Skóbúð Abuelos
Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.
„Við þurfum í raun að vera líkari þessum skó,“ sagði afi.
“’Fyrirgefðu,’ er oft ei auðvelt að segja” (Children’s Songbook, 98).
Miguel opnaði dyrnar að skóbúð abuelos (afa síns). Hann fann ilminn af leðrinu sem Abuelo vann með. Honum fannst hann einn besti ilmurinn.
„Sæll, Abuelo!“
Abuelo kraup og dró upp fótarstærð viðskiptavinar á blað. Hann leit ekki upp. Abuelo heyrði fremur illa.
Miguel settist á vinnubekk. Hann horfði á bunkana af sniðnu leðri Hann hugsaði með sér hvað Abuelo myndi gera við hvern þeirra með hamrinum og tönginni.
Verkfærin minntu Miguel á nokkuð annað sem hann naut innilega. Abuelo gaf Miguel alltaf sælgætismola eftir að hann hafði hjálpað við tiltektir.
Miguel var nú þegar svangur! Hann vissi að hann mætti ekki taka sér mola án þess að spyrja, en Abuelo virtist vera önnum kafinn um hríð. „Kannski þarf ég ekki að bíða,“ hugsaði Miguel.
Miguel teygði sig undir afgreiðsluborðið eftir sælgætiskrukkunni. Hún var full af dásamlegu sælgæti – sætu og með bragðgóðri piparhúð! Þegar Miguel opnaði hana fannst honum það svolítið óþægilegt. Sælgætismolinn var samt svo freistandi. Hann flýtti sér að setja hann upp í sig.
Nokkru síðar fór viðskiptavinurinn. Abuelo tók upp leðurbút og bleytti vel í honum. Það hélt leðrinu mjúku, svo auðvelt væri að vinna það.
Miguel hámaði í sig restina af sælgætinu eins hratt og hann gat. Síðan gekk hann yfir til Abuelo.
„Hæ!“ sagði Abuelo brosandi. „Það er gaman að þú komst að hitta mig.“
Miguel faðmaði Abuelo. Hann vonaði að Abuelo sæi ekki að hann hefði borðað sælgætið. Miguel ýtti þeim áhyggjum frá sér.
„Þú virðist hafa nóg að gera í dag,“ sagði Miguel og benti á leðurbúnkana. „Þarftu nokkuð hjálp?“
„Já, takk! Vitlu rétta mér þráðinn þarna?“
Miguel teygði sig eftir löngum þræðinum. Hann strekkti á honum á milli handa sér. Hann var sterkari en sýndist.
„Vá, hann er sterkur.“
Abuelo kinkaði kolli. „Hann verður að vera það til að endast í gegnum áraunir lífsins.“ Abuelo stakk þræðinum í gegnum leðrið. Síðan setti hann upp þann svip sem Mamá sagði stundum vera „viskusvip Abuelo.“
„Við þurfum í raun að vera líkari þessum skó,“ sagði Abuelo nikkandi.
Miguel pírði augum á leðrið. „Ha. Er það?“
„Já, akkúrat. Við þurfum að vera sterk. Freistingar Satans geta þá ekki unnið okkur tjón.
Rauði sælgætismolinn kom upp í huga Miguels. Hann vissi að hann ætti að segja Abuelo frá honum.
Abuelo tók gamlan skó úr hillunni. „Sjáðu þetta stóra gat?“
Miguel hefði líklega getað komið hendinni í gegnum gatið. „Já.“
„Þetta var eitt sinn lítið gat sem auðvelt hefði verið að laga. Það var þó látið dragast og nú er mun erfiðara að laga skóinn. Þetta á líka við um slæmar venjur og ákvarðanir. Best er að leiðrétta þær strax.“
Abuelo nikkaði aftur og viskusvipur hans breytist í bros. Þeir héldu spjallinu áfram meðan Abuelo vann. Allan þann tíma hélt sælgætismolinn áfram að angra Miguel.
Þegar Abuelo lauk verkinu, hjálpaði Miguel honum að ganga frá. Abuelo teygði sig þessu næst eftir sælgætiskrukkunni.
Miguel gat ekki setið á sér lengur. „Ég tók einn sælgætismola!“ missti hann út úr sér.
Abuelo lagði frá sér krukkuna. „Hvað segirðu?“
Miguel sagði frá því að hann hefði tekið mola í leyfisleysi. „Fyrirgefðu,“ Abuelo! Ég lofa því að gera þetta aldrei aftur!“
Abuelo faðmaði Miguel þétt að sér. Miguel leið svo mikið betur.
„Takk fyrir að vera heiðarlegur. Það er mér mikilvægara en nokkuð annað.“
Á heimleiðinni leið Miguel eins og hann væri nýju skórnir hans Abuelo. Sterkur eins og vera má og reiðubúinn til að takast á við lífið!