Aðalráðstefna
Ver hrein
Aðalráðstefna október 2024


9:43

Ver hrein

Dagleg iðrun gerir okkur mögulegt að greina leiðsögn Drottins með heilögum anda.

Þegar ég var um fimm ára gamall var ég að spila fótbolta með vinum mínum á bak við kirkjuna í litla þorpinu mínu á Fílabeinsströndinni. Ég man glögglega eftir boði prédikarans til safnaðar síns um að hreinsa föt sín til að búa sig undir komu frelsarans. Þar sem ég var ungur tók ég þessa köllun bókstaflega. Ég hljóp heim eins hratt og litlu fætur mínir gátu borið mig og sárbað móður mína um að þvo fötin mín, svo ég gæti verið flekklaus og tilbúinn fyrir komu frelsarans daginn eftir. Þótt móðir mín væri efins um yfirvofandi endurkomu frelsarans, þá þvoði hún samt mín bestu föt.

Morguninn eftir fór ég í örlítið rök fötin og beið spenntur eftir að fréttin bærist um komu frelsarans. Þegar leið á daginn og ekkert gerðist, ákvað ég að fara í samkomuhúsið. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum að komast að því að kirkjan var tóm og frelsarinn var enn ekki kominn. Þið getið rétt ímyndað ykkur tilfinningar mínar, er ég gekk hægt heim á leið.

Árum síðar, þegar ég var að taka á móti trúboðslexíunum til að búa mig undir að ganga í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, las ég eftirfarandi: „Og ekkert óhreint fær komist inn í ríki hans. Þess vegna gengur engin inn til hvíldar hans, nema þeir, sem laugað hafa klæði sín í blóði mínu vegna trúar sinnar og iðrunar á öllum syndum sínum og vegna staðfestu sinnar allt til enda.“

Útskýringin sem ég hlaut á þeim tíma hjálpaði mér að skilja þann mikilvæga sannleika sem hafði farið fram hjá ungum huga mínum mörgum árum áður. Boðskapur prédikarans einblíndi á mikilvægi andlegs hreinleika. Hann hvatti söfnuðinn til að leita iðrunar, gera breytingar á lífi sínu og snúa sér til frelsarans eftir endurlausn.

Himneskur faðir skilur jarðneskt ferðalag okkar og hversu óhjákvæmilegar syndir eru í lífi okkar. Ég er einlæglega þakklátur fyrir að hann hefur séð okkur fyrir frelsara til að friðþægja fyrir brot okkar. Fyrir endurleysandi fórn frelsarans, getum við öll iðrast, leitað fyrirgefningar og orðið hrein. Iðrun, sem er grundvallarregla fagnaðarerindisins, er nauðsynleg fyrir andlegan þroska okkar og þolgæði, er við tökumst á við áskoranir lífsins.

Á aðalráðstefnunni í apríl 2022, bauð Russell M. Nelson forseti hverjum meðlim kirkjunnar að upplifa gleði daglegrar iðrunar. Hann sagði:

„Óttist hvorki að iðrast, né sláið iðrun á frest. Satan hefur yndi af eymd ykkar. Bindið enda á það. Útilokið áhrif hans í lífi ykkar! Byrjið í dag að upplifa gleði þess að afklæðast hinum náttúrlega manni. Frelsarinn elskar okkur alltaf, en einkum þegar við iðrumst. …

Ef ykkur finnst þið hafa villst of langt frá eða verið of lengi fjarri sáttmálsveginum og sjáið enga leið til baka, þá er það einfaldlega ekki satt.“

Ef það er eitthvað sem þið hafið ekki iðrast fyllilega af, þá hvet ég ykkur til að hlýða ákalli Nelsons forseta um að fresta ekki iðrun ykkar. Það gæti þurft nokkurt hugrekki til að taka þátt í þessu ferli; hins vegar get ég fullvissað ykkur um að gleðin sem stafar af sannri iðrun er æðri skilningi okkar. Sektarbyrði okkar verður létt af okkur með iðrun og í staðinn kemur friður og sálarró. Þegar við iðrumst einlæglega, erum við helguð með blóði frelsarans og verðum næmari fyrir hvatningu og áhrifum heilags anda.

Eilífur lífsförunautur minn fæddist með heyrnarskerðingu og verður þar af leiðandi að nota heyrnartæki. Ryk og sviti geta haft áhrif á virkni þessara tækja og því fylgist ég með henni á hverjum morgni þrífa tengirörin af kostgæfni áður en hún notar hjálpartækin. Þessi einfalda en stöðuga venja útilokar óhreinindi, raka eða tæringu og bætir þannig hæfni hennar til að heyra og eiga samskipti á áhrifaríkan hátt. Þegar hún gleymir þessari daglegu venju, kemur það niður á hæfni hennar allan daginn til að heyra; töluð orð dofna smám saman og verða loks óheyranleg. Rétt eins og dagleg hreinsun heyrnartækjanna gera henni kleift að heyra skýrt, gerir dagleg iðrun okkur kleift að greina leiðsögn Drottins með heilögum anda.

Undir lok jarðneskrar þjónustu Drottins og áður en hann fór í Getsemanegarðinn, bjó hann lærisveina sína undir komandi erfiðleika. Hann fullvissaði þá með því að segja: „En hjálparinn, andinn heilagi sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður.“

Eitt meginhlutverk heilags anda er að aðvara, leiða og leiðbeina hverjum einstaklingi sem hlustar á hina ljúfu, innri rödd. Rétt eins og stíflaðar samskiptaleiðslur heyrnartækja geta hindrað rétta virkni, getur andlegt samband okkar við himneskan föður einnig skerst, sem leiðir til hættulegs misskilnings eða að ekki er farið eftir leiðsögn hans. Tilkoma Alnetsins hefur gert upplýsingar aðgengilegri en nokkru sinni áður. Þetta getur leitt okkur til þess að snúa okkur til heimsins eftir leiðsögn, frekar en til Guðs. Russell M. Nelson forseti kenndi: „Á komandi tíð verður ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda.“

Ég er þakklátur fyrir að sérhvert okkar geti tekið á móti gjöf heilags anda við staðfestingu okkar. Dallin H. Oaks forseti varaði þó við að „þær blessanir sem bjóðast með gjöf heilags anda eru bundnar því skilyrði að vera verðug [og] ‚andi Drottins dvelur ekki í vanhelgum musterum‘ [Helaman 4:24]“.

Þegar við veljum meðvitað að fylgja leiðsögn spámanna og postula, mun hæfni okkar til að hafa heilagan anda sem stöðugan förunaut aukast. Heilagur andi gerir ákvarðanatökur skýrari og vekur hugsanir og hughrif sem eru í samræmi við vilja himnesks föður. Að hafa heilagan anda sem stöðugan förunaut er lykilatriði fyrir andlegan vöxt okkar.

Mér var nýlega falið að vera í forsæti stikuráðstefnu í Salt Lake Granger West-stikunni í Utah. Á þessum viðburði hitti ég stikuforseta sem hefur af kostgæfni þróað hæfni sína til að greina hvatningu heilags anda gegnum réttlátt líferni og daglega iðrun. Við skipulögðum heimsóknir til þriggja heimila, sem hluta af hirðisþjónustu okkar. Þegar við höfðum lokið síðustu heimsókninni, voru enn um 30 mínútur eftir fram að næsta verkefni okkar. Þegar við fórum til baka í stikumiðstöðina, fékk Chesnut forseti þann innblástur að heimsækja eina fjölskyldu í viðbót. Við vorum báðir sammála um að fylgja þessari hvatningu.

Við fórum til að heimsækja Jones-fjölskylduna, þar sem við komumst að því að systir Jones var rúmliggjandi vegna veikinda. Augljóst var að hún þurfti á prestdæmisblessun að halda. Með hennar leyfi veittum við henni þjónustu. Þegar við bjuggum okkur undir að fara, spurði systir Jones hvernig við hefðum vitað um brýna þörf hennar fyrir blessun. Sannleikurinn er sá að við vissum það ekki. Himneskur faðir, sem var meðvitaður um þarfir hennar, vissi það og innblés Chesnut forseta til að vitja heimilis hennar. Þegar við erum móttækileg fyrir leiðsögn hinnar lágu, hljóðlátu raddar, verðum við betur í stakk búin til að þjóna nauðstöddum á áhrifaríkari hátt.

Ég ber vitni um góðan og kærleiksríkan himneskan föður. Jesús Kristur er frelsari og lausnari mannkyns. Ég ber vitni um að friðþæging Jesú Krists er raunveruleg og að þegar við lærum að fylgja leiðsögn heilags anda, mun hann leiða okkur til að iðrast og nota kraft friðþægingar frelsarans í lífi okkar. Russell M. Nelson forseti er sannur og lifandi spámaður Drottins, með alla prestdæmislykla á jörðu í dag. Í nafni Jesú Krists, amen.