísi að ritningunum t.d. til að finna ritningarvers um trú eða um samansöfnun Ísraels. Ég tek ekki bara glósur, heldur skrifa ég það niður sem ég læri til að ganga úr skugga um að ég skilji það raunverulega. Það kemur mér alltaf á óvart hversu mikið betur ég skil viðfangsefnin þegar ég geri þetta. Ég vel líka nokkur ritningarvers til að læra utanbókar.
Bróðir Bradley Wilcox:
Ég held námsdagbók þar sem ég skrifa niður ritningarnar með mínum eigin orðum. Sem dæmi: „Því að hinn náttúrlegi maður er óvinur Guðs“ (Mósía 3:19) verður að „því hinn drambsami maður sem ekki iðrast, kýs að vera andstæðingur Guðs, en Guð er ekki andstæðingur hans. Guð er hans besti vinur.“
Ég skrifa líka spurningar. Þetta geta verið spurningar sem eru í huga mér áður en ég les eða spurningar sem kvikna út frá lestrarefninu. Sama hvort þær eru, þá heldur þetta mér einbeittum.
Krafturinn sem falinn er í að skrifa eigin hugsanir
Hver meðlimur forsætisráðs okkar nemur ritningarnar á sinn hátt en við punktum allir hjá okkur þegar við gerum það!
Lestur hjálpar okkur að innfæra hugsanir og tilfinningar. Það er mikilvægt. Þegar við tölum eða skrifum, uppgötvum við og tjáum hugsanir og tilfinningar sem í brjósti okkar búa. Okkur þykir þetta gagnlegt við að heimfæra sannleika fagnaðarerindisins betur upp á eigið líf.
Piltur nokkur uppgötvaði þennan sannleika þegar hann var beðinn um að flytja ræðu á sakramentissamkomu. Hann hafði hlýtt á ræður margra, en gat ekki munað smáatriðin. Þetta skipti var öðruvísi. Þegar hann skrifaði drög að ræðunni, hjálpaði það honum við að flytja skipulagða ræðu og hann mundi eftir henni í langan tíma.
Það sama getur gerst í ritningarnámi ykkar. Ef þið eruð við það að sofna þegar þið opnið ritningarnar ykkar, þá er tími til að vakna. Takið upp blýant, penna, síma eða tölvu og hefjið skrif. Það mun koma ykkur á óvart hversu mikinn mun það gerir!