„Þér eruð vinir mínir“
Yfirlýsing frelsarans „þér eruð vinir mínir,“ er lúðurhljómur um að byggja æðri og helgari sambönd meðal allra barna Guðs.
Í heimi þar sem ágreiningur og sundrung ríkir, þar sem dómharka og fyrirlitning hafa komið í stað borgaralegrar umræðu og vinátta er skilgreind eftir -ismum og -ítum, hef ég komist að því að til er skýrt, einfalt og guðlegt fordæmi sem við getum leitað til varðandi einingu, elsku og að tilheyra. Það fordæmi er Jesús Kristur. Ég ber vitni um að hann er hinn mikli sameinari.
Við erum vinir hans
Í desember árið 1832, þegar „róstur á meðal þjóðanna“ virtist „sýnilegra“ en nokkru sinni áður frá stofnun kirkjunnar, komu leiðtogar Síðari daga heilagra saman til ráðstefnu í Kirtland, Ohio. Þeir báðu „hver í sínu lagi og upphátt til Drottins, um að hann opinberaði [þeim] vilja sinn“. Til að svara bænum þessara trúföstu meðlima á erfiðum tímum mikils rósturs, þá hughreysti Drottinn þá, ávarpaði hina heilögu þrisvar sinnum með tveimur kröftugum orðum: „Vinir mínir“.
Jesús Kristur hefur lengi kallað trúfasta fylgjendur sína vini sína. Í Kenningu og sáttmálum notar frelsarinn hugtakið vinur til að skilgreina heilagt og kært samband. Ég er ekki að tala um orðið vinur eins og heimurinn skilgreinir það – með fyrirvara um fylgjendur á samfélagsmiðlum eða „læk“. Það er ekki hægt að skilgreina það með myllumerki eða fjölda á Instagram eða X.
Ég viðurkenni að sem ungmenni man ég eftir óttalegum samtölum þar sem ég heyrði þessi sársaukafullu orð: „Getum við bara verið vinir?“ eða „Verum bara í vinargír.“ Hvergi í hinu helga riti heyrum við hann segja: „Þér eruð bara vinir mínir.“ Hann kenndi öllu heldur að „enginn [ætti] meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“. Og „þér eruð þeir, sem faðir minn hefur gefið mér. Þér eruð vinir mínir“.
Viðhorfið er skýrt: frelsarinn hefur tölu á okkur öllum og vakir yfir okkur. Þessi umhyggja er hvorki ómerkileg né léttvæg. Hún er fremur upphefjandi og eilíf. Ég sé yfirlýsingu frelsarans: „Þér eruð vinir mínir“ sem lúðurhljóm um að byggja æðri og helgari sambönd meðal allra barna Guðs, „svo að við megum verða eitt“. Þetta gerum við þegar við komum saman í leit að bæði tækifærum til einingar og þeirri tilfinningu að allir séu meðteknir.
Við erum eitt í honum
Frelsarinn sýndi þetta fallega með boði sínu: „Kom, fylg mér.“ Hann færði sér í nyt gjafir og einstaklingsbundna eiginleika fjölbreytts hóps fylgjenda til að kalla postula sína. Hann kallaði fiskimenn, vandlætara, bræður sem voru kunnir fyrir þrumandi persónuleika og jafnvel tollheimtumann. Trú þeirra á frelsarann og þrá þeirra til að koma til hans sameinaði þá. Þeir litu til hans, sáu Guð í honum og „yfirgáfu netin samstundis og fylgdu honum“.
Ég hef líka séð hvernig æðri og helgari sambönd sameina okkur sem eitt. Ég og eiginkona mín, Jennifer, nutum þeirrar blessunar að ala upp börnin okkar fimm í New York-borg. Þar, í þessari erilsömu stórborg, mynduðum við dýrmæt og helg sambönd við nágranna, skólavini, viðskiptafélaga, trúarleiðtoga og aðra heilaga.
Í maí 2020, þegar heimurinn var að glíma við útbreiðslu heimsfaraldurs, hittust meðlimir Trúarleiðtoganefndar New York-borgar á netfundi sem boðað hafði verið til í skyndi. Það var engin dagskrá. Engir sérstakir gestir. Bara beiðni um að koma saman og ræða þær áskoranir sem við stóðum öll frammi fyrir sem trúarleiðtogar. Sjúkdómavarnamiðstöðvar höfðu nýlega greint frá því að borgin okkar væri miðpunktur Kóvid-19 heimsfaraldursins í Bandaríkjunum. Það þýddi engar samkomur. Ekki lengur hægt að koma saman.
Það var mikill skellur fyrir þessa trúarleiðtoga að láta af persónulegri þjónustu, safnaðarsamkomum og vikulegri tilbeiðslu. Fámennur hópur okkar – sem samanstóð af kardínála, presti, rabbína, múslimaklerk, sóknarpresti, háttsettum kaþólskum presti og öldungi – hlustaði á, huggaði og studdi hver annan. Í stað þess að einblína á hið ólíka með okkur, sáum við hvað við áttum sameiginlegt. Við töluðum um möguleika og síðan líkur. Við fylktum okkur saman og svöruðum spurningum um trú og framtíðina. Síðan báðumst við fyrir. Ó, hve heitt við báðumst fyrir.
Í afar fjölbreyttri borg, þar sem margbreytileikinn er mikill og menningarheimar rekast á, sáum við það að engu verða sem skar okkur í sundur, er við komum saman sem vinir með eina rödd, einn tilgang og eina bæn.
Við litum ekki lengur á hvern annan yfir borðið, heldur saman til himins. Við yfirgáfum hvern fund samhentari og tilbúnir til að taka upp „skóflurnar“ okkar og fara að vinna. Samstarfið sem varð til og þjónustan sem þúsundum New York-búa var veitt, kenndi mér að í heimi sem býður upp á sundrungu, fjarlægð og þátttökuleysi er alltaf miklu meira sem sameinar okkur en sundrar. Frelsarinn sárbað: „Verið eitt, og ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir.“
Bræður og systur, við verðum að hætta að leita ástæðna til sundrungar og þess í stað leita tækifæra til að „[vera] eitt“. Hann hefur blessað okkur með einstökum gjöfum og eiginleikum sem bjóða upp á að við lærum af hvert öðru og þroskumst persónulega. Ég sagði oft háskólanemum mínum að ef ég geri það sem þið gerið og þið gerið það sem ég geri, þurfum við ekki á hverju öðru að halda. En þar sem þið gerið ekki það sem ég geri og ég geri ekki það sem þið gerið, þurfum við vissulega á hverju öðru að halda. Sú þörf sameinar okkur. Að sundra og sigra er áætlun andstæðingsins um að eyðileggja vináttu, fjölskyldur og trú. Það er frelsarinn sem sameinar.
Við tilheyrum honum
Ein þeirra blessana sem okkur er lofað þegar við „verðum eitt“ er sterk tilfinning þess að tilheyra. Öldungur Quentin L. Cook kenndi að „kjarni þess að tilheyra sannlega er að vera eitt með Kristi“.
Í nýlegri heimsókn fjölskyldu minnar til Vestur-Afríkulandsins Gana, heillaðist ég af hefðum staðarins. Þegar við komum í kirkju eða á heimili var okkur heilsað með orðunum: „Þið eruð velkomin.“ Þegar matur var borinn fram tilkynnti gestgjafi okkar: „Ykkur er boðið.“ Þessi einföldu orð voru sett fram af tilgangi og af ásetningi. Þið eruð velkomin. Ykkur er boðið.
Við setjum álíka helgar yfirlýsingar á dyr samkomuhúsa okkar. En skiltið Gestir velkomnir er ekki nóg. Bjóðum við alla velkomna sem koma inn um dyrnar? Bræður og systur, það er ekki nóg að sitja bara á bekkjunum. Við verðum að hlýða kalli frelsarans um að byggja upp æðra og helgara samband við öll börn Guðs. Við verðum að lifa samkvæmt trú okkar! Faðir minn minnti mig oft á að það eitt að sitja á kirkjubekk á sunnudögum gerir mann ekki að góðri, kristilegri manneskju, ekki frekar en að sofa í bílskúr gerir mann að bíl.
Við verðum að lifa lífi okkar þannig að heimurinn sjái okkur ekki, heldur sjái hann í gegnum okkur. Þetta á sér ekki aðeins stað á sunnudögum. Þetta á sér stað í matvöruversluninni, við bensíndæluna, á skólafundi, á hverfissamkomu – á öllum stöðum þar sem skírðir og óskírðir fjölskyldumeðlimir starfa og búa.
Ég tilbið á sunnudögum til áminningar um að við þörfnumst hvers annars og í sameiningu þörfnumst við hans. Hinar einstöku gjafir okkar og hæfileikar, sem aðgreina okkur í veraldlegum heimi, sameina okkur á helgum stað. Frelsarinn hefur kallað okkur til að hjálpa hvert öðru, lyfta hvert öðru og uppbyggja hvert annað. Þetta er það sem hann gerði þegar hann læknaði konuna af blóðlátum, hreinsaði líkþráa manninn sem sárbað um miskunn, ráðlagði unga höfðingjanum sem spurði hvað hann gæti meira gert, elskaði Nikódemus sem vissi en átti erfitt með að trúa og sat með konunni við brunninn sem ekki féll að siðvenjum þess tíma, en hann sagði henni frá Messíasarhlutverki sínu. Þetta finnst mér vera kirkja – staður samansöfnunar, endurheimtar, lagfæringar og endurlausnar. Eins og Russell M. Nelson forseti hefur kennt: „Net fagnaðarerindisins er stærsta net í heimi. Guð býður öllum að koma til sín. … Það er staður fyrir alla.“
Sum hafa upplifað eitthvað sem fær þau til að finnast þau ekki tilheyra. Boðskapur frelsarans til mín og ykkar er sá sami: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“ Fagnaðarerindi Jesú Krists er fullkominn staður fyrir okkur. Að koma í kirkju veitir von um betri daga, loforð um að þið séuð ekki ein og um fjölskyldu sem þarfnast okkar jafn mikið og við þörfnumst hennar. Öldungur D. Todd Christofferson staðfesti að það „að vera eitt með föðurnum, syninum og heilögum anda, er án efa hið endanlega varðandi það að tilheyra“. Öllum þeim sem hafa dregið sig í hlé og eru að reyna að koma aftur, færi ég eilífan sannleika og boðið: Þið tilheyrið. Komið aftur. Þetta er tíminn.
Í þrætugjörnum og sundurleitum heimi, ber ég vitni um að frelsarinn Jesús Kristur er hinn mikli sameinari. Ég býð hverju okkar að vera verðug boðs frelsarans um að „[vera] eitt“ og lýsi ákveðið yfir eins og hann gerði: „Þið eruð vinir mínir.“ Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.