Aðalráðstefna
„Ég er hann“
Aðalráðstefna október 2024


15:23

„Ég er hann“

Kærleikur Krists – sem sýndi sig í algerri tryggð við guðlegan vilja – viðhélst og heldur áfram að viðhaldast.

Nú er hvíldardagur og við höfum komið saman til að tala um Krist og hann krossfestan. Ég veit minn lifir lausnarinn.

Hugleiðið þessa sviðsmynd frá síðustu viku hins jarðneska lífs Jesú. Fjöldi fólks hafði safnast saman, þar á meðal rómverskir hermenn vopnaðir stöfum og sverðum. Þessi einlægi hópur leiddur af embættismönnum æðstu prestanna sem höfðu kyndla í höndunum, var ekki á þeim buxunum að hertaka borg. Í kvöld leituðu þeir einungis að einum manni, manni sem ekki var þekktur fyrir að bera vopn, var ekki herþjálfaður og hafði aldrei á ævi sinni tekið þátt í líkamlegum bardögum.

Þegar hermennirnir nálguðust, steig Jesús fram til að vernda lærisveina sína og sagði: „Að hverjum leitið þið?“ Þeir svöruðu: „Að Jesú frá Nasaret.“ Jesús sagði: „Ég er hann. … [Um leið og] Jesús sagði við þá: ‚Ég er hann,‘ hopuðu þeir á hæl og féllu til jarðar.“

Mér finnst þetta ein áhrifamesta setningin í öllum ritningunum. Meðal annars segir hún mér berum orðum að bara það að vera í návist Guðssonarins – hins mikla Jehóva Gamla testamentisins og góða hirðis hins nýja, sem bar engin vopn af neinu tagi – að bara það að heyra rödd þessa Athvarfs frá storminum, þessa Friðarhöfðingja, nægði til að andstæðingar hans hopuðu undan, rugluðust í ríminu og fékk allan hópinn til að óska þess að þeim hefði verið falið eldhúsvaktin þetta kvöld.

Aðeins nokkrum dögum áður, þegar hann hafði farið sigrihrósandi inn í borgina, „ varð öll borgin í uppnámi“, eins og ritningarnar segja, og menn spurðu: „Hver er hann?“ Ég get vel ímyndað mér að spurningin „hver er hann?“ væri einmitt sú sem þessir ráðvilltu hermenn hefðu spurt!

Svarið við þeirri spurningu gæti ekki hafa falist í útliti hans, því Jesaja hafði um sjö öldum áður spáð að „hann [yrði] hvorki fagur né glæsilegur ásýndum né álitlegur svo að oss fyndist til um hann“. Það fólst vissulega ekki í glæsilegum klæðnaði hans eða miklum persónulegum auði, sem hann var snauður af. Það gat ekki falist í neinni starfsþjálfun í samkunduhúsunum, því við höfum engar sannanir fyrir því að hann hafi nokkru sinni lært í nokkru þeirra, þó að hann hafi jafnvel á unglingsárum sínum getað staðið upp í afar vel menntuðum fræðimönnum og lögvitringum og vakið furðu þeirra með kenningu sinni „eins og sá er vald hefur“.

Allt frá kennslunni í musterinu, til sigurinnreiðar hans í Jerúsalem og þessarar endanlegu, óréttlætanlegu handtöku, var Jesús reglulega settur í erfiðar, oft slægar aðstæður, þar sem hann var ætíð sigursæll – sigrar sem engin skýring er á annað en guðlegt erfðaefni.

Í gegnum söguna hafa margir einfaldað, jafnvel gert lítið úr sýn okkar á honum og vitnisburði hans um það hver hann var. Þeir hafa smækkað réttlæti hans niður í einungis hyggindi, réttvísi hans niður í einungis reiði og miskunn hans niður í einungis frjálslyndi. Við megum ekki gerast sek um slíkar einfaldar útgáfur af honum, að hunsa kenningar sem okkur finnast óþægilegar. Þessi „einföldun“ hefur jafnvel átt sér stað varðandi hans endanlega auðkennandi dyggð: kærleika hans.

Í jarðnesku trúboði sínu kenndi Jesús að tvö boðorð væru æðst. Þau hafa verið kennd á þessari ráðstefnu og munu ætíð verða kennd: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Ef við því hyggjumst fylgja frelsaranum trúfastlega í þessum tveimur mikilvægu og órjúfanlega samtengdu boðorðum, þá ættum við að halda fast við það sem hann raunverulega sagði. Og það sem hann raunverulega sagði var: „Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín.“ Á þessu sama kvöldi sagði hann: „Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað.“

Í þessum ritningarversum eru hin gildu orðtök sem skilgreina sanna kristilega elsku – sem stundum er vísað til sem kærleika – algjörlega nauðsynleg.

Hvað skilgreina þau? Hvernig elskaði Jesús?

Í fyrsta lagi þá elskaði hann „af öllu hjarta sínu, mætti, huga og styrk“, sem veitti honum mátt til að lækna dýpsta sársauka og lýsa yfir erfiðasta raunveruleika. Í stuttu máli, er hann sá sem gat veitt náð og samtímis gert sannleikskröfur. Líkt og Lehí sagði í blessun sinni til sonar síns Jakobs: „Endurlausnin [felst] í heilögum Messíasi og kemur með honum, því að hann er fullur náðar og sannleika.“ Elska hans leyfir uppörvandi faðmlag þegar þörf er á því og beiskan bikar þegar þarf að drekka hann í botn. Þess vegna reynum við að elska – af öllu hjarta, mætti, huga og styrk – því þannig elskar hann okkur.

Annað guðlegt kærleikseinkenni Jesú var hlýðni hans við sérhvert orð sem út barst af munni Guðs, og alltaf samstillti hann eigin vilja og breytni að vilja himnesks föður.

Þegar Kristur kom til Vesturheims eftir upprisu sína, sagði hann við Nefítana: „Sjá. Ég er Jesús Kristur. … Ég hef bergt af þeim beiska bikar, sem faðirinn gaf mér, … og þannig lotið vilja föðurins … frá upphafi.“

Á þann mýmarga hátt sem Jesús hefði getað kynnt sig, gerði hann það með því að lýsa yfir hlýðni sinni við vilja föðurins – jafnvel þótt þessi eingetni sonur Guðs hefði ekki löngu áður, á sinni erfiðustu stundu, fundist hann algerlega yfirgefinn af föður sínum. Kærleikur Krists – sem sýndi sig með algjörri tryggð við guðlegan vilja – viðhélst og heldur áfram að viðhaldast, ekki aðeins gegnum auðveldu og þægilegu dagana, heldur líka gegnum þá myrkustu og erfiðustu.

Jesús var „harmkvælamaður“, segir í ritningunum. Hann upplifði sorg, þreytu, vonbrigði og óbærilegan einmanaleika. Á þeim tímum og á öllum tímum, bregst elska Jesú ekki og ekki heldur föður hans. Með slíkri þroskaðri elsku – sem er fordæmisgefandi, styrkjandi og gefandi – mun okkar heldur ekki bregðast.

Svo ef það virðist stundum enn erfiðara eftir því sem þið reynið meira; ef, er þið reynið að vinna í veikleikum ykkar og takmörkunum, þið finnið einhvern eða eitthvað ákveðið ögra trú ykkar; ef, er þið erfiðið af trúmennsku, þið finnið áfram óttastundir hvolfast yfir ykkur, munið þá að þannig hefur það verið hjá sumu trúfastasta og dásamlegasta fólki á öllum tímabilum. Hafið líka hugfast að það eru öfl í heiminum sem eru staðráðin í að standa gegn öllu því góða sem þið reynið að gera.

Þannig að í auðlegð sem í örbirgð, í persónulegu lofi sem í gagnrýni almennings, í guðlegum þáttum endurreisnarinnar sem í mannlegum brestum, sem óhjákvæmilega verða hluti hennar, höldum við stefnu okkar í hinni sönnu kirkju Krists. Af hverju? Af því að við, eins og frelsari okkar, skráðum okkur í allt námstímabilið – ekki til að leggja upp laupana eftir stuttar kynningarspurningar, heldur fram yfir lokaprófið. Gleðin í þessu er að skólastjórinn gaf okkur öllum svörin áður en námskeiðið hófst. Enn fremur höfum við fjölda leiðbeinanda sem minna okkur reglubundið á þessi svör á leiðinni. En auðvitað virkar ekkert af þessu ef við höldum áfram að skrópa í tímum.

„Að hverjum leitið þið?“ Af öllu hjarta svörum við: „Jesú frá Nasaret.“ Þegar hann segir: „Ég er hann,“ beygjum við kné okkar og játum með tungu okkar að hann er hinn lifandi Kristur, að hann einn friðþægði fyrir syndir okkar, að hann bar okkur uppi, jafnvel þegar við töldum hann hafa yfirgefið okkur. Þegar við stöndum frammi fyrir honum og sjáum sárin á höndum hans og fótum, munum við fara að skilja hvað það þýddi fyrir hann að bera syndir okkar og vera kunnugur sorginni, að vera algjörlega hlýðinn föður sínum – allt út af hreinni ást til okkar. Að kynna öðrum trú, iðrun, skírn, að taka á móti gjöf heilags anda og að meðtaka okkar helgu blessanir í húsi Drottins – eru „frumreglur og helgiathafnir“ sem endanlega sýna elsku okkar til Guðs og náungans og eru gleðilega einkennandi fyrir hina sönnu kirkju Krists.

Bræður og systur, ég ber vitni um að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er það verkfæri sem Guð hefur séð okkur fyrir til upphafningar. Fagnaðarerindið sem hún kennir er sannleikur og prestdæmið sem gerir hana lögmæta er ekki afsprengi hennar. Ég ber vitni um að Russell M. Nelson er spámaður Guðs okkar, líkt og forverar hans voru og eftirmenn hans verða. Sú spámannlega leiðsögn mun svo dag einn leiða kynslóð sem mun sjá sendiboða hjálpræðisins stíga niður sem „elding … frá austri til vesturs“ og við munum hrópa: „Jesús frá Nasaret.“ Með útréttum örmum og af fölskvalausri ást, mun hann svara: „Ég er hann.“ Ég lofa því með postullegum krafti og valdi hins heilaga nafns hans, já, Jesú Krists, amen.