Kirkja fyrir Zulma
Ef til vill vildi Guð að Zulma vissi meira.
„Leitið og þér munuð finna“ (3. Nefí 14:7).
Zulma sat á einum kirkjubekknum og slétti úr skyrtu skólabúnings síns. Litað ljós skein í gegnum steint gluggaglerið og kross stóð fremst í kapellunni. Zulma var í kirkjuskóla, svo hún fór tvisvar á dag með hinum nemendunum til guðsþjónustu. Zulma kunni vel við kirkjuna sína. Hún elskaði Jesú og að læra um hann.
Hún sat hljóð þegar presturinn hóf mál sitt. Í dag var eitthvað þó öðruvísi. Skyndilega vöknuðu þessi orð í huga hennar og hjarta: Það er meiri sannleikur þarna úti.
Zulma skældi agunbrúnirnar. Meiri sannleikur? Hvað þýðir það?
Hugsunin vaknaði aftur. Það er meiri sannleikur.
Zulma lokaði augunum og einbeitti sér að þessari upplifun sinni. Hún hafði lært margt gott í kirkju. Hún velti nú fyrir sér hvort eitthvað vantaði. Ef til vill vildi Guð að hún vissi meira. Hvernig átti hún að komast að því?
Hún ræddi síðar við Alberto, eldri bróður sinn, um þessar hugsanir.
„Heldurðu að það sé meiri sannleikur þarna úti?“ spurði Alberto.
Zulma kinkaði kolli. „Ég vil læra um fleiri kirkjur,“ sagði hún.
„Allt í lagi,“ sagði Alberto. „Ég skal fara með þér!“
Á nokkurra ára tímabili heimsóttu Zulma og Alberto hinar ýmsu kirkjur. Að lokinni einni guðsþjónustu, sagði Alberto: „Þessi kirkja kennir góða hluti.“
Zulma var sammála, en þeim fannst samt eins og eitthvað vantaði, svo þau héldu leit sinni áfram.
Dag einn kom Alberto hlaupandi upp tröppurnar að húsi þeirra. „Ég fann kirkjuna sem við leitum að!“ sagði Alberto. Hann faðmaði Zulma þétt að sér.
Zulma rak upp stór augu. „Hvar? Hvernig?“
„Einn vinur minn hitti trúboða frá Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu,“ sagði Alberto. „Ég hlustaði á þá og trúði því sem þeir kenndu!“
Zulma og Alberto voru svo glöð að þau dönsuðu um allt húsið. Zulma fékk þá slæmar fréttir. Mamma vildi ekki að hún hitti trúboðana. „Þú ert bara 12 ára,“ sagði mamma. „Þú ert of ung.“
Alberto er eldri og því var honum leyft að hitta trúboðana áfram. Nokkrum vikum síðar lét hann skírast.
Zulma hélt stöðugt áfram að biðja mömmu sína um að leyfa sér að læra hjá trúboðunum. Mamma hennar lét loks undan.
Þegar trúboðarnir kenndu Zulma fann hún hlýjar tilfinningar í hjarta sínu. Annar trúboðinn átti í erfiðleikum með að tala spænsku, en það skipti engu. Það sem skipti máli var hvernig Zulma leið. Þegar hún lærði um Joseph Smith og Mormónsbók, varð henni ljóst að hún hafði fundið sannleikann sem hún leitaði að!
Zulma vildi skírast. Hvað myndi mamma segja? Zulma var svo glöð þegar mamma sagði já! Á skírnardag Zulma, var hún klædd í hvítu. Hún vissi að Guð elskaði hana. Hún vissi að hann þekkti hana. Hún vissi líka að hann hafði hjálpað henni að finna hina endurreistu kirkju!