2005
ÖFLUGAR RÆTUR LÍTILLA GREINA
Apríl 2005


ÖFLUGAR RÆTUR LÍTILLA GREINA

Gangið um í skóginum og njótið þagnarinnar. Sjáið sólina varpa geislum sínum gegnum trjákrónurnar. Skynjið dásamlegt sköpunarverk föður okkar á himnum. Dáist að háum, öflugum og þéttum trjánum.

Joseph Smith fór út í slíkan skóg er hann kraup í bæn sem varð til þess að nýtt ljós kviknaði í heiminum. Hann þurfti að fara á einhvern stað til vera í einrúmi, kyrrlátan stað, þar sem hann gæti íhugað og fengið svar við spurningum sínum.

Joseph Smith hlaut Fyrstu sýnina í New York-fylki, Bandaríkjunum, en slíkur skógur er í Króatíu og Slóveníu. Hingað koma piltar og stúlkur í félögum kirkjunnar saman á ungmennaráðstefnu. Ungmenni þessi eru, líkt og spámaðurinn Joseph gerði, að biðjast fyrir til að fá bænasvör, sem fagnaðarerindi Jesú Krists veitir þeim.

Króatía og Sóvenía eru austur af Ítalíu og voru hluti af Júgóslavíu til ársins 1991. Trúboðar Síðari daga heilagra komu fyrst til þessa hluta heimsins á níunda áratugnum. Frá þeim tíma hafa greinar kirkjunnar verið stofnaðar í Slóveníu og Króatíu. Kirkjan er enn ekki orðin nægilega öflug hér til að réttlætanlegt sé að reisa kirkjubyggingar, en starfinu miðar áfram. Flestir nýju meðlimanna eru piltar og stúlkur, sem koma saman eins oft og mögulegt er til að eflast í sameiginlegum vitnisburði.

Einsömul

Það getur verið einmanalegt að vera í þessum fámennu greinum. Kristina Mestrov sækir greinarsamkomur í Split, Króatíu, og stundum mæta aðeins hún, móðir hennar og trúboðarnir. En hún leggur sig fram við að breyta því. „Ég reyni að vera eins góður trúboði og ég get,“ segir hún.

Margír hinna ungu eru einu kirkjumeðlimirnir í fjölskyldu sinni. Petra Karaklajic frá Zagreb, Króatíu, þráir að sá dagur komi að fjölskylda hennar skilji trú hennar. Hún segir: „Sumir í fjölskyldu minni eiga erfitt með að sætta sig við að ég fari í sunnudagaskólann og skilja ekki sumar kenningar kirkjunnar.“ Petra gerir síðan grein fyrir forskriftinni að því að þrauka við slíkar aðstæður: „Komast að því hver við erum og hvert við eigum að stefna. Og fagnaðarerindið mun breyta lífi okkar til hins betra, ef við leyfum því að gerast. Gera bara sitt besta við að fylgja Jesú Kristi. Við erum ástkær börn lifandi Guðs.“

Tina Dobravc gekk nýlega í kirkjuna í Celje, Slóveníu. Hún skynjar jákvæðar breytingar í lífi sínu frá því að hún tók trú. En henni finnst stundum erfitt að lifa eftir fagnaðarerindinu án stuðnings fjölskyldu sinnar. „Á heimili mínu er erfitt að blessa matinn eða biðjast fyrir í einrúmi,“ sagði hún. „En ég verð að muna að þetta er þess virði. Ég veit að fjölskylda mín mun einn daginn finna hamingjuna og fagnaðarerindið.“ Tina þjónar í grein sinni sem athafnaleiðtogi.

Margir hinna ungu þurfa einnig að vera einir meðal vina. Margir þurftu að sætta sig við vinslit þegar þeir tóku á móti fagnaðarerindinu. Lucija Krajnik frá Ljubljana, Slóveníu, sem nýlega tók trú, sagði: „Frá því að ég gekk í kirkjuna hef ég orðið að slíta vinskap við þá sem voru mér slæmur félagsskapur. Mér var hollast að hverfa úr þeim félagsskap og taka upp vinskap við meðlimi og trúboða.“

Standa saman

Trén í skóginum skýla hvert öðru og unga fólkið hlýtur styrk frá hvert öðru þegar það er saman. Á ungmennaráðstefnu sem nýverið er afstaðin, var í fyrsta sinn fjölmenni, 47 ungmenni komu þar saman. Þau skildu ekki alltaf hvort annað, því þau töluðu ensku, króatísku eða slóvönsku, en þau skildu tungumál fagnaðarerindisins, sem var öllum sameiginlegt.

Petra Karaklajic hlýtur aukinn styrk frá ungmennaráðstefnum og öðru félagslífi með fólki sem er sömu trúar og hún. „Það veitir okkur styrk að vera öll saman,“ segir hún. „Mér finnst ég blessuð að eiga bræður mína og systur að í kirkjunni.“

Lucija Krajnik er ljóst að hún þarfnast vina í fagnaðarerindinu. „Hvernig væri komið fyrir mér ef ég hefði ekki kirkjuna?“ segir hún. „Ég er þakklát fyrir að vera meðlimur kirkjunnar og að hafa vini mína mér við hlið.“

Unga fólkinu er ljóst að ef það miðlar fagnaðarerindinu til annarra, mun fjölga í kirkjunni. Það býður oft öðrum að taka þátt með sér til að hjálpa þeim að greina ljós fagnaðarerindisins.

Simon Stevanovic frá Celje, Slóveníu, hefur þá staðföstu trú að hann verði að miðla vinum og fjölskyldu fagnaðarerindinu: „Við verðum að vera foreldrum okkar og vinum til hvatningar, svo að fjölgi í kirkjunni. Við eigum marga vini. Við þurfum að breiða út fagnaðarerindið.“ Simon hjálpar föður sínum að læra um kirkjuna og hlakkar til að þjóna einhvern tíma í fullu trúboði.

Ava Zupancic frá Ljubljana, Slóveníu, er ljóst að það nægir ekki að hjálpa fólki til skírnar, það sé aðeins byrjunin. „Mér finnst sárt að horfa upp á þá nýskírðu hverfa frá kirkjunni að nokkrum tíma liðnum,“ sagði hann. „Það gerist allt of oft. Við verðum að hjálpa nýjum meðlimum!“

Viðhalda styrk

Stundum geisa stormar erfiðleika og jafnvel trén í skóginum fá ekki staðist alla storma, þrátt fyrir hin trén og öflugar rætur. En þessum ungmennum er ljóst að það er þess virði að bjóða storminum birginn.

„Til þess að verða meistari,“ sagði Davor Majc frá Kranj, Slóveníu, „verður að standa á fætur, sama hversu oft hrasað er, þegar ná skal settu marki. Þeir sem bíða okkar við markið, munu fagna okkur.“

Ivona Frcek frá Zagreb, Króatíu, vitnar um að „allt slæmt sem gerist muni líða hjá. Verum aðeins staðföst og höldum okkur fast að sannleikanum.“

Unga fólkið í Króatíu og Slóveníu mun halda áfram að hljóta styrk frá hvert öðru og hjálpa öðrum að finna svörin við mikilvægustu spurningum lífsins. Það vonast til þess að verða líkt og trén í skóginum: Há, rótföst og öflug.

Phillip og Ani Maxfield veittu aðstoð við greinina. Þau þjónuðu í Zagreb-trúboðinu, Króatíu, og eru í fimmtu Issaquah-deild, Bellevue-stiku, Washington.

„Við biðjum alla meðlimi kirkjunnar að hjálpa hinum nýskírðu, að vefja þá örmum og gera þá heimakomna. Blessið þá með vináttu ykkar. Hvetjið þá með trú ykkar. Sjáið til þess að þeir villist ekki frá.“

Gordon B. Hinckley forseti, “The Condition of the Church,” Liahona, maí 2003, 4.

Prenta