Hin farsæla öldungasveit
Fjórða raðgreinin um prestdæmissveitir og tilgang þeirra
Í nútíma ritningu er ábending um að prestdæmishöfum beri að „leiða Síon aftur,“ eins og Jesaja spáði um (K&S 113:8; sjá Jes 52:1, 8). Í nútíma ritningu er einnig ábending um að öldungum beri að vera „fastaþjónar“ (K&S 124:137). Í þessu felst að stikuforsetar og biskupar reiða sig á að öflugar öldungasveitir uppfylli ætlunarverk kirkjunnar – að bjóða öllum að koma til Krists og fullkomnast í honum – breiða út fagnaðarerindið, fullkomna hina heilögu og endurleysa hina dánu.
Það er erfitt verkefni að byggja upp öfluga sveit. Sveit tekur stöðugum breytingum. Að öllum líkindum eru ekki nógu margir virkir í sveitinni til að heimiliskennslan sé fullmönnuð. Fullorðnir karlmeðlimir flytja oft í burtu eða erfitt reynist að finna þá. Verðandi öldungar eru oft fleiri en virkir öldungar. Trúfastir öldungar ferðast oft vegna atvinnu eða menntunar. Sumir eru kallaðir sem háprestar og öðrum eru falin umfangsmikil verkefni utan sveitarinnar. Spurningin er því þessi: Hvernig getur öldungasveit eflst að styrk þrátt fyrir stöðugar breytingar
Stephen L Richards forseti (1879–1959), fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði: „Sveit er þríþætt: Hún er í fyrsta lagi námsvettvangur, í öðru lagi bræðralagsregla og í þriðja lagi þjónustueining. Í henni læra karlmenn prestdæmisins um reglur fagnaðarerindisins, leggja rækt við bræðralagið og framfylgja verki Krists. Félagsskapur þessi er guðsgjöf sem er gagnlegri bræðrunum en nokkur önnur bræðralagsregla sem er við líði í samfélagi okkar. Megin tilgangur hennar er að hvetja og vernda hinn einstaka.“1
Samkvæmt skilgreiningu Richards forseta, þá felst uppbygging öflugrar sveitar í því að:
-
Styrkja bræðralagsbönd meðal allra sveitarmeðlima.
-
Læra grundvallarreglur og prestdæmisskyldur.
-
Framfylgja þjónustuverkefnum með þátttöku allra í sveitinni.
Hér á eftir eru nokkrar gagnlegar ábendingar um hvernig hægt er að hagnýta sér verkefni til uppbyggingar:
1. Styrkja bræðralagsbönd meðal allra sveitarmeðlima
Tryggja þátttöku allra í sveitinni. Engan ætti að undanskilja, sama hverjar aðstæður eru. Boyd K. Packer, starfandi forseti Tólfpostulasveitarinnar, sagði: „Hann [hinn einstaki sveitarmeðlimur] getur hætt að sýna sveitinni áhuga, en sveitin má aldrei hætta að sýna honum áhuga. Sveitin ber ávallt og ævinlega ábyrgð á þeim sem í henni eru. Ef menn leiða hjá sér óvirkan sveitarmeðlim, hætta að sýna honum áhuga og hafa samband við hann, jafngildir það því að [leiða hjá sér] rétt hans sem prestdæmishafa.“2
Heimsækja. Heimsækja. Heimsækja. Þeir sem skipa forsætisráð öldungasveita hvarvetna um heim segja að heimsóknir þeirra í eigin persónu skipti sköpum við að sameina alla sveitarmeðlimi bræðralagsreglunni. Heimsóknir þessar eru gagnlegastar þegar menn skynja sanna vináttu og einlægan áhuga. Oft er boð um virka þátttöku í sveitinni sett fram og heimilið blessað með því að krjúpa og flytja bæn.
Fela hverjum í sveitinni verkefni. Gordon B. Hinckley forseti lagði áherslu á þetta: „Hver sveit verður að sýna öllum í sveitinni bræðralag, ef tilgangur hennar á að ganga eftir.“3 Þetta fellur vel að þeim orðum hans að sérhver nýskírður (og sveitarmeðlimir) þarf á ábyrgð að halda. Sérhvern meðlim þarf stöðugt að endurnæra andlega með þeirri tilfinningu sem fæst með að þjóna einhverjum í nauð.
2. Læra grundvallarreglur og prestdæmisskyldur
Læra af þeim sem leiða. Öldungasveitarforseti ætti að kenna meðlimum sveitar sinnar það sem hann lærir. Kennsla andans kann að hafa komið í huga hans og hjarta síðast liðna viku. Hann ætti að skrifa hjá sér það sem honum lærist. Hann ætti á samstarfsvettvangi með stikuforseta, biskupsráði og tilnefndum háráðsmanni eða á leiðtogafundum að spyrja sjálfan sig að þessu: „Hvað læri ég hér sem kenna ætti bræðrum mínum í sveitinni“? Ef hann heldur vel utan um minnispunkta sína, mun tækifæri gefast til að miðla af þeim á sveitarfundum, í viðtölum eða á sérstökum stundum sem gefast til leiðsagnar.
Í ritningunum er öldungasveitarforseta boðið að „sitja í ráði með [sveitarmeðlimum] og kenna þeim samkvæmt sáttmálunum“ (K&S 107:89; sjá einnig K&S 20:38–45). Hann getur setið í ráði þegar hann fer í einkaheimsóknir eða er í reglubundnum viðtölum eða er með allri sveitinni.
Læra af þeim sem kenna. Nám og árangursrík kennsla er að hluta háð áhuga og fundarsókn sveitarmeðlima. Þótt sumir kunni að koma í þeim eina tilgangi að heiðra sáttmála sína, þá koma aðrir ákveðnir í að taka þátt og öðlast skilning á kennsluefninu. Kennarar ættu að búa sig undir kennslu með þarfir og þátttöku sveitarmeðlima í huga. Kennarar ættu einnig að kenna með andlegu valdsumboði og leiðsögn, líkt og greint er frá í Kenningu og sáttmálum, kafla 50 (sjá vers 10–25). „Þess vegna skilja hvor annan, sá sem prédikar og sá sem meðtekur, og báðir uppbyggjast og fagna saman“ (K&S 50:22).
3. Framfylgja þjónustuverkefnum með þátttöku allra í sveitinni
Byggja upp stundlegt sjálfsstæði meðal sveitarmeðlima. J. Reuben Clark yngri, forseti (1871–1961), fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, veitti þá leiðsögn að „biskupi bæri að líta á hvern þann sem væri í nauð sem tímabundinn vanda, láta sér annt um hann þar til hann verður sjálfbjarga. Prestdæmissveitin verður á hinn bóginn að líta á bróðir í nauð sem varanlegan vanda, ekki aðeins þar til stundlegar þarfir hans verða uppfylltar, heldur einnig þær andlegu. Hlutstætt dæmi: Biskup veiti handverksmanninum eða iðnaðarmanninum hjálp meðan hann er án atvinnu, en prestdæmissveitin hjálpar honum að útvega sér vinnu og sér til þess að honum vegni vel þar til hann nær að standa fyllilega á eigin fótum og tekur að sinna prestdæmisskyldum sínum.“4
Byggja upp raunhæfa heimiliskennslu. Öldungur L. Tom Perry í Tólfpostulasveitinni veitti góða leiðsögn á alheimsþjálfunarfundi fyrir leiðtoga, 11. janúar, 2003. Hann ræddi um hinar fámennari einingar kirkjunnar. Leiðsögn hans á einnig við um heimiliskennslu fámennrar sveitar. Virka heimiliskennara ætti að tilnefna með hliðsjón af þörfum og einbeita sér fyrst að nýskírðum. Ekki er víst að hægt sé að heimiliskenna öllum um tíma. Öldungur Perry veitti þessa leiðsögn: „Ef þið, prestdæmisleiðtogar, einbeitið ykkur aðeins að því að hjálpa meðlimum að halda sáttmála sína við Drottin, hafið þið uppfyllt stóran hluta af því sem vænst er af ykkur.“5
Kannski hefur Spencer W. Kimball forseti (1895–1985) skilgreint best mikilvægi heimiliskennslu með þessum orðum: „Tíðarandinn er veraldarhyggja. … En Drottinn hefur sett fram gamla áætlun í nýjum búningi, og hún gefur fyrirheit um að snúa heiminum til heilnæms lífernis, til sanns fjölskyldulífs, til sjálfsstæðis fjölskyldunnar. Hún setur föðurinn að nýju réttilega sem höfuð fjölskyldu sinnar, færir móðurina inn á heimilið af vinnumarkaði og félagsstarfi og börnin frá stöðugum ærslum og skemmtunum. Áætlunin um heimiliskennslu, með mikilvægasta verkefninu, fjölskyldukvöldinu, mun gera að engu hin slæmu áhrif, ef fólk aðeins tileinkar sér hana.“6
Hér hefur aðeins verið gerð grein fyrir fáeinum hugmyndum sem koma öldungum að gagni við að byggja upp öfluga sveit. Við njótum mikillar blessunar að taka stöðugt á móti leiðsögn lifandi postula og spámanna. Boyd K. Packer forseti ræddi um ábendingar í handbókum kirkjunnar og í ritningunum og áður gefna leiðsögn lifandi spámanna og lyklana og réttinn að stöðugum persónulegum opinberunum.7 Við eflum kallanir okkar og þroskum anda okkar með því að læra stöðugt og tileinka okkur kenningar lifandi spámanna og leiðtoga.
Öldungasveitir eiga hrós skilið fyrir hið stórkostlega verk þeirra að „leiða fram Síon,“ og uppfylla þannig þann spádóm að búa hina heilögu undir að koma til Krists og Guðs þeirra. Megi Guð blessa þær ríkulega í verkefnum sínum.
PRESTDÆMISSVEITIR
„Það verður dásamlegur dagur, kæru bræður, … þegar prestdæmissveit okkar verður hverjum þeim manni er henni tilheyrir sem akkeri, og hver slíkur getur réttilega sagt: „Ég tilheyri prestdæmissveit Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég er reiðubúinn að aðstoða bræður mína í hvívetna og er þess fullviss að þeir munu gera hið sama gagnvart mér. Ef við störfum saman, munum við þroskast andlega sem sáttmálssynir Guðs. Ef við störfum saman, getum við staðist sérhvern storm mótlætis, óttalaust og vandræðalaust, fjárhagslegan, félagslegan eða andlegan.“
Gordon B. Hinckley forseti, “Welfare Responsibilities of the Priesthood Quorums,” Ensign, nóv. 1977, 86.
ÞAKKLÆTI FYRIR ÖLDUNGASVEIT
Faðir minn gekk í kirkjuna í tilhugalífi hans og móður minnar. Hann var vígður sem öldungur, var virkur um tíma en leiddist svo frá kirkjunni.
Hann hafði ekkert formlegt samband við kirkjuna í um fimmtíu ár. Hann hafði flutt ótal sinnum. Og loks er hann var orðinn 82 ára heilsuveilt gamalmenni, er bjó í suðurhluta Kaliforníu, komu til hans tveir menn. Þeir knúðu dyra sunnudagsmorgun einn. Þeir sögðu: „Við erum hér til að fara með þig á prestdæmisfund.“
Hann var innilega þakklátur fyrir að einhver hafði lagt á sig það ómak að veita honum liðsinni. Þessir menn fóru með föður minn í kirkju – en það hafði sonum hans þremur ekki tekist, nema við sérstök tilefni. Þeir eru gott dæmi um hvernig meðlimir prestdæmissveita ættu að leita þeirra sem í nauð eru. Fjölskylda mín verður alla tíð þakklát þessum sveitarbræðrum.
Öldungur Dale E. Miller, einn hinna sjötíu.