Lifið í samræmi við forréttindi ykkar
Lærið hvernig helgiathafnir prestdæmisins og sáttmálsloforð gera það mögulegt að máttur Guðs streymi í líf ykkar.
Nýlega fékk eiginmaður minn, Greg, greiningu sem myndi krefjast mikillar skurðaðgerðar og margra mánaða lyfjameðferðar. Eins og mörg ykkar sem hafið lent í álíka aðstæðum, tókum við þegar í stað að biðja um hjálp himins og mátt Guðs. Sunnudaginn eftir aðgerð Gregs var okkur fært sakramentið í sjúkrastofuna okkar.
Í þetta skipti var ég sú eina sem meðtók sakramentið. Einn brauðbita. Einn bolla af vatni. Í kirkjunni beinist hugur minn oft að útdeilingarfyrirkomulagi sakramentisins – undirbúningnum, blessuninni og útdeilingunni. Þennan eftirmiðdag íhugaði ég hins vegar þá máttargjöf Guðs, sem er í boði fyrir mig með sjálfri helgiathöfninni og sáttmálsloforðinu sem ég var að gera er ég tók við brauðbitanum og vatnsbollanum. Á þessum tíma þurfti ég á krafti frá himnum að halda. Mitt í miklu hugarangri, örmögnun og óvissu hugsaði ég um þessa gjöf sem myndi veita mér aðgang að mætti hans, sem ég þurfti svo innilega á að halda. Að meðtaka sakramentið myndi auðga samfélag mitt við anda Drottins, veita mér aðgang að máttargjöf Guðs, þar með talið þjónustu engla og virkjandi mætti frelsarans til að sigrast á aðstæðum.
Ég held að ég hafi aldrei gert mér svo skýra grein fyrir því áður að það skipti ekki aðeins máli hverjir framkvæmdu helgiathöfnina – það sem helgiathöfnin og sáttmálsloforð okkar ljúka upp verðskuldar líka athygli okkar. Helgiathafnir prestdæmisins og sáttmálsloforð gera Guði mögulegt að helga okkur og gera síðan kraftaverk í lífi okkar. En hvernig gerist þetta?
Í fyrsta lagi, til þess að helgiathöfn staðfesti mátt Guðs í lífi okkar, verður hún að vera framkvæmd með valdi frá syni Guðs. Útdeilingarfyrirkomulagið er mikilvægt. Faðirinn fól Jesú Kristi lyklana og valdið til að hafa umsjón með veitingu prestdæmishelgiathafna hans. Undir hans handleiðslu, innan reglu prestdæmis hans, hafa synir Guðs verið vígðir til að vera staðgenglar sonar Guðs.
Í öðru lagi, gerum við ekki bara sáttmálsloforð – við verðum að halda þau. Í mörgum helgiathöfnum fagnaðarerindisins gerum við helga sáttmála við Guð; hann lofar að blessa okkur þegar við höldum þessa sáttmála. Gerum við okkur grein fyrir að það er samþætting helgiathafna prestdæmisins og þess að halda sáttmálsloforð, sem gerir okkur mögulegt að virkja mátt Guðs?
Þennan eftirmiðdag velti ég fyrir mér hvort ég, sáttmálsdóttir Guðs, skildi fyllilega hvernig hægt væri að fá aðgang að máttargjöf Guðs gegnum helgiathafnir prestdæmisins og hvort ég gerði mér í raun grein fyrir því hvernig máttur Guðs starfaði innra með mér.
Árið 2019 barst konum kirkjunnar spámannlegt boð, sem kenndi okkur hvernig virkja á mátt frelsarans í lífi okkar. Russell M. Nelson forseti bauð okkur að læra Kenningu og sáttmála 25, opinberun sem gefin var Emmu Smith í Harmony, Pennsylvaníu. Það breytti lífi mínu að meðtaka þetta boð.
Í síðasta mánuði fékk ég óvænt tækifæri til að heimsækja Harmony. Þar, undir hlyntrjánum, var prestdæmið endurreist Joseph Smith og Oliver Cowdery. Nálægt þessum trjám eru útidyrnar á húsi Josephs og Emmu. Gegnt arninum í þessu húsi er gluggi. Ég stóð við gluggann og velti fyrir mér hvað Emma gæti hafa hugsað er hún horfði út að trjánum.
Í júlí 1830 var Emma 26 ára gömul; hún var svo ung. Hún hafði verið gift í þrjú og hálft ár. Hún hafði misst ungt sveinbarn – sitt fyrsta. Litla gröfin hans er spölkorn frá húsinu hennar, niður með götunni. Það var ekki erfitt fyrir mig að ímynda mér hvað gæti hafa fyllt huga hennar, þar sem ég stóð við gluggann. Vissulega hafði hún áhyggjur af fjárhag þeirra, auknum ofsóknum sem ógnuðu öryggi þeirra, af framtíð þeirra. Samt var verk Guðs hvarvetna umhverfis. Velti hún líka fyrir sér stöðu sinni í áætluninni, tilgangi sínum í ríki hans og möguleikum sínum í augum Guðs?
Ég held að hún gæti hafa gert það.
Rétt handan vegarins höfðu gjöf og lyklar prestdæmisvalds Guðs verið endurreist á jörðu. Á þessum tíma þurfti Emma raunverulega á krafti frá himnum að halda. Mitt í miklu hugarangri, örmögnun og óvissu ímynda ég mér að Emma hafi hugsað um þessa gjöf prestdæmis Guðs, sem gæti leyst úr læðingi máttinn frá honum, sem hún þurfti svo innilega á að halda.
Emma stóð samt ekki bara við gluggann og hugleiddi.
Meðan spámaðurinn Joseph hlaut fræðslu um lykla, embætti, helgiathafnir og hvernig aðstoða ætti við þjónustu prestdæmisins, veitti Drottinn sjálfur, með spámanni sínum, Emmu opinberun. Ekki Emmu, Líknarfélagsforsetanum í Nauvoo – heldur var þessi opinberun gefin hinni 26 ára gömlu Emmu í Harmony. Fyrir opinberun myndi Emma læra um hina innri helgun og sáttmálstengingu sem myndi auka getu þessara helgiathafna prestdæmisins til að virka í lífi hennar.
Í fyrsta lagi, minnti Drottinn Emmu á stöðu hennar í áætlun hans, þar á meðal hver hún væri og hvers hún væri – dóttir í ríki hans. Henni var boðið að „[ganga] á vegi dyggðarinnar“, vegi sem innihélt helgiathafnir sem myndu leysa úr læðingi mátt Guðs ef Emma héldi sér fast við sáttmála sína.
Í öðru lagi, gaf Drottinn henni tilgang á tímabili mikillar sorgar. Emma var ekki bara með sæti á fremsta bekk í endurreisninni, heldur var hún nauðsynlegur þátttakandi í því starfi sem átti sér stað. Hún yrði sett í embætti til að „útskýra ritningar og hvetja kirkjuna“. Tími hennar yrði nýttur „til skrifta og mikils lærdóms“. Emmu var falið heilagt hlutverk við að búa hina heilögu undir tilbeiðslu; söngvar þeirra til Drottins yrðu meðteknir sem bænir og „svarað með blessun yfir höfuð þeirra“.
Að lokum, útskýrði Drottinn ferli innri helgunar sem myndi búa Emmu undir upphafningu. „En gjörir þú það ei,“ útskýrði Drottinn fyrir henni, „kemst þú ekki þangað, sem ég er.“
Ef við lesum kafla 25 vandlega, uppgötvum við mikilvæga framþróun sem á sér stað. Emma átti eftir að fara frá því að vera dóttir í ríkinu í það að vera „kjörin kona“ og síðan drottning. Helgiathafnir Arons- og Melkísedeksprestdæmisins, ásamt því að hún héldi sáttmálsloforð sín, áttu eftir að auðga samfélag hennar við andann og við engla, sem gerði henni kleift að stýra lífi sínu með guðlegri leiðsögn. Með guðlegum mætti sínum, myndi Guð lækna hjarta hennar, auka getu hennar og umbreyta henni í þá útgáfu af sjálfri sér sem hann vissi að hún gæti orðið. Og fyrir helgiathafnir Melkísedeksprestdæmisins „[myndi] kraftur guðleikans [opinberast]“ í lífi hennar og Drottinn myndi svipta frá hulunni svo hún gæti öðlast skilning frá honum. Svona lítur það út þegar máttur Guðs er að verki innra með okkur.
Russell M. Nelson forseti kenndi:
„Allt sem gerðist í [Harmony] er afar mikilvægt lífi ykkar. Endurreisn prestdæmisins, ásamt leiðsögn Drottins til Emmu, getur leitt og blessað hvert ykkar. …
Það krefst þess sama af ykkur að fá aðgang að mætti Guðs og Drottinn kenndi Emmu og [okkur] öllum að gera.“
Það voru mikilvægir hlutir að gerast beggja vegna gluggans í Harmony, þar á meðal opinberunin sem gefin var hinni kjörnu konu sem Drottinn hafði kallað – opinberun sem myndi styrkja, hvetja og leiðbeina Emmu Smith, dóttur Guðs.
Þegar barnabarni okkar, Ísabellu, var gefið nafn og blessun, blessaði faðir hennar hana með skilningi á prestdæminu, að hún myndi halda áfram að vaxa og læra um þá blessun sem það myndi veita í lífi hennar og að trú hennar á prestdæmið myndi vaxa er hún yxi að skilningi.
Það er ekki oft sem lítil stúlka hlýtur blessun um að skilja prestdæmið og læra hvernig þessar helgiathafnir og þessi sáttmálsloforð munu hjálpa henni að fá aðgang að mætti Guðs. Ég mundi þó eftir Emmu og hugsaði með mér: Af hverju ekki? Þessi litla dóttir getur orðið kjörin kona í ríki hans og að lokum drottning. Með helgiathöfnum prestdæmisins og með því að hún haldi sáttmálsloforð sín, mun máttur Guðs vinna í henni og gegnum hana til að hjálpa henni að sigrast á öllu sem lífið færir og verða sú kona sem Guð veit að hún getur orðið. Þetta er nokkuð sem mig langar til að allar stúlkur í ríkinu skilji.
„Lifið samkvæmt forréttindum ykkar.“
Lærið hvernig helgiathafnir prestdæmisins og sáttmálsloforð munu gera mætti Guðs mögulegt að streyma í líf ykkar af meiri skilvirkni, með því að vinna í og gegnum ykkur, styrkja ykkur og búa ykkur undir að ná möguleikum ykkar og tilgangi að fullu.
Kannið vandlega og hugleiðið helgiathafnir Arons- og Melkísedeksprestdæmisins, sáttmálsloforðin sem við gerum í hverri þeirra og þann mátt Guðs sem við höfum aðgang að með þessum helgiathöfnum.
Hafið hugfast að það skiptir ekki aðeins máli hverjir framkvæma helgiathöfnina; það sem helgiathöfnin og meðfylgjandi sáttmáli hennar ljúka upp verðskuldar líka athygli ykkar.
Að neyta brauðsins og vatnsins er vikuleg áminning um að máttur hans vinnur í ykkur til að hjálpa ykkur að sigrast á aðstæðum. Að bera klæði hins heilaga prestdæmis er dagleg áminning um að máttargjöf hans vinnur í ykkur og hjálpar ykkur að þróast.
Við höfum öll aðgang að máttargjöf Guðs.
Í hvert sinn sem við meðtökum sakramentið.
Í hvert sinn sem við förum inn fyrir þröskuld musterisins.
Þetta er hátindur hvíldardags míns. Þetta er ástæða þess að ég met musterismeðmæli mín mikils.
„Í helgiathöfnum þess opinberast … kraftur guðleikans.“
Um þessa gjöf ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.