2023
Standa við loforð hans
Mars 2023


„Standa við loforð hans,“ Barnavinur, mars 2023, 10–11.

Standa við loforð hans

Ég sagði pabba ósatt rétt í þessu. Hvað nú?

Þessi saga gerðist í Gana.

Drengur skírður

„Bara sex dagar fram að skírninni minni!“ sagði Happiness. Dagurinn var næstum runninn upp!

„Ertu tilbúinn?“ spurði pabbi.

„Ég held það,“ sagði Happiness.

„Þegar við skírumst, gerum við sáttmála,“ sagði pabbi. „Manstu hvað í því felst?“

„Það er loforð, ekki satt?“

Pabbi kinkaði kolli. „Já! Þú lofar að fylgja Jesú Kristi og halda boðorðin. Himneskur faðir lofar að blessa og hjálpa þér.“

Happiness brosti. Hann vissi að það loforð var mikilvægt. Hann hlakkaði til að strengja þetta heit!

Loks rann skírnardagurinn hans upp. Happiness fór í hvít föt. Tvö önnur börn voru líka að skírast. Þau horfðu öll á þegar skírnarfonturinn fylltist af vatni.

Þegar kom að Happiness, fór hann og pabbi ofan í fontinn. Pabbi flutti skírnarbænina. Happiness hélt fyrir nefið og pabbi dýfði honum öllum ofan í vatnið.

Þegar Happiness kom upp úr aftur, leið honum svo vel hið innra! Hann vildi halda loforð sitt um að fylgja Jesú. Hann langaði að finna slíkan hreinleika og hamingju að eilífu. Hann vildi aldrei aftur gera eitthvað rangt.

Nokkrum dögum síðar vaknaði Happiness og kveikti á vatnshitaranum, svo hann gæti farið í bað. Það tók langan tíma fyrir vatnið að hitna. Happiness kveikti því á sjónvarpinu. Hann langaði að horfa á teiknimyndir meðan hann beið.

Happiness hló þegar hann horfði á dýrin tala á skjánum. Þessi þáttur var svo fyndinn! Fljótlega gleymdi hann algjörlega vatnshitaranum.

Klukkustund síðar gekk pabbi inn í herbergið. „Hversu lengi hefur verið kveikt á vatnshitaranum?“ spurði hann.

Happiness leit upp. Hann hafði horft á sjónvarpið mun lengur en hann ætlaði!

„Ekki mjög lengi,“ sagði Happiness. „Bara nokkrar mínútur.“ Hann slökkti á sjónvarpinu og hljóp til að fara í bað.

Happiness leið illa hið innra það sem eftir var dags. Eftir skírnina sína vildi hann aldrei breyta rangt. Hann hafði þó sagt pabba ósatt!

Drengur með hönd sína á höfði

Happiness andvarpaði. Hann vissi hvað hann varð að gera.

„Hey pabbi,“ sagði Happiness. „Ég sagði ósatt. Ég fór frá vatnshitaranum langa stund, en ég ætlaði það ekki. Fyrirgefðu.“

„Það er í lagi. Takk fyrir að segja mér það,“ sagði pabbi.

„Mér líður mjög illa, því ég braut skírnarloforðið mitt,“

Pabbi settist á sófann hjá Happiness. „Þegar þú varst skírður, þá lofaðir þú ekki að vera fullkominn. Þú lofaðir að reyna þitt besta til að fylgja Jesú.“

Happiness kinkaði kolli. Þetta bætti líðan hans örlítið.

„Veistu hvað þú getur gert þegar þú breytir rangt?“ spurði pabbi.

„Iðrast,“ sagði Happiness.

„Það er rétt! Þegar við iðrumst, þá fyrirgefur himneskur faðir okkur. Við getum þá orðið jafn hrein og við vorum daginn sem við vorum skírð. Að iðrast, er hluti af því að halda skírnarloforðið þitt.“

Happiness brosti. „Ég ætla að flytja bæn og biðja himneskan föður að fyrirgefa mér.“ Hann var glaður yfir að geta haldið skírnarloforðið sitt.

Drengur krýpur og flytur bæn
PDF saga

Myndskreyting: Macky Pamintuan