2005
Rósagarðurinn
Apríl 2005


Rósagarðurinn

„Hin guðlega sæluáætlun gerir fjölskylduböndin varanleg handan grafar“ („Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Vonarstjarnan, maí 1996).

Saga byggð á reynslu höfundar

Magni,“ kallaði pabbi. „Skólatími.“ Magni gekk hægt niður stigann og pabbi hans beið eftir honum neðst í stiganum.

„Verð ég að fara?“ spurði Magni „Má skólinn ekki bíða þar til á morgun?“

Pabbi hans hristi höfuðið. „Morgundagarnir eru orðnir æði margir. Ég skil hvernig þér líður, en þú verður að vinna upp námið.“

„Pála kennslukona sendi mér eitthvað af námsefninu,“ sagði Magni.

Pabbi hans stundi og rétti Magna peysu. „Ég þarf að fara í vinnu í dag – og þú þarft að fara í skólann aftur.“

Magni fann að stutt var í tárin. Hann ætlað sko ekki að fara að gráta aftur! „Það er svo erfitt að vera án mömmu.“

Pabbi Magna kraup og faðmaði hann að sér. „Ég veit það.“ Magni sá sársaukann í augum pabba síns.

Þegar Magni gekk út varð honum litið á fallega rósagarðinn hennar mömmu sinnar. En hann var ekki lengur fallegur. Illgresið var alls staðar að koma upp. Hann stundi. Yrði nokkuð eins aftur?

Skólinn var eins og alltaf – hávaðasöm börn skvaldrandi og á hlaupum. Magni neyddi sjálfan sig í kennslustofu þriðja bekkjar.

Sindri, besti vinur hans, veifaði til hans. Magni reyndi að brosa, en tókst ekki vel upp. Hann reyndi að anda djúpt að sér til að koma í veg fyrir grátinn.

Pála kennslukona hóf kennslu. Magni heyrði hana tala, en starði út um gluggann. Sólin skein í heiði. „Hvernig getur heimurinn verið sólríkur þegar mamma er dáin?“ hugsaði hann með sér. Tár streymdi niður vangann.

“Sjáið, Magni er að gráta!“ hrópaði Brynjar, sem sat í næstu sætaröð.

Án umhugsunar stóð Magni upp og hljóp út um dyrnar og út ganginn. Hann ætlaði aldrei að fara í skólann aftur! Hann ýtti á stóra skólahurðina þar til hún opnaðist og hljóp rakleiðis heim. Honum varð kalt peysulausum.

Hann fór í herbergið sitt til að ná sér í yfirhöfn og settist svo í garðróluna sína. Hann sveiflaðist fram og til baka og starði beint niður fyrir sig.

Honum datt í hug að fara til ömmu sinnar, en hún var líka sorgmædd. Hún var vön að hlæja mikið og fara í keilu og baka kökur. Hann velti fyrir sér hvort hún hefði líka farið til vinnu.

Magni sveiflaði sér hærra. Kannski myndi hann detta af rólunni og deyja. Hann gæti þá faið til himins og séð mömmu.

Hann greindi orð líkt og vindurinn gnauðaði í trjánum – „Þá myndi pabbi og amma ekki hafa þig hjá sér. Myndir þú vilja að pabbi færi í burtu?“

Hann stöðvaði róluna, fæturnir skrensuðu í moldinni. Hver hafði sagt þetta? Var það mamma sem talaði frá himnum? Hann litaðist um og sá aðeins laufin bærast með vindinum.

Magni horfði á bláan himininn milli trjánna. „Ég sakna mömmu! Himneski faðir, viltu hjálpa mér!“ Tárin tóku að streyma að nýju.

Skyndilega fékk hann sterka tilfinningu um að fara í rósagarð mömmu sinnar. Hann stóð þar og horfði á vannærða rósarunnana og illgresið umhverfis. Mamma myndi ekki vilja hafa þetta svona! Hann beygði sig niður og tók að reyta illgresið. Hann náði síðan í garðslönguna og vökvaði runnana sem hann hafði reytt í kringum. Senn kæmi vorið og rósir myndu springa út, rauðar, gular og bleikar. Hann velti fyrir sér hvort mamma hans gæti séð þær á himnum. Honum fannst hann einhvern veginn komast nær henni þegar hann vann í rósagarðinum.

Pabbi hans kom á bílnum upp innkeyrsluna. Hann stökk út, hljóp til Magna og faðmaði hann að sér. „Það var hringt í mig úr skólanum.“

„Ég fer aftur á morgun,“ lofaði Magni. „Pabbi, sjáðu rósarunnana.“

„Mamma yrði glöð,“ sagði pabbi hans. „Ég skipti um föt svo við getum unnið saman í garðinum.“

Á meðan Magni reytti illgresi við hlið pabba síns, varð honum hugsað um rósirnar sem ættu eftir að blómstra. Hann fann næstum ilminn. Hann ákvað að færa ömmu sinni nokkrar rósir þegar þær tækju að blómstra.

Magni leit upp og sá Sindra og Brynjar. Drengjunum tveimur varð litið á illgresið.

„Getum við hjálpað?“ spurði Sindri.

Magni kinkaði kolli. Bros færðist hægt yfir andlit hans.

„Kærleiksbönd fær dauðinn ekki slitið. … Fjölskyldubönd eru varanleg vegna innsiglunar í musterinu.“

Öldungur Russell M. Nelson, í Tólfpostulasveitinni, “Doors of Death,” Ensign, maí 1992, 74.

Prenta