13. Kapítuli
Menn fá köllun æðstu presta vegna mikillar trúar sinnar og góðra verka — Þeir eiga að kenna boðorðin — Vegna réttlætis eru þeir helgaðir og ganga inn til hvíldar Drottins — Melkísedek var einn þeirra — Englar boða gleðitíðindi um landið — Þeir munu kunngjöra hina eiginlegu komu Krists. Um 82 f.Kr.
1 Og enn fremur, bræður mínir, vil ég beina hugum yðar til þess tíma, er Drottinn Guð gaf börnum sínum þessi boðorð. Og ég vil, að þér minnist þess, að Drottinn Guð vígði presta eftir sinni heilögu reglu, sem var eftir reglu sonar hans, til að kenna fólkinu þessa hluti.
2 Og prestar þessir voru vígðir eftir reglu sonar hans, á þann hátt að fólkið mætti þannig vita, á hvern hátt það ætti að bíða sonar hans til að hljóta endurlausn.
3 Og á þennan hátt voru þeir vígðir — en í samræmi við forþekkingu Guðs voru þeir kallaðir og undirbúnir frá grundvöllun veraldar vegna mikillar trúar sinnar og góðra verka. Í fyrstu var þeim frjálst að velja milli góðs og ills, og þegar þeir hafa valið hið góða og auðsýnt mjög sterka trú, eru þeir kallaðir heilagri köllun, já, þeirri heilögu köllun, sem fyrirbúin var með og í samræmi við undirbúning að endurlausn slíkra.
4 Og þannig hafa þeir verið kallaðir til að þjóna þessari heilögu köllun vegna trúar sinnar, á meðan aðrir, sem að öðrum kosti kynnu að hafa notið sömu réttinda og bræður þeirra, afneita anda Guðs vegna hörkunnar í hjörtum sínum og blindunnar í hugum sínum.
5 Eða að lokum: Í fyrstu voru þeir í sömu aðstöðu og bræður þeirra. Þannig var þessi heilaga köllun fyrirbúin frá grundvöllun veraldar fyrir þá, sem ekki hertu hjörtu sín, og var það í og fyrir friðþægingu hins eingetna sonar, sem fyrirbúin var —
6 Og þannig voru þeir kallaðir þessari heilögu köllun og vígðir til hins háa prestdæmis hinnar heilögu reglu Guðs, til að kenna mannanna börnum boðorð hans, svo að þau geti einnig gengið inn til hvíldar hans —
7 Þetta háa prestdæmi er eftir reglu sonar hans, en sú regla var til frá grundvöllun veraldar, eða er með öðrum orðum án upphafs daganna eða loka áranna, þar eð hún var fyrirbúin frá eilífð til allrar eilífðar, samkvæmt forþekkingu hans á öllum hlutum —
8 En þeir voru vígðir á þennan hátt — kallaðir heilagri köllun og vígðir heilagri vígslu, og tóku á sig hið háa prestdæmi hinnar heilögu reglu, en sú köllun og vígsla og það háa prestdæmi er án upphafs eða endis —
9 Þannig urðu þeir æðstu prestar að eilífu eftir reglu sonarins, hins eingetna föðurins, sem er án upphafs daganna eða loka áranna, sem er fullur náðar, réttsýni og sannleika. Þannig er það. Amen.
10 En eins og ég sagði varðandi hina heilögu reglu, eða þetta háa prestdæmi, þá voru margir vígðir og urðu æðstu prestar Guðs. Og það var vegna mikillar trúar þeirra, iðrunar og réttlætis fyrir Guði, þar eð þeir kusu að iðrast og vinna réttlætisverk fremur en farast —
11 Þess vegna voru þeir kallaðir samkvæmt þessari heilögu reglu og helgaðir og klæði þeirra hvítþvegin með blóði lambsins.
12 En þegar þeir höfðu verið helgaðir af heilögum anda og klæði þeirra orðin hvít og þeir hreinir og flekklausir fyrir Guði, gátu þeir einungis litið á synd með viðbjóði, og margir, já, ákaflega margir, urðu hreinir og gengu inn til hvíldar Drottins Guðs síns.
13 Og nú vil ég, bræður mínir, að þér auðmýkið yður fyrir Guði og berið ávöxt samboðinn iðruninni, svo að þér megið einnig ganga inn til þeirrar hvíldar.
14 Já, auðmýkið yður, rétt eins og fólkið á dögum Melkísedeks, sem einnig var æðsti prestur eftir þeirri sömu reglu, sem ég hef rætt um, og sem einnig tók á sig hið háa prestdæmi að eilífu.
15 Og Abraham galt þessum sama Melkísedek tíund. Já, meira að segja faðir vor Abraham galt tíund, sem nam einum tíunda hluta alls, sem hann átti.
16 En þessar helgiathafnir voru veittar á þennan hátt, svo að þannig mætti fólkið vænta Guðssonar, því að það var að fyrirmynd reglu hans, eða var hans regla, til þess að þeir gætu vænt hans til fyrirgefningar synda sinna og gætu gengið inn til hvíldar Drottins.
17 Þessi Melkísedek var konungur yfir Salemslandi, og fólk hans var djúpt sokkið í misgjörðir og viðurstyggð. Já, allt var það afvegaleitt og fullt af hvers kyns ranglæti —
18 En Melkísedek, sem hafði sýnt mikla trú og tekið við embætti hins háa prestdæmis, samkvæmt hinni heilögu reglu Guðs, prédikaði iðrun fyrir fólki sínu. Og sjá. Það iðraðist, og Melkísedek kom á friði í landinu á sínum dögum. Því var hann nefndur friðarhöfðingi, því að hann var konungur Salem, og hann ríkti undir föður sínum.
19 En margir voru á undan honum, og margir komu einnig á eftir honum, en enginn var honum fremri. Þess vegna hafa þeir minnst hans sérstaklega.
20 Óþarft er, að ég endurtaki þetta. Það, sem ég hef sagt verður að nægja. Sjá, ritningarnar eru fyrir framan yður. Ef þér viljið rangsnúa þeim, verður það yður til tortímingar.
21 En nú bar svo við, að þegar Alma hafði mælt þessi orð til þeirra, rétti hann fram hönd sína og hrópaði voldugri röddu og sagði: Nú er tíminn til að iðrast, því að dagur hjálpræðisins nálgast —
22 Já, og fyrir munn engla boðar raust Drottins það öllum þjóðum, já, boðar þeim gleðitíðindi um mikinn fögnuð. Já, og hann lætur þessi gleðitíðindi hljóma meðal alls síns fólks, já, jafnvel meðal þeirra, sem dreifðir eru víðsvegar um allt yfirborð jarðar. Þess vegna hafa þau borist oss.
23 Og oss veitist þekking á þeim í skýrum orðum, þannig að ekki verði misskilið. En þetta er svo, vegna þess að vér erum ferðamenn í ókunnu landi. Þess vegna njótum vér mikillar hylli, því að þessi gleðitíðindi eru oss boðuð á öllum svæðum víngarðs vors.
24 Því að sjá. Englar boða þau mörgum á þessum tíma í landi voru í þeim tilgangi að búa hjörtu mannanna barna undir að taka við orði hans, þegar hann kemur í dýrð sinni.
25 Og nú bíðum vér einungis eftir að heyra fagnaðartíðindin um komu hans boðuð oss af vörum engla. Því að tíminn kemur, en hve fljótt vitum vér ekki. Ég vildi, að Guð gæfi, að það yrði á mínum dögum, en hvort sem það verður fyrr eða síðar, þá fagna ég því.
26 Og af englavörum mun það opinberast réttvísum og heilögum mönnum, þegar hann kemur, til þess að orð feðra vorra um það rætist, samkvæmt því sem þeir hafa sagt um hann, sem var í samræmi við spádómsandann, sem í þeim var.
27 Og nú óska ég þess, bræður mínir, af innstu hjartans rótum, já, af svo heitri þrá, að það veldur mér sársauka, að þér hlýðið á orð mín og varpið syndum yðar frá yður og sláið ekki iðrun yðar á frest —
28 Heldur að þér auðmýkið yður fyrir Drottni og ákallið hans heilaga nafn, vakið og biðjið án afláts, svo að þér freistist ekki um megn fram, heldur látið þannig leiðast af hinum heilaga anda, auðmjúkir, hógværir, undirgefnir, þolinmóðir, fullir af elsku og langlundargeði —
29 Að þér hafið trú á Drottin og von um að hljóta eilíft líf, með elsku Guðs stöðugt í hjörtum yðar, svo að yður verði lyft upp á efsta degi og þér gangið inn til hvíldar hans.
30 Og megi Drottinn gefa að þér iðrist, svo að þér kallið ekki heilaga reiði hans yfir yður og fjötrist ekki viðjum vítis og þurfið ekki að þola hinn annan dauða.
31 Og Alma mælti mörg fleiri orð til fólksins, en þau eru ekki letruð í þessa bók.