2005
LÆRA AF JOSEPH SMITH
Apríl 2005


LÆRA AF JOSEPH SMITH

Joseph Smith var aðeins 14 ára þegar þrá hans eftir að þekkja sannleikann varð til þess að hann fór út í skóg nærri heimili sínu til að biðjast fyrir. Hann var bænheyrður og Guð faðirinn og sonur hans Jesús Kristur birtust honum. Þeir töluðu við hann, kenndu honum og bænheyrðu hann.

Mörgum reynist erfitt að leggja trúnað á frásögnina af þessari Fyrstu sýn og fleiri dásamlega atburði sem tengjast endurreisn kirkjunnar. En þeir eru til sem vita að slík sýn átti sér stað vorið 1820 í trjálundi við lítið býli í New York-fylki. Lesið áfram til að komast að því að 14 ára æskufólk trúir af öllu hjarta að Joseph Smith sé spámaður Guðs.

Ég dáist að því hvernig Joseph Smith tókst á við allt sem yfir hann kom þótt aðeins væri hann unglingur. Hann var alltaf trúfastur með einbeittu augliti á dýrð Guðs.

Hann hefur kennt mér heilmargt: Að hlýða á heilagan anda, gera það sem rétt er og taka afstöðu í verki með því sem satt er.

Ég veit að hann var spámaður Guðs og sá sem endurreisti hina sönnu kirkju. Án hans hefðum við ekki fagnaðarerindið í fyllingu sinni og ég væri ekki þar sem ég er nú. Það gerir mig auðmjúkan. Ég er þakklátur fyrir hina endurreistu kirkju.

Viliame Malani, Samabula í fyrstu (ensku) Suva-deild, Norður-stiku á Fiji-eyjum

Joseph Smith var afar hugrakkur að gera allt það sem hann gerði. En hann var vel undir það búinn, því sýn veitist ekki hverjum sem er. Hún veitist aðeins þeim sem er undir það búinn.

Æskufólk nú á tímum getur einnig komið mörgu góðu til leiðar með því að hlýða á rödd heilags anda, ef það aðeins ákveður það.

Ég veit að Joseph Smith sá föðurinn og soninn og að frelsarinn bauð honum að ganga ekki í neina kirkju. Ég veit einnig að Joseph Smith var afar hugrakkur og lét líf sitt til varnar fagnaðarerindinu. Og ég veit að ef við rannsökum ritningarnar, biðjumst fyrir af öllu hjarta, ástundum hlýðni og trúum á föðurinn og soninn, getum við snúið að nýju í návist þeirra.

Camila Eugenia Bardi Aguirre, Buenos Aires-deild, Cartagena Colombia Los Alpes stiku.

Mikilvægt er að vita að Joseph Smith gat beðist fyrir og hlotið bænheyrslu. En það er einnig mikilvægt fyrir mig að vita að Guð svarar mínum eigin bænum.

Ég veit að spámaðurinn Joseph Smith tókst á við mikla erfiðleika. Ég veit að fyrir hans tilstilli var kirkjan endurreist, prestdæmið endurreist á jörðu að nýju og að við vitum meira um himneskan föður og frelsarann. Ég reyni að fylgja fordæmi hans, en það er erfitt. Stundum skortir mig trú. En þá hugsa ég um það sem hann þurfti að þola, það sem hann leið okkar vegna, og þá öðlast ég örlítið meiri þrótt, að halda örlítið lengur út. Ég veit að við erum í hinni sönnu kirkju og að við stöndum í mikilli þakkarskuld við Joseph Smith.

Randy Horita Temarohirani, Mahu-grein, Tubuai Australes stiku

Drottinn bænheyrði Joseph Smith. Hann bænheyrir æskufólkið. Ég skynja að hann bænheyrir einnig mig. Dag nokkurn kom nokkuð slæmt fyrir milli mín og vinar míns. Síðar, er ég las Líahóna, hnaut ég um ritningargrein þar sem sagði: „Elskið óvini yðar“ (Matt 5:44). Hún hjálpaði mér að komast yfir það sem gerðist og endurnýja vinskapinn. Mér finnst þetta hafa verið bænasvar fyrir mig.

Joseph Smith skipulagði einnig trúboðsstarf og fyrir það hefur kirkjan vaxið á alheimsvísu. Við getum jafnvel í Kóreu komist að því hvernig öðlast á eilíft líf.

Ha-Nul Park, Sinchon-deild, Norður-Seoul-stiku, Kóreu

Það hefur eflt vitnisburð minn allt frá unga aldri að lesa sögur um Joseph Smith. En með aldrinum hef ég í auknum mæli lesið í ritningunum og hugsað meira um það sem hann gekk í gegnum. Áhrifin sem ég verð fyrir þegar ég læri, hugleiði og les um hann hafa orðið til að efla enn frekar vitnisburð minn. Að þekkja erfiðleika og reynslu hans auðveldar mér að velja rétt þegar aðstæður eru þannig að freisting knýr á eða lagt er að mér að gera eitthvað rangt.

Ég veit að Joseph Smith var spámaður Guðs. Ég veit að Joseph Smith baðst í raun fyrir í Lundinum helga og sá himneskan föður og son hans, Jesú Krist, sem friðþægði fyrir syndir okkar.

Robin Renae Doney, Essex-deild, Monpelier Vermont stiku

Ég trúi að himneskur faðir og Jesús Kristur hafi vitjað Josephs Smith og fengið honum það sérstaka hlutverk að endurreisa kirkjuna. Ég velti fyrir mér hvernig ég hefði brugðist við, ef himneskur faðir hefði birst mér skyndilega. Ég hefði fengið áfall. En Joseph Smith sýndi rósemi. Hann var ákveðinn í að komast að sannleikanum.

Þegar ég hlýði á allt það sem hann gekk í gegnum við að byggja upp kirkjuna, hjálpar það mér að kvarta minna og finna til minni sjálfsvorkunnar.

Án spámannsins Josephs væri engin kirkja. En kirkjan er minn grundvöllur.

Spencer Yamada, annari Manhattan-deild, New York-stiku, New York

Kvöld nokkurt las ég í Mormónsbók og skynjaði mikla friðsemd. Ég vissi þá að kenningar Mormónsbókar væru sannar og að Joseph Smtih sá himneskan föður og Jesú Krist. Ég vissi einnig að Joseph Smith þýddi Mormónsbók og endurreisti fagnaðarerindið á jörðu.

Joseph Smith gekk í gegnum erfiðleika og mótlæti og sigraðist á því. Hann sýndi einnig það hugrekki að standa fastur fyrir og vitna fyrir prestum og fræðimönnum frá öðrum kirkjum. Þótt Joseph Smith hafi verið ofsóttur var honum fullkomlega ljóst að hann hafði séð sýn og hann fylgdi sannfæringu sinni um sannleikann. Mér hefur lærst fyrir hann að verja sannleikann í verki og standast allt til enda.

Fam Suet Ling Roslyn, fyrstu Ipoh-grein, Ipoh-umdæmi, Malasíu

HVERS VEGNA 14 ÁRA UNGLINGUR?

„Drengurinn Joseph fór í [lundinn]. Ég hef stundum hugleitt hvers vegna Drottinn lét hann fara þangað aðeins 14 ára gamlan. Hvers vegna beið hann ekki þar til [Joseph] var orðinn 20, 30 eða 40 ára, þegar hann hafði hlotið þann þroska og styrk sem menn öðlast með aldrinum? Hann fór þangað – Drottinn leyfði það og svaraði spurningum hans, vegna þess að drengurinn bar þær fram í fullu trausti á hann. fiað var enginn efi í huga hans. Hann sagði, að ef einhver þarfnaðist visku, þá væri það hann, og hann bað um hana, fullur trausts á að eitthvað myndi gerast vegna bænar hans. Við höfum ekki bænarorð Josephs, en við vitum að hann spurði og að samræður urðu. Og Joseph Smith lærði þessa stund, hvort heldur hún var löng eða stutt, meira um eðli Guðs en allir hinir lærðu fræðimenn allra tíma höfðu áður lært.“

Gordon B. Hinckley forseti, „Hugvekjur,“ Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, ágúst 1997.

Prenta