Aðalráðstefna
Drottinn Jesús Kristur mun koma aftur
Aðalráðstefna október 2024


14:50

Drottinn Jesús Kristur mun koma aftur

Nú er tíminn fyrir ykkur og fyrir mig að búa okkur undir síðari komu Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists.

Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir að Drottinn hefur blessað mig til að tala til ykkar.

Á þessari ráðstefnu hefur Drottinn talað til okkar með þjónum sínum. Ég hvet ykkur til að læra boðskap þeirra. Notið hann sem prófstein á hvað er satt og hvað ekki, yfir næstu sex mánuði.

Varðveisla og endurnýjun Salt Lake-musterisins og annarra svæða á Musteristorginu hefur staðið yfir í nærri fimm ár. Núverandi spár gera ráð fyrir að þeirri vinnu verði lokið fyrir árslok 2026. Við erum þakklát öllum þeim sem vinna að þessu risavaxna verkefni.

Á síðustu sex mánuðum höfum við vígt eða endurvígt níu musteri í fimm löndum. Frá þessari stundu til ársloka munum við vígja fimm til viðbótar.

Í dag erum við mjög ánægð að tilkynna áætlanir um að byggja 17 fleiri musteri. Hlustið vinsamlega lotningarfull þegar ég greini frá staðsetningunni.

  • Juchitán de Zaragoza, Mexíkó

  • Santa Ana, El Salvador

  • Medellín, Kólumbíu

  • Santiago, Dóminíska lýðveldinu

  • Puerto Montt, Síle

  • Dublin, Írlandi

  • Milan, Ítalíu

  • Abuja, Nígeríu

  • Kampala, Úganda

  • Maputo, Mósambík

  • Coeur d‘Alene, Idaho

  • Queen Creek, Arisóna

  • El Paso, Texas

  • Huntsville, Alabama

  • Milwaukee, Wisconsin

  • Summit, New Jersey

  • Price, Utah

Kæru bræður og systur, sjáið þið það sem er að gerast fyrir augum okkar? Ég bið þess að við missum ekki af mikilfengleika þessarar stundar! Drottinn er vissulega að hraða verki sínu.

Af hverju byggjum við musteri á slíkum fordæmislausum hraða? Af hverju? Af því að Drottinn hefur boðið okkur að gera það. Blessanir musterisins hjálpa við að safna saman Ísrael beggja vegna hulunnar. Þessar blessanir hjálpa líka við að undirbúa fólk sem mun hjálpa við að búa heiminn undir síðari komu Drottins!

Síðari koma frelsarans.

Eins og spámaðurinn Jesaja spáði fyrir um og eins og haldið er í minningu í Messíasi eftir Handel: Þegar Jesús Kristur kemur aftur, „mun dýrð Drottins birtast og allt hold sjá það samtímis“.

Á þeim degi „skal höfðingjadómurinn [á hans herðum] hvíla, hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi“.

Jesús Kristur mun ríkja bæði frá gömlu Jerúsalem og Nýju Jerúsalem sem verður „reist á meginlandi Ameríku“. Frá þessum tveimur miðstöðvum mun hann stjórna málefnum kirkju sinnar.

Á þeim degi mun Drottinn verða kunnur sem „konungur konunga og Drottinn drottna“. Þeir sem eru með honum verða „hinir kölluðu og útvöldu og trúu“.

Bræður og systur, nú er tíminn fyrir ykkur og fyrir mig að búa okkur undir síðari komu Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists. Nú er tíminn fyrir okkur að hafa lærisveinshlutverkið í algjöru fyrirrúmi. Hvernig getum við gert þetta í heimi sem er fullur af svimandi truflunum?

Rómar-musterið, Ítalíu

Reglubundin tilbeiðsla í musterinu mun hjálpa okkur. Í húsi Drottins einblínum við á Jesú Krist. Við lærum um hann. Við gerum sáttmála um að fylgja honum. Við tökum að þekkja hann. Þegar við höldum musterissáttmála okkar, öðlumst við aukinn aðgang að styrkjandi mætti Drottins. Í musterinu hljótum við vernd frá áreiti heimsins. Við upplifum hina hreinu ást Jesú Krists og himnesks föður okkar í ríkum mæli! Við finnum frið og andlega fullvissu, andstætt ókyrrð heimsins.

Hér er loforð mitt til ykkar: Sérhver einlægur leitandi Jesú Krists mun finna hann í musterinu. Þið munuð skynja náð hans. Þið munið finna svör við erfiðustu spurningum ykkar. Þið munið skilja betur gleði fagnaðarerindis hans.

Mér hefur lærst að mikilvægasta spurningin sem við öll verðum að svara er þessi: Hverjum eða hverju ætla ég að helga líf mitt?

Nelson forseti sem skurðlæknir.

Ákvörðun mín um að fylgja Jesú Kristi er mikilvægasta ákvörðun sem ég hef nokkru sinni tekið. Í læknanáminu hlaut ég vitnisburð um guðleika Guðs föðurins og sonar hans, Jesú Krists. Allt frá því hefur frelsari okkar verið sá klettur sem ég hef byggt líf mitt á. Sú ákvörðun hefur gert allan gæfumun! Sú ákvörðun hefur gert svo margar aðrar ákvarðanir auðveldari. Sú ákvörðun hefur gefið mér tilgang og leiðsögn. Hún hefur líka hjálpað mér að standast storma lífsins. Leyfið mér að nefna tvö dæmi:

Í fyrsta lagi, þegar eiginkona mín Dantzel féll óvænt frá, náði ég ekki í neitt barnanna okkar. Þarna sat ég, einsamall, niðurbrotinn og hrópandi á hjálp. Þakksamlega kenndi Drottinn mér með anda sínum hvers vegna mín kæra Dantzel hafði verið tekin heim. Ég lét huggast af þeim skilningi. Með tímanum varð ég betur í stakk búinn til að takast á við sorgina. Síðar giftist ég ástkærri eiginkonu minni, Wendy. Hún var þungamiðjan í síðari dæmi mínu.

Þegar ég og Wendy vorum að vinna að verkefni í fjarlægu landi, miðuðu vopnaðir ræningjar byssu á höfuð mitt og hleyptu af. En ekkert skot kom úr byssunni. Meðan á þessari upplifun stóð var lífi okkar beggja ógnað. Samt fundum ég og Wendy óumdeilanlegan frið. Það var friður „sem er æðri öllum skilningi“.

Bræður og systur, Drottinn mun líka hughreysta ykkur! Hann mun styrkja ykkur. Hann mun blessa ykkur með friði, jafnvel mitt í ringulreið.

Drottinn Jesús Kristur.

Hlustið endilega á þetta loforð Jesú Krists til ykkar: „Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings.“

Geta frelsarans til að hjálpa ykkur á sér engin takmörk. Ólýsanlegar þjáningar hans í Getsemane og á Golgata voru fyrir ykkur! Algjör friðþæging hans er fyrir ykkur!

Ég hvet ykkur til að helga tíma í hverri viku – það sem eftir er ævinnar – til að auka skilning ykkar á friðþægingu Jesú Krists. Ég syrgi í hjarta yfir þeim sem syndga og vita ekki hvernig losna á. Ég græt yfir þeim sem eiga í andlegri baráttu eða bera þungar byrðar einsömul, vegna þess að þau skilja ekki hvað Jesús Kristur gerði fyrir þau.

Jesús Kristur tók á sig syndir ykkar, sársauka ykkar, sorgir ykkar og vanmátt ykkar. Þið þurfið ekki að bera þetta einsömul! Hann mun fyrirgefa ykkur þegar þið iðrist. Hann mun blessa ykkur með því sem þið þurfið. Hann mun græða þjáða sál ykkar. Þegar þið gangist undir ok með honum, mun byrði ykkar verða léttari. Ef þið gerið og haldið sáttmála um að fylgja Jesú Kristi, munið þið komast að því að sársaukafullar stundir lífs ykkar eru tímabundnar. Þrengingar ykkar munu „[hverfa] í fögnuði Krists“.

Það er hvorki of snemmt, né of seint fyrir ykkur að verða trúfastir lærisveinar Jesú Krists. Þá munið þið upplifa blessanir friðþægingar hans að fullu. Þið munuð líka verða árangursríkari við að hjálpa við samansöfnun Ísraels.

Síðari koma Jesú Krists.

Kæru bræður mínir og systur, á komandi degi mun Jesús Kristur snúa aftur til jarðar sem Messías þúsund áranna. Ég bið ykkur því í dag að endurhelga líf ykkar Jesú Kristi. Ég ákalla ykkur til að hjálpa við samansöfnun hins tvístraða Ísraels og búa heiminn undir síðari komu Drottins. Ég ákalla ykkur til að tala um Krist, vitna um Krist, trúa á Krist og fagna í Kristi!

Komið til Krists og „leggið fram [sál ykkar óskipta]“. Þetta er leyndardómur gleðiríks lífs!

Það besta er enn í vændum, kæru bræður og systur, því frelsarinn kemur aftur! Hið besta er enn í vændum, því Drottinn er að hraða verki sínu. Það besta er enn í vændum, er við snúum hjörtum okkar og lífi algjörlega að Jesú Kristi.

Af andakt ber ég vitni um að Jesús Kristur er sonur Guðs. Ég er lærisveinn hans. Það er mér heiður að vera þjónn hans. Við síðari komu hans „mun dýrð Drottins birtast og allt hold sjá það samtímis“. Sá dagur mun fylltur gleði fyrir hina réttlátu!

Fyrir kraft hinna helgu prestdæmislykla sem ég hef, boða ég ykkur og öllum heiminum þennan sannleika! Í nafni Jesú Krists, amen.