Synir og dætur Guðs
Við trúum því sannarlega að allir menn séu bókstaflega börn Guðs, og þess vegna höfum við möguleika að verða eins og hann.
Í dag langar mig að fjalla um einn dýrðlegasta, gleðilegasta og kröftugasta sannleika fagnaðarerindisins sem Guð hefur opinberað. Á sama tíma er það kaldhæðni hversu oft við höfum verið gagnrýnd fyrir það. Reynsla sem ég upplifði fyrir nokkrum árum jók þakklæti mitt fyrir þennan sérstaka sannleika fagnaðarerindisins á djúpstæðan máta.
Sem fulltrúa kirkjunnar, var mér eitt sinn boðið á trúarráðstefnu þar sem tilkynnt var að frá þeirri stundu myndu þeir viðurkenna sem gildar allar skírnir sem framkvæmdar væru af næstum öllum öðrum kristnum kirkjum, svo framarlega sem helgiathöfnin færi fram með vatni og í nafn föðurins og sonarins og heilags anda. Síðan var útskýrt að þessi stefna ætti ekki við um skírnir sem framkvæmdar væru af Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
Eftir ráðstefnuna gat ég kafað dýpra í ástæður þessarar undantekningar með leiðtoganum sem sá um tilkynninguna. Við áttum yndislegt og innihaldsríkt samtal.
Í stuttu máli útskýrði hann fyrir mér að undantekningin hefði fyrst og fremst að gera með sérstakar skoðanir okkar um Guðdóminn, sem aðrar kristnar kirkjudeildir tala um sem þrenninguna. Ég lýsti yfir þakklæti mínu fyrir að hann gæfi sér tíma til að útskýra fyrir mér trú sína og stefnu kirkju sinnar. Í lok samtals okkar föðmuðumst við og kvöddumst svo.
Þegar ég íhugaði umræður okkar seinna, íþyngdi það mér sem þessi vinur sagði um að Síðari daga heilagir skildu ekki það sem hann kallaði „leyndardóm þrenningarinnar.“ Hvað átti hann við? Það hlaut að hafa með skilning okkar á eðli Guðs að gera. Við trúum því að Guð faðirinn „sé upphafinn maður“ með dýrðlegan „líkama af holdi og beinum eins áþreifanlegan og mannsins; [og] sonurinn líka.” Þess vegna, í hvert skipti sem við tölum um eðli Guðs erum við á einhvern hátt líka að tala um okkar eigið eðli.
Og þetta er satt, ekki aðeins vegna þess að við vorum öll sköpuð „í [hans] mynd, í [hans] líkingu,“ en einnig vegna þess, eins og sálmahöfundurinn skráði, að Guð sagði: „Þér eruð guðir; og öll eruð þér börn hins hæsta.“ Þetta er fyrir okkur dýrmæt kenning sem nú er endurheimt með tilkomu endurreisnarinnar. Í stuttu máli er það hvorki meira né minna en það sem trúboðar okkar kenna sem fyrstu lexíu, fyrstu málsgrein, fyrstu línu: „Guð er himneskur faðir okkar og við erum börn hans.“
Nú gætuð þið sagt, „En margir trúa því að við séum börn Guðs.“ Já, það er satt, en skilningur þeirra gæti verið aðeins frábrugðinn því sem við staðfestum um dýpri merkingu þess. Fyrir Síðari daga heilaga, er þessi kenning ekki myndlíking. Við trúum því frekar að allir menn séu bókstaflega börn Guðs. Hann er „faðir anda [okkar], “ og vegna þess höfum við möguleika á að verða eins og hann, sem virðist vera óhugsandi fyrir suma.
Nú eru liðin yfir 200 ár frá því að Fyrsta sýnin lauk upp dyrunum að endurreisninni. Á þeim tíma leitaði hinn ungi Joseph Smith leiðsagnar frá himnum til að vita í hvaða kirkju ætti að ganga. Í opinberuninni sem spámaðurinn Joseph fékk þann dag og í síðari opinberunum til hans, fékk hann þekkingu á eðli Guðs og sambandi okkar við hann sem börn hans.
Þess vegna lærum við með skýrari hætti að himneskur faðir okkar hefur kennt þessa dýrmætu kenningu alveg frá upphafi. Leyfið mér að vitna í að minnsta kosti tvær reynslusögur úr ritningunum til að útskýra þetta.
Þið gætuð munað eftir fyrirmæli Guðs til Móse eins og þau eru skráð í Hinni dýrmætu perlu.
Við lesum að „Guð talaði við Móse og sagði: Sjá, ég er Drottinn Guð almáttugur og Óendanlegur er nafn mitt.“ Með öðrum orðum, Móse, ég vil að þú vitir hver ég er. Síðan bætti hann við: „Og sjá, þú ert sonur minn.“ Síðar sagði hann: „Og ég ætla þér verk að vinna, sonur minn Móse; og þú ert í líkingu míns eingetna.“ Að endingu sagði hann: „Og sjá, þetta eitt sýni ég þér nú, Móse, sonur minn.“
Svo virðist sem Guð hafi verið staðráðinn í að kenna Móse að minnsta kosti þennan eina sannleika: „Þú ert barnið mitt,“ sem hann endurtók að minnsta kosti þrisvar sinnum. Hann gat ekki einu sinni nefnt nafn Móse, án þess að bæta strax við að hann væri sonur hans.
Hins vegar, eftir að Móse var aftur orðin einn, fannst honum hann veikburða vegna þess að hann var ekki lengur í návist Guðs. Það var þá sem Satan kom til að freista hans. Getið þið séð mynstrið hér? Það fyrsta sem Satan sagði við Móse var: „Móse, mannsonur, tigna þú mig.“
Í þessu samhengi gæti beiðni Satans um að tilbiðja sig aðeins verið til að afvegaleiða. Veruleg freisting fyrir Móse á því augnabliki veikleikans var að ruglast og trúa því að hann væri aðeins „mannssonur,“ frekar en barn Guðs.
„Og svo bar við, að Móse leit á Satan og sagði: Hver ert þú? Því að sjá, ég er sonur Guðs, í líkingu hans eingetna.“ Sem betur fer ruglaðist Móse ekki og leyfði sér ekki að láta truflast. Hann hafði lært lexíuna um það hver hann í raun og veru var.
Næstu sögu er að finna í Matteus 4. Fræðimenn hafa nefnt þetta „Þrjár freistingar Jesú“ eins og Drottni okkar hafi aðeins verið freistað þrisvar sinnum.
Hundruðir lítra af bleki hafa verið notaðir til að útskýra merkingu og innihald þessara freistinga. Eins og við vitum, byrjar kaflinn á því að útskýra að Jesús hafi farið út í eyðimörkina: „Þar fastaði Jesús fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður.“
Fyrsta freisting Satans hafði síðan með það að gera að uppfylla líkamlegar þarfir Drottins. Hann skoraði á frelsarann: „Bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“
Önnur freisting hafði að gera með að freista Guðs: „Kasta þér ofan því að ritað er, hann mun fela þig englum sínum.“
Að lokum vísaði þriðja freisting Satans til væntinga og dýrðar heimsins. Þegar Jesú hafði verið sýnt „öll ríki heimsins og dýrð þeirra, … segir [Satan]: Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.”
Í sannleika sagt gæti endanleg freisting Satans haft minna með þessar þrjár sérstöku ögranir að gera og meira með það að freista Jesú Krists til að draga guðlegt eðli hans í efa. Að minnsta kosti tvisvar fylgdi þessi ögrun Satans í kjölfar freistingarinnar: „Ef þú ert sonur Guðs“ – ef þú trúir því virkilega, þá gerðu þetta eða hitt.
Veitið því athygli sem hafði gerst rétt áður en Jesús fór út í eyðimörkina til að fasta og biðja. Við lesum söguna um skírn Jesú. Og þegar hann sté upp úr vatninu „kom [rödd] af himnum Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“
Sjáum við tenginguna? Getum við borið kennsl á mynstur hérna?
Það er engin furða að í hvert sinn sem við erum frædd um guðlegt eðli okkar og örlög, þá freistar andstæðingur alls réttlætis okkur til að draga það í efa.
Hversu öðruvísi yrðu ákvarðanir okkar ef við vissum hver við í raun værum.
Við lifum í krefjandi heimi, heimi vaxandi ólgu, þar sem heiðvirt fólk leitast hið minnsta við að leggja áherslu á mannlega reisn okkar, á meðan við tilheyrum kirkju og tileinkum okkur fagnaðarerindi sem lyftir sýn okkar og býður okkur inn í hið guðlega.
Boðorð Jesú um að vera „fullkomin eins og faðir [okkar] himneskur er fullkominn“ endurspeglar hans miklu væntingar og okkar eilífu möguleika. Nú, ekkert af þessu mun gerast á einni nóttu. Með orðum Jeffrey R. Holland forseta, þá mun það gerast „að lokum.“ En loforðið er að ef við „[komum] til Krists“ munum við „fullkomnast í honum.“ Það krefst mikils verks, ekki hvaða verks sem er, heldur guðlegs verks. Hans verks!
Góðu fréttirnar eru að það er einmitt faðir okkar á himnum sem lýsti yfir: „Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“
Boð Nelsons forseta að „hugsa himneskt“ gefur til kynna dásamlega áminningu um guðlegt eðli okkar, uppruna og mögulegan ákvörðunarstað. Við getum aðeins náð hinu himneska með friðþægingarfórn Jesú Krists.
Kannski var það ástæðan fyrir því að Satan tældi Jesú með sömu freistingunni frá upphafi til enda jarðneskrar þjónustu hans. Matteus skráði að meðan Jesús hékk á krossinum, hafi þeir „sem fram hjá gengu [hæðst að] Jesú, … og [sagt]: … Ef þú ert sonur Guðs, stíg niður af krossinum.“ Dýrð sé Guði að hann hlýddi ekki, heldur sá okkur þess í stað fyrir leið til að hljóta allar himneskar blessanir.
Við skulum alltaf muna að ,mikið gjald var greitt fyrir hamingju okkar.
Ég ber vitni með Páli postula um að „sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.“ Í nafni Jesú Krists, amen.