4. Kapítuli
Benjamín konungur heldur áfram ávarpi sínu — Sáluhjálpin kemur með friðþægingunni — Trúið á Guð til að frelsast — Fáið fyrirgefningu syndanna með trúmennsku — Gefið af eigum yðar til hinna fátæku — Gerið allt með visku og reglu. Um 124 f.Kr.
1 Og nú bar svo við, að þegar Benjamín konungur hafði lokið við að mæla orðin, sem engill Drottins hafði fært honum, leit hann yfir mannfjöldann, og sjá. Hann hafði fallið til jarðar, því að ótti við Drottin hafði gagntekið fólkið.
2 Og þeir höfðu séð sjálfa sig í viðjum holdsins, jafnvel lítilfjörlegri en duft jarðar. Og þeir hrópuðu allir einum rómi og sögðu: Ó, miskunna oss og beit þannig friðþægingarblóði Krists, að vér megum hljóta fyrirgefningu synda vorra og hjörtu vor megi hreinsast. Því að vér trúum á Jesú Krist, son Guðs, skapara himins og jarðar og allra hluta, hann, sem stíga mun niður og dvelja meðal mannanna barna.
3 Og svo bar við, að þegar þeir höfðu mælt þessi orð, kom andi Drottins yfir þá, og þeir fylltust fögnuði yfir að hafa fengið fyrirgefningu synda sinna og frið við samvisku sína vegna mikillar trúar sinnar á Jesú Krist, sem koma mundi samkvæmt orðum þeim, sem Benjamín konungur hafði talað til þeirra.
4 Og Benjamín konungur lauk aftur upp munni sínum, ávarpaði fólkið og sagði: Vinir mínir og bræður, ættfólk mitt og þjóð mín. Mig langar að biðja aftur um athygli yðar, til að þér megið heyra og skilja þau orð, sem ég á ósögð við yður.
5 Því að sjá. Hafi vitneskja yðar á þessari stundu um gæsku Guðs vakið yður til meðvitundar um lítilleik yðar og um óverðugt og fallið ástand yðar —
6 Ég segi yður, ef þér hafið öðlast vitneskju um gæsku Guðs og dæmalausan kraft, visku hans, þolinmæði og umburðarlyndi gagnvart mannanna börnum og jafnframt um friðþæginguna, sem fyrirbúin var frá grundvöllun veraldar, til þess að hjálpræðið næði til hvers manns, sem leggur traust sitt á Drottin, heldur boðorð hans af staðfestu og stendur stöðugur í trú sinni, þar til lífi hans lýkur, ég á við líf hins dauðlega líkama —
7 Ég segi, að þetta er sá maður, sem öðlast mun sáluhjálp fyrir friðþæginguna, sem frá grundvöllun veraldar var fyrirbúin öllu mannkyni, sem verið hefur til frá falli Adams, eða öllum þeim, sem eru eða verða til allt til enda veraldar.
8 Og á þennan hátt fæst sáluhjálpin. Og engin önnur sáluhjálp er til en sú, sem um hefur verið rætt, né eru aðrir skilmálar til fyrir frelsun mannsins en þeir, sem ég hef sagt yður frá.
9 Trúið á Guð, trúið, að hann sé til og hafi skapað allt, bæði á himni og á jörðu. Trúið, að hans sé öll viska og allt vald, jafnt á himni sem á jörðu. Trúið, að maðurinn geti ekki haft skilning á öllu, sem Drottinn skilur.
10 Og trúið því enn fremur, að yður sé nauðsyn að iðrast synda yðar, láta af þeim og sýna auðmýkt fyrir Guði og biðja hann af einlægu hjarta um fyrirgefningu. Og ef þér trúið öllu þessu, sýnið það þá í verki.
11 Og enn segi ég yður, eins og ég hef sagt áður, að á sama hátt og þér hafið kynnst dýrð Guðs, eða ef þér hafið þekkt gæsku hans, fundið elsku hans, fengið fyrirgefningu synda yðar og glaðst ákaft yfir því í sálum yðar, þannig vil ég einnig, að þér munið og varðveitið ætíð í hug yðar mikilleik Guðs og smæð yðar, gæsku hans og langlundargeð í yðar garð, alls óverðugra, og sýnið auðmýkt, já, dýpstu auðmýkt, ákallið nafn Drottins daglega og standið stöðugir í trúnni á það, sem koma mun og mælt var fram af engils munni.
12 Og sjá. Ég segi yður, að ef þér gjörið þetta, munuð þér ætíð fagna og fyllast Guðselsku, og ætíð njóta fyrirgefningar syndanna og vaxa í þekkingu á dýrð hans, sem skóp yður, eða í þekkingu á því, sem rétt er og satt.
13 Og þér munuð ekki hafa hug á að gjöra hver öðrum mein, heldur lifa í friði og láta hvern mann njóta þess, sem honum ber.
14 Og þér munuð ekki leyfa, að börn yðar gangi hungruð og nakin, né munuð þér heldur leyfa þeim að brjóta lögmál Guðs, takast á og munnhöggvast hvert við annað og þjóna djöflinum, sem er herra syndarinnar eða hinn illi andi, sem feður vorir hafa talað um, hann sem er óvinur alls réttlætis.
15 Heldur munuð þér kenna þeim að ganga á vegi sannleika og hófsemi. Þér munuð kenna þeim að elska hvert annað og þjóna hvert öðru.
16 Og þér munuð einnig sjálfir liðsinna þeim, sem þurfa á liði yðar að halda. Þér munuð gefa hinum þurfandi af eigum yðar, og þér munuð ekki láta beiningamanninn leita árangurslaust til yðar eða vísa honum frá til að farast.
17 Ef til vill segið þér: Maðurinn hefur sjálfur leitt vansæld sína yfir sig, því mun ég halda að mér höndum og hvorki gefa honum af mat mínum né eigum til að forða honum frá þjáningu, því að refsing hans er réttmæt —
18 En ég segi yður: Ó maður, hver sem þetta gjörir, hefur gilda ástæðu til að iðrast. Og iðrist hann ekki þess, sem hann hefur gjört, ferst hann að eilífu og á engan hlut í Guðs ríki.
19 Því að sjá. Erum vér ekki öll beiningamenn? Erum vér ekki öll háð sömu verunni, sjálfum Guði, hvað allar eigur vorar snertir, bæði mat, klæðnað, gull, silfur og allan auð vorn, hvers kyns sem hann er?
20 Og sjá. Jafnvel nú á þessari stundu hafið þér ákallað nafn hans og beðið um fyrirgefningu synda yðar. Og hefur hann látið bænir yðar verða til einskis? Nei, hann hefur úthellt anda sínum yfir yður og látið hjörtu yðar fyllast gleði og varir yðar verða hljóðar og vanmegnugar að tjá sig, svo mikil var gleði yðar.
21 Og ef Guð, sem hefur skapað yður og þér eigið líf yðar undir og allt, sem þér eigið og eruð, ef hann veitir yður allt, sem þér biðjið um og rétt er og sem þér biðjið um í trú og trausti þess, að yður veitist, ó, hversu miklu fremur ættuð þér þá ekki að veita hver öðrum af eigum yðar.
22 Og ef þér dæmið manninn, sem biður yður um aðstoð, svo að hann farist ekki, og fordæmið hann, hversu miklu réttvísari verður ekki yðar eigin fordæming fyrir að halda í eigur yðar, sem ekki tilheyra yður, heldur Guði, sem einnig á líf yðar. Og þrátt fyrir þetta færið þér engar bænir fram, né iðrist þér þess, sem þér hafið gjört.
23 Ég segi yður: Vei sé þeim manni, því að eigur hans munu farast með honum. Og þetta segi ég við þá, sem auðugir eru að þessa heims gæðum.
24 Hins vegar segi ég við þá fátæku, þá yðar, sem lítið hafa, en samt nóg dag frá degi. Ég á þar við alla, sem neita beiningamanninum vegna vanefna. Ég vildi, að þér segðuð í hjörtum yðar: Ég gef ekki vegna þess, að ég á ekkert til, en ætti ég eitthvað til, þá mundi ég gefa.
25 Og ef þér segið þetta í hjörtum yðar, eruð þér án sektar, en ella eruð þér fordæmdir, og fordæming yðar er réttvís, því að þér girnist það, sem þér enn ekki eigið.
26 En vegna þess, sem ég hef sagt yður — það er að segja vegna fyrirgefningar synda yðar dag frá degi, svo að þér megið ganga fram fyrir Guð án sektar — vildi ég, að þér gæfuð fátækum af eigum yðar, hver maður í samræmi við það, sem hann hefur, eins og til dæmis að gefa hungruðum mat, klæðlausum klæði, vitja sjúkra og liðsinna þeim, bæði andlega og stundlega, í samræmi við þarfir þeirra.
27 Og sjáið um, að allt þetta sé gjört með visku og reglu, því að ekki er ætlast til að maðurinn hlaupi hraðar en styrkur hans leyfir. Hins vegar er honum ráðlegast að starfa af kappi og vinna þannig til verðlaunanna. Þess vegna skal allt gjörast með reglu.
28 Og ég vil að þér munið, að hver yðar á meðal, sem fær lánað hjá nágranna sínum, eigi að skila því, sem hann fær lánað, eins og hann semur um, ella drýgið þér synd og komið ef til vill nágranna yðar einnig til að syndga.
29 Og að lokum: Ekki er mér mögulegt að benda á allt, sem getur leitt yður í synd. Leiðirnar og aðferðirnar eru svo margvíslegar og svo margar, að ég get ekki komið á þær tölu.
30 En það get ég sagt yður, að ef þér gætið yðar eigi, hugsana yðar, orða yðar og gjörða, og virðið ekki boðorð Guðs og haldið ekki áfram í trú á það, sem þér hafið heyrt um komu Drottins vors, allt til enda yðar ævidaga, þá hljótið þér að farast. Ó, þú maður, haf það hugfast, og þú munt eigi farast.