2023
Hringekjugóðvild
Mars 2023


„Hringekjugóðvild,“ Barnavinur, mars 2023, 28–29.

Hringekjugóðvild

Damien vildi að hann hefði ekki hrópað á systur sína.

Ung stúlka ríður hesti á hringekju á meðan hún heldur á priki

Þegar Damien gekk inn í garðinn heyrði hann gleðilega tónlist hljóma. Amma hans var að fara með hann og litlu systur hans, Adele, að uppáhalds hringekjunni hans. Þar var skemmtilegur leikur með hringi. Damien var spenntur að sýna Adele hvernig leikurinn væri.

Fljótlega voru þau í röð. Hringekjan var stór og litrík, með fullt af útskornum hestum. Brosandi krakkar sátu á hestunum og veifuðu þegar þeir fóru hring eftir hring.

„Ef þú velur hest við kantinn geturðu farið í hringleikinn! sagði Damien við Adele. „Sérðu prikin sem krakkarnir halda á? Sérðu líka manninn með hringana?“

Damien benti á starfsmanninn. Hann stóð nálægt hringekjunni og rétti fram hring. Þegar þau riðu framhjá á hringekjunni reyndu börnin að stinga prikinu sínu í gegnum hringinn til að ná honum. Í hvert sinn sem þau náðu hring rétti starfsmaðurinn fram nýjan hring.

Adele klappaði höndunum. „Ég vil ná öllum hringunum!“ sagði hún.

Loksins komust þau fremst í röðina. Það var þó aðeins einn hestur laus á hringekjunni.

„Damien,“ sagði amma, „af hverju leyfum við Adele ekki að taka þennan síðasta hest, þar sem hún hefur aldrei áður farið í hringekjuna? Þú getur farið í næstu ferð.“

„Allt í lagi,“ muldraði Damien. Hann horfði á starfsmanninn hjálpa Adele upp á gljáandi brúnan hestinn. Starfsmaðurinn rétti Adele síðan prik til að ná hringum.

Tónlistin byrjaði og hringekjan tók að snúast. Damien stóð til hliðar með ömmu og horfði á Adele. Adele hélt þó á prikinu öfugu! Í stað þess að halda í stóra handfangið á prikinu, hélt hún í langa, mjóa endann sem nota átti til að ná hringunum.

Strákur hrópar

„Adele, snúðu prikinu þínu við!“ hrópaði hann. Adele virtist ekki heyra í honum fyrir hávaðanum. Þegar hún fór framhjá hringnum, rakst prikið hennar í hann. Handfangið var hins vegar of stórt til það passaði inn í hringinn.

„Adele, prikið þitt!“ Damien reyndi aftur. „Þú munt ekki geta gripið hringa, ef þú heldur á prikinu svona!“

Adele heyrði samt ekki í honum. Hún brosti bara og hló þegar hringekjan snerist. Prikið hennar rakst aftur og aftur á hringinn. Hún náði ekki einum einasta.

Damien stundi. Adele var að sóa ferðinni sinni! Ef hann væri á hringekjunni, myndi hann ná öllum hringunum.

Þegar ferðinni lauk hljóp hann upp að Adele.

„Ég sagði þér hvernig þú átt að halda á prikinu!“ hrópaði hann. „Af hverju hlustaðirðu ekki á mig? Þú gerðir þetta allt vitlaust!“

Adele hrópaði ekki til baka á Damien. Hún grét ekki. Hún stóð bara þarna og leit út fyrir að vera agnarsmá.

Hjarta Damiens sló hratt og andlitið hitnaði. Það gerði hann reiðan að horfa á Adele missa af öllum þessum hringum! Þetta var þó bara í fyrsta skipti sem hún gerði þetta. Að auki leit hún út fyrir að skemmta sér vel. Fram að þessu.

Damien leið hræðilega. Hann vildi að hann hefði ekki hrópað á Adele.

„Fyrirgefðu,“ sagði hann blíðlega. „Þetta var ekki fallegt af mér.“

Adele leit upp.

„Hvað ef ég gef þér ráð til að ná hringum? sagði Damien. „Ég skal sitja við hliðina á þér á hringekjunni og hjálpa þér.

Adele kinkaði kolli.

Systir og bróðir haldast í hendur

Damien snéri sér síðan að ömmu. „Eigum við að fá tvo miða svo Adele geti reynt aftur?

Amma brosti. „Auðvitað.“

Þessi saga gerðist í Frakklandi.

PDF saga

Myndskreyting: Violet Lemay