2005
Húsið sem reist var fyrir trú
Apríl 2005


Húsið sem reist var fyrir trú

Kvöldið þegar ég og eiginkona mín létum skírast á árinu 1996, reyndu fjölskylda og vinir að koma í veg fyrir það. Við þurftum að kljást við ættingja sem hastarlega gagnrýndu okkar, og sögðu okkur hafa svikið fjölskyldur okkar fyrir kirkjuna og því gætu þau ekki framar elskað okkur. Vinir okkar sneru síðan algjörlega baki við okkur. Í kjölfar þessa fylgdi svo atvinnuleysi og sjúkdómur.

Ég og fjölskylda mín fundum aftur á móti stöðugt betri líðan í hvert sinn er við fórum í kirkju. Við fundum stöðugt meira fyrir andanum í námsbekk okkar. Meðlimirnir studdu við bak okkar og biskupinn kom í heimsókn til að hvetja okkur áfram. Okkur var ljóst af eigin reynslu að fólk sem gagnrýnir kirkjuna fer með rangt mál. Kirkjan var að gera svo ótalmargt gott. Við lærðum um Jesú Krist. Við lærðum að elska og þjóna. Við fórum að sjá eilifðina í samhengi. Þrátt fyrir að allt hafi snúist gegn okkur, gat ekkert breytt þeirri staðreynd að við höfðum spurt Drottin um sannleiksgildi fagnaðarerindisins og hann hafði bænheyrt okkur.

Eitt sinn er við vorum nýskírð og bjuggum hjá föður mínum, kom biskupinn að vitja okkar. Faðir minn rak hann á dyr. Hann sagðist ekki vilja meðlimi kirkjunnar inn fyrir dyr. Biskuðinn hlaut innblástur um að boða okkur í viðtal. Hann sagði að ekki væri ráðlegt að meðlimir og trúboðar kæmu í heimsókn til að styggja ekki fjölskylduna. Hann sagði að við yrðum að vera staðföst og gætum hlotið margar blessanir ef við héldum áfram á hinum krappa og þrönga vegi.

Við gátum ekki stofnað eigið heimili því ég var atvinnulaus. Mér var fyrirmunað að finna góða vinnu eins og áður fyrr. Ég vann lítilsháttar við störf sem voru illa launuð, en okkur tókst að greiða tíund og fórnir, sækja kirkju og greiða fyrir nauðsynlegan mat. Drottinn margfaldaði blessanir okkar og við vorum sannlega hamingjusöm.

Á innsiglunardegi okkar, þegar ég sá syni mína tvo – Luigi, sem þá var 2 ára, og Lucas, sem þá var 1 árs – koma inn í innsiglunarherbergið og leggja hönd sína á hendur okkar við framkvæmd helgiathafnarinnar, grét ég af hamingju. Ég fæ ekki gleymt fallegri umgjörðinni, dásamlegum andanum og tilfinningunni sem ég skynjaði og var virði alls þessa erfiðis.

Erfiðleikunum linnti ekki, en úr sumu rættist. Faðir minn, og frændur og frænkur, hættu að gagnrýna kirkjuna og ömmur okkar og afar tóku að virða ákvörðun okkar. Við reyndum að sýna með fordæmi að kirkjan hefði jákvæð áhrif á líf okkar. Sá stuðningur sem við höfðum af hvort öðru var mikilvægur. Þegar ég kenndi í námsbekk og þjónaði sem ráðgjafi í biskupsráði, studdi eiginkona mín alltaf við bakið á mér.

Árið sem við skírðumst keypti vinur okkar byggingalóð fyrir sig og fjölskyldu sína og jafnframt okkur með því að lána okkur fyrir okkar hluta lóðarinnar. Okkur tók að dreyma um eigið hús. Andinn hvatti okkur og við tókum loks að reikna út kostnað við vinnu og efni. Okkur fannst að einhvern veginn myndi okkur takast að byggja hús til að ala börn okkar upp í fagnaðarerindinu, sinna trúboðsstarfi og taka á móti heimsóknum meðlima.

Að nokkrum tíma liðnum kynntist ég betur bróður Joel, sem nýlega hafði meðtekið skírn í deild okkar. Trú hans var undraverð. Eitt sinn er við vorum að vinna að þjónustuverkefni, sagði bróðir Joel við mig: „José Luis, við getum byggt hús handa þér.“ Ég gat vart haldið aftur af tárunum, en tókst að hafa hemil á mér þar til ég sagði eiginkonu minni frá þessu. Þetta var bænasvar okkar.

Nokkrum dögum síðar sagði vinur minn sem keypt hafði lóðina fyrir sig og okkur að ég gæti fengið alla lóðina fyrir mig og greitt fyrir hana síðar. Ég var ekki í slíkri vinnu að ég gæti leyft mér að kaupa byggingarefni, en ég vissi að Drottinn myndi sjá mér fyrir leið til þess. Nokkrum vikum síðar var mér boðið að vinna fyrir stórt fyrirtæki. Þannig varð draumur okkar um að byggja hús brátt að veruleika.

Hvílík himnasending sem bróðir Joel var. Hann gerði meira en að byggja hús fyrir fjölskyldu mína. Hann var fús til að hjálpa okkur á marga vegu. Við unnum aðeins á laugardögum. Þetta tók tíu mánuði og kom ekki niður á kirkjustarfi okkar. Fleiri kirkjumeðlimir réttu okkur einnig hjálparhönd. Faðir minn léði okkur hönd af og til, sem varð til þess að hann kynntist betur meðlimum kirkjunnar. Hann kynntist einkum bróður Joel, sem var orðinn heimiliskennari okkar.

Laugardag einn hrósaði faðir minn bróður Joel fyrir vinnubrögðin.

Ég sagði: „Pabbi, veistu hve mikið ég greiði fyrir þjónustu hans?“

„Nei,“ svaraði hann.

„Ég greiði ekki krónu,“ sagði ég. „Hann hjálpar okkur vegna þess að hann elskar fjölskylduna mína. Hann er góður maður.“

Mér varð ljóst að föður mínum var brugðið og hann varð hljóður. Ég held að hann hafi verið að hugsa um framkomu sína við biskupinn og trúboðana með eftirsjá. Honum var ljóst að meðlimir kirkjunnar höfðu alltaf komið vel fram við hann.

Dag einn var byggingunni lokið og sextán menn, flestir í kirkjunni, voru þar staddir. Ættingjar mínir og vinir, sem ekki voru í kirkjunni, lærðu heilmikla lexíu þann dag.

Meðan húsið var í byggingu ákváðu bróðir minn og mágkona að gifta sig svo þau gætu látið skírast. Á giftingardegi þeirra varð ég vitni að nokkru sem virtist vera annað kraftaverk: Fjórir trúboðar og margir meðlimir kirkjunnar voru staddir í húsi föður míns.

Við vitum að fagnaðarerindið er sannleikur. Þegar við iðkum trú, færir Drottinn fjöll til að greiða leið okkar. Nú horfi ég á hús okkar sem vitnisburð um að Drottinn elskar börn sín og þekkir þarfir þeirra. Auðvitað eru fleiri fjöll sem þarf að færa, en ef við erum trúföst munum við á þeim sigrast. Við þurfum alltaf að hafa í huga allt sem Drottinn hefur gert fyrir okkur.

José Luis da Silva er í Jardim Presidente Dutra-deild, Guarulhos-stiku São Paulo, Brasilíu.