Gleði endurlausnar okkar
Elska og kraftur Jesú Krists geta frelsað hvert okkar frá mistökum okkar, veikleikum og syndum og hjálpað okkur að verða að einhverju meira.
Fyrir um tíu árum síðan fann ég fyrir hvatningu til að mála andlitsmynd af frelsaranum. Þó að ég sé listamaður, fannst mér þetta örlítið yfirþyrmandi. Hvernig átti ég að mála mynd af Jesú Kristi sem fangaði anda hans? Hvar ætti ég að byrja? Hvar myndi ég líka finna tímann til þess?
Þrátt fyrir efasemdir mínar ákvað ég að láta verða af þessu og treysta því að Drottinn myndi hjálpa mér. Ég varð bara að halda áfram og lát hann sjá um alla möguleikana. Ég bað, hugleiddi, leitaði mér upplýsinga og teiknaði og var blessuð með aðstoð og efniviði. Það sem var hvítur strigi varð smátt og smátt að einhverju meira.
Ferlið var ekki auðvelt. Stundum leit hún ekki út eins og ég hafði vonað. Stundum komu augnablik innblásinna penslastroka og hugmynda. Oft þurfti ég líka bara að reyna aftur og aftur og aftur.
Þegar ég hélt að olíumálverkið væri loksins fullbúið og þurrt, hóf ég að bera á það gagnsætt lakk til að verja það gegn óhreinindum og ryki. Þegar ég gerði það, tók ég eftir því að hárið á málverkinu tók að breytast, dreifast og leysast upp. Ég áttaði mig strax á því að ég hafði borið lakkið á of snemma, sá hluti málverksins var enn blautur!
Ég hafði bókstaflega þurrkað burt hluta af málverkinu mínu með lakkinu. Ég var miður mín. Mér fannst ég hafa eyðilagt það sem Guð hafði hjálpað mér að gera. Ég grét og mér leið hræðilega. Í örvæntingu minni gerði ég það sem hver sem er myndi gera í aðstæðum sem þessum: Ég hringdi í móður mína. Hún sagði rólega og skynsamlega: „Þú færð ekki það til baka sem þú varst með, en gerðu þitt besta með það sem þú hefur.“
Ég baðst því fyrir og grátbað um hjálp og málaði alla nóttina til að lagfæra hlutina. Ég man líka eftir að hafa litið á málverkið um morguninn – það leit betur út en það hafði áður gert. Hvernig var það mögulegt? Það sem ég hélt að væru mistök án möguleika á lagfæringu, var tækifæri fyrir miskunnsama hönd hans að láta ljós sitt skína. Hann hafði ekki lokið sér af með málverkið og hann hafði ekki lokið sér af með mig. Þvílík gleði og léttir sem fyllti hjarta mitt. Ég lofaði Drottin fyrir miskunn hans, fyrir þetta kraftaverk sem ekki aðeins bjargaði málverkinu heldur kenndi mér meira um kærleika hans og mátt til að frelsa hvert okkar frá mistökum okkar, veikleikum og syndum og hjálpa okkur að verða að einhverju meira.
Á sama hátt og þakklæti mitt fyrir frelsarann óx, er hann hjálpaði mér af miskunn sinni að lagfæra hið „óviðgeranlega“ málverk, þá hefur persónuleg elska mín og þakklæti fyrir frelsara minn styrkst, er ég hef unnið með honum í veikleikum mínum og hlotið fyrirgefningu fyrir mistök mín. Ég mun ævinlega vera þakklát frelsara mínum fyrir að geta breytt mér og hreinsast. Hann á hjarta mitt og ég vonast til að gera hvaðeina sem hann vill að ég geri og verði.
Iðrun gerir okkur kleift að finna elsku Guðs og þekkja og elska hann á þann hátt sem við hefðum aldrei annars getað gert. Frelsarinn sagði varðandi konuna sem smurði fætur hans: „Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Hún elskaði Jesú heitt, því hann hafði fyrirgefið henni mikið.
Það er svo mikill léttir og von að vita að við getum reynt aftur – að eins og öldungur Bednar kenndi, getum við fengið áframhaldandi fyrirgefningu synda okkar með helgandi krafti heilags anda, er við iðrumst í sannleika og einlægni.
Endurlausnarkraftur Jesú Krists er ein mesta fyrirheitna blessun sáttmála okkar. Íhugið þetta er þið takið þátt í helgiathöfnum. Án hans gætum við ekki snúið aftur heim í návist föður okkar á himnum og þeirra sem við elskum.
Ég veit að Drottinn okkar og frelsari, Jesús Kristur, hefur máttinn til að frelsa. Sem sonur Guðs, sem friðþægði fyrir syndir heimsins og gaf sitt eigið líf og tók það upp aftur, hefur hann kraft endurlausnar og upprisu. Hann hefur gert ódauðlegt líf mögulegt fyrir alla og eilíft líf fyrir þá sem kjósa hann. Ég veit að fyrir friðþægingarfórn hans getum við iðrast og sannlega orðið hrein og endurleyst. Það er kraftaverk að hann elskar ykkur og mig á þennan hátt.
Hann sagði: „Viljið þér nú ekki snúa til mín og iðrast synda yðar og snúast til trúar, svo að ég megi gjöra yður heila?“ Hann getur læknað „rústir“ sálar ykkar – þær sem urðu þurrar, harðar og eyðilagðar af synd og sorg – og „gert eyðimörk [ykkar] sem Eden“.
Rétt eins og við fáum ekki skilið sársauka og dýpt þjáninga Krists í Getsemane og á krossinum, þá fáum við „hvorki mælt mörkin né skilið dýpt guðlegrar fyrirgefningar [hans]“, miskunnar og kærleika.
Ykkur gæti stundum fundist eins og ekki sé mögulegt að hljóta endurlausn, að þið séuð kannski undanþegin elsku Guðs og friðþægingarkrafti frelsarans vegna þess sem þið eruð að glíma við eða vegna þess sem þið hafið gert. Ég ber þó vitni um að þið eruð ekki handan seilingar meistarans. Frelsarinn „sté … neðar öllu“ og er í guðlegri stöðu til að lyfta ykkur og gera tilkall til ykkar úr svartasta hyldýpi og leiða ykkur til hans „undursamlega ljóss“. Í gegnum þjáningar sínar hefur hann séð sérhverju okkar fyrir leið til að sigrast á persónulegum veikleikum okkar og syndum. „Hann hefur allt vald til að frelsa sérhvern mann, sem trúir á nafn hans og ber ávöxt samboðinn iðruninni.“
Á sama hátt og það krafðist vinnu og bæna um hjálp himins við að lagfæra málverkið, þá þarf vinnu, einlægt hjarta og auðmýkt til að „[bera] ávöxt samboðinn iðruninni“. Þessir ávextir eru meðal annars að iðka trú og treysta á Jesú Krist og friðþægingarfórn hans, að bjóða Guði sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda, játa og láta af synd, endurreisa það sem hefur skaðast eftir okkar bestu getu og leitast við að lifa réttlátlega.
Til þess að iðrast og breytast sannlega, verðum við fyrst að „[sannfærast] um syndir [okkar]“. Einstaklingur sér ekki þörf á að taka lyf nema hann skilji að hann sé veikur. Það kunna að koma stundir þar sem við erum ekki fús til að líta hið innra og sjá það sem raunverulega þarf að lækna og laga.
Í skrifum C. S. Lewis setur Aslan þessi orð fram, fyrir mann sem hefur flækt sig í eigin klækjum: „Ó [mannkyn], hversu lagin þið eruð að verja yður gegn öllu því, sem gæti gert yður gott!“
Hverju gætum við verið að verja okkur gegn, sem gæti gert okkur gott?
Verjum okkur ekki gegn því góða sem Guð þráir að blessa okkur með. Gegn þeirri elsku og miskunn sem hann þráir að við upplifum. Gegn því ljósi og þekkingu sem hann þráir að veita okkur. Gegn þeirri lækningu sem hann veit að við þörfnumst svo sárlega. Gegn hinu dýpra sáttmálssambandi sem hann ætlar öllum sonum sínum og dætrum.
Ég bið þess að við megum leggja til hliðar öll „stríðsvopn“ sem við höfum meðvitað eða jafnvel ómeðvitað tekið upp til að verja okkur gegn blessunum elsku Guðs. Vopn drambs, eigingirni, ótta, haturs, móðgunar, kæruleysis, ranglátra dóma, afbrýðisemi– alls sem heldur okkur frá því að elska Guð af öllu hjarta og halda alla sáttmála okkar við hann.
Þegar við lifum eftir sáttmálum okkar, getur Drottinn veitt okkur þá hjálp og þann kraft sem við þörfnumst til að bera bæði kennsl á veikleika okkar sigrast á þeim, þar á meðal hinu andlega sníkjudýri drambs. Spámaður okkar hefur sagt:
„Iðrun er vegur hreinleikans og hreinleika fylgir kraftur.“
„Ó, hve við þörfnumst þessa máttar á komandi dögum.“
Eins og málverkið mitt, þá er Drottinn ekki búinn með okkur þegar við gerum mistök og hann flýr heldur ekki þegar við föllum. Þörf okkar fyrir lækningu og hjálp er honum ekki byrði heldur einmitt ástæða þess að hann kom. Frelsarinn sagði sjálfur:
„Sjá! Ég er kominn í heiminn til að endurleysa heiminn og frelsa heiminn frá synd.“
„Armur miskunnar minnar er útréttur til yðar, og ég mun taka á móti hverjum þeim, sem koma vill. Og blessaðir eru þeir, sem koma til mín.“
Komið því – komið þið sem eruð þreytt, lúin og sorgmædd, komið og yfirgefið erfiði ykkar og finnið hvíld í honum, sem elskar ykkur mest. Takið á yður ok hans, því að hann er ljúfur og af hjarta lítillátur.
Himneskur faðir okkar og frelsari sjá ykkur. Þeir þekkja hjörtu ykkar. Þeim er annt um það sem ykkur er annt um, líka ástvini ykkar.
Frelsarinn getur endurleyst það sem hefur glatast, þar með talin brostin og tvístruð sambönd. Hann fyrirbjó leið fyrir allt sem er fallið því til endurlausnar – að blása lífi í það sem virðist dautt og vonlaust.
Ef þið glímið við aðstæður sem ykkur finnst þið ættuð að hafa sigrast á, gefist ekki upp. Verið þolinmóð við ykkur sjálf, haldið sáttmála ykkar, iðrist oft, leitið liðsinnis leiðtoga ykkar ef þörf krefur og farið í hús Drottins eins reglulega og þið getið. Hlustið eftir og hlýðið hughrifunum sem hann sendir ykkur. Hann mun ekki yfirgefa sáttmálssamband sitt við ykkur.
Það hafa verið erfið og flókin sambönd í lífi mínu sem ég hef tekist á við og einlæglega reynt að bæta. Oftar en ekki fannst mér eins og mér væri að mistakast. Ég velti því fyrir mér: „Lagaði ég ekki hlutina síðast? Sigraðist ég í alvöru ekki á veikleika mínum?“ Ég hef lært með tímanum að ég er ekki endilega gölluð, heldur er meira að vinna með og meiri lækningar er þörf.
Öldungur D. Todd Christofferson kenndi: „Vissulega hefur Drottinn velþóknun á þeim sem þráir að vera hreinn við dóm sinn, sem einbeittur starfar dag hvern að því að gera veikleika sinn að styrkleika sínum. Raunveruleg iðrun, raunveruleg breyting, getur krafist margra tilrauna, en það er eitthvað hreinsandi og heilagt við það erfiði. Guðleg fyrirgefning og lækning veitist slíkri sál nokkuð óhindrað.“
Hver dagur er nýr dagur uppfullur af von og möguleikum vegna Jesú Krists. Á hverjum degi getum við lært að þekkja, líkt og móðir Eva lýsti yfir „gleði endurlausnar okkar“, gleði þess að vera gjörð heil, gleði þess að upplifa óbrigðula elsku Guðs til ykkar.
Ég veit að faðir okkar á himnum og frelsarinn elska ykkur. Jesús Kristur er frelsari og lausnari alls mannkyns. Hann lifir. Með friðþægingarfórn hans, voru bönd syndar og dauða að eilífu rofin, svo við mættum vera frjáls til að velja lækningu, endurlausn og eilíft líf með ástvinum okkar. Ég vitna um þetta í nafni hans, Jesú Krists, amen.