Fylgja Kristi
Sem fylgjendur Krists, kennum við og vitnum um Jesú Krist, okkar fullkomnu fyrirmynd. Við skulum því fylgja honum með því að forðast deilur.
Á þessu ári hafa milljónir verið innblásnir af trúarnámsáætlun sem kunn er undir boði frelsarans: „Kom, fylg mér.“ Að fylgja Kristi er ekki hversdagsleg eða tilfallandi iðkun. Það er viðvarandi skuldbinding og lífsháttur sem ætti að vera leiðandi öllum stundum og alls staðar. Kenningar hans og fordæmi skilgreina veg sérhvers lærisveins Jesú Krists. Öllum er boðið að koma á þennan veg, því hann býður öllum að koma til sín, „svörtum [og] hvítum, ánauðugum [og] frjálsum, karli [og] konu, … allir eru jafnir fyrir Guði“.
I.
Fyrsta skrefið í því að fylgja Kristi er að hlýða því sem hann skilgreinir sem „hið æðsta boðorð í lögmálinu“:
„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.
Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.
Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.
Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“
Boðorð Guðs eru leiðandi og stöðugur kraftur í lífi okkar. Reynsla okkar í jarðlífinu er eins og litli drengurinn og faðir hans fljúgandi flugdreka á vindasömum degi. Þegar flugdrekinn hækkaði olli vindurinn því að hann togaði í tengistrenginn í hendi litla drengsins. Óreyndur af krafti jarðneskra vinda, lagði hann til að klippt yrði á strenginn svo flugdrekinn gæti risið hærra. Vitur faðir hans neitaði því leiðbeinandi og útskýrði að strengurinn væri það sem héldi flugdrekanum á sínum stað gegn jarðneskum vindum. Ef við missum tak okkar á strengnum, mun flugdrekinn ekki rísa hærra. Hann mun berast með þessum vindum og óhjákvæmilega hrapa til jarðar.
Þessi nauðsynlegi strengur táknar sáttmálana sem tengja okkur við Guð, himneskan föður okkar og son hans Jesú Krist. Þegar við heiðrum þessa sáttmála með því að halda boðorð þeirra og fylgja endurlausnaráætlun þeirra, gera hinar fyrirheitnu blessanir þeirra okkur kleift að svífa í himneskar hæðir.
Mormónsbók staðhæfir oft að Kristur sé „ljós heimsins“. Þegar hinn upprisni Drottinn vitjaði Nefítanna, útskýrði hann þessa kenningu með því að segja við þá: „Ég hef sýnt yður fordæmi.“ „Sjá, ég er ljósið, sem þér skuluð halda á loft – það sama og þér hafið séð mig gjöra.“ Hann er fyrirmynd okkar. Við lærum það sem hann hefur sagt og gert með því að læra ritningarnar og fylgja spámannlegum kenningum, eins og Russell M. Nelson forseti hefur hvatt okkur til að gera. Í helgiathöfn sakramentisins gerum við sáttmála hvern hvíldardag um að „hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans“.
II.
Í Mormónsbók, veitti Drottinn okkur grundvallaratriði þess sem hann kallaði „kenningu Krists“. Þau eru trú á Drottin Jesú Krist, iðrun, skírn, móttaka gjafar heilags anda, að standast allt til enda og verða sem lítið barn, sem merkir að treysta Drottni og beygja sig undir allt sem hann krefst af okkur.
Boðorð Drottins eru tvenns konar: varanleg, líkt og kenning Krists, og tímabundin. Tímabundin boðorð eru nauðsynleg fyrir þarfir kirkju Drottins eða hina trúföstu í tímabundnum aðstæðum, en eru lögð til hliðar þegar þörfin er liðin hjá. Dæmi um tímabundin boðorð eru leiðbeiningar Drottins til fyrstu leiðtoga kirkjunnar um að flytja hina heilögu frá New York til Ohio, til Missouri, til Illinois og loks um að leiða brottflutning brautryðjendanna til fjallanna í vestri. Þótt þau væru aðeins tímabundin, voru þessi boðorð gefin til að hlýða þeim meðan þau voru enn í gildi.
Það hefur tekið talsverðan tíma fyrir sum varanleg boðorð að vera almennt haldin. Í frægri ræðu Lorenzo Snow forseta um tíundarlögmálið er t.d. áhersla lögð á boðorð sem áður var gefið en almennt ekki enn fylgt af kirkjumeðlimum. Það þurfti að leggja aukna áherslu á það við þær aðstæður sem kirkjan og þegnar hennar stóðu þá frammi fyrir. Þörf hefur líka verið á fleiri nýlegum dæmum um endurtekna áherslu, vegna núverandi aðstæðna sem Síðari daga heilagir eða kirkjan standa frammi fyrir. Þau eru meðal annars yfirlýsingin um fjölskylduna, sem Gordon B. Hinckley forseti gaf út fyrir kynslóð síðan og nýlegt boð Russells M. Nelson forseta um að kirkjan yrði auðkennd með sínu opinberaða nafni, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
III.
Önnur kenning frelsara okkar virðist krefjast aukinnar áherslu í aðstæðum okkar tíma.
Þetta er tími margra óvæginna og særandi orða í opinberum samskiptum og stundum jafnvel í fjölskyldum okkar. Mikill ágreiningur um opinber stefnumál leiðir oft til fjandskapar – jafnvel haturs – í opinberum og persónulegum samskiptum. Þetta andrúmsloft fjandskapar lamar jafnvel getu til lagasetningar um mikilvæg málefni, þar sem flestir borgarar sjá brýna þörf á aðgerðum í þágu almannahagsmuna.
Hvað ættu fylgjendur Krists að kenna og gera á þessum eitruðu samskiptatímum? Hver var kenning hans og fordæmi?
Mikilvægt er að meðal fyrstu reglnanna sem Jesús kenndi þegar hann birtist Nefítunum, var að forðast ágreining. Þótt hann hafi kennt þetta í tengslum við deilur um trúarkenningar, þá eiga ástæður hans greinilega við um samskipti og sambönd í stjórnmálum, opinber stefnumál og fjölskyldusamböndum. Jesús kenndi:
„Sá, sem haldinn er anda sundrungar er ekki minn, heldur djöfulsins, sem er faðir sundrungar og egnir menn til deilna og reiði hvern gegn öðrum.
Sjá! Það er ekki mín kenning að egna menn til reiði hver við annan, heldur er það kenning mín, að slíkt skuli afnumið.“
Í þeirri þjónustu sem Jesús varði meðal Nefítanna, kenndi hann önnur boðorð sem voru nátengd banni hans við þrætum. Við vitum frá Biblíunni, að hann hafði áður kennt hvert þeirra í hinni miklu Fjallræðu, yfirleitt með nákvæmlega sama málfari og hann síðar notaði við Nefítana. Ég ætla að vitna í hið kunnuglega mál Biblíunnar.
„Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“ „Gjörið þeim gott, sem hata yður og biðjið fyrir þeim, sem misnota yður og ofsækja.“
Þetta er eitt best þekkta boðorð Krists – byltingarkenndast og erfiðast að halda. Samt er það grundvallarþáttur í boði hans til allra um að fylgja sér. Eins og David O. McKay forseti kenndi: „Það er engin betri leið til að tjá Guði elsku en að sýna samferðafólki sínu óeigingjarnan kærleika.“
Hér er önnur grundvallarkenning hans sem er fyrirmynd okkar: „Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“
Friðflytjendur! Hve það myndi breyta persónulegum samböndum ef fylgjendur Krists létu af óvægnum og særandi orðum í öllum samskiptum sínum.
Á aðalráðstefnu á síðasta ári setti Russell M. Nelson forseti fram þessar áskoranir:
„Ein einfaldasta leiðin til að bera kennsl á sannan fylgjanda Jesú Krists er að sjá hversu samúðarfull breytni fólks er við aðra. …
Sannir lærisveinar Jesú Krists eru friðflytjendur.
… Eitt það besta sem við gerum til að heiðra frelsarann er að verða friðflytjandi.“
Niðurstaða kennslu hans: „Deilur er valkostur. Að vera friðflytjandi er valkostur. Þið hafið sjálfræði til að velja sundrung eða sættir. Ég hvet ykkur eindregið til að velja að vera friðflytjendur, núna og alltaf.“
Hugsanlegir andstæðingar ættu að hefja umræðu sína á því að finna sameiginlegan grundvöll sem allir eru sammála um.
Til að fylgja hinni fullkomnu fyrirmynd okkar og spámanni hans, þurfum við að lifa eftir því sem almennt er þekkt sem gullna reglan: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.“ Við þurfum að elska alla og gera öllum gott. Við þurfum að forðast erjur og vera friðflytjendur í öllum okkar samskiptum. Þetta þýðir ekki að slaka á reglum okkar og forgangsröðun, heldur að hætta að ráðast harkalega á aðra vegna þeirra reglna. Það gerði okkar fullkomna fyrirmynd í þjónustu sinni. Það er fordæmið sem hann setti okkur þegar hann bauð okkur að fylgja sér.
Á þessari ráðstefnu, fyrir fjórum árum, setti Nelson forseti fram spámannlega áskorun fyrir okkar tíma:
„Ert þú fús til að láta Guð ríkja í lífi þínu? Ert þú fús til að láta Guð vera áhrifaríkastan alls í lífi þínu? Vilt þú leyfa að orð hans, boðorð hans og sáttmálar hans, ráði þínum daglegu gjörðum? Vilt þú leyfa að rödd hans sé í fyrirrúmi allra annarra?“
Sem fylgjendur Krists, kennum við og vitnum um Jesú Krist, okkar fullkomnu fyrirmynd. Við skulum því fylgja honum með því að forðast deilur. Þegar við fylgjum okkar helstu reglum í opinberum athöfnum, skulum við verða hæf fyrir blessanir hans með því að nota málfar og aðferðir friðflytjenda. Forðumst vægðarlausa og hatursfulla hluti í fjölskyldum okkar og í öðrum persónulegum samböndum. Við skulum leitast við að vera heilög, líkt og frelsarinn, en í hans heilaga nafni ber ég vitni og ákalla blessun hans til að hjálpa okkur að vera heilög. Í nafni Jesú Krists, amen.