2005
Endurreisnin: Sannleikur að nýju
Apríl 2005


Endurreisnin: Sannleikur að nýju

Fagnaðarerindi Jesú Krists hefur margsinnis verið opinberað þjóðum heims. Það var veitt Adam, Enok, Nóa, Abraham og fleiri spámönnum, þar á meðal spámönnum Mormónsbókar – í hvert sinn á ráðstöfunartíma.1 Sjálfur frelsarinn kom með fagnaðarerindið að nýju á hans ráðstöfunartíma. Endurreisa hefur þurft fagnaðarerindið margsinnis, vegna þess að því var hafnað eða það glataðist á jörðu fyrir ranglæti fólksins. Fagnaðarerindið var loks í þessari ráðstöfun í fyllingu tímanna endurreist fyrir tilstilli spámannsins Josephs Smith í síðasta sinn.

Hér á eftir eru nefndir sumir þeirra atburða sem áttu sér stað á okkar ráðstöfunartíma sem gerði endurreisn fagnaðarerindisins mögulega, svo og vöxt kirkjunnar (sjá K&S 66:2).

Fyrsta sýnin

Jakobsbréfið 1:5: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.“

Þegar Joseph Smith yngri hafði lesið þessa ritningargrein, vorið 1820, þá aðeins 14 ára gamall, lét hann í fullri alvöru reyna á loforðið í Jakobsbréfinu. Hann fór í trjálund nærri heimili sínu til að „biðja til Guðs.“

Gordon B. Hinckley forseti hélt ávarp í Lundinum helga, þar sem Joseph Smith flutti bæn sína til að komast að því hvaða kirkja væri sönn, og sagði: Á þessum stað var endir bundinn á niðdimmt myrkur fráhvarfs með nýrri dýrðlegri dagrenningu. Guð sjálfur sýndi sig og talaði. Á þessum helga stað, undir þessum fögru trjám, þar sem við nú stöndum, opinberaðist eðli Guðdómsins á ný

Opinn og leitandi drengur, sem laus var við hvers kyns kreddur heimsins, var valinn til að taka á móti opinberuninni sem hér var gefin og margra annarra í kjölfar þessarar. Ég er fimmtándi spámaðurinn talið frá og með Joseph Smith og á mér hvílir sá spámannsmöttull er á honum hvíldi. Ég ber því hátíðlega vitni að frásögn spámannsins Josephs um atburði þessa er sönn, að faðirinn hafi á þessum stað borið vitni um guðleika sonar síns, að sonurinn hafi gefið spámannsdrengnum ákveðin fyrirmæli, og í kjölfar þess hafi atburðir gerst sem leiddu til stofnunar hinnar „einu sönnu og lifandi kirkju á gjörvallri jörðunni, sem … Drottinn, er vel ánægður með“ (K&S 1:30).“2

Fyrsti spámaðurinn

Joseph Smith yngri var fæddur í Sharon, Vermont, 23. desember, 1805. Foreldrar hans, Joseph Smith eldri og Lucy Mack Smith, voru bæði trúrækin og ólu börn sín upp í trú á Guð og þörf fyrir sáluhjálp. Joseph eldri og Lucy áttu ellefu börn. Joseph var sá fimmti í röðinni.

Joseph Smith fæddist til að verða verfæri í hendi Drottins við að endurreisa kirkju Krists á jörðu á þessum ráðstöfunartíma. Brigham Young forseti (1801–77) sagði um Joseph: „Það var ákvarðað á ráðstefnu eilífðarinnar, löngu áður en grundvöllur jarðar var lagður, að hann, Joseph Smith, væri maðurinn á síðasta ráðstöfunartíma þessa heims, sem færa ætti fram orð Guðs til fólksins, og meðtaka fyllingu lykla og kraft prestdæmis sonar Guðs. … Hann var forvígður í eilífðinni til að ríkja yfir þessum síðasta ráðstöfunartíma.“3

Fyrstu prestdæmisvígslurnar

Hinn 15. maí 1829 sendi Drottinn Jóhannes skírara til að veita Joseph Smith og Oliver Cowdery lykla Aronsprestdæmisins í upphafi endurreisnarinnar. Thomas S. Monson, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði: „Þarna á bökkum Susquehanna-fljótsins, nærri Harmony, Pennsylvaníu, lagði Jóhannes hendur á höfuð Josephs Smith og Olivers Cowdery og sagði: „Yður, samþjónum mínum, veiti ég í nafni Messíasar Aronsprestdæmið, sem hefur lykla að þjónustu engla og fagnaðarerindi iðrunar og niðurdýfingarskírn til fyrirgefningar syndanna“ (K&S 13:1). Sendiboðinn greindi frá því að hann starfaði undir leiðsögn Péturs, Jakobs og Jóhannesar, sem hefðu lykla Melkísedeksprestdæmisins. Fleiri vígslur og skírnir fylgdu í kjölfarið…

„Á tilsettum tíma voru Pétur, Jakob og Jóhannes sendir til að veita blessanir Melkísedeksprestdæmisins. Þessir postular voru sendir af Drottni til að vígja Joseph og Oliver og staðfesta þá sem sérstök vitni nafns hans…

Öllum ber okkur, með vísun í þessa atburði – sem kalla á blessanir og hátíðlega ábyrgðarskyldu – að standa sannlega undir því trausti sem á okkur er lagt.“4

Fyrstu vitnin

Fjórum árum eftir að Moróní vitjaði Josephs Smith, fékk Joseph gulltöflurnar í hendur frá englinum Moróní á hæðinni Kúmóra og hóf þegar að þýða þær. Í fyrstu var engum leyft að líta þær augum, en síðar opinberaði Drottinn að þrír skyldu tilnefndir til að bera vitni um Mormónsbók og gulltöflurnar (sjá K&S 5:11–15).

Öldungur Dallin H. Oaks í Tólfpostulasveitinni sagði þetta um vitnin þrjú: „Mennirnir þrír sem tilnefndir voru sem vitni að Mormónsbók voru Oliver Cowdery, David Whitmer og Martin Harris. Hinn ritaði „Vitnisburður þriggja vitna“ hefur verið í öllum … útgáfum Mormónsbókar sem kirkjan hefur gefið út frá árinu 1830. Vitni þessi bera hátíðlega vitni um að hafa „séð töflur þær, sem heimildir þessar geyma“ og „leturgröftinn, sem er á töflunum.“ Þau bera þess vitni að „þær hafa verið þýddar með gjöf og krafti Guðs, því að rödd hans hefur sagt okkur það.“ Þau bera þess vitni og „[lýsa] því yfir í fullri alvöru, að engill Guðs sté niður af himni, og hann hafði töflurnar meðferðis og lagði þær fyrir auglit okkur, svo við litum og sáum þær og leturgröftinn á þeim. Og við vitum, að það er fyrir náð Guðs föður og Drottins vors Jesú Krists, að við sáum þessa hluti, og berum því vitni, að þeir eru sannir.“

Ennfremur „bauð rödd Drottins okkur að bera vitni um þetta, og til þess að vera hlýðnir fyrirmælum Guðs berum við þessu vitni.“5

Spámaðurinn fékk einnig heimild til að sýna átta öðrum vitnum gulltöflurnar. Vitnisburður þeirra er einnig skráður í Mormónsbók.

Fyrsta samkoma kirkjunnar

Kirkjan var stofnuð í litlu bjálkahúsi í Fayette, New York. Joseph tilnefndi fimm menn sér til aðstoðar til að fullnægja lögum um stofnun trúfélags. Söfnuðurinn, sem í voru um sextíu manns, studdi Joseph Smith og Oliver Cowdery sem öldunga í kirkjunni. Sakramentið var blessað, hinir heilögu sungu söngva og báðust fyrir og sumir voru skírðir og staðfestir.

Öldungur L. Tom Perry, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Sjötti apríl 1830 er merkisdagur fyrir hina Síðari daga heilögu. Þann dag var Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu stofnuð. Þýðingu og prentun Mormónsbókar var lokið, prestdæmið hafði verið endurreist og nú bauð Drottinn að kirkja hans skyldi enn á ný stofnuð á jörðu.“6

Síðasta ráðstöfunin

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu heldur áfram að vera frumherji með spámannlegum opinberunum. Við sjáum nú fyrstu trúskiptingana eða fyrstu musterin í mörgum löndum og trúboðar hvarvetna um heim vinna stöðugt að því að breiða út fagnaðarerindið til þeirra sem á það hlýða í fyrsta sinn.

Þið gegnið þar einnig hlutverki. Hinckley forseti sagði um fyrrum frumherjana sem byggðu upp kirkjuna: „Mikils var af þeim vænst og svo á einnig við um okkur. Við vitum hversu miklu þeir fengu áorkað miðað við það litla sem þeir höfðu úr að spila. Við höfum svo miklu meira, en áskorunin er yfirþyrmandi að halda áfram að byggja upp ríki Guðs.“7

Þegar við miðlum fagnaðarerindinu og erum staðföst, munum við leggja okkar af mörkum við að byggja upp ríki Guðs og stuðla að fleiri „upphafsatburðum“ í síðustu ráðstöfuninni.

FORTÍÐ OG NÚTÍÐ

1830: Sex meðlimir stofnuðu kirkjuna formlega

Nútíð: Ríflega 12 milljónir meðlima

1830: Færri en 20 trúboðar

Nútíð: Ríflega 50.000 trúboðar

1830: 5.000 Mormónsbækur prentaðar

Nútíð: Ríflega 100 milljónir Mormónsbóka prentaðar

1836: Eitt musteri

Nútíð: 119 musteri

FYRSTA PRENTUNIN

Joseph Smith var aðeins 65 daga, frá byrjun apríl til loka júní 1829, að þýða Mormónsbók, sökum þess að hann naut innblásturs.8 Spámaðurinn vann hratt og endurskoðaði vart allt verk sitt. Hann hafði aldrei numið forn handrit og aflaði sér aldrei upplýsinga utan þeirra sem voru á gulltöflunum við þýðingu sína.9

Oliver Cowdery, sem var einn af skrifurum Josephs, sagði: „Þetta voru ógleymanlegir dagar. Það vakti djúpa þakklætistilfinningu í brjósti mér að sitja undir hljómi raddar, sem barst með innblæstri frá himni. Dag eftir dag hélt ég ótruflað áfram að skrifa niður það, sem frá munni hans barst, þegar hann þýddi … með hjálp Úríms og Túmmíms.“10

Þegar lokið hafði verið við þýðingu bókarinnar, fóru Joseph og Martin Harris með hana til E. B. Grandin til útgáfu. Fimm þúsund eintök voru prentuð og bækurnar voru tilbúnar fyrir sölu vorið 1830.

FYRSTA MUSTERIÐ

Kirkjan var stofnuð að nýju á jörðu. „En verki endurreisnarinnar var ekki lokið,“ útskýrði öldungur Robert D. Hales í Tólfpostulasveitinni. „Eins og til forna var meðlimum kirkjunnar sagt að reisa musteri, sem vígt var í Kirtland, Ohio, 27. mars 1836. Viku síðar, þann 3. apríl, var haldinn fundur þar. Eftir hátíðlega og hljóða bæn, sáu Joseph og Oliver Drottin Jesú Krist standa frammi fyrir sér. … Móse, Elísa og Elía birtust einnig þar og afhentu Joseph lyklana að ríkinu.“11

Aðeins tveimur árum eftir vígslu musterisins og endurreisn hinna helgu lykla til spámannsins þar, neyddust hinir heilögu til að yfirgefa Kirtland og fyrsta musterið sitt, sökum fátæktar, ofsókna og fráhvarfs.

HEIMILDIR

  1. „Ráðstöfunartími fagnaðarerindis er tímabil þegar Drottinn hefur a. m. k. einn þjón á jörðu, sem hefur lykla hins helga prestdæmis“ (Leiðarvísir að ritningunum, „Ráðstöfunartími,“ 152).

  2. „Sérstök vitni Krists,“ Líahóna, apríl 2001, 24.

  3. Kenningar forseta kirkjunnar: Brigham Young (1997), 96.

  4. „All That the Father Has,“ Tambuli, maí 1990, 4.

  5. „The Witness: Martin Harris,“ Liahona, júlí 1999, 41.

  6. “Heed the Prophet’s Voice,” Ensign, nóv. 1994, 17.

  7. “True to the Faith,” Ensign, maí 1997, 66–67.

  8. Sjá John W. Welch, “How Long Did It Take Joseph Smith to Translate the Book of Mormon?“ Tambuli, sept. 1989, 14–15.

  9. Sjá Neal A. Maxwell, “By the Gift and Power of God,“ Ensign, jan. 1997, 39–40.

  10. Joseph Smith – Saga 1:71, neðanmálstexti.

  11. „Að hljóta vitnisburð um hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists,“ Ráðstefnuræður, haustið 2003, 55; sjá K&S 110.

Prenta