Vindurinn blés stöðugt
Við getum hjálpað öðrum að taka framförum á ferðalagi þeirra til að taka á móti blessunum Guðs.
Árið 2015 unnu 62 meðlimir lögmannafélags J. Reubens Clark með skrifstofu ríkissaksóknara í Pernambuco-fylki í Brasilíu að því að rannsaka lagalegar áskoranir íbúa á fjórum mismunandi hjúkrunarheimilum. Einn laugardaginn ræddu þessir lögfræðingar í fimm klukkustundir við yfir 200 íbúa, einn í einu, sem hver um sig höfðu í raun gleymst í samfélaginu.
Í viðtölum sínum uppgötvuðu þeir nokkra glæpi sem höfðu verið framdir gegn öldruðum íbúum, svo sem afskiptaleysi, illa meðferð og fjárdrátt. Lykilstoð þessa lögmannafélags er að annast hina fátæku og þurfandi. Aðeins tveimur mánuðum síðar lagði saksóknari fram ákæru á hendur ábyrgum aðilum.
Stuðningur þeirra er fullkomið dæmi um kenningu Benjamíns konungs um „að þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar“.
Einn íbúi sem ég ræddi persónulega við í pro bono (kostnaðarlausa) verkefninu var góðhjörtuð 93 ára gömul kona að nafni Lúcia. Þakklát fyrir þjónustu okkar, sagði hún í gríni: „Gifstu mér!“
Ég svaraði hissa: „Sjáðu þarna þessa fallegu ungu konu! Hún er eiginkona mín og ríkissaksóknarinn.“
Hún skaut fljótt til baka: „Hvað með það? Hún er ung, falleg og getur auðveldlega gifst aftur. Þú ert allt sem ég hef!“
Hinir dásamlegu íbúar fengu ekki lausn á öllum sínum vandamálum þennan dag. Þeir hafa vafalaust haldið áfram að upplifa erfiðleika endrum og eins, eins og Jaredítarnir á bátum sínum á hinni erfiðu ferð til fyrirheitna landsins, „grafnir í djúpi sjávar vegna fjallháu öldunnar, er braut á þeim“.
Þennan laugardag vissu íbúar hjúkrunarheimilanna hins vegar að þrátt fyrir jarðneskt nafnleysi þeirra, þá þekkti kærleiksríkur himneskur faðir þá persónulega, sá sem svarar jafnvel einföldustu bænum.
Meistari meistaranna lét „ofsastorm“ feykja Jaredítunum í átt að fyrirheitnum blessunum. Á líkan hátt getum við ákveðið að þjóna sem auðmjúk vindhviða í höndum Drottins. Á sama hátt og „vindurinn blés [Jaredítana] stöðugt“ í átt að fyrirheitna landinu, getum við hjálpað öðrum á ferð þeirra til að hljóta blessanir Guðs.
Fyrir nokkrum árum þegar ég og Chris, mín kæra eiginkona, vorum í viðtali fyrir köllun mína sem biskup, bað stikuforsetinn mig að íhuga í bænarhug nöfn til að mæla með sem ráðgjafa. Eftir að hafa heyrt nöfnin sem ég mælti með, sagði hann að ég ætti að vita nokkuð um einn bræðranna.
Í fyrsta lagi, þá kunni þessi bróðir ekki að lesa. Í öðru lagi, átti hann ekki bíl sem hann gæti notað til að heimsækja meðlimi. Í þriðja lagi, þá var hann alltaf – alltaf – með sólgleraugu í kirkju. Þrátt fyrir einlægar áhyggjur forsetans, fann ég sterklega að ég ætti enn að mæla með honum sem ráðgjafa mínum og stikuforsetinn studdi mig.
Sunnudaginn sem ég og ráðgjafar mínir vorum studdir á sakramentissamkomu leyndi undrun meðlimanna sér ekki. Þessi kæri bróðir gekk hægt upp að pallinum, þar sem loftljósin spegluðust skært í sólgleraugunum hans.
Þar sem hann sat við hlið mér, spurði ég hann: „Bróðir, áttu í vandræðum með sjónina?“
„Nei,“ sagði hann.
„Af hverju notar þú þá sólgleraugu í kirkju?“ spurði ég. „Vinur minn, meðlimirnir þurfa að sjá augu þín og þú verður líka að geta séð þá betur.“
Á þeirri stundu tók hann af sér sólgleraugun og notaði þau aldrei aftur í kirkju.
Þessi ástkæri bróðir þjónaði mér við hlið þar til ég var leystur af sem biskup. Í dag heldur hann áfram að þjóna trúfastlega í kirkjunni og er fordæmi um hollustu og skuldbindingu við Drottin Jesú Krist. Og samt var hann, fyrir mörgum árum, óþekktur náungi með sólgleraugu sem sat nánast gleymdur á kirkjubekkjum kirkjunnar. Ég velti því oft fyrir mér: „Hversu margir trúfastir bræður og systur sitja gleymd okkar á meðal í dag?“
Hvort sem við erum vel þekkt eða gleymd, þá munu raunir óhjákvæmilega verða á vegi okkar allra. Þegar við snúum okkur til frelsarans, þá getur hann „helgað þrengingar [okkar okkur] til góðs“ og hjálpað okkur að bregðast við raunum okkar á þann hátt að það auðveldi andlega framþróun okkar. Hvort sem um er að ræða íbúa hjúkrunarheimilis, ranglega dæmdan kirkjumeðlim eða einhvern annan, þá getum við verið „vindurinn [sem] blés stöðugt“, fært von og leitt aðra til sáttmálsvegarins.
Okkar ástkæri spámaður, Russell M. Nelson forseti, lagði fram spennandi og hvetjandi boð til unga fólksins: „Ég staðfesti eindregið að Drottinn hefur boðið sérhverjum verðugum, dugandi, ungum manni að búa sig undir og þjóna í trúboði. Fyrir Síðari daga heilaga pilta, er trúboðsþjónusta prestdæmisskylda. … Fyrir ykkur, ungu og dugandi systur, er trúboð einnig áhrifaríkt, en valfrjálst tækifæri.“
Dag hvern svara þúsundir pilta og stúlkna spámannlegri köllun Drottins með því að þjóna sem trúboðar. Þið eruð stórkostleg og eins og Nelson forseti hefur sagt, þá getið þið „haft meiri áhrif á heiminn en nokkur kynslóð til þessa!“ Auðvitað þýðir það ekki að þið verðið besta útgáfan af ykkur sjálfum um leið og þið stígið fæti inn í trúboðsskólann.
Þess í stað gæti ykkur liðið eins og Nefí: „[Leidd af andanum], og [þið vitið] ekki fyrirfram, hvað gjöra [skal]. Engu að síður [haldið þið] áfram.“
Ef til vill eruð þið óörugg eins og Jeremía og viljið segja: „Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“
Þið gætuð jafnvel séð persónulega vankanta ykkar og viljað hrópa eins og Móse gerði: „Æ, Drottinn, ég hef aldrei málsnjall verið, … mér er tregt um mál og tungutak.“
Ef eitthvert yðar, ástkæru og voldugu piltar og stúlkur, hugsar á þennan hátt einmitt núna, minnist þess þá að Drottinn hefur svarað: „Segðu ekki: Ég er enn svo ungur. Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig.“ Og hann lofar: „En farðu nú. Ég verð með munni þínum og kenni þér hvað þú átt að segja.“
Umbreyting ykkar úr ykkar náttúrlegu sjálfi yfir í andlegt sjálf mun eiga sér stað „orð á orð ofan og setning á setning ofan“ er þið keppið af einlægni að þjóna Jesú Kristi á trúboðsakrinum með daglegri iðrun, trú, nákvæmri hlýðni og eljusemi við að „finna án afláts, kenna iðrun og skíra trúskiptinga“.
Þó að þið séuð með nafnspjald, gæti ykkur stundum fundist þið óþekkjanleg eða gleymd. Þið verðið þó að vita að þið eigið fullkominn himneskan föður sem þekkir ykkur persónulega og frelsara sem elskar ykkur. Þið munið hafa trúboðsleiðtoga sem þrátt fyrir ófullkomleika sína munu þjóna ykkur sem „vindurinn [sem] blés stöðugt“ við að leiða ykkur á ferð ykkar til persónulegrar trúarumbreytingar.
Í „landi sem flýtur í mjólk og hunangi“ munuð þið þjóna í trúboði ykkar, þið munuð endurfæðast andlega og verða lærisveinar Jesú Krists til æviloka er þið færist nær honum. Þið getið komist að raun um að þið eruð aldrei gleymd.
Þótt sumir kunni að bíða „lengi“ eftir líkn, því þeir „hafa engan“ sem enn getur hjálpað, þá hefur Drottinn Jesús Kristur kennt okkur að hann gleymir engum. Þvert á móti, þá var hann fullkomið dæmi um að leita uppi hinn eina á hverju augnabliki jarðneskrar þjónustu sinnar.
Hvert okkar – og fólk umhverfis okkur – stendur frammi fyrir stormum andstreymis og öldum prófrauna sem kaffæra okkur daglega. En „vindurinn [mun ekki hætta að blása] stöðugt í átt til hins fyrirheitna lands … og þannig [rekur okkur] áfram undan vindinum“.
Sérhvert okkar getur verið hluti af þessum vindi – sama vindi og blessaði Jaredítana á ferð þeirra og sama vindi sem mun með okkar hjálp blessa hin óþekktu og gleymdu, svo þau komist til síns eigin fyrirheitna lands.
Ég ber vitni um að Jesús Kristur er málsvari okkar fyrir föðurnum. Hann er lifandi Guð og virkar sem sterkur vindur sem mun alltaf leiða okkur á sáttmálsveginum. Í nafni Jesú Krists, amen.