Boðskapur Æðsta forsætisráðsins
Er við sækjum áfram saman
Mínir kæru bræður og systur, hve auðmjúkur ég er að vera meðal ykkar í dag. Fyrir fjórum dögum jarðsettum við risa að manni, spámann Guðs — Thomas S. Monson forseta. Engin orð nægja til að lýsa hans stórbrotna og mikilfenglega lífi. Ég mun ævinlega varðveita vináttu okkar af þakklæti fyrir það sem hann kenndi mér. Við verðum nú að horfa til framtíðar af sterkri trú á Drottin Jesú Krist, hvers kirkja þetta er.
Fyrir tveimur dögum áttu allir hinir lifandi postular samfund í efri sal Salt Lake musterisins. Þar var tekin samhljóma ákvörðun. Í fyrsta lagi að samþykkja Æðsta forsætisráðið eins og það er nú og að ég myndi þjóna sem forseti kirkjunnar. Orð nægja ekki til að lýsa því hvernig mér leið er bræður mínir — bræðurnir sem hafa alla lykla prestdæmisins, sem endurreistir voru með spámanninum Joseph Smith á þessum ráðstöfunartíma — settu hendur á höfðu mitt til að vígja mig og setja í embætti sem forseta kirkjunnar. Það var helg og auðmjúk upplifun.
Sú ábyrgð var síðan mín að komast að því hverja Drottinn hafði undirbúið sem ráðgjafa mína. Hvernig gat ég valið einungis tvo af þeim tólf postulum, sem ég ann svo innilega? Ég er innilega þakklátur Drottni fyrir að svara heitum bænum mínum. Ég er afar þakklátur fyrir að Dallin Harris Oaks forseti og Henry Bennion Eyring forseti séu fúsir til að þjóna með mér sem fyrsti og annar ráðgjafi, í þessari röð. Dieter F. Uchtdorf forseti hefur tekið sæti sitt í Tólfpostulasveitinni. Hann hefur þegar fengið úthlutað meiriháttar verkefnum, sem hann er einmuna hæfur til að leysa.
Ég vegsama bæði hann og Eyring forseta fyrir þeirra einstæðu þjónustu sem ráðgjafar Monsons forseta. Þeir hafa verið afar hæfir, hollir og innblásnir. Við erum þeim afar þakklátir. Hver þeirra er nú fús til að þjóna hvar sem mest þörf er fyrir þá.
Gefið er að Oaks forseti, sem hefur næst lengsta starfsaldurinn, verði forseti Tólfpostulasveitarinnar. Þar sem hann hefur hins vegar verið kallaður í Æðsta forsætisráðið og í samhljóm við reglur kirkjunnar, þá mun öldungur M. Russell Ballard, sem hefur lengstan starfsaldur á eftir honum, þjóna sem starfandi forseti Tólfpostulasveitarinnar. Æðsta forsætisráðið mun starfa samhliða Tólfpostulasveitinni við að finna út vilja Drottins og þoka þessu heilaga verki áfram.
Við erum þakklátir fyrir bænir ykkar. Þær hafa verið fluttar hvarvetna um heim í okkar þágu. Að morgni, daginn eftir andlát Monsons forseta, var ein slík bæn flutt af fjögurra ára snáða, að nafni Benson. Ég vitna í hluta af bréfi móður hans, sem hún skrifaði eiginkonu minni, Wendy. Benson bað: „Himneskur faðir, þakka þér fyrir að Thomas S. Monson forseti fær nú að sjá eiginkonu sína aftur. Þakka þér fyrir nýja spámanninn okkar. Hjálpaðu honum að sýna hugrekki og hræðast ekki sýna nýju köllun. Hjálpaðu honum að vaxa og verða heilbrigður og sterkur. Hjálpaðu honum að hljóta kraft, því hann hefur prestdæmið. Hjálpað okkur líka að vera alltaf góð.”
Ég þakka Guði fyrir slík börn og foreldra sem hafa það meðvitað að marki að ala börn sín upp í réttlæti — fyrir alla foreldra, kennara og meðlimi sem bera þungar byrðar og þjóna samt fúslega. Með öðrum orðum, þá er ég innilega þakklátur fyrir sérhvert ykkar.
Drottinn er við stjórnvölinn.
Er við sækjum áfram saman, þá býð ég ykkur að hugleiða á hve stórbrotinn hátt Drottinn stjórnar kirkju sinni. Þegar forseti kirkjunnar andast, þá er engin launung varðandi það hver verður næst kallaður til að þjóna í því embætti. Engin kosning eða samkeppni fer fram, heldur einungis kyrrlát framkvæmd guðlegrar tilskipunar erfðaréttar, sem Drottinn sjálfur koma á fót.
Hver dagur þjónustu sem postuli er dagur lærdóms og undirbúnings fyrir aukna ábyrgð í framtíðinni. Það tekur áratuga þjónustu fyrir postula að auka við starfsár sín og embættisstöðu. Á þeim tíma hlýtur hann milliliðalaust reynslu á hverju verksviði kirkjunnar. Hann verður líka vel kunnugur þjóðum heimsins, þar með talið sögu þeirra, menningu og tungu þar sem hans úthlutuð verkefni eru víða um heim. Þetta ferli erfðaréttar leiðtoga í kirkjunni er einstakt. Ég þekki ekkert sem er þessu líkt. Það ætti ekki að koma okkur á óvart, því þetta er kirkja Drottins. Hann starfar ekki að hætti mannsins.
Ég hef þjónað í Tólfpostulasveitinni undir leiðsögn fimm fyrrverandi forseta kirkjunnar. Ég hef fylgst með hverjum forseta hljóta opinberun og bregðast við henni. Drottinn hefur og mun ætíð fræða og innblása spámenn sína. Drottinn er við stjórnvölinn. Við sem höfum verið vígðir til að bera vitni um hans heilaga nafn hvarvetna um heim, munum halda áfram að leita vilja hans og fylgja honum.
Haldið ykkur á sáttmálsveginum
Við alla meðlimi kirkjunnar segi ég: Haldið ykkur á sáttmálsveginum. Skuldbinding ykkar um að fylgja frelsaranum, með því að gera sáttmála við hann og síðan að halda þá sáttmála, mun ljúka upp dyrum sérhverrar andlegrar blessunar og forréttinda, fyrir karla, konur og börn hvarvetna.
Sem nýtt Æðsta forsætisráð, þá viljum við byrja með endinn í huga. Af þeirri ástæðu, þá tölum við til ykkar í dag frá musteri. Endapunktur þess erfiðis sem hvert okkar stefnir að er að hljóta kraft í húsi Drottins, innsiglast sem fjölskyldur, að vera trúföst sáttmálunum sem við gerðum í musterinu, sem gera okkur hæf fyrir æðstu gjöf Guðs — sem er hið eilífa líf. Helgiathafnir musterisins og sáttmálarnir sem þið gerið þar, eru lykilinn að því að styrkja eigið líf, hjónaband ykkar og fjölskyldu og gera ykkur hæf til að standast árásir óvinarins. Tilbeiðsla ykkar í musterinu og þjónusta þar í þágu áa ykkar, mun blessa ykkur með fleiri persónulegum opinberunum og auknum friði og veita ykkur styrk til að halda ykkur á sáttmálsveginum.
Ef þið hafið farið út af þeim vegi, þá hvet ég ykkur af allri hjartans von, að snúa aftur á hann. Hverjar sem áhyggjur ykkar eru eða áskoranir, þá er staður fyrir ykkur hér í kirkju Drottins. Þið sjálf og komandi kynslóðir munuð hljóta blessun af viðleitni ykkar nú til að fara aftur á sáttmálsveginn. Faðir okkar á himnum elskar börn sín og vill að sérhvert þeirra komi aftur heim til sín. Það er hið æðsta markmið Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu — að hjálpa hverju okkar að komast heim aftur.
Ég tjái ykkur mína hjartans elsku — elsku sem hefur vaxið af áratuga samskiptum við ykkur, tilbeiðslu og þjónustu með ykkur. Okkar guðlega hlutverk er að fara til sérhverrar þjóðar og kynkvíslar, tungu og lýðs og búa heiminn undir síðari komu Drottins. Það munum við gera í trú á Drottin, Jesú Krist, vitandi að hann er við stjórnvölinn. Þetta er hans verk og kirkja. Við erum hans þjónar.
Ég lýsi yfir hollustu minni við Guð, okkar eilífa föður og son hans, Jesú Krist. Ég þekki og elska þá og heiti því að þjóna þeim — og ykkur — af öllum lífsins mætti. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.