2022
Helgiathafnir musterisins: Búa sig undir að snúa aftur til dvalar í návist Guðs
júlí/ágúst 2022


„Helgiathafnir musterisins: Búa sig undir að snúa aftur til dvalar í návist Guðs,“ Líahona, júlí/ágúst, 2022.

Helgiathafnir musterisins: Búa sig undir að snúa aftur til dvalar í návist Guðs

Ég býð ykkur að læra dyggilega um og meta hið eilífa mikilvægi musterissáttmála, helgiathafna musterisins og musteristilbeiðslu er þið vinnið að því að koma til frelsarans.

Ljósmynd
Opið hús í Mesa musterinu í Arisóna

Ljósmynd af opnu húsi í Mesa musterinu í Arisóna eftir Leslie Nilsson

Verk Guðs og dýrð er að „gera ódauðlegt og eilíft mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39) – til að búa okkur undir að lifa„á æðri og helgari hátt“1 svo að við getum snúið aftur í návist hans.

Í sinni óendanlegu og eilífu miskunn hefur Drottinn, í gegnum spámenn sína og postula, haldið áfram að bjóða sonum sínum og dætrum að búa sig undir komu sína og að verða fólk Síonar – reiðubúin að vera lyft upp til að taka á móti honum (sjá Alma 12:24; 34:32;Kenning og sáttmálar 45:45; 65:5; 88:96–97). Megin áherslan í þeim undirbúningi hefur ávallt verið að læra kenningu Jesú Krists, iðka trú á hann, iðrast og að meðtaka heilaga sáttmála og helgiathafnir.

Dæmi um boð Guðs til fólks síns í Gamla testamentinu, um að búa sig undir að lifa eftir æðra lögmáli og meðtaka sáttmála og helgiathafnir sáluhjálpar, eru leiðbeinandi fyrir okkur í dag.

Í 2. Mósebók hvatti Guð Ísrael til að verða „sérstök eign“ og að helga sig með undirbúningi til að mæta honum (sjá 2. Mósebók 19:4–6, 10–11, 17). Jehóva gaf Ísrael „steintöflurnar, lögin og boðorðin“ (2. Mósebók 24:12) og þau gerðu sáttmála við Guð og sögðu: „Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið“ (2. Mósebók 19:8; sjá einnig 24:3). Drottinn lofaði að ef þau væru hlýðin sáttmálum sínum, myndi hann dvelja meðal þeirra (sjá 2. Mósebók 29:45–46). Þegar Ísrael varð hinsvegar vitni að „dýrð [Drottins]“ (2. Mósebók 24:16) á Sínaífjallinu, urðu þau hrædd, stóðu fjarri og gerðu að lokum uppreisn gegn Guði (sjá 2. Mósebók 20:18–21; 32:1–6).

Annað dæmi úr Gamla testamentinu er þegar Salómón byggði Drottni hús (sjá 1. Konungabók 6:11-13). Sáttmálsörkin og önnur helg ker voru sett í „hið allra helgasta“ (1. Konungabók 8:6) og „dýrð Drottins fyllti musteri Drottins“ (1. Konungabók 8:11). Salómon flutti vígslubæn og bað um veraldlegar og andlegar blessanir yfir hinn iðrandi og bænheita Ísrael. Drottinn heyrði trúarbænir þeirra og lofaði Ísrael miklum blessunum ef hann væri hlýðinn. Þrátt fyrir það yfirgaf Ísrael Drottin og dýrkaði falsguði. (Sjá 1. Konungabók 9–11.)

Aðrir spámenn í Gamla testamentinu reyndu af kostgæfni að helga Ísrael, „svo að [hann] mætti líta ásjónu Guðs, en þeir hertu hjörtu sín og fengu ei staðist návist hans“ (Kenning og sáttmálar 84:23–24).

Ísraelsmenn voru sífellt vantrúa, hræddir og ófúsir til að breytast, þráðu auðveldari leið, sóttust eftir veraldlegum hlutum eða gerðu viljandi uppreisn gegn Drottin og spámönnum hans. Í hvert sinn sem Ísraelsmenn snéru frá Guði og yfirgáfu sáttmála sína og helgiathafnir varð „reiði [Drottins] … tendruð gegn þeim,“ (Kenning og sáttmálar 84:24) og þeir gátu ekki öðlast fyllingu dýrðar hans.

Hinn guðlegi tilgangur samansöfnunar

Í Nýja testamentinu og Mormónsbók er einnig talað um verk Drottins við að safna fólki hans saman og blessa það í gegnum musterissáttmála og helgiathafnir. Frelsarinn harmaði og sagði: „Hversu oft vildi ég safna börnum þínum eins og hænan ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi!“ (Matteus 23:37; sjá einnig 3. Nefí 10:4–6).

Spámaðurinn Joseph Smith útskýrði: „Hver er tilgangur þess að safna … fólki Guðs saman á hvaða veraldartíma sem er? … Megin tilgangurinn er sá að reisa Drottni hús þar sem hann getur opinberað fólki sínu helgiathafnir húss síns og dýrð ríkis síns og kennt því leið sáluhjálpar … í þeim tilgangi … að taka á móti opinberunum frá himnum og fullkomnast í því sem tilheyrði ríki Guðs – en þeir vildu það eigi.“2

Drottinn þráði að safna börnum sínum saman í þessari ráðstöfun og hefur opinberað „það, sem verið hefur hulið allt frá grundvöllun veraldar, … allt, sem tilheyrir þessu húsi og prestdæmi þess“ (Kenning og sáttmálar 124:41–42). Hann hvetur okkur öll til að búa okkur undir að snúa aftur í návist hans – sem er okkur mögulegt í gegnum friðþægingarfórn hans: „Sjá, það er vilji minn að allir þeir, sem ákalla nafn mitt og tilbiðja mig samkvæmt hinu ævarandi fagnaðarerindi mínu, skuli safnast saman og standa á helgum stöðum“ (Kenning og sáttmálar 101:22).

Hvers vegna eru helgiathafnir musterisins svona mikilvægar?

Musterin eru helgustu tilbeiðslustaðirnir. „Allt það sem lærist og sem er framkvæmt í síðari daga musterum leggur áherslu á hina miklu sæluáætlun himnesks föður, guðleika Jesú Krists og hlutverk hans sem frelsara okkar. Sáttmálarnir sem tekið er á móti og helgiathafnirnar sem framkvæmdar eru í musterum, eru öllu heldur nauðsynleg til að helga hjörtu okkar og til endanlegrar upphafningar sona og dætra Guðs.

„Og þetta æðra prestdæmi framkvæmir fagnaðarerindið og heldur lyklinum að leyndardómum ríkisins, já, lyklinum að þekkingu Guðs.

Í helgiathöfnum þess opinberast því kraftur guðleikans.

Og án helgiathafnanna og valds prestdæmisins opinberast ekki hinn guðlegi kraftur mönnum í holdinu“ (Kenning og sáttmálar 84:19–21).

Helgiathafnir sem verðuglega er tekið á móti og stöðugt eru hafðar í huga, munu ljúka upp himneskum farvegi, sem kraftur guðleikans streymir um í lífi okkar. Með því að meðtaka helgiathafnir prestdæmisins og að gera og halda helga sáttmála, erum við tengd frelsaranum með ok okkar (sjá Mattheus 11:28–30)3 og getum verið blessuð með styrk fram yfir okkar eigin, til að sigrast á freistingum og áskorunum jarðlífsins er við búum okkur undir að snúa aftur í návist Guðs.

Blessanir musterissáttmála og helgiathafna

Ljósmynd
Mynd af Jesú Kristi

Hluti af Kristur og barnið unga, eftir Carl Heinrich Bloch

Tvær mikilsverðar blessanir sem hlotnast af musterissáttmálum og helgiathöfnum eru gleði og kraftur.

Lausnarinn er hin fullkomna og eina uppspretta varanlegrar gleði. Sönn gleði kemur frá því að iðka trú á Drottin Jesú Krist, meðtaka helga sáttmála og helgiathafnir verðuglega og á heiðvirðan hátt og að vinna trúfastlega að því að öðlast sterkan vitnisburð um frelsarann og tilgang hans.

Alma kenndi sonum sínum að hægt væri að öðlast meiri heilagleika og gleði í lífi okkar er við hreinsumst og erum helguð í gegnum friðþægingu Jesú Krists. Einungis með því að trúa á Jesú Krist, iðrast stöðugt og halda sáttmála, getum við gert kröfu um þá varanlegu hamingju sem við þráum svo innilega að hljóta og upplifa.4

Vinsamlega takið eftir loforði Russell M. Nelsons forseta um gleði: „Við bjóðum öllum börnum Guðs, báðumegin hulunnar, að taka á móti blessunum hins heilaga musteris, njóta varanlegrar gleði og vera hæf fyrir eilíft líf.“5

Á okkar dögum, er kraftar myrkursins geisa og „skelfingin ógnun oss fær,“6 er verndandi kraftur í boði fyrir hvert okkur í og með musterissáttmálum og helgiathöfnum (sjá Kenning og sáttmálar 38:32; 43:16; 76:39–42; 105:11–12, 33; 138:12–15). Nefí sá sýn og „sá vald Guðslambsins. Það féll yfir hina heilögu í kirkju lambsins og yfir sáttmálsþjóð Drottins, sem dreifð var um allt yfirborð jarðar. Og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð“ (1. Nefí 14:14).

Í vígslubæn Kirtland musterisins bað spámaðurinn Joseph Smith til föðurins „að þjónar þínir megi fara úr þessu húsi brynjaðir krafti þínum“ og „að engin ranglát samtök … [rísi] upp og sigrast á fólki þínu, sem gengst undir nafn þitt í þessu húsi“ (Kenning og sáttmálar 109:22, 26).

Ljósmynd
Kirtland-musterið

Dýrðlegt ljós – Kirtland musterið, eftir Glen S. Hopkinson, óheimilt að afrita

Hvert og eitt okkar ætti að vinna því að læra um og skilja betur hinn verndandi kraft þeirra sáttmála og helgiathafna sem bjóðast í húsi Drottins – svo að við sem lærisveinar munum „standa á helgum stöðum og eigi haggast“ („Kenning og sáttmálar 45:32) og „[veitta] mótstöðu á hinum vonda degi“ (Efesusbréfið 6:13).

Fyrirheit og vitnisburður

Ég býð ykkur að læra dyggilega um og meta hið eilífa mikilvægi musterissáttmála, helgiathafna musterisins og musteristilbeiðslu er þið vinnið að því að koma til frelsarans og meðtaka þær blessanir sem eru mögulegar fyrir friðþægingu hans. Í gleði ber ég vitni um að Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, lifa og að þeirra æðsta þrá er að við snúum aftur í návist þeirra og meðtökum af dýrð þeirra (sjá Kenning og sáttmálar 97:16; 101:38).

Prenta