Aðalráðstefna
Samstilla vilja okkar að hans
Aðalráðstefna október 2024


15:20

Samstilla vilja okkar að hans

Að fylgja vilja Drottins í lífi okkar mun gera okkur kleift að finna dýrmætustu perlu í heimi – ríki himins.

Við tiltekið tækifæri talaði frelsarinn um kaupmann sem var að leita að „fögrum perlum“. Við leit kaupmannsins fann hann eina sem var „dýrmæt“. Til þess að eignast hina stórkostlegu perlu, varð þessi maður samt að selja allar eigur sínar, sem hann gerði tafarlaust og glaðlega.

Í þessari stuttu og íhugulu dæmisögu kenndi frelsarinn fagurlega að himnaríki væri sambærilegt ómetanlegri perlu, sannlega hinum dýrmætasta fjársjóði, sem sækjast ætti eftir framar öllu öðru. Sú staðreynd að kaupmaðurinn seldi samstundis allar eigur sínar til að eignast þessa dýrmætu perlu, gefur glöggt til kynna að við ættum að samstilla huga okkar og þrár að vilja Drottins og gera fúslega allt sem við getum í okkar jarðneska ferðalagi til að öðlast eilífar blessanir Guðs ríkis.

Til þess að vera verðug þessara miklu launa, þurfum við meðal annars vissulega að leggja okkur öll fram við að leggja til hliðar alla sjálfmiðaða iðju og hverfa frá hvers kyns flækjum sem halda aftur af okkur frá fullri skuldbindingu við Drottin og hans æðri og helgari hætti. Páll postuli vísar til þessarar helgandi iðju á þann hátt að „hafa huga Krists“. Eins og Jesús Kristur sýndi fram á, þá þýðir þetta að „[gera] ætíð það sem [Drottni] þóknast“ í lífi okkar, eða eins og sumum verður að orði, þetta er að „gera það sem virkar fyrir Drottin“.

Með skilningi fagnaðarerindisins, þá þýðir það að „[gera] ætíð það sem [Drottni] þóknast“ að beygja vilja okkar undir vilja hans. Frelsarinn kenndi mikilvægi þessarar reglu af íhygli er hann leiðbeindi lærisveinum sínum:

„Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gera vilja minn heldur vilja þess er sendi mig.

En sá er vilji þess sem sendi mig að ég glati engu af öllu því sem hann hefur gefið mér heldur reisi það upp á efsta degi.

Því sá er vilji föður míns að hver sem sér soninn og trúir á hann hafi eilíft líf og ég mun reisa hann upp á efsta degi.“

Frelsarinn náði fullkomnu og guðlegu stigi undirgefni við föðurinn með því að leyfa að vilji sinn innbyrtist í vilja föðurins. Hann sagði eitt sinn: „Og sá sem sendi mig er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan því ég geri ætíð það sem honum þóknast.“ Þegar frelsarinn kenndi spámanninum Joseph Smith um angist og sársauka friðþægingarinnar, sagði hann:

„Því að sjá, ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast. …

Þjáningu sem varð þess valdandi, að ég, sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, og þjáðist bæði á líkama og í anda – og með hrolli óskaði ég þess að þurfa ekki að bergja þennan beiska bikar –

Dýrð sé föðurnum eigi að síður, og ég tæmdi hann og lauk undirbúningi mínum fyrir mannanna börn.“

Í jarðneskri dvöl okkar glímum við oft við það sem við teljum okkur vita, hvað við teljum vera best og það sem við teljum að virki fyrir okkur, í stað þess að skilja það sem himneskur faðir raunverulega veit, hvað er eilíflega best og hvað virkar algjörlega fyrir börnin í áætlun hans. Þessi mikla barátta getur orðið afar flókin, sérstaklega þegar hafðir eru í huga spádómar ritninganna fyrir okkar tíma: „ En það skaltu vita að á síðustu dögum … verða [menn] sérgóðir … og elska munaðarlífið meira en Guð.“

Eitt tákn þess að þessi spádómur uppfyllist er sú vaxandi tilhneiging í heiminum, sem svo margir hafa tileinkað sér, að fólk verði upptekið af sjálfu sér og básúni stöðugt: „Sama hvað, þá lifi ég eftir mínum eigin sannleika eða geri það sem virkar fyrir mig.“ Líkt og postulinn Páll sagði, þá „leita [þau] þess sem sjálfra þeirra er en ekki þess sem Krists Jesú er“. Slíkur hugsunarháttur er oft réttlættur sem að „vera trú eigin sjálfi“ af þeim sem leyfa sér sjálfmiðaða iðju, einblína á persónulegt val eða vilja réttlæta ákveðna hegðun sem fellur oft ekki að kærleiksríkri áætlun Guðs og vilja hans fyrir þau. Ef við leyfum hjarta okkar og huga að tileinka sér þennan hugsunarhátt, getum við skapað verulegar hrösunarhellur fyrir okkur sjálf við það að öðlast hina dýrmætustu perlu sem Guð hefur fyrirbúið börnum sínum ástúðlega – eilíft líf.

Þótt satt sé að hvert okkar ferðist í einstaklingsbundnu ferðalagi lærisveinsins á sáttmálsveginum og reynir að hafa Krist Jesú sem miðpunkt í hjarta okkar og huga, þá þurfum við að vera varkár og stöðugt vakandi til að láta ekki freistast til að tileinka okkur slíka veraldlega heimspeki í lífi okkar. Öldungur Quentin L. Cook sagði að „það væri jafnvel enn mikilvægara að sýna kristilega eiginleika, heldur en að vera trú eigin sjálfi“.

Kæru vinir, þegar við veljum að láta Guð vera áhrifaríkastan alls í lífi okkar fram yfir sjálfmiðaða iðju, getum við tekið framförum í lærisveinshlutverkinu og aukið getu okkar til að samstilla huga okkar og hjarta að frelsaranum. Þegar við aftur á móti leyfum ekki að háttur Guðs ráði ríkjum í lífi okkar, þá erum við skilin ein eftir og án innblásinnar leiðsagnar Drottins er hægt að réttlæta næstum allt sem við gerum eða gerum ekki. Við getum líka afsakað okkur sjálf með því að gera hlutina á okkar hátt og í raun sagt: „Ég er bara að gera hlutina á minn hátt.“

Eitt sinn, er frelsarinn var að boða kenningu sína, hafnaði sumt fólk, einkum sjálfumglaðir farísear, boðskap hans og lýsti því umbúðalaust yfir að þeir væru börn Abrahams, og gaf í skyn að ættleggur þeirra myndi veita þeim sérstök forréttindi í augum Guðs. Þetta hugarfar leiddi til þess að þeir reiddu sig á eigið hyggjuvit og trúðu ekki því sem frelsarinn var að kenna. Viðbrögð faríseanna við Jesú voru skýr merki um að hrokafullt viðhorf þeirra skildi ekkert rúm eftir í hjörtum þeirra fyrir orð frelsarans og veg Guðs. Til að svara þessu lýsti Jesú því yfir yfir af visku og hugdirfsku að ef þau væru sannarlega niðjar Abrahams, myndu þau vinna verk Abrahams, einkum þegar haft er í huga að Guð Abrahams stóð frammi fyrir þeim og kenndi þeim sannleikann á því andartaki.

Bræður og systur, eins og þið sjáið er það að fylgja þeirri hugarleikfimi að gera „það sem virkar fyrir mig“, í stað þess að gera „það sem Drottni þóknast“, ekki ný tíska sem einkennir okkar tíma. Það er aldagamall hugsunarháttur sem hefur gengið yfir aldirnar og blindar oft þá sem eru vitrir í sínum eigin augum og ruglar og örmagnar mörg börn Guðs. Þetta hugarfar er í raun gamalt bragð andstæðingsins; það er blekkjandi vegur sem leiðir börn Guðs vandlega af hinum sanna og trúfasta sáttmálsvegi. Þó að persónulegar aðstæður, svo sem erfðafræði, landafræði og líkamlegar og sálrænar áskoranir hafi áhrif á ferðalag okkar, varðandi það sem raunverulega skiptir máli, höfum við rými hið innra þar sem okkur er frjálst að velja hvort við ákveðum að fylgja eða fylgja ekki þeirri forskrift sem Drottinn hefur fyrirbúið lífi okkar. Vissulega „[sýndi] hann veg og veitti leið, á veginn heim til sín“.

Sem lærisveinar Krists, þráum við að ganga veginn sem hann markaði fyrir okkur í jarðneskri þjónustu sinni. Við þráum ekki aðeins að gera vilja hans og allt sem honum þóknast, heldur reynum við einnig að líkja eftir honum. Þegar við keppum að því að vera trú öllum sáttmálum sem við höfum gert og lifum „á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni“, verðum við vernduð gegn því að verða fórnarlömb synda og mistaka heimsins – mistaka heimspeki og kenninga sem myndu leiða okkur frá þessum allra dýrmætustu perlum.

Ég hef persónulega fundið fyrir hvatningu vegna slíkrar andlegrar undirgefni gagnvart Guði, sem hefur haft áhrif á líf trúfastra lærisveina Krists, er þeir völdu að gera það sem virkaði fyrir og er þóknanlegt í augum Drottins. Ég þekki ungan mann sem var órólegur yfir því að fara í trúboð en fann fyrir innblæstri til að fara og þjóna Drottni þegar hann hlustaði á reyndan leiðtoga kirkjunnar miðla eigin vitnisburði og helgri reynslu af því að þjóna sem trúboði.

Þessi ungi maður, sem nú er heimkominn trúboði, sagði með eigin orðum: „Þegar ég hlustaði á vitnisburð postula frelsarans Jesú Krists, fann ég fyrir elsku Guðs til mín og ég þráði að miðla öðrum þeirri elsku. Á því augnabliki vissi ég að ég ætti að þjóna í trúboði, þrátt fyrir ótta minn, efasemdir og áhyggjur. Ég hafði fulla trú á blessunum og loforðum Guðs fyrir börn hans. Í dag er ég ný manneskja; ég hef vitnisburð um að fagnaðarerindið sé satt og að kirkja Jesú Krists hafi verið endurreist á jörðu.“ Þessi ungi maður valdi veg Drottins og varð fordæmi um sannan lærisvein á öllum sviðum.

Trúföst ung kona ákvað að hvika ekki frá stöðlum sínum þegar hún var beðin um að klæða sig ósiðsamlega, til að passa inn í viðskiptadeild tískufyrirtækisins sem hún starfaði hjá. Vegna þess að hún skildi að líkami hennar er helg gjöf frá himneskum föður og staður þar sem andinn fær dvalið, fann hún sig knúna til að lifa eftir stöðlum sem eru æðri en heimsins. Hún vann sér ekki aðeins inn traust þeirra sem sáu hana lifa eftir sannleika fagnaðarerindis Jesú Krists, heldur hélt hún líka starfi sínu, sem um tíma var í hættu. Fúsleiki hennar til að gera það sem Drottni var þóknanlegt, frekar en að gera það sem virkaði fyrir heiminn, veitti henni sáttmálsöryggi í erfiðum ákvörðunum.

Bræður og systur, við þurfum stöðugt að standa frammi fyrir svipuðum ákvörðunum á daglegu ferðalagi okkar. Það þarf hugrakkt og viljugt hjarta til að staldra við og stunda heiðarlega og hógværa sjálfsskoðun til að viðurkenna tilvist veikleika holdsins í lífi okkar, sem getur hindrað getu okkar til að sýna Guði undirgefni og ákveða að lokum að tileinka sér veg hans frekar en okkar eigin. Mesta prófraun okkar sem lærisveina felst í vilja okkar til að gefa okkar gamla sjálf upp á bátinn og losa okkur við það og gefa á vald Guðs hjarta okkar og gjörvalla sál, svo að vilji hans verði okkar.

Ein dýrðlegasta stund jarðlífsins á sér stað þegar við uppgötvum gleðina sem við hljótum þegar við gerum ætíð það sem „virkar fyrir og er þóknanlegt Drottni“ og „það sem virkar fyrir okkur“ verður eitt og hið sama! Það að gera vilja Drottins afgerandi og tvímælalaust að okkar eigin, krefst stórbrotins og hetjulegs lærisveinsdóms! Á þeirri himnesku stundu verðum við helguð Drottni og veitum honum vilja okkar gersamlega. Slík andleg undirgefni, ef svo mætti segja, er fögur, kröftug og umbreytandi.

Ég ber ykkur vitni um það að fylgja vilja Drottins í lífi okkar mun gera okkur kleift að finna dýrmætustu perlu í heimi – ríki himins. Ég bið þess að hvert okkar, á okkar eigin tíma og hraða, getum lýst yfir með sáttmálstrausti við himneskan föður okkar og frelsarann, Jesú Krist, að „það sem virkar fyrir þig, virkar fyrir mig“. Ég segi þetta í hinu helga nafni frelsarans, Jesú Krists, amen.