2005
ÆSKUFÓLK AÐ STÖRFUM Á FIJI-EYJUM
Apríl 2005


ÆSKUFÓLK AÐ STÖRFUM Á FIJI-EYJUM

Æskufólkið gegnir mikilvægu hlutverki í að uppfylla þarfir kirkjuþegna

Sikeli Vuli hlær þegar hann reynir að rifja upp hversu oft hann hefur dottið í ána. Þar til fyrir stuttu var ekki óalgengt að þeir sem búa í hinu litla þorpi Navatuyaba, nærri Suva, á Fiji-eyjum, fengju sér óvæntan sundsprett.

Það er vegna þess að íbúarnir þurfa að fara yfir ána sem rennur hægt í hlykkjum meðfram þorpinu, ef þeir ætla til borgarinnar, í skólann eða verslanir, og taka sé langa göngu á hendur til næstu brúar (um tvær klukkustundir) eða greiða gjald með áætlunarbílnum, en peningar eru af skornum skammti og ekki auðvelt að afla þeirra.

„Ég verð að fara yfir ána mörgum sinnum á dag,“ sagði hinn 13 ára gamli Sikeli. „Vinir mínir búa hinum megin árinnar.“

Það var langsamlega auðveldast að fara yfir ána, jafnvel þótt notaður væri ótryggur fleki, gerður úr fáeinum bambusstöngum sem bundnar eru saman. Og væru fleiri en tvær manneskjur að bíða þess að komast yfir, var fljótlegra að halda námsbókunum og skólabúningnum fyrir ofan höfuð og synda yfir í fötum sem í lagi væru að blotnuðu, því það var hvort eða er líklegt að maður félli í ána af flekanum.

Þannig var það a.m.k. þar til kirkjan kom til skjalanna og aðstoðaði kirkjuþegna við að ráða bót á málum. Kirkjan útvegaði bát. Maður gæti haldið að um flugvél hefði verið að ræða eftir viðbrögðum kirkjuþegna þar.

„Við erum þakklát fyrir bátinn,“ sagði hin 12 ára gamla Litiana Delai. „Það er mikið auðveldara að komast yfir núna.“

Gleði yfir veittri aðstoð

Bátur Navatuyaba-greinainnar er aðeins eitt af mörgum verkefnum sem Nausori-stika á Fiji-eyjum hefur leyst af hendi fyrir æskufólkið og fleiri kirkjuþegna. Næstum ómögulegt er fyrir ungt fólk að fá vinnu á svæðinu. Það reynist jafnvel foreldrunum erfitt. Það kallar á ýmsa erfiðleika og líkt og aðrir á svæðinu eiga kirkjuþegnar í stöðugri baráttu með að hafa í sig og á.

Hvers vegna eru þessir kirkjuþegnar þá svona glaðværir?

Vegna þess að þeir vita að Drottinn elskar þá.

„Ég veit að himneskur faðir elskar okkur, því að kirkjan hjálpar okkur mikið við að uppfylla þarfir okkar,“ sagði hin 14 ára gamla Makereta Elder.

Stikuleiðtogar hafa hlotið innblástur um að hefja fjölmörg verkefni til að styðja við bakið á kirkjuþegnum og æskufólkið er mikilvægt í útfærsu þeirra. Auk bátsins eru þar einnig gróðurhús, nokkur velferðarbýli og jafnvel búfé. Og æskufólkið í Navatuyaba hefur unun að því að leggja sitt af mörkum.

Reita illgresi saman

Eitt af því sem ekki heyrist oft í Navatuyaba eru lágværar drunur búvéla. En það er að breytast smám saman nú þegar dráttarvél í eigu stikunnar er til í þorpinu.

Unga fólkið sem er sautján að tölu er þakklátt fyrir dráttarvélina. Án hennar yrðu kirkjuþegnar í Navatuyaba að plægja tæplega einn hektara lands á einhvern annan hátt. En ekki eru öll landbúnaðarstörf unnin á dráttarvél. Kirkjuþegnar vinna allir saman við að sá, reita illgresi og uppskera jurtir eins og taro og tapioca.

„Við hjálpum öll á býlinu.“ sagði hinn 15 ára Kuli Qaravanua. „Unga fólkið reitir illgresi og sáir eða sér um að færa hinum follorðnu matarbita.“

„Mér finnst gaman að vinna á býlinu,“ sagði hin 14 ára gamla Maca Baikeirewa. „Ég hjálpa fjölskyldu minni á marga vegu.“

Býlið sér okkur ekki aðeins fyrir mat á borðið. Æskufólkið lærir heilmikið um matjurtaræktun og mikilvægi starfsins.

„Ég held að starfið á býlinu hafi sameinað æskufólkið í greininni,“ sagði hin 18 ára gamla Tulia Tinaimolikula. „Það hefur stuðlað að betri kynnum okkar á meðal.“

En Kuli sagði: „Dráttarvélin og býlið veita okkur öryggistilfinningu. Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvort ég fái að borða á morgun.“

Í sambýli við búfénað

Þótt æskufólkinu finnist gaman að vinna saman við uppskeruna, kemst það ekki í hálfkvist við að hjálpa til við svínin og hænurnar.

Greinin byrjaði með 120 kjúklinga, 64 hænur og fjögur svín, en hyggst fjölga hænunum. Dýrunum verður skipt á milli meðlima greinarinnar og stikunnar. Sum verða seld og öðrum slátrað til matar, en gaman er að hugsa um dýrin.

Kjúklingarnir eru sætir og gaman er að gefa svínunum, en æskufólkið hefur komist að því að erfitt getur reynst að handsama svín sem ekki vill láta ná sér.

Hvatning

Í mörgum löndum er það svo að æskufólk hefur lítinn áhuga á velferðarkerfinu, því það tengist þeim ekki beint. Velferðarkerfi kirkjunnar hefur hins vegar breytt lífi æskufólksins í Navatuyaba með svínum og hænum, dráttarvél og búrekstri.

Báturinn er meira að segja ekki aðeins leið til að komast yfir ána. Greinin getur greitt Litiana-fjölskyldunni fyrir að halda bátnum við með því að ínnheimta fáeina aura af hverjum farþega. Hún og systkini hennar skiptast á um að bregðast við flauti hinum megin árinnar þegar einhver þarf að komast yfir frá þeirri hlið.

„Þetta hefur orðið fjölskyldu minni til blessunar,“ sagði Litiana brosandi. „Það hjálpar okkur að greiða fyrir námsgögn og matvæli. Og við greiðum tíund af því sem við þénum.“

Hinir heilögu í Navatuyaba eru ekki þeir einu sem ekki hafa látið deigan síga í baráttu sinni við hina ýmsu erfiðleika. Drottinn gerir mörgum kleift að sjá sér farborða á erfiðum tímum í gegnum velferðarkerfi og hjálparstarf kirkjunnar. Og það er nokkuð sem vekur bros á vör.

„Sumir eru líkt og steinar sem kastað er í sjó erfiðleika. Þeir sökkva í hyldýpið. Verum líkt og korkur sem alltaf flýtur upp aftur. Þegar miklir erfiðleikar umlykja okkur, berjumst þá til þrautar svo við getum þjónað að nýju með gleði í hjarta.“

Öldungur Richard G. Scott í Tólfpostulasveitinni, “Finding Joy in Life,” Ensign, maí 1996, 24–25.

Prenta