Guð elskar öll börn sín
Jesús Kristur er alltaf að kalla á okkur og hann notar okkur, almenna þjóna sína til að hjálpa við að færa börnin hans til hans.
Hvað þráir himneskur faðir frá ykkur? Skiljið þið að þegar þið voruð í fortilverunni, voruð þið undirbúin af himneskum föður fyrir líf ykkar á jörðinni? Nelson forseti talaði sérstaklega til ungmenna og sagði að „himneskur faðir okkar [hafi] geymt marga af göfugustu öndum hans – kannski … besta liðið hans – fyrir þennan síðasta þátt. Þar sem við höfum verið geymd fyrir þessa síðari daga, er mikilvægt fyrir okkur að læra að vera lærisveinar Jesú Krists.
Drottinn Jesús Kristur er góði hirðirinn og þekkir sauði sína og sauðirnir þekkja hirðirinn því „hann kallar á sína sauði með nafni.“ Hann er alltaf að kalla á okkur og hann notar okkur, almenna þjóna sína til að hjálpa við að færa börnin sín til sín.
Fyrir nokkru fór ég ásamt stikuforseta einum að heimsækja meðlimi kirkjunnar í nágrenninu. Eftir að við höfðum lokið skipulögðum heimsóknum okkar, spurði stikuforsetinn hvort við gætum heimsótt eina fjölskyldu í viðbót. Honum fannst við þurfa að heimsækja hana.
Við bönkuðum á hurðina og systir ein kom til dyra. Hún leit á mig en vissi ekki hver ég var, svo hún sýndi lítil viðbrögð. Ég benti með höndinni á stikuforsetann sem heilsaði henni með nafni. Um leið og hún heyrði í honum og sá hann, gladdist hún. Þarna við hurðina, föðmuðust þau og grétu saman. Þetta gaf tóninn fyrir heimsókn okkar. Við vissum ekki að þessi systir hefði verið í lyfjameðferð við krabbameini deginum áður. Hún var of veikburða til að sjá um fullorðin son sinn. Svo ég hjálpaði stikuforsetanum að klæða son hennar og við settum hann í hjólastólinn hans. Við gáfum honum mat sem önnur yndisleg systir í deildinni hafði komið með áður og hjálpuðum við önnur verkefni. Áður en við yfirgáfum heimili þeirra, gátum við veitt þeim blessum.
Allt sem fór í gegnum huga minn í þessari heimsókn var staðfesting á því að Jesús Kristur elskaði þau innilega. Hann skilur þau og þekkir persónulegan sársauka þeirra sérstæðu kringumstæða. Næstum öll heimsóknin fór fram í þögn. Við þetta tilefni var engin löng prédikun eða uppáhalds ritningarvers lesin, en Drottinn blessaði okkur ríkulega með anda sínum.
Ein mikilvægasta ástæða þess að himneskur faðir sendi ykkur hingað á þessum tíma, er til þess að þið getið fullnýtt ykkar möguleika. Boða fagnaðarerindi mitt kennir okkur að sem lærisveinar Krists, ættum við að forðast að bera okkur saman við hvert annað. Ykkar andlegu hæfileikar eru einstakir, persónulegir og meðfæddir og himneskur faðir vill hjálpa ykkur að þróa þá áfram. Það munu alltaf vera einhverjir sem þið getið hjálpað að finna fyrir elsku okkar himneska föður. Möguleikar ykkar eru guðlegir. Þótt mikilvægt sé að undirbúa sig til að ná árangri í þessum heimi mikillar keppni, er eitt af ykkar mikilvægustu verkefnum í lífinu að verða lærisveinn Jesú Krists og að fylgja hughrifum andans. Þegar þið gerið það, mun Guð blessa líf ykkar, blessa núverandi fjölskyldu ykkar eða framtíðarfjölskyldu ykkar og blessa líf þeirra barna sinna sem þið hittið.
Við lifum á tíma mikilla tækifæra. Þótt við upplifum marga erfiðleika, þá veit ég að þeir eru þar að hluta til þess að hjálpa okkur að finna elsku okkar himneska föður. Nelson forseti sagði: „Á komandi tíð, munum við sjá stærstu birtingarmyndir um kraft frelsarans, sem heimurinn hefur nokkru sinni séð.“ Þau forréttindi eru okkar að vaka yfir fólki sem þarfnast hjálparhandar, faðmlags, huggunar eða einfaldlega bara að við verjum tíma með því í þögn. Ef við getum hjálpað við að létta byrðar þeirra, þó ekki nema um stund, þá getum við séð kraft frelsarans raungerast með miklum hætti í lífi þeirra.
Sem lærisveinar Jesú Krists, geta hinir Síðari daga heilagir haft jákvæð áhrif í heiminum. Við getum smitað gleði sem endurspeglast í ásjónu okkar, gleði sem við deilum með kærleiksríkum orðum og góðverkum. Verum góðir nágrannar, góðir vinnuveitendur og góðir starfsmenn. Leitumst við að vera ávallt góðir kristnir menn.
Drottinn hefur endurreist fagnaðarerindi sitt með nauðsynlegum helgiathöfnum, svo börn himnesks föður geti notið þeirra loforða sem binda okkur honum. Það að hjálpa systrum okkar og bræðrum í þeirra daglegu áskorunum, fær okkur líka til að muna að hjálpa þeim að gera og halda þessi helgu loforð við himneskan föður þeirra, svo hann geti endurgoldið þeim með loforði um ríkulegar blessanir fyrir þetta líf og eilífðina. Þessi loforð eru einungis möguleg fyrir tilstuðlan hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists og prestdæmislykla hans.
Með öðrum orðum, við getum hjálpað öðrum að halda sig á sáttmálsveginum. Sum okkar víkja af þessum vegi af og til og því verðum við að muna að hvað varðar okkar himneska föður, þá getum við alltaf snúið til baka. Jafnvel þó að leið okkar sé ekki sú fullkomnasta, minnir frelsarinn okkur alltaf á að „um leið og [við iðrumst] og [leitum] fyrirgefningar, með raunverulegum ásetningi, verði [okkur] fyrirgefið.”
Eitt þeirra bragða sem andstæðingurinn notar í dag er að láta okkur halda að það sé engin leið fyrir okkur að breytast eða að vonin sé engin. Þessi eyðileggjandi hugsun veldur því að mörg okkar hætta að reyna. Það er á þessari stundu þegar kærleikur okkar, hvatningar- og stuðningsorð, tími okkar og liðsinni getur veitt einhverjum næga von til þess að reyna einu sinni í viðbót.
Kannski eruð þið að hugsa: „Allt í lagi, en hver hugsar um mig?“ Með því að blessa líf bræðra okkar og systra, söfnum við vitnisburðum sem munu fylla líf okkar með trú á Jesú Krist. Þessir vitnisburðir munu veita okkur lífsþrótt til að reyna sjálf einu sinni enn. Heilagur andi mun upplífga okkur og hjálpa okkur með endurnýjuðum vitnisburði til þess að halda áfram í erfiðleikum okkar og persónulegu raunum. Í hvert sinn sem við leitumst við að blessa líf annarra, miskunnar Drottinn okkur enn frekar. Hann styrkir okkur og hjálpar okkur í lífi okkar.
Vinsamlega munið að Jesús Kristur er frelsari ykkar og lausnari og skilur ykkur persónulega. Hann veit hvað það er að hafa köllun og segja skilið við aðra hluti til þess að hjálpa börnum Guðs. Hann hefur máttinn til þess blessa ykkur í öllu, ef þið trúið á hann og efist ekki.
Kæru bræður og systur, á þeim degi þegar prestdæmisleiðtogi fékk hvatningu til að heimsækja móður og son sem ekki var hluti af dagskránni, fullyrði ég að Guð vissi að þau þörfnuðust okkar. Þegar uppi var staðið, var ég sá sem naut þjónustu. Á þeim degi hlaut ég eina dásamlegustu lexíu mína um elsku frelsarans til okkar.
Ég ber vitni um að Jesús Kristur er frelsari heimsins, að hann lifir, að hann lifði og dó fyrir mig og ykkur og að hann reis upp fyrir mig og ykkur, svo að við getum keppt að himneskum gleðiríkum endurfundum með þeim sem þegar eru hinum megin hulunnar. Ég veit að hann skilur mig og ykkur fullkomlega. Hann skilur hverja erfiða stund okkar og hann hefur kraftinn til að hjálpa okkur á þeim stundum sem okkur finnst við hvað vanmáttugust. Ég veit að Drottinn Jesús Kristur og okkar himneski faðir birtust Joseph Smith til þess að endurreisa fagnaðarerindið á þessum tímum. Ég veit að okkar ástkæri spámaður, Russel M. Nelson, er spámaður Guðs og ég ber ykkur vitni um þetta í nafni Jesú Krists, amen.