Aðalráðstefna
Velkomin í kirkju gleði
Aðalráðstefna október 2024


13:2

Velkomin í kirkju gleði

Sökum endurleysandi lífs og hlutverks frelsara okkar, Jesú Krists, getum við – og ættum – að vera gleðiríkasta fólkið á jörðu!

Ég var skírður inn í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á aðfangadag 1987, fyrir nærri 37 árum síðan. Þetta var sannarlega yndislegur dagur í lífi mínu og í eilífu ferðalagi mínu og ég er innilega þakklátur þeim vinum sem lögðu leiðina og leiddu mig að vötnum þessarar nýju fæðingar.

Hvort sem þið skírðust í gær eða fyrir mörgum árum, hvort sem þið komið saman í stórri kirkjubyggingu sem hýsir margar deildir eða undir stráþaki, hvort sem þið meðtakið sakramentið til minningar um frelsarann á taílensku eða svahílí, þá vil ég segja við ykkur: Velkomin í kirkju gleði! Velkomin í kirkju gleði!

Kirkja gleði

Vegna kærleiksríkrar áætlunar himnesks föður fyrir hvert barna sinna og vegna endurleysandi lífs og hlutverks frelsara okkar, Jesú Krists, getum við – og ættum – að vera hamingjusamasta fólkið á jörðu! Jafnvel þegar stormar lífsins bylja á okkur, í heimi sem oft er erfiður, getum við ræktað með okkur vaxandi og varanlega gleði og innri frið, sökum vonar okkar á Krist og skilnings okkar á eigin stöðu í hinni dásamlegu sæluáætlun.

Í nær öllum ræðum sem aðalpostuli Drottins hefur Russell M. Nelson forseti, frá því að hann varð forseti kirkjunnar, talað um gleðina sem hlýst af lífi sem hefur Jesú Krist að þungamiðju. Í stuttu máli sagði hann: „Gleðin á rætur í honum og er sökum hans. Hvað Síðari daga heilaga varðar, þá er Jesús Kristur sjálf gleðin!“

Við erum meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Við erum meðlimir kirkju gleði! Gleði okkar sem fólks ætti hvergi að vera augljósari en þegar við komum saman á sakramentissamkomum okkar á hverjum hvíldardegi, til að tilbiðja uppsprettu allrar gleði! Þar komum við saman með deildar- og greinarfjölskyldum okkar til að gleðjast yfir sakramenti kvöldmáltíðar Drottins, frelsunar okkar frá synd og dauða og máttugri náð frelsarans! Hér komum við til að upplifa gleðina, athvarfið, fyrirgefninguna, þakkargjörðina og að tilheyra fyrir tilstuðlan Jesú Krists!

Er þessi andi sameiginlegrar gleði í Kristi það sem þið upplifið? Komið þið með þetta með ykkur? Kannski haldið þið að þetta hafi lítið með ykkur að gera eða kannski eruð þið einfaldlega vön því hvernig hlutirnir hafa alltaf verið gerðir. En við getum öll lagt okkar af mörkum, hver sem aldur okkar er eða köllun, til að gera sakramentissamkomur okkar að þeirri gleðifylltu, Krists miðuðu tilhlökkunarstund sem þær geta verið, lifandi í anda gleðiríkrar lotningar.

Gleðirík lotning

Gleðirík lotning? „Er hún til?“ kunnið þið að spyrja. Jú, hún er til! Við elskum, heiðrum og virðum Guð okkar á djúpstæðan hátt og lotning okkar streymir frá sál sem fagnar yfir mikilli elsku, miskunn og hjálpræði Krists! Þessi gleðiríka lotning gagnvart Drottni ætti að vera einkennandi fyrir helgar sakramentissamkomur okkar.

Fyrir marga merkir lotning hins vegar aðeins þetta: að krossleggja hendur þétt að brjósti okkar, lúta höfði, loka augum og vera kyrr – endalaust! Þetta gæti verið gagnleg leið til að kenna orkumiklum smábörnum, en þegar við vöxum og lærum skulum við gera okkur grein fyrir að lotning er miklu meira en það. Hegðuðum við okkur þannig ef frelsarinn væri með okkur? Nei því „gleðignótt er fyrir augliti hans“!

Mörg okkar þurfum að æfa okkur til að þessi umbreyting á sakramentissamkomum eigi sér stað.

Mæting eða tilbeiðsla

Við komum ekki bara saman á hvíldardegi til að sækja sakramentissamkomu og haka við það á listanum. Við komum saman til að tilbiðja. Það er verulegur munur á þessu tvennu. Að mæta þýðir að vera viðstaddur. En að tilbiðja er hins vegar að lofa og dásama Guð okkar af ásetningi á þann hátt sem umbreytir okkur!

Á pallinum og í söfnuðinum

Ef við erum saman komin í minningu frelsarans og endurlausnarinnar sem hann hefur gert mögulega, ættu andlit okkar að endurspegla gleði okkar og þakklæti! Öldungur F. Enzio Busche sagði eitt sinn söguna af því þegar hann var greinarforseti og ungur drengur í söfnuðinum leit á hann á pallinum og spurði hátt: „Hvað er maðurinn með þetta harðneskjulega andlit að gera þarna uppi?“ Þau sem sitja á pallinum – ræðumenn, leiðtogar, kórar – og þau sem eru í söfnuðinum bjóða hvert annað „velkomið í kirkju gleði“ með þeim svip sem þau hafa á andliti sínu!

Sálmasöngur

Þegar við syngjum, sameinumst við þá í lofsöng til Guðs okkar og konungs, sama hver raddgæði okkar eru, eða erum við bara að muldra orðin eða syngjum við alls ekki? Ritningarnar segja að söngur hinna réttlátu sé bæn til Guðs, sem sál hans gleðst yfir. Syngjum þá! Og lofum hann!

Ræður og vitnisburðir

Ræður okkar og vitnisburðir snúast um himneskan föður og Jesú Krist og ávexti þess að lifa auðmjúklega eftir fagnaðarerindi þeirra, ávexti sem eru „ljúffengari en allt, sem ljúffengt er“. Þá munum við „endurnæra [okkur] … þar til [við erum] mettuð orðin, og þá mun [okkur] hvorki hungra né þyrsta“, byrðar okkar verða léttari vegna gleðinnar yfir syni hans.

Sakramentið

Hin dýrðlega þungamiðja samkoma okkar er blessun og viðtaka sjálfs sakramentisins, brauðsins og vatnsins, sem tákna friðþægingargjöf Drottins okkar og er aðaltilgangur samansöfnunar okkar. Þetta er „helgur tími andlegrar endurnýjunar“ þegar við staðfestum á ný að við séum fús til að taka á okkur nafn Jesú Krists og gera aftur sáttmála um að hafa frelsarann ávallt í huga og halda boðorð hans.

Á einhverjum tímabilum lífsins nálgumst við kannski sakramentið með þyngsli í hjarta og yfirþyrmandi byrðar. Á öðrum stundum komum við frjáls og laus við áhyggjur og erfiðleika. Þegar við hlustum af athygli á blessanir brauðsins og vatnsins og neytum af þessum helgu táknum, gætum við fundið löngun til að ígrunda fórn frelsarans, þjáningar hans í Getsemane, angist hans á krossinum og þær sorgir og þann sársauka sem hann þoldi fyrir okkur. Þetta verður það sem léttir á sál okkar, er við tengjum þjáningar okkar við hans. Á öðrum stundum munum við undrast af lotningu yfir hinni óviðjafnanlegu og ljúfu gleði sem hin mikla gjöf Jesú hefur gert mögulegt í lífi okkar og í eilífðinni! Við munum fagna því sem koma mun – okkar kæru endurfundum við ástkæran föður okkar og upprisinn frelsara.

Við gætum talið það skilyrt að ætla að tilgangur sakramentisins væri að sitja á kirkjubekknum og hugsa aðeins um það hvernig við klúðruðum málunum í vikunni á undan. En snúum þeirri iðkun alveg við. Í kyrrðinni getum við hugleitt hvernig Drottinn hefur fylgt okkur eftir á margvíslegan hátt af undursamlegri elsku sinni þessa vikuna! Við getum íhugað merkingu þess að „uppgötva gleði daglegrar iðrunar“. Við getum þakkað fyrir þau skipti sem frelsarinn tók þátt í baráttu okkar og sigrum og fyrir þau tilvik þegar við fundum náð hans, fyrirgefningu og kraft veita okkur styrk til að sigrast á erfiðleikum okkar og bera byrðar okkar af þolinmæði og jafnvel fögnuði.

Já, við íhugum þjáningarnar og óréttlætið sem frelsari okkar þoldi vegna synda okkar og það gefur tilefni til réttsýnnar hugleiðingar. En stundum festumst við þar – í garðinum, við krossinn, inni í gröfinni. Við látum bregðast að líta upp til þeirrar gleði að gröfinni var lokið upp, að dauðinn var sigraður og Kristur sigraðist á öllu því sem gæti komið í veg fyrir að við öðluðumst frið og kæmumst aftur til okkar himnesku heimkynna. Hvort sem við fellum sorgartár eða tár þakklætis meðan á sakramentinu stendur, látum það þá gerast í dásamlegri undrun yfir hinum góðu tíðindum gjafar föðurins á syni sínum!

Foreldrar með börn sem eru ung eða hafa sérþarfir

Hvað foreldra barna varðar sem eru ung eða hafa sérþarfir, þá er oft engin kyrrðar- og hugleiðslustund meðan á sakramentinu stendur. Á smáum augnablikum yfir vikuna, getið þið hins vegar kennt með fordæmi þann kærleika, þakklæti og þá gleði sem þið finnið til frelsarans og frá honum, er þið annist stöðugt litlu lömbin hans. Engin viðleitni við þetta fer til spillis. Guð er einstaklega meðvitaður um ykkur.

Fjölskyldu-, deildar- og greinarráðsfundir

Á sama hátt getum við byrjað að auka vonir okkar og væntingar innan heimilis okkar fyrir tíma okkar í kirkjunni. Á fjölskyldufundum getum við rætt hvernig hver einstaklingur geti lagt sitt af mörkum á áhrifaríkan hátt við að bjóða alla velkomna í kirkju gleði! Við getum gert áætlun og vænst þess að njóta gleðiríkrar upplifunar í kirkju.

Deildar- og greinarráðsfundir geta séð fyrir sér og skapað menningu gleðiríkrar lotningar á sakramentisstund okkar, komið auga á hagnýt skref og sjónrænar vísbendingar til að hjálpa.

Gleði

Gleði er mismunandi milli einstaklinga. Fyrir suma getur hún verið mikil kæti við dyrnar. Fyrir aðra getur hún verið að hjálpa fólki hljóðlega að líða vel með því að brosa og sitja við hlið þess með ljúfu og opnu hjarta. Fyrir þá sem finnst þeir vera útundan eða á jaðrinum mun hlýjan við þessar móttökur skipta sköpum. Þegar allt kemur til alls, getum við spurt okkur sjálf hvernig frelsarinn myndi vilja að sakramentisstund okkar væri. Hvernig myndi hann vilja að tekið væri á móti hverju barna sinna, annast væri um þau, þau nærð og elskuð? Hvernig myndi hann vilja að okkur liði þegar við komum til að endurnýjast í gegnum það að minnast hans og tilbiðja?

Lokaorð

Í upphafi trúarferðar minnar var gleði í Jesú Kristi mín fyrsta mikla uppgötvun og hún umbreytti heimi mínum. Ef þið hafið enn ekki uppgötvað þessa gleði, leitið hennar þá. Þetta er boð um að taka á móti gjöf frelsarans um frið, ljós og gleði – að njóta hennar, undrast yfir henni og gleðjast hvern hvíldardag.

Ammon í Mormónsbók tjáir tilfinningar mínar er hann segir:

„Höfum við ekki ástæðu til að fagna? Jú, ég segi ykkur, að frá upphafi veraldar hafa aldrei verið menn, sem jafn mikla ástæðu höfðu til að fagna og við. Já, gleði mín tekur völdin, og ég miklast í Guði, því að hans er allt vald, öll viska og allur skilningur. Hann skilur alla hluti, og hann er miskunnsöm vera, og miskunn hans nær til að frelsa þá, sem vilja iðrast og trúa á nafn hans.

Nú, ef þetta er að miklast, já, þá miklast ég, því að þetta er líf mitt og ljós mitt, … gleði mín og hin mikla þakkargjörð mín.“

Velkomin í kirkju gleði! Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson forseti sagði: „Gleði er máttug og með því að einblína á gleði, munum við virkja mátt Guðs í lífi okkar. Í þessu, líkt og í öllu, þá er Jesús Kristur okkar mesta fyrirmynd, því ,vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi‘ [Hebreabréfið 12:2]. Hugsið ykkur það! Frelsari okkar, sem gekk í gegnum óbærilegustu upplifun jarðar, gerði það með því að einblína á gleði! Í hverju fólst þessi gleði sem hann einbeitti sér að? Sú gleði fólst vissulega í því að hreinsa, lækna og styrkja okkur; þeirri gleði að greiða gjaldið fyrir syndir allra þeirra sem iðruðust; þeirri gleði að gera mér og þér kleift að komst aftur heim – hrein og verðug – til að dvelja hjá himneskum foreldrum og fjölskyldum okkar. Hvað getum við þolað sem nú virðist yfirþyrmandi, sárt, ógnvænlegt, ósanngjarnt eða einfaldlega ómögulegt, ef við einblínum á þá gleði sem býður okkar eða ástvina okkar?“ („Gleði og andleg þrautseigja,“ aðalráðstefna, október 2016).

  2. Sálmarnir 16:11.

  3. F. Enzio Busche, „Lessons from the Lamb of God,“ Religious Educator, 9. bindi, nr. 2 (2008).

  4. Kenning og sáttmálar 25:12.

  5. Sjá Sálmarnir 100:1.

  6. Alma 32:42.

  7. Sjá Alma 33:23.

  8. Almenn handbók: Þjónusta í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 29.2.1.1, Gospel Library.

  9. Sjá Russell M. Nelson, athugasemd á námskeiði fyrir trúboðsleiðtoga, júní 2019; tilvitnun hjá Dale G. Renlund, „Staðföst skuldbinding við Jesú Krist,“ aðalráðstefna, október 2019.

  10. Gordon B. Hinckley forseti kenndi: „Þegar þið, sem prestar, krjúpið við sakramentisborðið og flytjið bænina, sem barst með opinberun, setjið þið allan söfnuðinn undir sáttmála við Drottin. Er þetta lítilvægt? Hún er mikilvægust og merkilegust“ („The Aaronic Priesthood—a Gift from God,“ Ensign, maí 1988, 46).

    Þeir sem undirbúa, blessa eða útdeila sakramentinu eru að þjónusta þessa helgiathöfn í þágu Drottins. Sérhver sem er handhafi prestdæmisins ætti að nálgast þetta verkefni með hátíðlegu, lotningarfullu viðhorfi. Hann ætti að vera vel hirtur, hreinn og klæddur siðsamlega. Persónulegt útlit ætti að endurspegla heilagleika helgiathafnarinnar („Priesthood Ordinances and Blessings,“ Family Guidebook [2006], 22).

  11. Alma 36:21.

  12. Russell M. Nelson, „Máttur andlegs skriðþunga,“ aðalráðstefna, apríl 2022.

  13. Sjá Mósía 24:13–15.

  14. Sjá Jóhannes 3:16–17.

  15. Alma 26:35–37.