Til styrktar ungmennum
Munið þið hlusta?
September 2024


Kom, fylg mér

Helaman 13–16; 3. Nefí 1

Munið þið hlusta?

Leiðsögn spámannsins getur verndað, blessað og hjálpað okkur – ef við leyfum það.

piltur í fjölmenni horfir á vegg með Samúel Lamaníta efst á múrnum.

Myndskreyting: Alyssa Tallent

„Tortímingin nálgast!“

Það eru drungaleg skilaboð að fá. En ímyndið ykkur að vera sá sem kallaður er til að flytja þau!

Lamanítinn Samúel var kallaður af Drottni til þess að aðvara Nefítana við ranglæti þeirra. Samúel lýsti því yfir þegar hann stóð á múrnum að dag einn „[myndu þeir] sjá algjöra tortímingu … þetta mun vissulega verða, ef þér iðrist ekki (Helaman 13:10).

Samúel spáði því einnig að eftir fimm ár yrði nótt án myrkurs og að ný stjarna myndi birtast á himninum sem tákn um fæðingu frelsarans (sjá Helaman 14:2–5).

Hvernig brugðust Nefítar við boðskap Samúels?

Þeir neituðu að hlusta. Þeir „köstuðu steinum að [Samúel] … og … skutu örvum að honum, þar sem hann stóð á múrnum” (Helaman 16:2). Sem betur fer kastar fólk ekki steinum eða skýtur örvum að spámanninum í dag, en margir hafna og hæðast að orðum hans þegar hann kennir sannleika fagnaðarerindis frelsarans.

Þegar spámaðurinn talar, hvernig munið þið bregðast við? Munið þið hlusta?

Hér eru þrjár áminningar um þær blessanir sem hljótast af því að hafa spámann á jörðinni og að hlusta á hann.

Spámaðurinn elskar okkur og biður fyrir okkur

Í fjölmörgum ráðstefnuræðum hefur Russell M. Nelson forseti sagt okkur:

„Ég elska ykkur!“ „Þið hafið stöðugt verið í huga mér og í bænum mínum.“

Hvílík blessun það er að vita að spámaðurinn elskar okkur og biður fyrir okkur!

Tæpum fimm árum eftir spádóma Samúels Lamaníta sögðu nokkrir Nefítar að tíminn væri kominn til þess að orð hans myndu rætast. Þeir hæddu þá trúuðu og tiltóku jafnvel ákveðinn dag þar sem þeir yrðu teknir af lífi ef táknin um fæðingu frelsarans kæmu ekki fram. (Sjá 3. Nefí 1:6–9). Á þessum skelfilega tíma baðst spámaðurinn Nefí fyrir allan daginn „vegna fólks síns … sem tortíma átti vegna trúar sinnar“ (3. Nefí 1:11).

Í dag hjálpa bænir spámannsins okkur meira en við kunnum að gera okkur grein fyrir. Sú andlega leiðsögn sem hann fær í gegnum bæn, blessar allann heiminn.

Spámaðurinn leiðir okkur til frelsarans

„Lyft höfði þínu og ver vonglaður,“ sagði Drottinn við Nefí. „Tíminn er í nánd og í nótt verður táknið gefið og á degi komanda kem ég í heiminn“ (3.Nefí 1:13).

Við sólsetur varð ekkert myrkur. Táknið hafði komið fram! (Sjá 3. Nefí 1:15.) Næsta morgunn vissu allir að þetta var fæðingardagur Drottins og ný stjarna birtist (sjá 3. Nefí 1:19, 21). Allt sem Drottinn hafði spáð í gegnum Samúel um fæðingu frelsarans hafði komið fram eins og Drottinn hafði sagt fyrir um.

Koma Drottins í heiminn bjargaði samstundis hinum trúuðu frá dauða. En hún bjargaði þeim ekki eingöngu. Jesús Kristur kom til þess að bjarga okkur öllum frá synd og dauða, styrkja okkur í neyð og færa okkur von og gleði í gegnum friðþægingu hans. Þetta hefur verið aðal boðskapur allra þeirra spámanna „ sem nokkru hafa spáð frá upphafi veraldar.“ (Mósía 13:33). Spámaðurinn leiðir okkur til frelsarans sem er „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóhannes 14:6).

Spámaðurinn kunngjörir sannleikann

Þegar ég las Mormónsbók í fyrsta sinn í gagnfræðaskóla, stóð kennsla ein frá Samúel Lamaníta upp úr. Hann sagði Nefítum að ef þeir frestuðu sífellt iðrun sinni, kæmi sá tímapunktur þar sem það yrði „að eilífu um seinan.“ Hann sagði „Já, því að þér hafið alla yðar daga sóst eftir því, sem þér gátuð ekki öðlast … þér hafið leitað hamingjunnar í misgjörðum, sem andstæðar eru eðli þess réttlætis, sem felst í vorum mikla og eilífa leiðtoga.(Helaman 13:38).

Á okkar dögum hefur Nelson forseti kennt með sama hætti:

„Þótt heimurinn staðhæfi að völd, eignir, vinsældir og nautnir holdsins skapi hamingju, þá er það ekki svo! Það er ekki hægt! …

Sannleikurinn er sá, að það er miklu meira lýjandi að leita hamingjunnar þar sem þið getið aldrei fundið hana! … [Jesús Kristur] … [hefur] … einn máttinn til að lyfta ykkur ofar aðdráttarafli þessa heims.“

Sumir Nefítar kusu að hlýða á og trúa orðum Samúels en margir gerðu það ekki. (sjá Helaman 16:1–8). Á margann hátt er þetta eins í dag.

Hvað ætlið þið að velja? Ætlið þið að hlýða á spámanninn?

Nelson forseti hefur kennt:

„[Spámenn, sjáendur og opinberarar] segja fólki kannski ekki alltaf það sem það vill heyra. Spámenn eru sjaldnast vinsælir. En við munum ávallt kenna sannleikann!

Þegar þið hlustið á spámanninn og breytið eftir orðum hans munið þið komast að því að spámannleg leiðsögn hans mun vernda, blessa og hjálpa ykkur alla ævi.