„Var ég verðug?“ Til styrktar ungmennum, júlí 2021, 22–23.
Var ég verðug?
Ég hafði verið fórnarlamb misnotkunar eins lengi og ég mundi eftir mér. Hafði það áhrif á það hvernig Drottinn leit á mig?
Á yfirborðinu var barnæska mín afar hefðbundin.
Við fórum í kirkju og tókum þátt í öllum kirkjufundum og viðburðum. Ég fór í skóla og lék við vini mína. Sem unglingur gerði ég allt það sem eðlilegir unglingar gera. Ég hékk með vinum mínum og var í kór og leiklistarfélaginu. Ég fór á skóladansleik. Undir hinu hefðbundna, gleðilega yfirborði var afar dapurlegt leyndarmál.
Frá því að ég var um tveggja ára var ég fórnarlamb kynferðismisnotkunar tveggja eldri bræðra minna. Þeir misnotuðu einnig systur mínar. Við vorum of ungar til að skilja hvað væri að gerast, en þegar ég óx úr grasi byrjaði ég að skilja meira. Mér leið eins og ég væri myrkvuð og óhrein hvenær sem ég var í návist bræðra minna.
Ráðaleysi mitt jókst
Eftir að hafa mætt í tíma hjá Stúlknafélaginu, þar sem kennslan snerist um siðferði, skildi ég þýðingu dyggðar og skírlífis. Ég hlustaði á leiðtoga mína tala fyrir því að ég og aðrir í bekknum yrðum áfram siðferðislega hreinar.
Ég hugsaði: „Hvernig get ég verið siðferðislega hrein?“ Ég hafði verið fórnarlamb kynferðismisnotkunar eins lengi og minningar mínar náðu. Ég komst ekki hjá því að velta því fyrir mér hvað Drottni fyndist um mig. Var ég dyggðug stúlka? Var ég verðug þess að fara á stefnumót með piltunum í deild minni og skóla? Varð misnotkunin sem ég varð fyrir þess valdandi að ég væri óverðug þess að ganga í musterishjónaband?
Ég hugleiddi þetta mikið. Mér fannst það ekki ganga upp að ég væri álitin ódyggðug, þegar það sem gerst hafði var ekki mitt val. Af hverju ætti mér ekki að geta fundist ég dyggðug? Var ég óverðug elsku Drottins? Þurfti ég að iðrast?
Ég reyndi bara að gleyma
Ég vissi það satt að segja ekki. Mér fannst eins og þetta væri ekki mér að kenna, en á sama tíma leið mér eins og ég væri óhrein, lítillækkuð og algjörlega niðurlægð. Ég fann ekki hugrekki til að segja foreldrum mínum eða nokkrum öðrum frá. Ég reyndi nokkrum sinnum en þorði því ekki og vissi ekki hvernig ég ætti að koma orðum að því. Ég reyndi bara að gleyma því sem gerðist.
Þegar ég var 15 ára gömul, fundu litlu systur mínar hugrekkið sem mig skorti. Þær töluðu við ráðgjafa í skólanum. Stuttu síðar var einn bróðir minn handtekinn og dæmdur í þriggja ára fangelsi. Þrátt fyrir þetta glímdi ég í mörg ár við sama ótta um að ég væri hvorki dyggðug né verðug.
Ég fann hugrekkið til að afla mér hjálpar
Um síðir fann ég hugrekki til að tala við biskupinn. Hann útskýrði að Drottinn gerði mig ekki ábyrga fyrir þeim kynferðislegu athöfnum sem ég hafði verið þvinguð í, sem barn og ung kona. Hann fullvissaði mig um að það var alls ekki mér að kenna. Ég stóð saklaus frammi fyrir Drottni. Ég var enn dyggðug!
Með ráðgjöf frá fagfólki og hjálp frá biskupnum mínum hefur mér tekist að segja skilið við misnotkunina – ásamt þeim sársauka og þjáningum sem hún olli. Nú lifi ég virkilega gleðilegu og eðlilegu lífi. Ég giftist réttlátum manni í musterinu og við stofnuðum fjölskyldu hamingjusamlega.
Stundum læðir fortíðin sér þó inn í hugsanir mínar og ég get munað eftir þeirri angist sem ég fann fyrir þegar ég hugleiddi verðugleika minn.
Ég velti því fyrir mér hversu mörg ungmenni eru í svipuðum aðstæðum og ég var í, skömmustuleg og niðurlægð og efast um dyggð sína og hvernig þau passa inn í áætlun Guðs.
Ég vil segja þessum ungmennum að Drottinn elskar ykkur.
Hjarta hans verkjar fyrir ykkur.
Hann veit að sökin er ekki ykkar.
Hann veit að þið eruð sannarlega dyggðug.
Hann mun hjálpa ykkur að finna hugrekkið og styrkinn til að lifa lífi ykkar í gleði.