Aðalráðstefna
Bundin Jesú Kristi: Verða salt jarðar
Aðalráðstefna október 2024


10:49

Bundin Jesú Kristi: Verða salt jarðar

Þegar við erum bundin Drottni, mun líf okkar endurspegla ljós hans á eðlilegan hátt og við verðum salt jarðar.

Frelsarinn kenndi að þegar við erum „[kölluð] til ævarandi fagnaðarerindis [hans] og [gjörum] ævarandi sáttmála, [teljumst] við sem salt jarðar“. Salt er gert úr tveimur frumefnum sem eru samtengd. Við getum ekki verið salt ein og óstudd; ef við eigum að vera salt jarðar, verðum við að vera bundin Drottni og það er það sem ég sé þegar ég blanda geði við meðlimi kirkjunnar um allan heim – ég sé trúfasta meðlimi kirkjunnar, bundna Drottni, skuldbundna því starfi að þjóna öðrum og að vera salt jarðar.

Óhagganleg hollusta ykkar er skínandi fordæmi. Þjónusta ykkar er þakkarverð og mikils metin.

Unga fólkið okkar hefur sýnt ótrúlegt hugrekki og hollustu. Það hefur tekið ættarsögustarfinu opnum örmum og tíðar heimsóknir þess í hús Drottins bera vitni um trúfesti þess. Fúsleiki þess til að verja tíma og orku í að þjóna í trúboði um allan heim, endurspeglar djúpa og varanlega trú. Þau eru ekki einungis þátttakendur, heldur leiðandi í því að verða lærisveinar bundnir Jesú Kristi. Þjónusta þeirra geislar ljósi og von og snertir ótal líf. Við þökkum ykkur, ungmennum kirkjunnar, innilega fyrir hvetjandi þjónustu ykkar. Þið eruð ekki aðeins framtíð kirkjunnar, heldur nútíð hennar. Og þið eruð sannlega salt jarðar!

Ég elska Drottin Jesú Krist og finnst ég blessaður að fá að þjóna með ykkur í kirkju Drottins. Eining okkar og styrkur, grundvallaður á sameiginlegri trú okkar, fullvissar okkur um að við erum aldrei ein í þessari ferð. Saman getum við haldið áfram að byggja upp ríki Guðs sem á rætur í þjónustu, kærleika og óhagganlegri trú.

Þegar Jesús Kristur kenndi við Galíleuvatn, notaði hann oft hversdagslega hluti sem voru áheyrendum hans kunnugir, til að miðla djúpstæðum andlegum sannleika. Einn slíkur hlutur var salt. Jesús lýsti yfir: „Þið eruð salt jarðar,“2 yfirlýsing sem var rík að merkingu og þýðingu, einkum fyrir fólkið á hans tíma sem skildi margþætt gildi salts.

Forn saltvinnsluaðferð í Algarve, í suðurhluta heimalands míns, Portúgals, á uppruna þúsundir ára aftur í tíma rómverska heimsveldisins. Merkilegt nokk, þá hafa aðferðirnar sem saltverkamennirnir notuðu, þekktir sem marnotos, lítið breyst frá þeim tíma. Þessir kostgæfu handverksmenn beita hefðbundnum aðferðum, framkvæma verk sín algjörlega í höndunum og viðhalda arfleifð sem hefur varðveist í aldanna rás.

Þessi forna aðferð uppsker það sem kallað er „saltblóm“. Til að meta fyllilega hið flókna ferli við uppskeru saltblómsins, er nauðsynlegt að skilja umhverfið þar sem það er framleitt. Saltmýrar Algarve-strandarinnar bjóða upp á kjöraðstæður til saltframleiðslu. Sjó er miðlað í grunnar tjarnir, þekktar sem saltpönnur, þar sem hann er látinn gufa upp undir sterkri sólinni. Þegar vatnið gufar upp myndar saltblómið viðkvæma kristalla á yfirborði saltpannanna. Þessir kristallar eru ótrúlega hreinir og hafa einstaka, stökka áferð. Marnotos-arnir fleyta kristöllunum varlega af yfirborði vatnsins með sérhæfðum verkfærum, ferli sem krefst mikillar færni og nákvæmni. Í Portúgal er þetta hágæðasalt kallað „saltrjómi“ vegna þess að hægt er að fleyta því varlega burt eins og rjóma sem rís upp á topp mjólkurinnar. Þetta fínlega salt er eftirsótt vegna hreinleika þess og einstaks bragð, sem gerir það að verðlaunuðu hráefni í matreiðslulist.

Á sama hátt og marnotos-arnir lögðu mikið á sig til að tryggja að þeir uppskæru hágæða salt, þá ættum við, sem sáttmálslýður Drottins, alltaf að gera okkar allra besta svo að elska okkar og fordæmi séu, eins mikið og mögulegt er, hrein spegilmynd af frelsara okkar, Jesú Kristi.

Í hinum forna heimi var salt meira en bara bragðbætir – það var mikilvægt rotvarnarefni og tákn um hreinleika og sáttmála. Fólk vissi að salt var nauðsynlegt til að varðveita fæðu og auka bragðið. Það skildi einnig hinar alvarlegu afleiðingar þess ef saltið missti seltu sína eða bragð með því að mengast eða útþynnast.

Eins og salt getur glatað eiginleika sínum, getum við einnig glatað andlegu atgervi okkar ef trú okkar á Jesú Krist verður værukær. Við lítum kannski eins út að utan, en án sterkrar innri trúar missum við hæfnina til að láta að okkur kveða í heiminum og laða fram það besta í þeim sem umhverfis eru.

Hvernig getum við þá miðlað orku okkar og viðleitni til að láta að okkur kveða og verið sú breyting sem heimurinn þarfnast í dag? Hvernig getum við viðhaldið hlutverki lærisveinsins og haft jákvæð áhrif?

Orð okkar ástkæra spámanns bergmála enn í huga mínum: „Guð vill að við vinnum saman og hjálpum hvert öðru. Þess vegna sendir hann okkur til jarðar sem fjölskyldur og skipuleggur deildir og stikur fyrir okkur. Þess vegna býður hann okkur að þjóna og liðsinna hvert öðru. Þess vegna býður hann okkur að lifa í heiminum en vera ekki af heiminum.

Þegar líf okkar er fyllt tilgangi og þjónustu, forðumst við andlegt andvaraleysi; þegar líf okkar aftur á móti er svipt guðlegum tilgangi, þroskandi þjónustu við aðra og heilögum tækifærum til íhugunar og hugleiðingar, munum við smám saman koðna niður af eigin athöfnum og eiginhagsmunum og eigum á hættu að glata skerpu okkar. Mótefnið við þessu er að halda áfram að gefa okkur að þjónustu – starfa af kappi að góðum verkum og bæta okkur sjálf og samfélagið sem við búum í.

Kæru bræður og systur, hve blessunarríkt það er okkur öllum í dag að tilheyra kirkju Jesú Krists og fá tækifæri til að þjóna í kirkju hans. Aðstæður okkar geta verið mismunandi, en við getum öll skipt sköpum.

Munið eftir marnotos-unum, saltverkamönnunum; þeir nota einföld verkfæri til að uppskera bestu kristallana, besta saltið! Við getum líka gert einfalda hluti sem, með stöðugri viðleitni til smárra og innihaldsríkra verka, getur dýpkað lærisveinshlutverk okkar og skuldbindingu við Jesú Krist. Hér eru fjórar einfaldar en djúpstæðar leiðir til að kappkosta að vera salt jarðar:

  1. Höfum hús Drottins sem þungamiðju trúfesti okkar. Nú þegar musterin eru nær okkur en nokkru sinni fyrr, mun reglubundin tilbeiðsla í húsi Drottins hjálpa okkur að einblína á það sem mestu skiptir og að hafa Krist að þungamiðju lífs okkar. Í musterinu finnum við kjarna trúar okkar á Jesú Krist og sálartryggð okkar við hann.

  2. Verum meðvituð í þeirri viðleitni okkar að styrkja aðra með því að lifa í sameiningu eftir fagnaðarerindinu. Við getum styrkt fjölskyldur okkar með stöðugri og meðvitaðri vinnu við að færa reglur fagnaðarerindisins inn á heimili okkar og í líf okkar.

  3. Verum fús til að taka á móti köllun og þjóna í kirkjunni. Þjónusta í heimasöfnuðum okkar gerir okkur kleift að styðja hvert annað og vaxa saman. Þótt þjónusta sé ekki alltaf þægileg, þá er hún alltaf gefandi.

  4. Og loks, notum stafræn samskiptatæki með tilgangi. Í dag gera stafræn samskiptaverkfæri okkur kleift að tengjast sem aldrei fyrr. Eins og flest ykkar, nota ég þessi verkfæri til að tengjast bræðrum og systrum í kirkjunni og fjölskyldu minni og vinum. Þegar ég tengist þeim, finnst mér ég vera nær þeim; við getum þjónað hvert öðru þegar neyð kemur upp, þegar við getum ekki verið líkamlega til staðar. Þessi verkfæri eru án efa blessun, en þessi sömu verkfæri geta dregið okkur frá dýpt innihaldsríkra samskipta og að endingu valdið því að við drögumst niður í síður tilgangsríkar athafnir venjur sem eru sóun á tíma okkar. Að leitast við að vera salt jarðar, felur í sér svo miklu meira en endalaust skrun niður 15 sentimetra skjá.

Þegar við höfum hús Drottins að miðpunkti í lífi okkar, styrkjum aðra meðvitað með því að lifa eftir fagnaðarerindinu, meðtökum kallanir til þjónustu og notum stafræn verkfæri með tilgangi, getum við varðveitt andlegt atgerfi okkar. Á sama hátt og salt í sínu tærasta formi hefur mátt til að bæta og varðveita, svo og gerir trú okkar á Jesú Krist það, þegar hún er nærð og vernduð með kristilegri þjónustu og kærleika.

Þegar við erum bundin Drottni, mun líf okkar endurspegla ljós hans á eðlilegan hátt og við verðum salt jarðar. Með þessu framtaki auðgum við ekki aðeins líf okkar, heldur styrkjum líka fjölskyldur okkar og samfélag. Megum við kappkosta að viðhalda þessu sambandi við Drottin, glata aldrei velþóknun okkar og vera sá litli saltkristall sem Drottinn vill að við séum. Í nafni Jesú Krists, amen.