2018
Raunveruleiki upprisunnar
April 2018


Uns við hittumst á ný

Raunveruleiki upprisunnar

Úr ræðu fluttri á aðalráðstefnu í apríl 2014.

Jesús Kristur er í raun eina nafnið eða eini vegurinn sem mannkynið getur hlotið hjálpræði fyrir.

cloths on a bench

Teikning eftir Yajaira Ramos

Íhugið eitt augnablik, mikilvægi upprisunnar í því að staðfesta, í eitt skipti fyrir öll, hið sanna auðkenni Jesú frá Nasaret og að leysa miklar heimspekideilur og svara spurningum lífsins. Hafi Kristur í raun bókstaflega risið upp, hlýtur það að benda til þess að hann sé guðleg vera. Enginn dauðlegur maður getur á eigin spýtur lifað aftur, eftir að hafa dáið. Þar sem Jesús reis upp, þá hefur hann ekki aðeins verið trésmiður, kennari, rabbíni eða spámaður. Þar sem Jesús reis upp, hlýtur hann að hafa verið Guð, Já, hinn eingetni sonur föðurins.

Það sem hann kenndi er því sannleikur; Guð getur ekki logið.

Hann var því skapari þessarar jarðar, líkt og hann sagði.

Himinn og helja eru því raunveruleg, líkt og hann kenndi.

Það er því til andaheimur, sem hann vitjaði eftir dauða sinn.

Hann mun því koma aftur, líkt og englarnir sögðu, og „ríkja sjálfur á jörðu” [Trúaratriðin 1:10].

Þess vegna er upprisa og lokadómur fyrir alla.

Þar sem raunveruleiki upprisu Krists er okkur gefinn, þá eiga efasemdir um almætti, alvisku og góðvild Guðs föðurins – sem gaf sinn eingetna son til endurlausnar heimsins – ekki við rök að styðjast. Efasemdir um tilgang og inntak lífsins eru tilefnislausar. Jesús Kristur er í raun eina nafnið eða eini vegurinn sem mannkynið getur hlotið hjálpræði fyrir. Náð Krists er raunveruleg. Hún veitir bæði fyrirgefningu og hreinsar hinn iðrandi syndara. Trú er sannlega meira en ímyndun eða sálfræðilegur tilbúningur. Það er til endanlegur og altækur sannleikur og það eru til afmarkandi og óumbreytanlegir siðferðisstaðlar, líkt og hann kenndi.

Sé gengið út frá raunveruleika upprisu Krists, þá er iðrun hvers kyns brota á lögmálum og boðorðum hans bæði möguleg og brýn. Kraftaverk frelsarans voru raunveruleg, sem og loforð hans til lærisveina sinna um að þeir gætu líka gert þau og jafnvel enn undursamlegri verk. Prestdæmi hans er nauðsynlegur og raunverulegur kraftur, sem „framkvæmir fagnaðarerindið og heldur lyklinum að leyndardómum ríkisins, já, lyklinum að þekkingu Guðs. Í helgiathöfnum þess opinberast því kraftur guðleikans“ [K&S 84:19–20]. Þar sem raunveruleiki upprisu Krists er okkur gefinn, er dauðinn ekki endalok okkar, og þótt „húð [okkar] verði sundurtætt og allt hold af [okkur], munum [við] samt líta Guð í holdinu“ [Job 19:26].