Ritningar
Kenning og sáttmálar 89


89. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, 27. febrúar 1833. Þar sem bræðurnir notuðu þá tóbak á fundum sínum, tók spámaðurinn að hugleiða málið, og leitaði til Drottins varðandi það. Árangurinn varð þessi opinberun, þekkt sem Vísdómsorðið.

1–9, Notkun víns, sterkra drykkja, tóbaks og heitra drykkja dæmd; 10–17, Jurtir, ávextir, hold, og korn er ætlað mönnum og dýrum til neyslu; 18–21, Hlýðni við lögmál fagnaðarerindisins, þar á meðal Vísdómsorðið, færir stundlegar og andlegar blessanir.

1 Vísdómsorð, til heilla fyrir ráð háprestanna, saman komið í Kirtland, og fyrir kirkjuna og einnig hina heilögu í Síon —

2 Sendist sem kveðja. Ekki sem boðorð eða nauðung, heldur sem opinberun og vísdómsorð, sem sýnir reglu og vilja Guðs varðandi stundlegt hjálpræði allra heilagra á síðustu dögum —

3 Gefið sem regla með fyrirheiti, sniðið eftir getu hinna veiku og veikustu allra heilagra, sem eru eða hægt er að kalla heilaga.

4 Sjá, sannlega segir Drottinn svo við yður: Sökum illsku og klækja, sem finnast og munu finnast í hjörtum undirhyggjumanna á síðustu dögum, hef ég ráðlagt yður og aðvara yður með því að gefa yður þetta vísdómsorð með opinberun —

5 Að ef einhver maður drekkur vín eða sterka drykki meðal yðar, sjá, þá er það hvorki gott né heldur rétt í augum föður yðar, utan þess er þér komið saman til að færa sakramenti yðar frammi fyrir honum.

6 Og sjá, það skal vera vín, já, hreint vín af aldini vínviðarins, sem þér hafið sjálfir gjört.

7 Og enn fremur, sterkir drykkir eru ekki ætlaðir maganum, heldur til að lauga líkama yðar.

8 Og enn fremur, tóbak er ekki ætlað líkamanum og ekki heldur maganum, og er mönnum ekki hollt, heldur er það jurt til að leggja við mar og nota við sjúka nautgripi, og skal notað með dómgreind og kunnáttu.

9 Og enn fremur, heitir drykkir eru ekki ætlaðir líkama eða maga.

10 Og sannlega segi ég yður enn: Guð hefur vígt allar hollar jurtir manninum til styrktar, uppbyggingar og nota —

11 Hverja jurt á árstíð hennar og hvern ávöxt á árstíð hans. Og allt skal þetta notað með fyrirhyggju og þakkargjörð.

12 Já, hold dýra og fugla loftsins hef ég, Drottinn, ætlað manninum að nota með þakklæti, en slíks skal þó neytt sparlega —

13 Og það er mér þóknanlegt að þess skuli ekki neytt, nema um vetur eða þegar kalt er eða sultur sverfur að.

14 Allar korntegundir eru ætlaðar mönnum og dýrum til neyslu, skulu vera aðalviðurværi, ekki aðeins manninum heldur og dýrum merkurinnar og fuglum himins og öllum villtum dýrum, sem hlaupa eða skríða um jörðina —

15 En þau hefur Guð skapað til nytja fyrir manninn aðeins þegar sultur sverfur að eða hungursneyð ríkir.

16 Allar korntegundir eru góðar manninum til viðurværis, svo og ávextir vínviðarins, það sem ávöxt ber, hvort heldur er í jörðu eða á jörðu —

17 Þó, hveiti handa mönnum og maís handa uxum, hafrar handa hestum, rúgur handa fuglum og svínum og handa öllum dýrum merkurinnar og bygg handa öllum nytjadýrum og til mildra drykkja, sem og aðrar korntegundir.

18 Og allir heilagir, sem hafa hugfast að halda þessi orð og fara eftir þeim og ganga í hlýðni við boðorðin, skulu hljóta heilsu í nafla sína og merg fyrir bein sín —

19 Og munu finna vísdóm og mikinn þekkingarauð, jafnvel hulinn auð —

20 Og munu hlaupa án þess að þreytast og ganga án þess að örmagnast.

21 Og ég, Drottinn, gef þeim fyrirheit um að engill tortímingarinnar muni leiða þá hjá sér, eins og börn Ísraels, og eigi deyða þá. Amen.