Aðalráðstefna
Grafa uppreisnarvopn okkar
Aðalráðstefna október 2024


13:12

Grafa uppreisnarvopn okkar

Megum við grafa – mjög, mjög djúpt – alla uppreisnarþætti gegn Guði í lífi okkar og setja í þeirra stað fúst hjarta og viljugan huga.

Mormónsbók greinir frá því að um það bil 90 árum fyrir fæðingu Krists hafi synir Mósía konungs hafið 14 ára trúboð meðal Lamaníta. Margar kynslóðir höfðu árangurslaust reynt að vekja Lamaníta til trúar á kenningar Krists. Í þetta sinn snerust þó þúsundir Lamaníta til trúar fyrir undursamlega íhlutun heilags anda og urðu lærisveinar Jesú Krists.

Við lesum: „Og svo sannarlega sem Drottinn lifir, svo sannarlega sem margir trúðu, eða jafn margir og leiddir voru til þekkingar á sannleikanum fyrir prédikanir Ammons og bræðra hans, samkvæmt anda opinberunar og spádóms, fyrir kraft Guðs, sem gjörði kraftaverk á þeim — já, ég segi ykkur, að svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá gjörðust þeir Lamanítar, sem trúðu á prédikanir þeirra og snerust til Drottins, aldrei fráhverfir.“

Lykillinn að varanlegri trúarumbreytingu þessa fólks er tilgreind í næsta versi: „Því að þeir urðu réttlát þjóð. Þeir lögðu niður uppreisnarvopn sín, svo að þeir berðust aldrei framar gegn Guði, né heldur gegn nokkrum bræðra sinna.“

Þessi tilvísun í „uppreisnarvopn“ var bæði bókstafleg og táknræn. Þar var átt við sverð þeirra og önnur stríðsvopn, en einnig óhlýðni þeirra við Guð og boðorð hans.

Konungur þessara viðsnúnu Lamaníta, tjáði þetta þannig: „Og sjáið nú, bræður mínir. … Allt, sem vér gátum gjört var að iðrast allra synda vorra og fjölda morða, sem vér höfum framið, og fá Guð til að fjarlægja þau úr hjörtum vorum, því að allt, sem vér gátum gjört, var að iðrast nægilega fyrir Guði, svo að hann afmáði smánina, sem á oss var.“

Takið eftir orðum konungsins – einlæg iðrun þeirra hafði ekki aðeins leitt til fyrirgefningar synda þeirra, heldur afmáði Guð einnig óhreinindin af syndum þeirra og jafnvel löngunina til að syndga í hjörtum þeirra. Eins og þið vitið, þá grófu þeir sverð sín í stað þess að hætta á að snúa aftur til fyrri uppreisnar gegn Guði. Og þegar þeir grófu efnisleg vopn sín, með umbreyttum hjörtum, grófu þeir einnig tilhneigingu sína til syndar.

Við gætum spurt okkur sjálf hvað við gætum gert til að fylgja þessari forskrift, að „[leggja] niður uppreisnarvopn [okkar]“, hver sem þau gætu verið, og „[snúast] til Drottins“ á þann hátt að smán syndar og löngun til syndar hverfur úr hjörtum okkar og við munum aldrei verða fráhverf.

Uppreisn getur verið virk eða óvirk. Sígilt dæmi um vísvitandi uppreisn er Lúsífer, sem í fortilverunni var andvígur endurlausnaráætlun föðurins og fékk aðra til að standa gegn henni líka, „og á þeim degi fylgdu margir á eftir honum“. Það er ekki erfitt að gera sér í hugarlund áhrif áframhaldandi uppreisnar hans á okkar tíma.

Hið vanheilaga andkristna tríó Mormónsbókar – Serem, Nehor og Kóríhor – er sígild lexía um virka uppreisn gegn Guði. Meginkenning Nehors og Kóríhors var sú að engin synd væri til; þess vegna væri engin þörf fyrir iðrun og að enginn frelsari væri. „Velgengni sérhvers manns [væri] bundin náttúrugáfum hans, og sigur sérhvers manns væri bundinn við styrk hans og ekkert, sem maðurinn tæki sér fyrir hendur, væri glæpur.“ Andkristur hafnar trúarlegu valdi og skilgreinir helgiathafnir og sáttmála sem gjörninga „sem fornir prestar hafa boðið til að ná völdum og ráðum“.

William W. Phelps

Sagan af William W. Phelps er dæmi um ásetta uppreisn á síðari dögum með gleðilegri endi. Phelps gekk í kirkjuna árið 1831 og var útnefndur prentari kirkjunnar. Hann ritstýrði nokkrum gömlum kirkjuritum, orti fjölda sálma og þjónaði sem ritari Josephs Smith. Því miður snerist hann gegn kirkjunni og spámanninum, jafnvel upp að því marki að bera ljúgvitni gegn Joseph Smith fyrir dómstólum í Missouri, sem varð til þess að spámaðurinn var settur þar í varðhald.

Phelps skrifaði síðar Joseph og bað hann fyrirgefningar. „Ég þekki aðstæður mínar, þú þekkir þær og Guð þekkir þær, og ég æski björgunar, ef vinir mínir vilja liðsinna mér.“

Í svari sínu sagði spámaðurinn: „Satt er að við höfum þjáðst mikið vegna breytni þinnar. … En bikarinn hefur verið drukkinn, vilji okkar himneska föður gerður og við erum enn á lífi. … Vertu viss, kæri bróðir, þar sem stríðinu er lokið … verða vinir áður loks vinir að nýju.“

William Phelps gróf „uppreisnarvopn sín“ með einlægri iðrun og á móti honum var enn á ný tekið í fullri vináttu og hann féll aldrei aftur frá.

Ef til vill er þó lævísari tegund uppreisnar gegn Guði óvirka útgáfan – að hunsa vilja hans í lífi okkar. Margir sem aldrei myndu íhuga virka uppreisn, gætu samt verið í andstöðu við vilja og orð Guðs með því að fara sínar eigin brautir, án tillits til guðlegrar leiðsagnar. Ég minnist lagsins sem söngvarinn Frank Sinatra gerði frægt fyrir mörgum árum með línunni: „Ég þræddi minn veg.“ Vissulega er í lífinu nægilegt svigrúm fyrir persónulegar óskir og einstaklingsbundið val, en þegar kemur að sáluhjálp og eilífu lífi þá ætti þemasöngur okkar að vera „Ég þræddi Guðs veg“, því sannlega er enginn annar vegur til.

Tökum sem dæmi fordæmi frelsarans varðandi skírn. Hann lét skírast til að sýna föðurnum hollustu og vera okkur fyrirmynd:

„[Hann] sýndi mannanna börnum, að í holdinu auðmýkti hann sig fyrir föðurnum og vitnaði fyrir föðurnum að hann vildi hlýða honum og halda boðorð hans. …

Og hann sagði við mannanna börn: Fylgið mér. En ástkæru bræður, getum við fylgt Kristi, nema við séum fúsir til að halda boðorð föðurins?“

Það er engin „minn vegur“ ef við hyggjumst fylgja fordæmi Krists. Að reyna að finna annan veg til himins er jafn tilgangslaust og að vinna við Babelsturninn, fremur en að líta til Krists og hjálpræðis hans.

Sverðin, og önnur vopn sem Lamanítarnir grófu, voru uppreisnarvopn, vegna þess hvernig þeir höfðu notað þau. Þessi sömu vopn í höndum sona þeirra, sem notuð voru til varnar fjölskyldu og frelsi, voru alls ekki uppreisnarvopn gegn Guði. Það sama átti við um slík vopn í höndum Nefítanna: „Engu að síður knúði betri málstaður Nefíta, því að þeir börðust ekki fyrir einveldi eða valdi, heldur börðust þeir fyrir heimilum sínum og frelsi sínu, konum sínum og börnum, og öllu sínu, já, fyrir trúarsiðum sínum og kirkju sinni.“

Á þennan sama hátt eru hlutir í lífi okkar sem geta verið hlutlausir og jafnvel eðlislega góðir, en verða að „uppreisnarvopnum“ séu þeir notaðir á rangan hátt. Málfar okkar getur til að mynda uppbyggt eða vanvirt. Eins og Jakob sagði:

„En tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju sem er full af banvænu eitri.

Með henni vegsömum við Drottin okkar og föður og með henni formælum við mönnum sem skapaðir eru í líkingu Guðs.

Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir og systur.“

Það er margt í opinberri og persónulegri umræðu á okkar tíma sem er illgjarnt og illkvittið. Það er mikið af umræðu sem er ósæmileg og vanhelg, jafnvel meðal ungmenna. Þess konar málflutningur er „uppreisnarvopn“ gegn Guði, „fullur af banvænu eitri“.

Skoðum annað dæmi um nokkuð sem í meginatriðum er gott, en getur snúist gegn guðlegum leiðbeiningum – starfsframa einstaklings. Hægt er að finna raunverulega ánægju í atvinnu, starfi eða þjónustu og öll njótum við góðs af því sem fórnfúst og hæfileikaríkt fólk á mörgum sviðum hefur áorkað og skapað.

Samt er mögulegt að dálæti á starfsframa geti orðið aðaláhersla lífs manns. Þá verður allt annað í öðru sæti, þar með taldar allar kröfur sem frelsarinn kann að gera varðandi tíma okkar og hæfileika. Að karlar sem konur, leiði hjá sér lögmæt tækifæri til hjónabands, láti bregðast að halda sér fast að og upplyfta maka sínum, vanrækja að ala upp börn sín eða jafnvel forðast meðvitað blessanir og ábyrgð á barnauppeldi eingöngu til að leggja áherslu á starfsframa, getur snúið lofsverðum árangri í eins konar uppreisn.

Annað dæmi varðar líkamlega tilveru okkar. Páll minnir á að okkur ber að vegsama Guð bæði í líkama og anda og að þessi líkami sé musteri heilags anda, „[sem] þið hafið frá Guði … þið eigið ykkur ekki sjálf“. Við höfum því lögbundna hagsmuni af því að verja tíma við að hirða um líkama okkar eftir bestu getu. Fá okkar munu ná þeim hátindi árangurs sem við höfum séð nýlega í afrekum íþróttafólks á Ólympíuleikunum og Ólympíuleikum fatlaðra og sum okkar eru að upplifa áhrif þess að eldast, eða þess sem M. Russell Ballard forseti kallaði „hnoðin sem taka að losna“.

Engu að síður trúi ég að það gleðji skapara okkar þegar við gerum okkar besta til að annast hina dásamlegu gjöf hans að hljóta efnislíkama. Það væri merki um uppreisn að afskræma eða saurga líkama sinn, misnota hann, eða láta hjá líða að gera það sem maður getur til að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl. Á sama tíma getur hégómi og að verða gagntekinn af eigin líkamsbyggingu, útliti eða klæðaburði verið tegund uppreisnar á hinum enda öfganna, sem leiðir til þess að maður tilbiður gjöf Guðs í stað Guðs sjálfs.

Að lokum þýðir það að grafa uppreisnarvopn okkar gegn Guði einfaldlega að gefa sig að hvatningu heilags anda, afklæðast hinum náttúrlega manni og verða „heilagur fyrir friðþægingu Krists, sjálfs Drottins“. Það merkir að hafa æðsta boðorðið í fyrirrúmi í lífi okkar. Það merkir að láta Guð ríkja. Ef elska okkar til Guðs og staðfesta okkar um að þjóna honum af öllum mætti okkar, huga og styrk, verður sá prófsteinn sem við dæmum alla hluti og tökum allar ákvarðanir út frá, þá höfum við grafið uppreisnarvopn okkar. Af náð Krists mun Guð fyrirgefa syndir okkar og uppreisnir fortíðar og afmá smán þeirrar syndar og uppreisnar úr hjarta okkar. Með tímanum mun hann jafnvel fjarlægja alla þrá eftir illu, á sama hátt og hann gerði við Lamanítana til forna. Eftir það munum við líka „aldrei [verða fráhverf]“.

Að grafa uppreisnarvopn okkar leiðir til einstakrar gleði. Með öllum sem einhvern tíma hafa snúist til trúar á Drottin, munum við „fara að syngja [söng] endurleysandi elsku“. Himneskur faðir okkar og sonur hans, lausnari okkar, hafa staðfest óendanlega skuldbindingu sína við endanlega hamingju okkar, með fórn og djúpri og elsku. Við upplifum elsku þeirra daglega. Vissulega getum við endurgoldið það með eigin elsku og tryggð. Megum við grafa – mjög, mjög djúpt – alla uppreisnarþætti gegn Guði í lífi okkar og setja í þeirra stað fúst hjarta og viljugan huga. Í nafni Jesú Krists, amen.