2005
Margfaldast og uppfylla jörðina
Apríl 2005


STYRKJA FJÖLSKYLDUNA

Margfaldast og uppfylla jörðina

Grein þessi er hluti af raðgreinum til náms á „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“

„Fyrsta boðorðið sem Guð gaf Adam og Evu varðaði mögulegt foreldrahlutverk þeirra sem eiginmanns og eiginkonu. Við lýsum því yfir að boðorð Guðs til barna hans um að margfaldast og uppfylla jörðina er enn í gildi.“1

Börn þykja hafa minna gildi

James E. Faust forseti, fyrsti ráðjafi í Æðsta forsætisráðinu, ræddi um viðhorfsbreytingu gagnvart tilgangi hjónabands, og sagði stöðugt fleira ungt fólk líta á hjónabandið „sem samband para til að svala tilfinningaþörfum hinna fullorðnu, fremur en sem uppeldisstofnun barna.“ …

Annað áhyggjuefni fjölskyldunnar,“ bætti Faust forseti við, „er að börnin eru ekki eins mikils metin og áður. Dregið hefur úr barnsfæðingum á mörgum svæðum heimsins. Fóstureyðingar eru líklega skýrasta merkið um að pör vilja ekki eignast börn. Áætlað er að fjórðungur allra getnaða um heim allan endi með fóstureyðingu.“2

Hörmuleg iðja

Fóstureyðing er líkt og tvíeggjað sverð. Þessi almenna iðja er ávöxtur sjálfselsku og stuðlar að rangri notkun sköpnarkarftsins og gerir auk þessa giftum hjónum, sem ekki geta átt börn, erfiðara fyrir að ættleiða börn.

Árið 1991 gaf Æðsta forsætisráðið út alhliða yfirlýsingu um fóstureyðingu. Við viðurkennum að í ákveðnum „sjaldgæfum tilvikum er hægt að réttlæta fóstureyðingu,“ en leggjum þó áherslu á að „í slíkum tilvikum er fóstureyðing ekki sjálfsögð“ og „hvetjum fólk hvarvetna til að láta af þessari hörmulegu iðju, sem fóstureyðing er, til að firra sjálft sig og samfélagið óþægindum.3

Vissulega er ekki auðvelt að fæða börn og koma þeim til manns. Oftast er það líkamlega sársaukafullt og krefst síðan mikillar fórnfýsi og ósérhlífni. En blessanirnar sem leiða af því að halda boðorð Guðs um að ala upp börn, eru einhverjar þær ljúfustu sem okkur veitast. Og vissulega er foreldrahlutverkið forsmekkur að guðdómi.

Börn utan hjónabands

Þótt boðorðið um að margfaldast og uppfylla jörðina sé afar mikilvægt, þá hefur Drottinn gert ljóst að nauðsynlegt sé að sýna hlýðni við það innan vébanda hjónabandsins. Fjölmargar ástæður eru til þessara takmarkana, en að draga úr lauslæti og varðveita heilnæmar uppeldisaðstæður innan fjölskyldunnar eru tvær þær þýðingarmestu.

Í flestum þjóðfélögum hafa barnsfæðingar utan hjónabands verið taldar vandræðalegar og óæskilegar. En í heimi nútímans er gott kallað illt og illt kallað gott (sjá Jes 5:20) og smánin sem fylgt hefur slíkum barnsfæðingum er að mestu horfin. En iðja þessi er ekki aðeins synd í augum himins, því kannanir sína að fæðing utan hjónabands getur beinlínis verið áhættuvekjandi fyrir barnið. Sé til að mynda gerður samanburður á börnum sem fæðast innan hjónabands og þeim sem fæðast utan hjónabands, kemur í ljós að líklegra er að þau í síðari hópnum deyi ungbarnadauða, deyi vegna meiðsla sem hljótast af slysum eða láti á ungdómsárum leiðast út á braut misgjörða.

Þeim börnum sem fæðast utan hjónabands og gefin eru til ættleiðingar farnast tiltölulega betur en þeim sem ekki eru gefin til ættleiðingar. Þau eiga við færri námsörðugleika að stríða, eru í betri atvinnu og eru ólíklegri til að hljóta félagslega aðstoð yfirvalda á fullorðinsaldri.4 Ljóst er að fæðing barna í þennan heim og uppeldi þeirra að hætti Drottins, veitir andlegar og stundlegar blessanir.

Uppfylla jörðina

Eftir að Drottinn hafði sagt við Adam og Evu „verið frjósöm [og] margfaldist,“ sagði hann „uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna“ (1 Mós 1:28). Hebreska hugtakið sem þýtt er sem uppfylla merkir „að fylla.“ Í mörg ár höfum við hlýtt á viðvörunarraddir um offjölgun og hörmulegar afleiðingar sem af henni hlýst. Þótt hin mikla mannfjölgun á sumum landsvæðum heimsins valdi neikvæðum áhrifum, er þróun mála í heiminum í raun þveröfug. Kannanir gefa vissulega vísbendingu um að árið 2040 nái íbúafjöldi jarðar hámarki og taki síðan að minnka.5

Það sem líklega er mikilvægara viðfangsefni en fólksfjölgunin er nýting þeirra auðlinda sem Guð hefur gefið til að mögulegt sé að fæða og klæða íbúa jarðar nú og um ókomna framtíð. Hann hefur sagt: „Því að jörðin er auðug, af nógu er að taka. … Ef einhver maður tekur því af þeirri gnægð, sem ég hef gjört, og gefur ekki sinn hluta af því til hinna fátæku og þurfandi, í samræmi við lögmál fagnaðarerindis míns, skal hann ásamt hinum ranglátu í kvöl ljúka upp augum sínum í víti“ (K&S 104:17–18). Öldungur Henry B. Eyring í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Það eru ekki barnsfæðingar sem standa hamingju manna fyrir þrifum, og viðhalda fátækt og hungri. Það er vanhæfni fólksins til að nýta jörðina á þann hátt sem Guð gæti kennt því, ef það aðeins spyrði hann og ástundaði svo hlýðni.“6

HEIMILDIR

  1. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Vonarstjarnan, júní 1996, 10.

  2. „Erfiðleikar fjölskyldunnar,“ alheimsþjálfunarfundur leiðtoga, 10. jan. 2004, 2; vitnaði í David Popenoe og Barbara Dafoe Whitehead, “Marriage and Children: Coming Together Again?” í The State of Our Unions 2003: The Social Health of Marriage in America, National Marriage Project (annual report, 2003), 10–11.

  3. Sjá “Church Issues Statement on Abortion,” Ensign, mars 1991, 78.

  4. Sjá vefslóð: www.heritage.org/research/features/familydatabase/ results.cfm?key=463.

  5. Sjá Nicholas Eberstadt, “The Problem Isn’t Overpopulation and the Future May Be Depopulation,” Marriage and Families, apríl 2000, 9–10.

  6. “The Family,” Liahona, okt. 1998, 17.

Prenta