2021
7 pensilför að gleðilegra lífi
Júlí 2021


„7 pensilför að gleðilegra lífi,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2021, 8–11.

7 pensilför að gleðilegra lífi

Hin einföldu skref sem þið takið daglega, munu leiða til gleðilegra lífs.

Ljósmynd
ungmenni að mála

Myndskreyting eftir Katy Dockrill

„Sjáðu! Ég bjó þetta til fyrir þig!“ sagði sonur minn og bar myndina sína upp að andliti mínu. Blaðið snerti nefið á mér og ég sá litina aðeins óskýrt. Það var ógerlegt að sjá nokkuð skýrt.

Þegar ég ýtti myndinni frá mér skýrðust litaflekkirnir.

„Hvað finnst þér?“ spurði hann.

Sonur minn hafði unnið klukkustundum saman að því að mála það sem hann taldi vera raunhæfa lýsingu á okkur tveimur – en hárið á mér var þó ekki gult.

„Ég hafði ekki nógu mikið af brúnum lit,“ bætti hann hjálplega við. „Gulur er hvort sem er glaðlegri litur.“

Þegar ég leit nánar á verkið hans, sá ég hve ástúðlega sonur minn hafði málað þessa mynd. Ég gat ekki talið hve mörg pensilförin voru. Þau voru of mörg. Hann hafði líka rétt fyrir sér með að útlit mitt væri nokkuð glaðlegra – með hárið gult.

Leiðið hugann að málverki sem þið hafið séð. Þið sjáið að það er ekki stakt pensilfar sem gerir það fallegt. Þegar þið lítið á stakt pensilfar, þá er það í raun ekki svo merkilegt. Hvað sem því líður, þá verður til hrífandi listaverk þegar þið sameinið þau öll.1

Það svipar til málverks að uppgötva gleði í lífinu. Með smáum, vísvitandi pensilförum eða daglegum athöfnum getum við skapað líf fyllt hamingju. Ein stök athöfn aðeins gerð einu sinni virðist ekki láta mikið yfir sér. Þegar við hins vegar endurtökum hana aftur og aftur daglega og vikulega, geta þær veitt okkur gleðiríkt líf.

Hér eru sjö pensilför eða athafnir sem þið getið þróað til að stuðla að aukinni gleði í lífi ykkar.

1. pensilfar: Umgangist andlega hvetjandi fólk.

Ljósmynd
ungmenni líta upp

Hamingjan hefur mikið að gera með það fólk sem þið eigið samskipti við. Þetta þýðir ekki að þið getið ekki átt vini sem eru stundum óhamingjusamir. Í reynd þá upplifum við öll óhamingju annað veifið.

Gangið þó úr skugga um að þið verjið tíma með fólki sem er andlega hvetjandi. Góðir vinir sem hjálpa ykkur að lifa eftir stöðlum Drottins, geta skipt sköpum fyrir hamingju ykkar. Reynið líka að vera öðrum andlega hvetjandi vinur. Þið getið haft mikil áhrif á líf annarra.

2. pensilfar: Notið tónlist til að auka ykkur hamingju.

Ljósmynd
nótur

Tónlist hefur öflug áhrif á huga ykkar. Hún getur bókstaflega breytt hughrifum heilans. Góð tónlist mun hjálpa ykkur að vera jákvæð, glöð og innblásin. Búið til lista með glaðlegum, uppörvandi og trúareflandi lögum sem þið hlustið reglulega á.

3. pensilfar: Farið út.

Ljósmynd
tré

Að njóta sköpunar Guðs, er afar græðandi fyrir anda okkar og líkama. Það er mikilvægt hamingju ykkar að taka reglubundið hlé frá sjónvarpi, tölvu og símaskjám og fara út og njóta sólskinsins, gróðursins og dýranna umhverfis. Farið í göngutúra með fjölskyldu ykkar og vinum, leikið, lesið og lærið úti. Það mun koma ykkur á óvart hversu vel ykkur mun líða þegar þið gerið það.

4. pensilfar: Nægur svefn.

Ljósmynd
rúm

Drottinn hefur sagt að svefn sé nauðsynlegur heilbrigðum huga og líkama (sjá Kenning og sáttmálar 88:124). Á sama hátt og símarafhlaða þarf að hlaðast upp, er svefn nauðsynlegur heila ykkar, svo hann virki réttilega. Rétt eins og þið einsetjið ykkur að vakna á ákveðnum tíma á morgnanna, gætið þess þá líka að fara í rúmið á tilsettum tíma (og takið ekki símann með ykkur!).

5. pensilfar: Eigið innilegar samræður í eigin persónu.

Ljósmynd
ungmenni á tali

Að nota textaskilaboð og samfélagsmiðla til að tala við vini ykkar og fjölskyldu, getur verið frábært. Að eiga samræður við einhvern í eigin persónu, gerir nokkuð fyrir huga ykkar og anda, sem rafræn samskipti geta ekki gert. Gangið úr skugga um að eiga samskipti við fjölskyldu og vini. Gefið ykkur tíma til að hlusta og ræða við þá sem umhverfis eru.

6. pensilfar: Hreyfið ykkur reglulega og reynið að borða hollt.

Ljósmynd
matur

Heili ykkar getur aðeins unnið úr því eldsneyti sem þið gefið honum. Matvæli sem eru mikið unnin og innihalda mikinn sykur (stundum þekkt sem ruslfæði) bragðast kannski vel en hafa oft sljóvgandi áhrif á huga ykkar og líkama. Góðu fréttirnar eru þær að er þið borðið meiri ávexti, grænmeti og heilkorn, þá mun löngun ykkar í ruslfæði minnka. Drottinn gaf okkur aðeins einn líkama og því ættum við að hugsa vel um hann!

7. pensilfar: Bæn og íhugun.

Ljósmynd
piltur íhugar

Drottinn og spámenn hans og postular hafa oft ráðlagt okkur að gefa okkur tíma til að biðja og njóta kyrrðar. Bæn og íhugun hafa jákvæð áhrif á þau svæði heilans þar sem þið upplifið gleði. Ef þið gefið ykkur reglulega tíma til að íhuga og biðja, mun hamingja ykkar aukast örlítið í hvert sinn. Yfir langan tíma munið þið finna stóran mun á því hversu friðsæl og sjálfsörugg þið eruð.

Vantar fleiri hugmyndir?

Þessi sjö pensilför eru aðeins nokkur af þeim daglegu skrefum sem við öll getum tekið til að fylla líkama okkar og anda gleði. Til að fá fleiri hugmyndir, blaðið þá í gegnum bæklinginn Til styrktar æskunni, til að finna reglur sem hafa veitt ykkur eða öðrum gleði á liðnum tíma. Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera til að tileinka ykkur þetta stöðugt betur í ykkar daglega líf?

Munið alltaf að hin æðsta uppspretta gleði er frelsari okkar, Jesús Kristur. Hann er alltaf fús til að blessa ykkur og hjálpa ykkur gegnum erfiðleika ykkar, hverjar sem aðstæður ykkar eru. Hann mun hjálpa ykkur að finna þá hamingju sem þið vonist eftir.

Heimildir

  1. Öldungur David A. Bednar í Tólfpostulasveitinni kenndi: „En rétt eins og … pensilförin bæta hvert annað upp og mynda tilkomumikið meistaraverk, þá mun það, að vera samkvæmur sjálfum sér í smáu sem stóru, á sama hátt leiða til mikilsverðs andlegs árangurs“ („Meiri kostgæfni og umhyggjusemi heima fyrir,“ aðalráðstefna október 2009).

Prenta