„Sjá, ég er ljósið, sem þér skuluð halda á loft“
Við höldum ljósi Drottins á loft þegar við höldum okkur fast að sáttmálum okkar og þegar við styðjum lifandi spámann okkar.
Við hina mörgu vitnisburði á þessari ráðstefnu, þá bæti ég við postullegu vitni mínu um að Jesús Kristur er sonur Guðs, Drottinn okkar og frelsari, lausnari allra barna föður okkar. Friðþæging hans gerði okkur mögulegt að snúa aftur í návist föður okkar á himnum og vera með fjölskyldum okkar um eilífð, ef við erum verðug.
Frelsarinn er ekki fjarri jarðneskri ferð okkar. Undanfarna tvo daga höfum við hlustað á hann tala með útvöldum leiðtogum sínum, svo við gætum komist nær honum. Aftur og aftur, af sinni hreinu ást og miskunn, styður hann okkur þegar við stöndum frammi fyrir sjónleik lífsins. Nefí lýsir: „Guð minn hefur verið stoð mín. Hann leiddi mig út úr þrengingum mínum. … Hann hefur fyllt mig elsku sinni.“
Sú elska er augljós þegar við styðjum hvert annað í verki hans.
Við styðjum lifandi spámann okkar á aðalráðstefnu og Æðsta forsætisráðið, Tólfpostulasveitina, aðalvaldhafa og embættismenn kirkjunnar. Að halda á loft merkir að styðja annan einstakling, að veita honum athygli, að vera trú trausti hans, að bregðast við orðum hans. Slíkir mæla með innblæstri frá Drottni; þeir skilja málefni líðandi stundar, siðferðishnignun samfélagsins og aukna viðleitni andstæðingsins til að vinna gegn áætlun föðurins. Með því að halda á loft höndum okkar erum við að heita stuðningi okkar, ekki aðeins á því augnabliki heldur í okkar daglega lífi.
Að halda á loft felur í sér stuðning við stikuforseta okkar og biskupa, leiðtoga sveita og samtaka, kennara og jafnvel umsjónarfólk búða í deildum okkar og stikum. Þegar nær dregur heimilum okkar, þá höldum við á loft og styðjum eiginkonur okkar og eiginmenn okkar, börn, foreldra, stórfjölskyldur og nágranna. Þegar við styðjum hvert annað, erum við að segja: „Ég er hér fyrir þig, ekki bara til að halda á loft höndum þínum þegar þér ‚fallast hendur‘, heldur til að vera þér við hlið til huggunar og styrks.
Hugtakið að halda á loft er rótfast í ritningunum. Við Mormónsvötn skuldbundu hinir nýskírðu kirkjumeðlimir sig til „að bera hver annars byrðar, svo að þær verði léttar, … að hugga þá sem huggunar þarfnast, og standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar“.
Jesús sagði við Nefítana: „Haldið því ljósi yðar á loft, til að það lýsi heiminum. Sjá, ég er ljósið, sem þér skuluð halda á loft.“ Við höldum ljósi Drottins á loft þegar við höldum okkur fast að sáttmálum okkar og þegar við styðjum lifandi spámann okkar þegar hann mælir orð Guðs.
Þegar Russell M. Nelson forseti þjónaði í Tólfpostulasveitinni, sagði hann: „Stuðningur okkar við spámenn er persónuleg skuldbinding um að gera allt sem við getum til að heiðra spámannlega forgangsröð þeirra.“
Að styðja spámanninn er heilagt verk. Við sitjum ekki þögul hjá heldur verjum hann ötullega, fylgjum leiðsögn hans, kennum orð hans og biðjum fyrir honum.
Benjamín konungur í Mormónsbók sagði við fólkið: „Ég er haldinn alls kyns veikleika á sálu og líkama eins og þér sjálfir. Engu að síður hefur Drottinn valið mig … og hönd Drottins umborið mig … og ég hef notið verndar og varðveislu hins óviðjafnanlega kraftar hans til að þjóna yður af öllum þeim mætti, huga og styrk, sem Drottinn hefur léð mér.“
Á svipaðan hátt hefur Nelson forseti, 100 ára gamall, verið verndaður og varðveittur af Drottni. Harold B. Lee forseti, sem þá var meðlimur í Æðsta forsætisráðinu, nefndi dæmi um Móse standandi efst á hæðinni við Refídím. „Hendur [forseta kirkjunnar] gætu orðið þreyttar,“ sagði hann. „Þær hafa kannski tilhneigingu til að drúpa stundum vegna þungrar ábyrgðar hans; en þegar við höldum í hendur hans og leiðum undir hans handleiðslu, við hlið hans, munu hlið heljar eigi sigrast á ykkur og Ísrael. Öryggi ykkar og okkar er háð því hvort við fylgjum þeim sem Drottinn hefur sett í forsæti kirkju sinnar eða ekki. Hann veit hvern hann vill hafa í forsæti þessarar kirkju og hann gerir engin mistök.“
Nelson forseti byggir á áralangri þjónustu við Drottin. Þroski hans, víðtæk reynsla, viska og stöðug viðtaka opinberana, eru einkar tilvalin fyrir okkar tíma. Hann sagði: „Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er að búa heiminn undir þann tíma þegar ‚[jörðin] verður full af þekkingu á Drottni‘ (Jesaja 11:9). Þetta verk er gætt krafti guðlegrar yfirlýsingar fyrir 200 árum. Hún samanstendur aðeins af níu orðum: ‚Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!‘ (sjá Joseph Smith – Saga 1:17).“
Nelson forseti sagði einnig: „Aldei í sögu heimsins hefur persónuleg vitneskja um frelsarann verið jafn mikilvæg og brýn fyrir sérhverja mannssál. Hugsið ykkur hve fljótt myndi greiðast úr hinum hrikalegu átökum um allan heim – og í persónulegu lífi okkar – ef við öll veldum að fylgja Jesú Kristi og hlýða kenningum hans.“
Bræður og systur, við þurfum að lyfta meira og mögla minna, halda meira á loft orði Drottins, háttum hans og spámanni hans, sem hefur sagt: „Ein mesta áskorun okkar tíma er að greina á milli sannleika Guðs og falsana Satans. Af þeirri ástæðu brýndi Drottinn fyrir okkur að ‚[biðja] ávallt, … [svo við fengjum sigrað] Satan og umflúið þjóna Satans, sem vinna verk hans‘ [Kenning og sáttmálar 10:5; skáletrað hér].“
Síðastliðinn apríl nutum ég og systir Rasband þess heiðurs að vera með okkar ástkæra spámanni og systur Nelson við endurvígslu Manti-musterisins í Utah.
Nelson forseti kom öllum á óvart þegar hann gekk inn í salinn. Aðeins fá okkar vissum að hann kæmi. Í návist hans skynjaði ég strax ljósið og spámannlega möttulinn sem hann ber. Gleðisvipurinn á andlitum fólksins sem sá spámanninn í eigin persónu mun fylgja mér að eilífu.
Í endurvígslubæninni bað Nelson forseti Drottin um að heilagt hús hans myndi í raun styðja alla sem færu í musterið „svo þeir fengju hlotið heilagar blessanir og yrðu verðugir og trúfastir sáttmálum sínum, … að þetta megi vera hús friðar, hús huggunar og hús persónulegrar opinberunar fyrir alla sem verðugir ganga inn um þessar dyr“.
Við þörfnumst þess öll að vera lyft upp af Drottni með friði, með huggun og umfram allt persónulegri opinberun, til að takast á við ótta, myrkur og deilur sem umlykja heiminn.
Fyrir samkomuna stóðum við úti í sólinni með forseta og systur Nelson og virtum fyrir okkur fallegt umhverfið. Ættartengsl Nelsons forseta við svæðið eru djúpstæð. Átta langafar hans og langömmur settust að í dölunum umhverfis musterið, sem og sumir mínir líka. Langafi minn, Andrew Anderson, þjónaði í byggingarsveit brautryðjenda, sem unnu í 11 ár við að byggja Manti-musterið, það þriðja í Klettafjöllunum.
Þar sem við stóðum með Nelson forseta, gafst okkur tækifæri til að styðja spámann Guðs við endurvígsluhátíð hins heilaga húss Drottins. Þetta var dagur sem ég mun aldrei gleyma.
„Við byggjum musteri til að heiðra Drottin,“ sagði Nelson forseti þennan helga dag. „Þau eru byggð fyrir tilbeiðslu en ekki til sýningar. Við gerum helga sáttmála að eilífu gildi innan þessara helgu veggja.“ Við erum að safna saman Ísrael.
Nelson forseti og spámennirnir á undan honum hafa umvafið hin heilögu musteri í örmum sér. Í dag höfum við um allan heim 350 heilög hús Drottins, sem eru starfrækt, ráðgerð eða í byggingu. Sem spámaður frá árinu 2018, hefur Nelson forseti tilkynnt um 168 musteri.
„Á okkar tíma,“ sagði hann, „þarf að verða heil, algjör og fullkomin eining og samanhlekkjun ráðstafana, lykla og valds (sjá Kenning og sáttmálar 128:18). Í þessum helga tilgangi eru musteri nú reist víða um heim. Ég legg enn áherslu á að bygging þessara mustera breytir ekki endilega lífi ykkar, en þjónustan sem þið innið af hendi þar mun vissulega gera það.“
„Frelsarinn og kenning hans eru hjarta musterisins,“ segir forsetinn. „Allt sem kennt er í musterinu, með fræðslu og með andanum, eykur skilning okkar á Jesú Kristi. Hinar nauðsynlegu helgiathafnir hans binda okkur frelsaranum með helgum sáttmálum prestdæmisins. Þegar við síðan höldum sáttmála okkar, gæðir hann okkur sínum græðandi og styrkjandi mætti.“
„Allir sem tilbiðja í musterinu,“ sagði Nelson forseti, „munu hafa kraft Guðs og ‚englar [munu] vaka yfir þeim‘ [Kenning og sáttmálar 109:22]. Hve mikið eykur það sjálfstraust ykkar að vita að þið, sem konur eða karlar með musterisgjöf [eða musterissækjandi ungmenni], brynjuð krafti Guðs, þurfið ekki að takast ein á við lífið? Hvaða hugrekki veitir það ykkur að vita að englar munu í raun hjálpa ykkur?“
Í ritningunum er sagt frá englum sem liðsinna og styrkja þegar Jesús Kristur kraup í auðmýkt í Getsemanegarðinum. Með þjáningum sínum gerði hann að veruleika algjöra friðþægingu. „Þar,“ sagði Nelson forseti, „átti sér stað undursamlegasta einstaka kærleiksverk allra skráðra sögulegra atburða. … Hann leið þess vegna kvalir allra manna, svo að allir … gætu iðrast og komið til hans‘ [Kenning og sáttmálar 18:11].“
„Tak þennan kaleik frá mér,“ bað Jesús Kristur, „en verði þó ekki minn heldur þinn vilji.
Þá birtist honum engill af himni, sem styrkti hann.“
Við höfum engla umhverfis okkur í dag. Nelson forseti hefur sagt: „[Í musterinu] mun [ykkur] lærast hvernig á að svipta frá hulunni milli himins og jarðar, hvernig á að biðja engla Guðs að gæta að ykkur.“
Englar færa ljós. Ljós Guðs. Jesús sagði við nefísku postulana sína: „Sjá, ég er ljósið, sem þér skuluð halda á loft.“ Þegar við styðjum spámann okkar, vitnum við að hann er kallaður af frelsara okkar, sem er „ljós … heimsins“.
Nelson forseti, fyrir hönd meðlima og vina kirkju Drottins um allan heim, okkur finnst við vera blessuð að halda á loft kenningum þínum, að halda á loft fordæmi þínu um kristilegt líferni og að halda á loft sterkum vitnisburði þínum um Drottin okkar og frelsara, lausnara okkar allra.
Ég ber mitt postullega vitni um að Jesús Kristur er „ljós … heimsins“. Megum við öll, sem lærisveinar hans, „halda ljósi hans á loft“. Í nafni Jesú Krists, amen.