2005
Heimkoman
Apríl 2005


Heimkoman

Fjögur ár voru liðin frá skírn minni og ég hafði verið lítt virk næstum allan þann tíma. Ég neytti áfengis og tóbaks og átti við mikið þunglyndi að stríða. Eiginmaður minn, Ian, var á sjó og ég var ein heima með tvö lítil börn. Nú var kafbátur hans í meiriháttar klössun í skipakví hinu megin á meginlandinu. Á hverju kvöldi í sex vikur hringdi Ian og sagði: „Við ættum að sigla á morgun.“ En sá morgundagur virtist aldrei koma og stöðugt var um frestun á sjósetningu að ræða.

Ljóstýran í tilveru minni voru hinir dásamlegu heimiliskennarar og heimsóknarkennarar, sem komu reglulega og miðluðu af væntumþykju sinni og vináttu. Ég játa þó að ég var ekki alltaf kurteis og stundum beinlínis dónaleg. Mér var þó ljóst að ég gat tekið upp símtólið hvenær sem var og mér veittist fúslega hjálp. Heimiliskennarar mínir trúðu því statt og stöðugt að ég kæmi í kirkju að nýju og Ian myndi láta skírast – en sögðu að ég yrði að vera góð fyrirmynd. Ég fékk þó aldrei löngun til að láta reyna á þá trú þeirra. Ég var í mikilli andlegri lægð.

Kvöld eitt, eftir að ég hafði talað við Ian og fengið þau tíðindi enn á ný að ekki væri mögulegt að sigla kafbátnum í heimahöfn, settist ég og grét af mikilli vansæld. Ég tók að biðast fyrir, en það hafði ég ekki gert í langan tíma.

Þegar ég hugðist fara í rúmið þetta kvöld, vaknaði vitund mín um nokkuð sem ég hafði ekki veitt eftirtekt fram að þessu – ég fann afar sterkan ilm, sem þó var ekki óþægilegur. Hann kallaði fram minningu sem löngu var fallin í gleymsku. Ég varð að átta mig nokkra stund áður en mér varð ljóst að hún tengdist kapellunni sem ég var skírð í. Þegar minningin varð ljósari skynjaði ég hlýja og huggunarríka tilfinningu hið innra og vaxandi þrá eftir að fara í kirkju.

Ég hringdi í Tony, annan heimiliskennara minna. Brátt birtust hann og eiginkona hans, Rosie, í dyrunum og við tókum að tala saman öðruvísi en við vorum vön að gera. Öllum fyrri erfiðleikum var svipt burtu. Ég var á leið í kirkju að nýju.

Ég gat varla beðið eftir að Ian hringdi. Að þessu sinni yrði ég uppörvandi en ekki niðurdrepandi. Ég varð undrandi yfir viðbrögðum hans við frásögn minni, því hann lagði til að við færum í kirkju sem fjölskylda þegar hann kæmi heim.

Næsta sunnudag sóttu Tony og Rosie mig og börnin og fóru með okkur í kirkju. Ég var hissa á að sjá trúboða sem hafði verið sendur á svæðið í annað sinn. Hann hafði komið á heimili okkar en ekki tekist, femur en mörgum öðrum, að fá Ian eða mig til að koma í kirkju. Hann heilsaði mér innilega og tilkynnti að hann væri kominn til baka til að skíra Ian. Ég hló vantrúuð, en Ian kom loks heim í næstu viku. Hann kom með mér í kirkju á sunnudeginum eins og hann hafði lofað. Öldungur Paskett kom að máli við hann strax og gerði ráðstafanir til að hann gæti komið ásamt félaga sínum, öldungi Brown, til að kenna Ian trúboðslexíurnar. Ian hafði innan tveggja vikna gengist við boði þeirra um að láta skírast. Allt ferlið tók innan við mánuð og nokkru síðar voru trúboðarnir færðir á annað svæði, utan greinar okkar.

Á þessum vikum var yfirþyrmandi kærleika úthellt yfir okkur af heilögum anda og greinarmeðlimum. Við einsettum okkur þá að lifa algjörlega eftir fagnaðarerindinu fyrst við á annað borð höfðum ákveðið að gera það. Nokkru eftir skírn Ians var hann kallaður sem forseti Piltafélagsins og ég var kölluð til að þjóna í Barnafélaginu. Kirkjulíf okkar varð gefandi og uppörvandi. Fjölskyldan blómstraði með árunum og börnunum fjölgaði úr tveimur í fimm. Við vorum innsigluð í London-musterinu, Englandi, árið 1982, og Tony og Rosie voru þar með okkur.

Áhrifa fagnaðarerindisins gætir hvarvetna í lífi okkar nú. Skin og skúrir hafa skipst á í lífi okkar, en við höfum aldrei séð eftir þeirri ákvörðun að þjóna Drottni. Við höfum sannlega fundið heimili í kirkju hans.

Judith A. Deeney er í Lerwick-grein, Edinburgh-trúboði, Skotlandi.