2018
Þekkja frelsarann
April 2018


Þekkja frelsarann

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Þegar þið lærið um Jesú Krist, þá fyllist þið friði og nálægð hans.

Christ praying

Hluti af Hvar eru hinir níu, eftir Liz Lemon Swindle

Ímyndið ykkur að þið læsuð allt um frelsarann í ritningunum – í Biblíunni, Mormónsbók, Kenningu og sáttmálum og Hinni dýrmætu perlu. Talandi um tíma og mikla vinnu! Í janúar 2017 skoraði Russell M. Nelson, á okkur að gera einmitt það – að læra um allt það í helgiritunum sem Jesús sagði og gerði. Nelson forseti sagði að þetta verkefni hefði gert hann að „nýjum manni.“ Hann hefði ekki aðeins lært meira um Jesú Krist, heldur fundið aukna tryggð til hans.1

Þið getið líka fundið aukna nálægð Krists með því að læra um hann. Að læra um líf hans og tilgang fyllir ykkur friði og eykur þekkingu ykkar á honum og himneskum föður. Lesið um það hvernig unga fólkið hér svaraði tveimur spurningum: (1) Hver er þín eftirlætis frásögn í ritningunum um frelsarann og af hverju? (2) Hvernig hefur trúarnám þitt aukið þér frið?

Frásögnin um holdsveikumennina tíu er mér kær, því Kristur sýndi þeim sem þakkaði honum svo mikla elsku. Hann sagði: „Trú þín hefur bjargað þér“ (Lúk 17:19; sjá vers 11–19). Ég ann þeirri einlægu góðvild sem hann sýnir öllum.

Allir í skólanum mínum hafa þörf fyrir frið og huggun, því nýverið gerðust þar sorglegir atburðir. Ég hef fundið styrk og frið í gegnum trúarskólanámið mitt. Trúarskólakennararnir gera ritningarnar og fagnaðarerindið að persónulegri upplifun fyrir alla. Það er afar svalt að sjá muninn á trúarskólastofu og venjulegri skólastofu. Tilfinningin þar er bara allt önnur og vekur mér frið.

Gabriel S., 16 ára, Kóloradó, Bandaríkjunum

Af frásögn Alma um trú og orð Guðs (sjá Alma 32:18–43) hefur mér lærst að við öðlumst elsku þegar við sýnum elsku. Líkt og Alma útskýrir fyrir Sóramítum, þá er trú eins og sáðkorn. Hún er að trúa að eitthvað sé sannleikur, án þess að sjá það berum augum. Trúin vex þegar við þráum að trúa og hlýða á orð Guðs. Allt hefur þetta veitt mér rósemd, styrkt mig í hjarta og veitt mér vitnisburð um að himneskur faðir lítur mig augum kærleika og miskunnar.

Þegar ég læri ritningarnar dag hvern, hlýt ég aukinn skilning á kærleikanum sem frelsarinn hefur til sérhvers okkar. Þessi vitneskja auðveldar mér að útskýra fyrir vinum mínum í skólanum að þau eru ekki einsömul í erfiðleikum sínum, því að Guð elskar þau.

Maria D., 17 ára, Guadalajara, Spáni

Christ with children

Hluti af Kristur og börnin í Mormónsbók, eftir Del Parson

Mér finnst dásamlegt að lesa frásögnina í 3. Nefí, kapítula 17, um heimsókn frelsarans til Ameríku og þegar hann bauð börnunum að koma til sín. Hann sat með þeim og varði tíma með hverju þeirra. Mér finnst það dásamleg frásögn, sem sýnir hver Jesús Kristur er og hve heitt hann elskar okkur öll. Ég trúi að hann muni sitja þannig með sérhverju okkar þegar við þörfnumst hjálpar hans.

Á þessu ári tók ég þeirri áskorun að lesa eina síðu í ritningunum dag hvern. Nú er svo komið að ég hlakka dag hvern til þeirrar stundar. Ég hef lært svo margt af orðum og frásögnum ritninganna, þegar ég hef varið tíma til að ígrunda efnið og ég finn aukna nálægð við himneskan föður og frelsarann samfara slíku námi. Það hefur fyllt líf mitt friði.

Anna C., 17 ára, Montana, Bandaríkjunum

Mér finnst dásamlegt að lesa um heimsókn Krists til Ameríku, þegar hann spyr hvort einhverjir sjúkir og aðþrengdir séu meðal fólksins og læknar þá síðan. Að því loknu blessaði hann litlu börnin. (Sjá 3 Ne 17.) Mér finnst sú frásögn mjög áhrifarík. Ég hef gaman að litlum börnum og finnst yndislegt þegar fólk sýnir þeim aukna gæsku, því börnin eru svo hrein og saklaus. Sú frásögn ber vitni um hina djúpu ást frelsarans til okkar. Þar sem hann elskaði fólkið á þeim tíma svo heitt og sýndi það með gjörðum sínum, þá elskar hann okkur öll líka.

Í Jesaja 53:3 segir að frelsarinn hafi verið „harmkvælamaður og kunnugur þjáningum.“ Þegar ég hugsa um friðþægingu Krists, það sem hann þurfti að þola okkar vegna og að ég geti hlotið fyrirgefningu þegar ég iðrast synda minna, þá fyllist ég friðsæld. Margir í Mormónsbók – eins og synir Mósía, Ammon og Alma yngri – áttu sér brösótta fortíð, en þeir hlutu samt fyrirgefningu. Þeir snéru sér til Krists, iðruðust og sýndu dásamlegt fordæmi sem við getum nú lært af. Mér finnst það hughreystandi að vita að ég geti einnig hlotið fyrirgefningu.

Alina T., 18 ára, Oregon, Bandaríkjunum

Eftirlætis frásögnin mín er um Jesú er hann breytti vatni í vín í brúðskaupsveislu, að hvatningu móður sinnar (sjá Jóh 2:1–11). Þessi frásögn er mér kær því hún sýnir virðingu Jesú fyrir konum, einkum móður sinni. Þessi frásögn hvetur börn til að hlýða foreldrum sínum, ekki af ótta, heldur af heitri elsku. Sérhver ætti að keppa að fordæmi Jesú Krists. Hann elskaði ætíð móður sína og við ættum líka að elska foreldra okkar. Þessi frásögn er mér líka kær af því að þetta kraftaverk hans er þjónustuverk og við getum líka gert kraftaverk með því að hjálpa öðrum.

Þessi frásögn og aðrar í ritningunum hafa fyllt mig friði. Það er afar hughreystandi að vita að ég get dag einn komist aftur til míns kærleiksríka himneska föður, ef ég held áfram að læra stöðugt um Krist og lifa eftir kenningum hans.

Anne R., 17 ára, Victoria, Ástralíu

Mér finnst frásögnin dásamleg um Krist ganga á vatninu. Hann gekk að bátnum þar sem allir postularnir voru og bauð Pétri að stíga út í vatnið. Í fyrstu sýndi Pétur trú og gekk á vatninu, en tók svo að efast og sökkva. Þá rétti Kristur fram hönd sína og tók um hans (sjá Matt 14:25–33). Mér finnst frásögnin standa upp úr, því Kristur hefur ætíð áhrif á líf okkar – hann verndar okkur.

Trúarnámið er mér gagnlegt, því ég læri á morgnana og það gerir daginn betri. Þegar ég læri ekki, þá verður dagurinn ekki jafn gleðilegur – mér líður þá ekki vel. Þegar ég les ritningarnar reglubundið á morgnana, þá verða dagarnir mun betri, því með því býð ég heilögum anda að vera með mér yfir daginn.

James K., 17 ára, Alaska, Bandaríkjunum

Christ and the rich young man

Hluti af Drottin, bjarga mér, eftir Gary L. Kapp

Mér finnst frásögnin dásamleg um Krist og unga ríka manninn (sjá Mark 10:17–22). Hún eykur mér skilning og innsýn um að hafa Guð í forgangi alls annars. Að vera boðið að gefa allar okkar veraldlegu eigur, myndi reynast næstum öllum afar erfitt. Ég held þó að eitt af því sem við þurfum að læra í lífinu, sé að vera fús til að hafa Guð ofar eigum okkar. Hin óendanlega elska Jesú Krists til okkar er sannlega einstök. Hún er vissulega meira virði en einhver peningaupphæð eða eigur sem við öflum okkur í þessu lífi.

Þegar ég les ritningarnar fyllist ég huggun og friði og hlýt aukna visku og skilning. Þótt ég finni ekki alltaf kraft orðsins þegar í stað, þá veit ég að ritningalestur hefur góð áhrif á líf mitt og gerir mér kleift að finna andann og þekkja innblástur hans.

Yuzhen C., 19 ára, Taichung, Tævan

woman touching the hem

Hluti af Kona snertir klæði Krists, eftir Heidi Daynes Darley

Þegar Kristur er á leið til deyjandi ungrar stúlku, þá snertir kona með blóðlát klæði hans og læknast. Kristur snéri sér við og ávarpaði hana, eftir að honum varð ljóst að hún snerti hann (sjá Lúk 8:43–48). Þótt Kristur væri á leið til að hjálpa öðrum, þá sinnti hann henni líka. Kristur gefur sér tíma fyrir sérhvert okkar.

Ég hef mikið að gera í lífinu, þarf að hlaupa í skóla eða balletttíma eða fara annarra erinda. Mitt í öllu þessu get ég ekki ígrundað eða fundið frið. Þegar ég les ritningarnar eða flyt bænir, þá finn ég frið. Það er gott að finna frið og gera hlé á dagsins önn. Á slíkum friðarstundum, þá kemst ég nær frelsaranum og vex í fagnaðarerindinu.

Zoe B., 17 ára, Utah, Bandaríkjunum

Heimildir

  1. Sjá Russell M. Nelson, „Prophets, Leadership, and Divine Law“ (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fullorðið fólk, 8. jan. 2017), broadcasts.lds.org; „Drawing the Power of Jesus Christ into Our Lives,“ aðalráðstefna, apríl 2017; „Study the Savior’s Words,“ Liahona, jan. 2018, 56–59.