Aðalráðstefna
Einföld er kenning Jesú Krists
Aðalráðstefna október 2024


16:6

Einföld er kenning Jesú Krists

Ég ber vitni um hið helga verk að kenna börnum himnesks föður hina einföldu kenningu Jesú Krists.

Öll eigum við skyldmenni sem við elskum og sem berjast gegn öflum Satans, eyðandans, sem vill gera öll börn Guðs vansæl. Mörg höfum við átt svefnlausar nætur. Við höfum reynt að umlykja það fólk sem er í hættu með öllum góðum öflum. Við höfum beðið heitt fyrir þeim. Við höfum elskað þau. Við höfum sýnt eins gott fordæmi og við gátum.

Alma, vitur spámaður frá fornum tímum, stóð frammi fyrir álíka raunum. Fólkið sem hann leiddi og unni varð oft fyrir árásum óvægins óvinar, en samt reyndi það áfram að ala upp réttlát börn í heimi ranglætis. Alma fannst eina von sín um sigur vera afl sem við vanmetum stundum og vannýtum oft. Hann sárbað um hjálp Guðs.

Alma var ljóst að ef Guð ætti að hjálpa, þyrfti iðrunar að vera krafist af þeim sem hann leiddi, sem og af andstæðingum hans. Þannig að hann valdi aðra nálgun við bardaga.

Mormónsbók lýsir þessu þannig: „Og þar eð boðun orðsins hafði mikla tilhneigingu til að leiða fólkið í réttlætisátt – já, það hafði haft kröftugri áhrif á huga fólksins en sverðið eða nokkuð annað, sem fyrir það hafði komið – þá áleit Alma ráðlegast að þér létu reyna á kraft Guðs orðs.“

Orð Guðs er kenningin sem Jesús Kristur og spámenn hans hafa kennt. Alma vissi að í kenningarorðunum væri fólginn mikill kraftur.

Í 18. kafla Kenningar og sáttmála opinberaði Drottinn undirstöður kenningar sinnar:

„Því að sjá, ég býð öllum mönnum, alls staðar að iðrast. …

Því að sjá, Drottinn lausnari yðar leið píslardauða í holdinu. Hann leið þess vegna kvalir allra manna, svo að allir menn gætu iðrast og komið til hans.

Og hann hefur risið aftur upp frá dauðum, til þess að geta leitt alla menn til sín, gegn því að þeir iðrist.“

„Og þér skuluð falla á kné og tilbiðja föðurinn í mínu nafni.

… Þér verðið að iðrast og láta skírast í nafni Jesú Krists.“

„Biðjið til föðurins í mínu nafni í trú, og í trú á að yður muni hlotnast, og þér skuluð hafa heilagan anda.“

„Og eftir að þér hafið nú tekið á móti þessu, verðið þér að halda boðorð mín í öllu.“

„Takið á yður nafn Krists og segið sannleikann af árvekni.

„Og allir þeir sem iðrast og eru skírðir í mínu nafni, sem er Jesús Kristur, og standa stöðugir allt til enda, þeir skulu hólpnir verða.“

Í þessum fáu línum gefur frelsarinn okkur fullkomið dæmi um það hvernig okkur ber að kenna kenningu hans. Sú kenning er að trú á Drottin Jesú Krist, iðrun, skírn, að taka á móti gjöf heilags anda og að standast allt til enda, blessi öll börn Guðs.

Þegar við kennum þeim sem við elskum þessar reglur mun heilagur andi hjálpa okkur að þekkja sannleikann. Vegna þess að við þörfnumst hvatningar heilags anda, verðum við að forðast vangaveltur eða persónulega túlkun sem nær lengra en að kenna sanna kenningu.

Það getur verið erfitt þegar þið elskið manneskjuna sem þið reynið að hafa áhrif á. Hann eða hún kann að hafa hunsað þá kenningu sem hefur verið kennd. Það er freistandi að prófa eitthvað nýtt eða tilkomumikið. Heilagur andi mun þó aðeins opinbera anda sannleikans ef við erum varkár og gætum þess að ganga ekki lengra en að kenna sanna kenningu. Ein öruggasta leiðin til að forðast að komast alls ekki í tæri við falska kenningu, er með því að velja einfaldleika í kennslu okkar. Öryggi felst í einfaldleikanum, og lítið glatast.

Kennslan gerir okkur einfaldlega kleift að miðla hinni frelsandi kenningu snemma, á meðan börn láta ekki truflast af freistingum blekkjandans, sem þau munu upplifa síðar, löngu áður en sannleikurinn sem þau þurfa að læra drukknar í hávaða samfélagsmiðla, jafningja og eigin persónulegri baráttu. Við ættum að grípa hvert tækifæri til að miðla börnum kenningum Jesú Krists. Þessar kennslustundir eru dýrmætar og mun færri í samanburði við linnulaust starf andstæðra afla. Fyrir hverja klukkustund sem varið er í að innræta kenningu í lífi barns, eru óteljandi klukkustundir mótlætis fylltar skilaboðum og myndum sem ögra eða hunsa þennan frelsandi sannleika.

Sum ykkar gætu velt fyrir sér hvort það gæti verið betra að tengjast börnum ykkar með skemmtun, eða þið gætuð hugleitt hvort barninu muni finnast kenningar ykkar yfirþyrmandi. Þess í stað ættum við að íhuga: „Hvaða kenningarorðum get ég miðlað, með svo takmörkuðum tíma og fáum tækifærum, sem munu styrkja þau gegn óhjákvæmilegum áskorunum gegn trú þeirra?“ Orðin sem þið miðlið í dag gætu verið þau sem festast í þeim og dagurinn í dag mun senn líða hjá.

Ég hef alltaf dáðst að hollustu langömmu minnar, Mary Bommeli, við að miðla kenningum Jesú Krists. Fjölskylda hennar fékk kennslu trúboða í Sviss þegar hún var 24 ára gömul.

Eftir að Mary hafði skírst, þráði hún að sameinast hinum heilögu í Bandaríkjunum, svo hún fór frá Sviss til Berlínar og fékk vinnu hjá konu sem réð hana til að vefa klæði í fatnað fjölskyldunnar. Mary bjó í herbergi ætlað þjónustufólki og setti upp vefstól sinn í setustofu fjölskyldunnar.

Á þeim tíma var það brot á lögum í Berlín að kenna kenningu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Mary fann samt að hún gat ekki haldið aftur af því að miðla því sem hún hafði lært. Húsmóðirin og vinir hennar söfnuðust í kringum vefstól hennar til að hlusta á Mary kenna. Hún sagði frá því þegar himneskur faðir og Jesús Kristur birtust Joseph Smith, frá vitjun engla og Mormónsbók. Er hún rifjaði upp frásagnir Alma kenndi hún kenningunna um upprisuna. Hún bar vitni um að fjölskyldur geti sameinast í himneska ríkinu.

Áhugi Mary á að miðla kenningunni um hið endurreista fagnaðarerindi olli fljótlega vandræðum. Ekki leið á löngu þar til lögreglan fór með Mary í fangelsi. Á leiðinni spurði hún lögreglumanninn um nafn dómarans sem hún átti að mæta hjá morguninn eftir. Hún spurði líka um fjölskyldu hans og hvort hann væri góður faðir og eiginmaður. Lögreglumaðurinn lýsti dómaranum sem heimsmanni.

Í fangelsinu óskaði Mary eftir að fá blað og blýant. Hún varði nóttinni í að skrifa dómaranum bréf og bar vitni um upprisu Jesú Krists eins og henni er lýst í Mormónsbók, ræddi andaheiminn og útskýrði iðrun. Hún lagði til að dómarinn þyrfti tíma til að íhuga líf sitt áður en hann stæði frammi fyrir sínum endanlega dóm. Hún skrifaði að hún vissi að hann þyrfti margs að iðrast, sem myndi hryggja fjölskyldu hans mikið og valda honum mikilli sorg. Um morguninn, þegar hún hafði lokið bréfi sínu, afhenti hún lögreglumanninum bréfið og bað hann að afhenda dómaranum það og hann samþykkti að gera það.

Síðar var lögreglumaðurinn kallaður inn á skrifstofu dómarans. Bréf Mary var óhrekjandi sönnun um að hún væri að kenna kenningu hins endurreista fagnaðarerindis og þannig að brjóta lögin. Engu að síður leið ekki á löngu þar til lögreglumaðurinn kom aftur í fangaklefa Mary. Hann sagði henni að allar kærur gegn henni væru felldar niður og hún væri frjáls ferða sinna. Kennsla hennar um hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists hafði valdið því að henni var varpað í fangelsi. Og yfirlýsing hennar um kenningu iðrunar til dómarans hafði leyst hana úr fangelsi.

Kennslu Mary Bommeli lauk ekki þegar hún var leyst úr fangelsi. Orð hennar fluttu sanna kenningu til ófæddra kynslóða. Trú hennar á að jafnvel nýr meðlimur gæti kennt kenningu Jesú Krists, hefur tryggt að afkomendur hennar munu styrkjast í sínum eigin baráttum.

Þegar við gerum okkar besta við að kenna þeim sem við elskum um kenningu Jesú Krists, er þó ekki víst að sumir bregðist við því. Efasemdir kunna að læðast í huga ykkar. Þið gætuð efast um að þið þekkið kenningu frelsarans nógu vel til að kenna hana á áhrifaríkan hátt. Og ef þið hafið þegar gert tilraunir til að kenna hana, gætuð þið velt fyrir ykkur hvers vegna jákvæðu áhrifin eru ekki sýnilegri. Ekki gefa ykkur að þessum efa. Leitið til Guðs um hjálp.

„Já, og ákallaðu Guð, þér til stuðnings í öllu. … Lát elsku hjarta þíns beinast til Drottins að eilífu.“

„Og nú vil ég, að þér séuð auðmjúkir, undirgefnir og blíðir, gæfir og fullir af þolinmæði og langlundargeði, séuð hófsamir í öllu, haldið boðorð Guðs af kostgæfni öllum stundum, biðjið um allt, sem þér þarfnist, bæði andlegt og stundlegt, og færið Guði ætíð þakkir fyrir allt, sem yður hlotnast.“

Ef þið biðjið, ef þið talið við Guð og ef þið biðjið um hjálp hans fyrir ástvin ykkar og ef þið þakkið honum ekki aðeins fyrir að hjálpa, heldur fyrir þolinmæðina og mildina sem hlýst af því að fá ekki allt sem þið þráið strax eða kannski aldrei, þá lofa ég ykkur að þið munið komast nær honum. Þið munið verða kostgæfin og þolinmóð. Þið getið þá vitað að þið hafið gert allt sem í ykkar valdi stendur til að hjálpa ástvinum ykkar og þeim sem þið biðjið fyrir að komast í gegnum tilraunir Satans til að hrekja þau af sporinu.

„Þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir, þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“

Þið getið fundið von í ritningarlegum frásögnum um fjölskyldur. Við lesum um þau sem sneru frá því sem þeim var kennt eða sem glímdu við Guð til að fá fyrirgefningu, svo sem Alma yngri, syni Mósía og Enos. Á neyðarstundum minntust þeir orða foreldra sinna, orða kenninganna um Jesú Krist. Það bjargaði þeim að minnast þess. Kennsla ykkar um þá helgu kenningu verður í minnum höfð.

Ég ber vitni um hið helga verk að kenna börnum himnesks föður hina einföldu kenningu Jesú Krists, sem gerir okkur kleift að verða andlega hreinsuð og að lokum vera boðin velkomin í návist Guðs, til að lifa með honum og syni hans í eilífri dýrð sem fjölskyldur. Í nafni Jesú Krists, amen.