2005
Ég lagði ekki við hlustir
Apríl 2005


Ég lagði ekki við hlustir

Þegar ég var um 17 ára fór ég til frænda míns í hinum enda borgarinnar til að fara þar í kvikmyndahús. Þegar myndin var búin lagði frændi minn til að ég gisti hjá honum, en ég afþakkaði því ég vildi komast heim.

Ég lagði af stað í myrkrinu, því götuljós voru engin. Á þessum tíma í lífi minu skorti mig nokkurt sjálfstraust. Ég tók því að syngja lágt á göngu minni til að dreifa huganum. En ég varð hræddari eftir því sem ég á leið

Þegar leið mín lá fram hjá fótboltavelli, heyrði ég hljóða rödd segja: „Thierry, farðu yfir á gangstéttina hinu megin!“ Ég taldi mér trú um að röddin stafaði aðeins af eigin ótta, svo ég leiddi hana hjá mér. Þegar ég hafði gengið nokkra metra í viðbót, varð röddin ákveðnari: „Thierry, farðu yfir á gangstéttina hinu megin!“ Ég taldi sjálfum mér aftur trú um að ég væri aðeins hræddur. Ég hélt áfram sömu megin götunnar og var nú næstum farinn að hlaupa. Skyndilega heyrði ég í röddinni í þriðja sinn: „Thierry, farðu nú þegar yfir á gangstéttina hinu megin!“ Ég hlýddi ekki.

Ég sá fjóra eða fimm einstaklinga á næsta götuhorni. Ég hljóp yfir götuna, en nú var það of seint. Hópurinn sá mig og réðst til atlögu og tók allt sem ég hafði í vösum mínum. Ég reyndi að verjast, en gat lítið gert. Loks er ég féll til jarðar lét ég sem ég væri meðvitundarlaus. Þegar ég var orðin einn eftir stóð ég upp með erfiðismunum og hljóp eins hratt heim og fætur toguðu.

Nú, tuttugu árum eftir að þetta gerðist, vinn ég að öryggismálum annarra. Ég hef lent í alvarlegri uppákomum en þessari og hlustað á þessa sömu rödd segja mér hvað gera skal. Og ég þarf vart að taka fram að ekki þarf að veita mér þrjár viðvaranir.

Mér er ljóst að þessi reynsla sem ég hlaut ungur að árum, þótt sársaukafull hafi verið, kenndi mér að hlusta á rödd heilags anda. Nú er ég kunnugur þessari röddu.

Thierry Hotz er í Vitrolles-deild, Nice-stiku, Frakklandi.

Prenta