Jarðlífið virkar!
Þrátt fyrir áskoranirnar sem við öll mætum, hefur okkar elskulegi, himneski faðir hannað hamingjuáætlunina á þann hátt að okkur er ekki ætlað að mistakast.
Um nokkurra ára skeið fékk ég það verkefni að sjá um heimiliskennslu fyrir eldri systur í deildinni minni. Líf hennar var ekki auðvelt. Hún átti við ýmisleg heilsufarsvandamál að stríða og fann fyrir verkjum alla sína lífstíð vegna slyss á leikvelli í barnæsku. Fráskilin við 32 ára aldur með fjögur ung börn til að ala upp og sjá fyrir, giftist hún aftur 50 ára. Seinni eiginmaður hennar lést þegar hún var 66 ára og lifði þessi systir í 26 ár sem ekkja.
Þrátt fyrir áskoranirnar allt hennar líf, var hún trúföst á sáttmálsveginum allt til enda. Þessi systir var dugleg í ættfræðinni, fór í musterið og safnaði og skrifaði ættarsögur. Þrátt fyrir margar erfiðar raunir, og án efa fann hún á stundum fyrir depurð og einmanaleika, hafði hún glaðlegt yfirbragð og ljúfan og notalegan persónuleika.
Níu mánuðum eftir andlát hennar, varð einn sona hennar fyrir merkilegri reynslu í musterinu. Hann komst að því fyrir kraft heilags anda að móðir hans væri með skilaboð til hans. Hún átti samskipti við hann, en ekki með sýn eða með heyranlegum orðum. Eftirfarandi ótvíræð skilaboð komu upp í huga sonarins frá móður hans: „Ég vil að þú vitir að jarðlífið virkar og ég vil að þú vitir að ég skil núna hvers vegna allt gerðist [í lífi mínu] eins og það gerðist – og það er allt í góðu lagi.”
Þessi skilaboð eru þeim mun merkilegri í ljósi aðstæðna þessarar systur og erfiðleikanna sem hún þurfti að takast á við og yfirstíga.
Bræður og systur, jarðlífið virkar! Það er hannað til að virka! Þrátt fyrir áskoranir, hjartasorg og erfiðleika sem við mætum, hefur okkar elskulegi, vitri og fullkomni himneski faðir hannað hamingjuáætlunina á þann hátt að okkur er ekki ætlað að mistakast. Áætlun hans sér okkur fyrir leið til að yfirstíga okkar jarðnesku mistök. Drottinn hefur sagt: „Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“
Engu að síður, ef við ætlum að njóta góðs af „[verki] og dýrð“ Drottins, jafnvel „ódauðleika og eilíft líf“, verðum við að búast við því að fá skólagöngu og fræðslu og að fara í gegnum eld hreinsarans – stundum að ystu takmörkum okkar. Að forðast algjörlega vandamál, áskoranir og erfiðleika þessa heims væri að komast hjá því ferli sem er sannarlega nauðsynlegt til að jarðlífið virki.
Því ætti það ekki að koma okkur á óvart þegar erfiðir tímar koma yfir okkur. Við munum lenda í aðstæðum sem reyna á okkur og mæta fólki sem gerir okkur kleift að iðka sannan kærleika og þolinmæði. En við þurfum að þola erfiðleika okkar og hafa hugfast, eins og Drottinn sagði:
„Og hver sá, sem fórnar lífi sínu mín vegna, vegna nafns míns, mun finna það aftur, já, eilíft líf.
Óttist þess vegna ekki óvini yðar [eða vandamál ykkar, áskoranir eða prófraunir lífsins], því að ég hef ákvarðað …, segir Drottinn, að ég muni reyna yður í öllu, hvort þér séuð sáttmála mínum trúir … svo að þér reynist verðugir.“
Þegar við finnum fyrir vonbrigðum eða kvíða vegna vandamála okkar eða teljum að við séum að fá meira en sanngjarnt er af erfiðleikum lífsins, getum við minnst þess sem Drottinn sagði við Ísraelsmenn:
„Hafðu hugfast hvernig Drottinn, Guð þinn, leiddi þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni. Hann gerði það til að beygja þig og reyna þig, til þess að komast að raun um hvað þú hafðir í huga, hvort þú hygðist halda boðorð hans.“
Eins og Lehí kenndi syni sínum Jakob:
„Þú máttir þola þrengingar í bernsku og miklar raunir. … Engu að síður … mun [Guð] helga þrengingar þínar þér til góðs. … Af þeim sökum veit ég, að þú ert endurleystur fyrir réttlæti lausnara þíns.“
Þar sem þetta líf er prófsteinn og það „syrtir af skugganna skýjum og skelfingin ógnun oss fær,“ er hjálplegt að muna þessa leiðsögn og loforðið sem finna má í Mósía 23 og fjallar um áskoranir lífsins: „En hver, sem setur traust sitt á hann, honum mun lyft upp á efsta degi.“
Sem unglingur, upplifði ég persónulega mikinn tilfinningalegan sársauka og skömm sem stafaði af ranglátum gjörðum annars, sem í mörg ár hafði áhrif á sjálfsvirðingu mína og þá tilfinningu að vera verðugur frammi fyrir Drottni. Samt sem áður ber ég þess vitni að Drottinn getur styrkt okkur og borið okkur í hverjum þeim erfiðleikum sem við erum kölluð til að upplifa meðan á dvöl okkar stendur í þessum táradal.
Við þekkjum reynslu Páls:
„Og til þess að ég skuli ekki ofmetnast af hinum miklu opinberunum er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig til þess að ég skuli ekki líta of stórt á mig.
Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér.“
Og hann hefur svarað mér: ‚Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika.‘ Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.“
Við vitum ekki hver þessi „fleinn í [holdi]“ Páls var. Hann kaus að lýsa því ekki hvort um líkamlegan kvilla, andlegan eða tilfinningalegan veikleika eða freistingu væri að ræða. En við þurfum ekki að vita það nákvæmlega til að vita að hann átti í baráttu og bað Drottinn um hjálp og að lokum var það styrkur og kraftur Drottins sem hjálpaði honum í gegnum það.
Eins og Páll, var það fyrir hjálp Drottins að ég styrktist að lokum tilfinningalega og andlega og viðurkenndi loks eftir mörg ár að ég hef alltaf verið verðugur einstaklingur og verðugur blessana fagnaðarerindisins. Frelsarinn hjálpaði mér að sigrast á tilfinningum mínum um óverðugleika og veita hinum brotlega einlæga fyrirgefningu. Ég skildi loks að friðþæging frelsarans var persónuleg gjöf fyrir mig og að himneskur faðir minn og sonur hans elska mig fullkomlega. Vegna friðþægingar frelsarans virkar jarðlífið.
Þó að ég hafi loks fengið þá blessun að átta mig á því hvernig frelsarinn bjargaði mér og stóð með mér í gegnum þessa reynslu, skil ég greinilega að hin óheppilega staða á mínum unglingsárum var mitt persónulega ferðalag og upplifun sem segir ekkert fyrir um hver sé lausnin og endanleg niðurstaða fyrir aðra þá sem hafa þjáðst og þjást enn vegna ranglátrar hegðunar annarra.
Ég viðurkenni að lífsreynsla – góð og slæm – getur kennt okkur mikilvægar lexíur. Ég veit núna og ber minn vitnisburð um að jarðlífið virkar! Ég vona að niðurstaða allrar minnar lífsreynslu – góðrar og slæmrar – verði sú að ég hafi samúð með saklausum þolendum gjörða annarra og sýni hluttekningu með þeim sem eru undirokaðir.
Ég vona að niðurstaða allrar minnar lífsreynslu – góðrar og slæmrar – verði sú að ég verði vingjarnlegri við aðra, komi fram við aðra eins og frelsarinn vill, hafi meiri skilning á syndaranum og sýni algjöra ráðvendni. Þegar við förum að treysta á náð frelsarans og halda sáttmála okkar, getum við verið fordæmi um víðtæk áhrif friðþægingar frelsarans.
Ég deili síðasta dæminu um að jarðlífið virkar.
Móðir mín átti ekki auðvelda ferð um jarðlífið. Hún hlaut engar viðurkenningar eða veraldlegan heiður og hafði ekki tækifæri til menntunar umfram menntaskóla. Hún fékk lömunarveiki sem barn, sem leiddi til ævilangs sársauka og óþæginda í vinstri fótlegg hennar. Sem fullorðin, upplifði hún margar erfiðar og krefjandi líkamlegar og fjárhagslegar aðstæður en var trú sáttmálum sínum og elskaði Drottin.
Þegar móðir mín var 55 ára, lést eldri systir mín sem var næst mér í aldri, frá átta mánaða gamalli dóttir sinni, og sú frænka mín varð móðurlaus. Af ýmsum ástæðum, ól mamma frænku mína upp næstu 17 árin, oft við erfiðar kringumstæður. En þrátt fyrir þessa reynslu, þjónaði hún glöð og fúslega fjölskyldu sinni, nágrönnum og deildarmeðlimum og þjónaði sem musterisþjónn við helgiathafnir í musterinu í mörg ár. Síðustu ár ævi sinnar, þjáðist mamma af heilabilun, var oft ringluð og bjó á hjúkrunarheimili. Því miður var hún alein þegar hún óvænt féll frá.
Nokkrum mánuðum eftir andlát hennar, dreymdi mig draum sem ég hef aldrei gleymt. Í draumnum mínum sat ég á skrifstofu minni í stjórnsýslubyggingu kirkjunnar. Móðir mín gekk inn á skrifstofuna. Ég vissi að hún hefði komið frá andaheiminum. Ég mun alltaf muna eftir þeim tilfinningum sem ég fann fyrir. Hún sagði ekkert, en hún geislaði af andlegri fegurð sem ég hafði aldrei áður upplifað og á erfitt með að lýsa.
Ásjóna hennar og nærvera voru virkilega töfrum líkastar! Ég man að ég sagði við hana: „Móðir, þú ert svo falleg!“ og átti þá við andlegann kraft hennar og fegurð. Hún sýndi að hún skildi mig – aftur án þess að tala. Ég fann fyrir ást hennar til mín og vissi að hún væri hamingjusöm og laus við veraldlegar áhyggjur og áskoranir og biði með eftirvæntingu eftir „[dýrðlegri] upprisu.“ Ég veit að jarðlífið virkaði fyrir mömmu – og að það virkar fyrir okkur líka.
Verk Guðs og dýrð er að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika. Reynsla jarðlífsins er hluti af því ferðalagi sem gerir okkur kleift að vaxa og þróast í átt að þeim ódauðleika og eilífa lífi. Við vorum ekki send hingað til að mistakast, heldur til að ná árangri með áætlun Guðs fyrir okkur.
Benjamín konungur kenndi: „Og enn fremur langar mig til, að þér hugleiðið blessun og hamingju þeirra, sem halda boðorð Guðs. Því að sjá. Þeir njóta blessunar í öllu, jafnt stundlegu sem andlegu. Og ef þeir haldast staðfastir allt til enda, er tekið á móti þeim á himni, og þeir fá dvalið með Guði í óendanlegri sælu.“ Með öðrum orðum, jarðlífið virkar!
Ég ber vitni um að þegar við meðtökum helgiathafnir fagnaðarerindisins, gerum sáttmála við Guð og höldum síðan þá sáttmála, iðrumst, þjónum öðrum og stöndumst allt til enda, getum við líka haft fullvissu og fullkomið traust á Drottni um að jarðlífið virkar! Ég ber vitni um Jesú Krist og að dýrðleg framtíð okkar með himneskum föður er möguleg fyrir náð og friðþægingu frelsarans. Í nafni Jesú Krists, amen.